Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 15:29:08 (5796)

1998-04-28 15:29:08# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., Frsm. meiri hluta MS
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[15:29]

Frsm. meiri hluta félmn. (Magnús Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til sveitarstjórnarlaga frá meiri hluta félmn. Á fundi nefndarinnar komu fjölmargir aðilar og nefndinni bárust fjölmargar umsagnir og athugasemdir frá ýmsum aðilum. Þeir eru það margir að ég held ég láti vera að telja þá upp. Það kemur allt fram í nál.

Frumvarpi þessu er ætlað að leysa af hólmi sveitarstjórnarlög, nr. 8/1986, með síðari breytingum. Mikil reynsla hefur fengist af framkvæmd sveitarstjórnarlaga og þótti tími til kominn að taka þau til heildarendurskoðunar til að sníða af annmarka og bæta við ákvæðum sem hefur vantað. Athugasemdir vegna þessa hafa fyrst og fremst komið frá sveitarfélögum og félagsmálaráðuneytinu. Miðað við núgildandi sveitarstjórnarlög er breytt nokkuð skipulagi og uppröðun einstakra ákvæða en einnig er um efnislegar breytingar að ræða.

[15:30]

Fyrst má nefna að lagt er til að landið allt skiptist í sveitarfélög en ekki einvörðungu byggðin og afréttir. Þá er felldur brott III. kafli laganna um kosningu til sveitarstjórna, en Alþingi samþykkti nýverið samnefnd lög um það efni. Í kaflanum um fjármál sveitarfélaga eru gerðar breytingar á skyldum sveitarfélaga varðandi upplýsingagjöf um fjármál sín og félagsmálaráðuneytinu gert auðveldara um vik að bregðast við alvarlegum fjárhagsvanda sveitarfélags. Þannig er gert ráð fyrir þriggja manna eftirlitsnefnd sem hafi það hlutverk að fylgjast með fjármálum sveitarfélaga. Að lokum má jafnframt nefna að rýmkuð eru ákvæði laganna varðandi nafngiftir sveitarfélaga og felldur brott allur greinarmunur á sveitarfélögum eftir fjölda íbúa.

Nefndin leggur til breytingu á ákvæði til bráðabirgða til samræmis við stjórnarfrumvarp til laga um þjóðlendur sem nú liggur fyrir þinginu. Í ákvæðinu er að finna leiðbeiningar um hvernig skipa skuli þeim hlutum landsins innan staðarmarka sveitarfélaga sem ekki hefur nú þegar verið skipað þar, þar með talið jöklum. Lagt er til að svokölluð óbyggðanefnd, sbr. frumvarp til laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, leysi úr ágreiningi um stjórnsýslumörk og önnur mörk á miðhálendinu. Þá er lagt til að á meðan óbyggðanefnd hefur ekki úrskurðað um einstök landsvæði sem ekki hefur verið skipað innan staðarmarka sveitarfélaga geti félagsmálaráðherra staðfest samkomulag sem sveitarfélögin hafa gert um staðarmörk sveitarfélaga á slíkum svæðum.

Miklar umræður urðu í nefndinni um 1. gr. frumvarpsins auk fyrrgreinds ákvæðis til bráðabirgða. Meiri hluti nefndarinnar komst að þeirri niðurstöðu að heildstætt skipulag væri eðlilegt á miðhálendinu og mikilvægt að afréttir og þjóðlendur á því svæði verði svæðisskipulögð sem ein heild. Meiri hlutinn vekur í þessu sambandi athygli á 12. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, en þar kemur fram í 1. mgr. að svæðisskipulag skuli gert að frumkvæði viðkomandi sveitarstjórna eða Skipulagsstofnunar í því skyni að samræma stefnu sveitarstjórna um þróun byggðar og landnotkunar á minnst 12 ára tímabili. Í athugasemdum við 12. gr. skipulags- og byggingarlaga kemur fram að stefna sveitarstjórna skuli samræmd. Með vaxandi byggð, nýjum og fullkomnum samgönguæðum og nýjum viðhorfum á sviði atvinnumála hafi skapast þörf fyrir gerð svæðisskipulags sem nær yfir heilt hérað eða nokkur sveitarfélög í senn. Þá kemur fram að ákvæði um samfellt skipulag nærliggjandi sveitarfélaga hafi verið í 3. og 12. gr. eldri skipulagslaga og hafi í auknum mæli verið unnið eftir þeim ákvæðum á undanförnum árum. Í 6. mgr. 12. gr. skipulags- og byggingarlaga kemur jafnframt fram að á svæðum, þar sem ágreiningur er milli sveitarstjórna um landnotkun eða þar sem stefnumörkun í landnotkun varðar verulega hagsmuni þeirra sem búa utan viðkomandi svæðis, getur umhverfisráðherra ákveðið að skipa sérstaka nefnd til að gera tillögu að svæðisskipulagi. Slíkt svæðisskipulag getur náð til hluta lands innan marka viðkomandi sveitarfélaga. Að mati meiri hlutans getur ráðherra þannig ákveðið að fulltrúar t.d. allra landshlutasamtaka sveitarfélaga, þar með talið höfuðborgarsvæðisins, geti átt aðild að þeirri nefnd og þar með að svæðisskipulagi miðhálendisins.

Samkvæmt eldri skipulags- og byggingalögum er nú starfandi samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins sem hefur lagt fram tillögur að svæðisskipulagi þess og er nú að vinna úr athugasemdum og umsögnum sem bárust. Nefndin var skipuð fulltrúum þeirra 13 héraðsnefnda sem hlut eiga að máli og umhverfisráðherra skipaði formann.

Meiri hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í þingskjali 1193. Þar er í fyrsta lagi um að ræða breytingu á 4. gr. frv. um heiti sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að sveitarstjórnir ákveði nöfn sveitarfélaga, félmrh. staðfesti ákvörðun um nöfn sveitarfélaga og að hún skuli birt í Stjórnartíðindum.

Meiri hluti félmn. leggur til breytingu á 4. gr. þannig að sveitarstjórn geti ekki ákveðið nafn sveitarfélags nema að fenginni umsögn örnefnanefndar, sbr. lög um bæjanöfn, nr. 35/1953. Það ber að taka fram að fyrr í dag var samþykkt breyting á þessum lögum og í þeirri breytingu kemur fram að örnefnanefnd skuli fjalla um nafngiftir tiltekinna býla, jafnframt skuli hún úrskurða um hvaða örnefni verða sett á landabréf sem gefin eru út á vegum Landmælinga Íslands og að lokum skeri hún úr ágreiningi um ný götunöfn og sambærileg örnefni innan sveitarfélaga. Nefndinni er heimilt leita álits sérfræðinga áður en ákvarðanir eru teknar. Með tilliti til þessa hlutverks örnefnanefndar þykir meiri hluta nefndarinnar eðlilegt að örnefnanefnd verði höfð með í ráðum hvað varðar framangreint.

Í 5. gr. frv. um byggðarmerki er gert ráð fyrir því að sveitarstjórnum verði heimilt að ákveða byggðarmerki og að slíkt skuli tilkynnt til byggðarmerkjanefndar. Byggðarmerki skulu skráð hjá Einkaleyfastofu samkvæmt nánari reglum sem iðnrh. setur. Lögð er til breyting á þessari grein þannig að skráning byggðarmerkja fari fram hjá Einkaleyfastofunni og að slík skráning sé forsenda fyrir því að sveitarfélag hafi einkarétt á notkun byggðarmerkis. Hér er stuðst við danskar reglur um skráningu byggðarmerkja sem þykja hafa gefist vel. Eðlilegt þykir að fela Einkaleyfastofunni þetta hlutverk því þar er fyrir hendi þekking á skráningu vörumerkja. Við könnun á skráningarhæfi byggðarmerkja þarf að ganga úr skugga um að hinir myndrænu þættir byggðarmerkja brjóti ekki á rétti annarra, hvort heldur um ræðir auðkenni sem njóta verndar samkvæmt vörumerkjalögum eða höfundalögum, svo dæmi sé tekið. Enn fremur þurfa byggðarmerki að uppfylla kröfur skjaldarmerkjafræðinnar en í þeim efnum má taka mið af gildandi reglum annars staðar á Norðurlöndum. Lagt er til að iðnrh. setji reglur um fyrrgreind skilyrði ásamt öðrum skilyrðum er varða umsóknir og skráningu byggðarmerkja þar sem Einkaleyfastofan heyrir undir það ráðuneyti. Samkvæmt þessari brtt. meiri hluta nefndarinnar er ekki gert ráð fyrir að byggðarmerkjanefnd hafi lögbundið hlutverk hvað varðar byggðarmerki sveitarfélaga.

Þriðja brtt. varðar 7. gr. frv. um almennar skyldur sveitarfélaga. Þar er lögð til sú breyting að við greinina bætist ný málsgrein sem kveði á um að sveitarfélög skuli setja sér stefnu um arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið í rekstri fyrirtækja sinna og stofnana og er heimilt að ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem bundið er í rekstri þeirra. Fjölmörg sveitarfélög reka fyrirtæki á eigin ábyrgð og hafa fyrirtækin greitt sveitarsjóðum arð þegar rekstur þeirra hefur leyft. Þessi háttur hefur t.d. verið hafður hjá fyrirtækjum borgarsjóðs Reykjavíkur í a.m.k. 60 ár og hafa gjaldskrár fyrirtækjanna, sem staðfestar hafa verið af viðkomandi ráðuneyti, tekið mið af þessu. Ótvíræða heimild til þessa hefur hins vegar hingað til vantað í löggjöf. Í framhaldi af þessu mun þurfa að gera breytingar á orkulögum, nr. 58/1967, og lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, til þess að tryggja enn frekar heimildir sveitarfélaga til að ákveða arðgreiðslur frá fyrirtækjum sem alfarið eru í eigu sveitarfélaganna og rekin eru á þeirra ábyrgð.

Fjórða brtt. varðar 13. gr. frv. um fyrsta fund nýkjörinnar sveitarstjórnar. Þar er í fyrsta lagi lagt til að tekið verði skýrt fram hvenær nýkjörin sveitarstjórn tekur við störfum, sbr. sambærilegt ákvæði í lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, þ.e. að nýkjörin sveitarstjórn taki við störfum 15 dögum eftir kjördag. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því í frv. að aldursforseti nýkjörinnar sveitarstjórnar skuli kveðja hana til fyrsta fundar og stýra honum þar til oddviti hefur verið kjörinn. Í brtt. meiri hlutans er tekið á því að sú staða getur komið upp að aldursforseti eigi stuttan feril sem fulltrúi í sveitarstjórn eða jafnvel að hann sé að sitja sinn fyrsta fund. Eðlilegra þykir því að sá sem lengsta reynslu hefur sem kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn stjórni upphafi fyrsta fundar á nýju kjörtímabili þar til oddviti hefur verið kjörinn. Þetta er m.a. í samræmi við þingsköp Alþingis þar sem þingmaður með lengsta þingsetu stjórnar fyrsta fundi Alþingis þar til forseti hefur verið kjörinn.

Fimmta brtt. varðar 19. gr. frv. um hæfi sveitarstjórnarmanna. Í 3. mgr. 19. gr. frv. kveðið á um að sveitarstjórnarmenn, sem jafnframt eru starfsmenn sveitarfélags og hafi sem slíkir átt þátt í að undirbúa mál sem lagt er fyrir sveitarstjórn, séu alltaf vanhæfir þegar sveitarstjórnin fjallar um málið. Fram kemur að þetta eigi ekki við um framkvæmdastjóra sveitarfélaga. Lögð er til sú breyting á málsgreininni að þar verði kveðið á um að um sé að ræða tiltekið mál sem lagt sé fyrir sveitarstjórnir. Þannig er tekið skýrt fram að ákvæðið eigi einungis við um það tiltekna mál sem sé til umræðu hverju sinni.

Sjötta brtt. varðar 42. gr. frv. um kjörgengi starfsmanna sveitarfélaga. Frv. gerir ráð fyrir því að starfsmenn fyrirtækja og stofnana sveitarfélags séu ekki kjörgengir í stjórnir þeirra fyrirtækja eða stofnana sem þeir starfa hjá. Lögð er til sú breyting, til samræmingar við önnur ákvæði frv., að starfsmennirnir séu ekki heldur kjörgengir í nefndir og ráð er fjalla um viðkomandi málaflokka.

Sjöunda brtt. varðar 61. gr. frv. um fjárhagsáætlun. Í frv. er gert ráð fyrir að sveitarstjórn skuli fyrir lok desembermánaðar gera fjárhagsáætlun fyrir sveitarsjóð og stofnanir sveitarfélagsins fyrir næstkomandi ár. Í núgildandi lögum er kveðið á um að gerð fjárhagsáætlunar skuli lokið fyrir lok janúarmánaðar yfirstandandi árs. Lögð er til sú breyting á frv. að ákvæði gildandi laga um þetta atriði haldi sér og að gerð fjárhagsáætlunar skuli lokið fyrir lok janúarmánaðar yfirstandandi árs.

Áttunda brtt. varðar 65. gr. frv. um fjárfrekar framkvæmdir. Í frv. gert ráð fyrir að ef sveitarstjórn hyggst ráðast í eða taka þátt í framkvæmd og áætlaður heildarkostnaður eða hlutur sveitarfélagsins í honum nemur hærri fjárhæð en helmingi skatttekna yfirstandandi reikningsárs sé skylt að leggja fyrir sveitarstjórn umsögn sérfróðs aðila um kostnaðaráætlunina og væntanleg áhrif hennar á fjárhagsafkomu sveitarsjóðs sé um hann að ræða. Jafnframt skuli gerð grein fyrir því hvernig framkvæmdin samræmist þriggja ára áætlun sveitarfélagsins. Lagðar eru til þær breytingar að í fyrsta lagi verði skylt að leggja fyrir sveitarstjórn umsögn sérfróðs aðila um kostnaðaráætlun ef áætlaður heildarkostnaður eða hlutur sveitarfélagsins í fjárfestingunni nemur hærri fjárhæð en fjórðungi skatttekna yfirstandandi reikningsárs. Rétt er að vitna í athugasemdir við þessa grein frv. en þar kemur m.a. fram að með sérfróðum aðila sé t.d. átt við viðskipta- eða tæknimenntað fólk og að það geti verið starfsmenn viðkomandi sveitarfélaga.

Í öðru lagi er lögð til sú breyting að fyrirsögn þessar greinar verði Miklar fjárfestingar í stað Fjárfrekar framkvæmdir.

Níunda brtt. varðar 74. gr. frv. um eftirlitsnefnd. Greinin kveður m.a. á um að ráðherra skuli skipa þriggja manna eftirlitsnefnd sem hafi það hlutverk að fylgjast með fjármálum sveitarfélaga. Lögð er til sú breyting á greininni að kveðið verði skýrar á um valdsvið eftirlitsnefndar og eftir hverju hún skuli vinna.

Þá er lögð til sú breyting að ákvarðanir eftirlitsnefndar verði ekki endanlegar á stjórnsýslusviðinu eins og frv. gerir ráð fyrir heldur verði hægt að kæra þær ákvarðanir til ráðherra.

Tíunda brtt. varðar 87. gr. frv. um Samband ísl. sveitarfélaga. Lagt er til að kveðið sé skýrt á um það í sveitarstjórnarlögum að Samband ísl. sveitarfélaga sé sameiginlegur málsvari sveitarfélaga í landinu.

Ellefta brtt. varðar 94. gr. frv. um sameiningu sveitarfélaga yfir kjördæmamörk. Í frv. er gert ráð fyrir því að sameining sveitarfélaga yfir mörk kjördæma verði ekki ákveðin nema með lögum. Lögð er til sú breyting að heimilt verði að sameina sveitarfélög yfir mörk kjördæma en að slík sameining hafi ekki áhrif á skipan kjördæma við alþingiskosningar. Meiri hluti félmn. lítur svo á að hér sé átt við sameiningu nærliggjandi og nálægra sveitarfélaga.

Tólfta og síðasta brtt. varðar ákvæði til bráðabirgða en eins og áður hefur komið fram leggur meiri hluti nefndarinnar til að ákvæði til bráðabirgða verði breytt á þann hátt sem fram kemur á þskj. 1193 í 12. tölulið enda verði sú breyting til samræmis við frv. um þjóðlendur sem er einnig til meðferðar hjá Alþingi.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir nál. og brtt. sem meiri hluti félmn. leggur til að verði samþykktar. Eftirtaldir hv. þm. standa að áliti meiri hluta nefndarinnar: Magnús Stefánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Kristján Pálsson og Einar K. Guðfinsson, án fyrirvara. Kristín Ástgeirsdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Pétur H. Blöndal og Ögmundur Jónasson standa að nál. með fyrirvara og er gerð sérstök grein fyrir þeim í nál.

Félmn. óskaði eftir umsögn allshn. um tillögu til breytinga á bráðabirgðaákvæði þessa frv. vegna tengsla þess við frv. til laga um þjóðlendur sem allshn. hafði til umfjöllunar. Umsögn allshn. hafði ekki borist þegar félmn. lauk umfjöllun um málið en félmn. ákvað að koma saman á milli 2. og 3. umr. til að fara yfir umsagnir allshn. sem nú hafa borist en á þeim verður þó ekki séð að það muni hafa áhrif á afstöðu meiri hluta til frv.

[15:45]

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu fjallar um grundvallarlöggjöf fyrir sveitarstjórnarstigið. Í frv. eru ýmis grundvallarákvæði er varða þetta annað af tveimur stjórnsýslustigum sem við búum við. Þar má nefna ákvæði um lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögum og almenna skyldu sveitarfélaga þar sem m.a. er vísað í að þeim séu falin ákveðin verkefni í sérlögum um viðkomandi málefni. Frv. fjallar einnig um sveitarstjórnir, framkvæmd sveitarstjórnafunda og störf sveitarstjórna. Þá er fjallað um réttindi og skyldur sveitarstjórnarmanna, um nefndir, ráð og stjórnir sveitarfélaga, um framkvæmdastjóra og starfslið og síðan er ítarlegur kafli um ýmis atriði sem tengjast fjármálum sveitarfélaga. Loks er ákvæði um samvinnu sveitarfélaga, stækkun þeirra og um samskipti ríkis og sveitarfélaga.

Eins og fyrr segir er um grundvallarlöggjöf sveitarstjórnarstigsins að ræða. Í almennri umræðu í þjóðfélaginu og á Alþingi hefur umræðan hins vegar mikið til snúist um skipulagsmál og stjórnsýslu sveitarfélaga á tilteknu svæði landsins, nefnilega miðhálendinu. Þetta hefur gengið svo langt að þetta frv. til sveitarstjórnarlaga er að mörgu leyti skilgreint sem hálendismál sem er alger rangtúlkun á því máli eins og ég hef vikið að.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir nefndaráliti og brtt. félmn. eins og ég hef áður komið að. Félmn. lagði mikla vinnu í umfjöllun um þetta frv. og var unnið málefnalega að því verki. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka nefndinni og nefndarritara fyrir gott samstarf í þeirri vinnu.