Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 22:21:58 (5856)

1998-04-28 22:21:58# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[22:21]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er athyglisvert að þingmaðurinn leggur ekkert upp úr því að fulltrúar fólksins komi að þessari ákvörðun. Hún er kosin á þing af fólkinu, af nokkrum þúsundum manna í Reykjaneskjördæmi þar sem búa yfir 70 þús. manns. Umræðan hefur meira og minna snúist um að íbúar á þéttbýlissvæðinu fengju eðlilega aðild að skipulagsmálum á miðhálendinu. Málið hefur ekki snúist um neitt annað. Svo kemur í ljós að í frv. er ekki gert neitt með aðild fulltrúa á þéttbýlissvæðinu, það er beinlínis lýst yfir fyrirlitningu á þeim sjónarmiðum að fólkið fái að koma að þessum málum og sett upp, ekki bara sú móðgun að ætla þeim ekki hlut í sýndarnefndinni, heldur er einnig beinlínis gert ráð fyrir að nefndin hafi í reynd engin áhrif. Bæði er hægt að vera búinn með skipulagið og í öðru lagi getur aðalskipulagið tekið af þetta svæðisskipulag. Upplegg hv. þm. er móðgun við íbúa í Reykjanes- og Reykjavíkurkjördæmi.