Svör við fyrirspurn um kaup Landsbankans á veiðileyfum í Hrútafjarðará

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 10:37:36 (5878)

1998-04-29 10:37:36# 122. lþ. 114.92 fundur 328#B svör við fyrirspurn um kaup Landsbankans á veiðileyfum í Hrútafjarðará# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[10:37]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Fyrirspurnir þingmanna, bæði munnlegar og skriflegar, og skýrslubeiðnir eru mjög mikilvæg tæki í þingstörfunum. Þar fáum við upplýsingar um málefni sem við viljum að varpað sé skýru ljósi á og þau svör sem við fáum gefa þingmönnum oft tilefni til að hreyfa málum áfram eða vinna þingmál eða skila vinnu inn í þá stefnumörkun sem flokkar eru að vinna.

Þessi tæki, sem fyrirspurnir, skýrslur og annað eru, eru að verða ónýt fyrir þingmenn. Það ber meira og meira á því þegar svör við skriflegum fyrirspurnum berast ekki eða úr hófi dregst að skýrslum sé skilað, að þá sé borið við önnum í þeim stofnunum sem eiga að vinna verkið og staðreyndin er sú að ef undirstofnun segir: ,,Ég hef ekki tíma.`` Eða ef undirstofnun sem á að afla upplýsinga er ergileg yfir því að verið sé að kássast upp á hennar hluti og svarar ekki þannig að ráðherra þarf að ganga eftir svörunum, þá ræður slík stofnun því hvort þingmenn fá svör við sínum fyrirspurnum eftir tíu daga, eftir einn og hálfan mánuð eða eftir þrjá mánuði. Þetta er mikið umhugsunarefni. Þessa dagana fæ ég sem þingflokksformaður margar spurningar frá þingmönnum um það hvort þeirra fyrirspurnum verði svarað eða hvort skýrslur og svör við fyrirspurnum brenni inni í þinglok á sama tíma, virðulegi forseti, og hingað hefur verið mokað inn stjórnarmálum sem ráðherrarnir setja vissulega í forgang fram yfir það að eiga við að svara spurningum sem þingmenn leggja fyrir þá.