Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 23:01:18 (5968)

1998-04-29 23:01:18# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[23:01]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég skildi hv. þm. þannig að hann styddi það frv. sem hér liggur fyrir. Hann gerði nokkur önnur atriði að umtalsefni en hér hefur aðallega verið deilt um. Ég skildi hann svo, hann leiðréttir mig þá, að hann styðji jafnframt það frv. sem ekki er til umræðu, þ.e hugmyndir sem koma fram í frv. umhvrh. um samvinnunefnd. Ég spyr hv. þm. að því, þingmann Reyknesinga, hvort honum finnist vera sanngjarnt að 73 þús. íbúar í Reykjanesskjördæmi fái einn fulltrúa. Sem sé u.þ.b. 30% þjóðarinnar fær um 5% af fulltrúum í samvinnunefnd sem hefur einungis umsagnarrétt gagnvart fyrri tillögum því í þessu frv. segir að nefndinni, þeirri sem á að skipa með þessum eina fulltrúa Reyknesinga, sé ,,ekki ætlað að taka þá vinnu til endurskoðunar sem þegar hefur verið unnin, aðeins gefa umsögn um hana``.

Herra forseti. Þetta er orðrétt upp úr frv. umhvrh. og segir alla söguna. Ég spyr hv. þm. hvort hann telji að sjónarmiðum Reyknesinga og þéttbýlisbúa varðandi skipulag miðhálendisins sé fullnægt, þ.e. svæðisskipulag þess og þá framhaldsvinnu sem er ekki neitt á verksviði þeirra sem varðar aðalskipulag eða deiliskipulag. Telur hann að komið sé nægjanlega til móts við það með þessu uppleggi eins og gengið er frá því hér í þeim tveimur frv. sem rætt hefur verið um?