Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 11:50:07 (6044)

1998-04-30 11:50:07# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[11:50]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sturla Böðvarsson telur frv. til laga um sveitarstjórnarmál helst til gildis að þar sé fjármálaþátturinn efldur sem varðar sveitarfélög. Við heyrðum hv. þm. Pétur H. Blöndal lýsa því í gær að í raun væri verið að svipta sveitarfélögin fjárforræði. Er það það sem hv. þm. telur að sé svona æskilegt í þessu góða frv.?

Að öðru leyti, herra forseti, hegg ég eftir því að þingmenn Sjálfstfl. tala aftur og aftur um að það hefði í sjálfu sér alveg verið nóg að byggja einungis á þeim hluta skipulagslaganna sem lýtur að svæðisskipulagi. Maður svona les út úr því, eins og máli hv. þm. Árna M. Mathiesens, sem mér fannst hv. þm. Sturla Böðvarsson vera að taka undir, að þetta frv. hæstv. umhvrh. væri þar af leiðandi óþarft. Væntanlega er hv. þm. að ræða um 12. gr. skipulags- og byggingarlaga. Mig langar þess vegna aðeins að fá álit hans á eftirfarandi. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Svæðisskipulag skal taka til alls lands þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli.

Síðan segir í 6. mgr. 12. gr., með leyfi forseta:

,,Á svæðum, þar sem ágreiningur er milli sveitarstjórna um landnotkun eða þar sem stefnumörkun í landnotkun varðar verulega hagsmuni þeirra sem búa utan viðkomandi svæðis, getur umhverfisráðherra ákveðið að skipa sérstaka nefnd til að gera tillögu að svæðisskipulagi. Slíkt svæðisskipulag getur náð til hluta lands innan marka viðkomandi sveitarfélaga.``

En við erum að tala um miðhálendið sem er utan þeirra.