Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 17:39:22 (6089)

1998-04-30 17:39:22# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[17:39]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði áðan að í dag gætu þeir aðilar sem hugsanlega fá sæti í þessari skemmtilegu nefnd sent inn sínar umsagnir ef ætti að breyta svæðisskipulagi þannig að það að setja á fót nefnd til að gefa álit er algerlega ástæðulaust. Ég get tekið undir með hv. þm. Árna Mathiesen sem sagði að það væri kannski skömminni skárra að hæstv. ráðherra bæri þá sjálfur ábyrgð á skipun slíkrar nefndar heldur en að fá það tilnefnt sérstaklega í lögum. Ég vil líka ítreka það, virðulegi forseti, að í gildandi lögum er kveðið skýrt á um að það var markmið þeirra laga að frumkvæði að aðal-, svæðis- og deiliskipulagi væri hjá sveitarstjórnum. Það er markmið þeirra laga. Það kemur skýrt fram í þeim lögum þannig að þessi nefnd má fjalla um alla skapaða hluti en hefur ekki möguleika á að hafa frumkvæði að einu eða neinu. Ég vil enn fremur ítreka að ekkert svæðisskipulag verður samþykkt og engu svæðisskipulagi verður breytt nema sveitarfélögin sem eiga aðild að hálendinu samþykki það hvert um sig. Það er bara einfaldlega þannig, virðulegi forseti. (Gripið fram í: Það á að skipuleggja allt sem eina heild.) Það getur vel verið að menn ætli að skipuleggja allt sem eina heild, það verður bara ekkert svæðisskipulag fyrr en öll sveitarfélögin hafa samþykkt þetta. Þetta er einfaldlega ákvæði í skipulags- og byggingarlögum. Þetta er bara þannig og það að selja þessum andófsmönnum þessa hugmynd er snilld. Rakin snilld.