Geðheilbrigðismál barna og unglinga

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 11:49:42 (6124)

1998-05-04 11:49:42# 122. lþ. 116.7 fundur 525. mál: #A geðheilbrigðismál barna og unglinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[11:49]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Nú brá svo við að hæstv. heilbrrh. upplýsti að ríkisstjórnin væri með áform um að fjölga meðferðarúrræðum fyrir börn sem eiga í vímuefnavanda. Þá ber nýrra við. Fyrr í vetur, þegar hún svaraði fyrirspurn. frá mér, taldi hún ekki þörf á fleiri slíkum úrræðum.

Fyrir liggur að yfir 260 börn, ég vil kalla það börn sem eru undir 18 ára aldri, leituðu eftir aðstoð á Vogi í fyrra. Hæstv. heilbrrh. sagði í svari við þessari fyrirspurn að þar starfaði barnageðlæknir.

Nú er ljóst að ekki hafi verið svo frá áramótum. Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, segir að málin sem hann fái til meðferðar séu illvígari en nokkru sinni fyrr. Ég verð að segja að þetta er mér mikið áhyggjuefni. Ég tel að meðan ríkisstjórnin ígrundar hvernig hún getur bætt við meðferðarúrræðum fyrir vímuefnasjúk börn, þá ætti að gera gangskör að því að ráða barnasálfræðing og geðlækni að Vogi.