Iðnaðaruppbygging á Vestfjörðum

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 13:24:22 (6161)

1998-05-04 13:24:22# 122. lþ. 116.15 fundur 666. mál: #A iðnaðaruppbygging á Vestfjörðum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[13:24]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Eitt af því sem skiptir miklu máli við jafnvægi í byggð landsins er að atvinnuskipan sé sem jöfnust um landið allt og í boði séu atvinnutækifæri á sem flestum sviðum atvinnulífs. Því er ekki að neita og er öllum kunnugt að á þessu er verulegur misbrestur, t.d. hvað varðar iðnaðaruppbyggingu þar sem störfum í þeirri atvinnugrein er mjög misdreift um landið. Víða á landsbyggðinni er lítið sem ekkert um að vera á þessu sviði.

Stjórnvöld hafa á undanförnum árum beitt sér nokkuð í þessu undir forustu iðnrh. og þó einkum á sviði stóriðju og iðnaði þeirri iðju tengdri. Hefur þar verið nokkuð um athuganir á Austurlandi og nú nýverið á Norðurlandi. Ég vil af þessu tilefni beina athygli hæstv. iðnrh. og ríkisstjórnarinnar að Vestfjörðum og minna á að þar þarf auðvitað að líta á þessi mál sem annars staðar og spyr því um eftirfarandi í fyrirspurn sem hér er til umræðu.

Hvaða athuganir hafa farið fram á vegum ráðuneytisins á möguleikum til iðnaðaruppbyggingar á Vestfjörðum? Hver var niðurstaða þeirra og hvaða upplýsingar liggja fyrir um möguleika á orkufrekum iðnaði eða annarri stóriðju í fjórðungnum?