Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 05. maí 1998, kl. 16:30:33 (6223)

1998-05-05 16:30:33# 122. lþ. 118.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 122. lþ.

[16:30]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Nú erum við á fimmta degi að ræða þetta mál við 2. umr. í hv. Alþingi. Ég hygg að þetta mál hafi nú verið rætt í samtals 40 klukkustundir við 2. umr. eða nálægt því og a.m.k. 30 þingmenn hafa tekið til máls. Það sýnir auðvitað að þetta mál liggur þungt á þingmönnum og þeir telja sig hafa mikið um þetta mál að segja. Það er ekki bara innan þings, herra forseti, heldur utan þess einnig.

Fyrir nokkrum dögum vorum við vitni að því að 90 manns skrifuðu undir áskorun til Alþingis um að fresta þessu máli. Allt það fólk þekkir mjög vel til þessa máls og við vorum vitni að því í gærkvöldi að haldinn var fjölmennur fundur margra útivistarsamtaka sem í eru tugir þúsunda félaga. Þar var því harðlega mótmælt að þetta mál næði fram að ganga. Ég er sannfærð um að það sé rétt hjá hv. 5. þm. Vesturl., að ef þetta mál yrði borið undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá mundi minni hluti þjóðarinnar styðja meiri hluta þingsins í því að knýja þetta mál í gegn eins og ætlunin er nú.

Meiri hlutinn höfðar alltaf til þess að hann hafi meiri hluta á þingi og ýjar jafnvel að því að við höfum ekki leyfi til að ræða málið þetta ítarlega, samanber orð hv. 16. þm. Reykv. Péturs H. Blöndals. Málið á að ganga í gegn með góðu eða illu hversu lengi sem við tölum. (PHB: Það er vilji meiri hlutans.) Vilji meiri hlutans, segir hv. þm. En þá ætla ég að spyrja hv. þm. að því, herra forseti: Var það boðað hjá íhaldinu og Framsfl. fyrir kosningar að afhenda ætti örfáum sveitarfélögum miðhálendið til ráðstöfunar og þau fengju vald til að nýta það? Nei, þeir boðuðu þjóðinni það ekki fyrir kosningar. Þess vegna tel ég að þeir hafi ekki vald, gegn svo miklum andmælum, ekki bara innan þings heldur utan þings, að knýja þetta mál í gegn með þvílíku offorsi sem þeir ætla að gera.

Ég teldi það lýðræðislegt, í þeirri stöðu sem málið er nú í, að þessum umdeildu ákvæðum í 1. gr. frv. og ákvæði til bráðabirgða yrði frestað. Þá yrði skipuð milliþinganefnd sem starfaði fram á næsta þing. Hún færi yfir þessi ágreiningsatriði, kallaði til sín alla þá aðila sem þekkja gjörla til þessa máls og reynt yrði að ná bærilegri sátt um þetta mál. Við erum ekki að fjalla um neitt smámál, herra forseti. Ég viss um að minni hlutinn yrði til samkomulags um að afgreiða aðrar greinar þessa frv., sem eru töluvert margar, um 105 greinar, að undanskildum þessum tveimur greinum. Um það væri örugglega hægt að ná sátt við minni hlutann. Við gætum stytt þessa umræðu verulega.

Herra forseti. Ég fer fram á það við forsn. að hún íhugi hvort þetta geti ekki verið góð tillaga í málinu, að skipa milliþinganefnd til þess að fjalla um þetta stóra ágreiningsmál. Ég velti fyrir mér: Af hverju liggur svona á að afgreiða þetta mál? Hvað gerist ef þetta mál bíður fram til hausts? Ef svo færi þá mundum við hugsanlega ná sátt um þetta mál.

Ég hef mikið velt því fyrir mér, herra forseti, síðan ég var síðast í ræðustól fyrir nokkrum dögum hvers vegna meiri hlutanum liggur svo mikið á að knýja þetta í gegn. Það skyldi þó ekki vera vegna þess að miðhálendisnefnd sú sem starfað hefur um alllangan tíma og sett fram tillögur sem mjög hafa verið gagnrýndar, vilji ljúka sínu verkefni til fulls, afgreiða málið til Skipulags ríkisins og síðan til umhvrh. og að tillögurnar verði síðan staðfestar áður en svokölluð samvinnunefnd tekur til starfa um næstkomandi áramót. Það er raunverulega eina ástæðan sem ég sé fyrir því að meiri hlutinn vilji knýja þetta í gegn. Látum vera að það sé í andstöðu við minni hlutann, en ég fullyrði líka, herra forseti, að það er í andstöðu við mikinn meiri hluta þjóðarinnar.

Það, herra forseti, að þessar löngu ræður séu fluttar, eins og hv. þm. Pétur Blöndal segir, til þess að stöðva húsnæðisfrv. er rangt. Þetta hefur ekkert með húsnæðisfrv. að gera. Málið mun skipta komandi kynslóðir það miklu og er það stórt að við horfum ekki til þess hvort húsnæðisfrv. nái fram að ganga eða ekki. Hitt er annað mál, varðandi húsnæðisfrv., að það er líka stórt og mikið mál sem þarf marga klukkutíma til þess að afgreiða. Það væri kannski ástæða til að fara yfir það hér í byrjun af hverju það tæki marga klukkutíma að afgreiða það. Ég fullvissa hins vegar hv. þm. um að þetta hefur ekkert með húsnæðisfrv. að gera, ekki nokkurn skapaðan hlut.

Ég velti líka fyrir mér, herra forseti, hvort það sé tilviljun, þegar við erum að afgreiða svo stórt mál, að þessir sömu stjórnarflokkar, þessi helmingaskiptastjórn íhalds og Framsfl., var líka við völd 1984 þegar komið var á kvótakerfi sem leitt hefur til mestu eignatilfærslu sögunnar, frá þjóðinni til örfárra kvótakónga sem hagnast hafa um hundruð millj. kr. með því að selja aflaheimildir sem þjóðin hefur veitt þeim ókeypis. Þessi sameign þjóðarinnar er nú orðin erfðagóss og bitbein í fjölskyldudeilum hjá kvótakóngum sem fengið hafa hundruð millj. gefins frá þjóðinni. Er það tilviljun að nú þegar þessi helmingaskiptastjórn situr er stefnt að því leynt og ljóst að fela hagnýtingu og stjórnsýslu á miðhálendi og jöklunum, sem telst vera 40% af öllu landinu, þar sem helstu náttúruperlur landsins og auðlindir þjóðarinnar fyrirfinnast, nokkrum sveitarfélögum þar sem 4% þjóðarinnar búa?

Ég spyr einnig hvort það sé tilviljun að meðan þessi helmingaskiptastjórn situr að völdum sé hér á dagskrá annað frv. sem felur í sér mikla eignatilfærslu. Það er frv. um eignarhald og nýtingu auðlinda í jörðu. Með því frv., sem væntanlega á að knýja í gegn með góðu eða illu á þessu þingi, geta landeigendur rakað til sín stórkostlegum fjármunum ef þjóðin þarf að nýta auðlindir sem finnast í jarðeign þeirra. Það er ekkert smáræði sem við erum að afgreiða, herra forseti, á þessu þingi. Miðhálendið á að fara til örfárra sveitarfélaga og það á að ganga þannig frá málum að ef auðlindir finnast sem þjóðin þarf að nýta þá geti landeigendur rakað til sín stórkostlegu fé frá skattborgurum. (PHB: Ríkið á þjóðlendurnar.) Ríkið á þjóðlendurnar, segir hv. þm. Margt gáfulegt sem frá honum kemur. En auðvitað veltir maður því fyrir sér hvort hér fari ekki á sömu leið varðandi þjóðlendurnar og þjóðlendufrv., ef að lögum verður sem er gott mál, og 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, þar sem segir: ,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.`` Hverra eign er það orðið núna? Við höfum þar fyrir okkur mestu eignatilfærslu sem við höfum upplifað í Íslandssögunni. (Gripið fram í: Af hverju er þá ...?) Það er sameignin. Síðan erum við að tala um þjóðlendurnar. Þar segir í 2. gr., með leyfi forseta:

,,Íslenska ríkið er eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti.``

Síðan kemur annað frv. um hverjir eigi að taka ákvarðanir um nýtingu á náttúruperlum þjóðarinnar allrar eru nýttar. Við gætum því lent í því nákvæmlega og varðandi auðlindirnar í hafinu, að auðlindunum á miðhálendinu verði ráðstafað með sama hætti.

Herra forseti. Það þarf því engan að undra þó við höfum talað í nokkra daga og þó nokkuð marga klukkutíma um þetta stóra mál. Það er erfitt að snúa aftur þegar búið er að samþykkja þessi ákvæði frv. Hæstv. félmrh. sem virðist mikið niðri fyrir að ná þessu máli í gegn lætur ekki svo mikið að vera í salnum. Ég sakna hans þó ekki neitt sérstaklega vegna þess að ég held að það breyti litlu hvort hann er hér eða ekki. Hann lokar eyrunum fyrir öllum skynsamlegum tillögum sem fram koma, hvort sem það er innan þings eða utan, eins og frá fundinum í gær. Voru það ekki níu útivistarsamtök, herra forseti, sem beindu eindregnum tilmælum til þingsins að fresta þessu máli? Ég man ekki hvaða orð hæstv. ráðherra notaði um það en miðað við þau virðist lítil von til þess að hæstv. ráðherra muni taka tillit þeirra sjónarmiða.

Þegar maður hefur afskrifað það að hæstv. félmrh. geri nokkuð í málinu spyr maður sig hvort hæstv. forsrh. sé ekki reiðubúinn til að hlusta á raddirnar í þjóðfélaginu. Þær kalla mjög ákaft, herra forseti, til þingsins um að fresta þessu máli. Það væri algerlega útgjaldalaust af hálfu meiri hlutans en skiptir miklu fyrir þá sem setja fram þessa sanngjörnu og eðlilegu ósk og skiptir miklu fyrir framtíð íslensku þjóðarinnar.

Herra forseti. Gerir meiri hlutinn sér ekki grein fyrir því hvað felst í þessu? Ég hlýt að fara ítarlega yfir það í máli mínu hér á eftir.

Þetta mál hefur tekið töluverðum breytingum, herra forseti, eftir að það kom til 2. umr. Þar vísa ég í ýmislegt sem komið hefur upp á þeim dögum sem við höfum rætt þessi mál. Þar er fyrst að nefna frv. um breytingu á skipulags- og byggingarlögum sem hér var kynnt og ég ætla að fara ítarlega yfir aftur í von um að ná eyrum einhverra stjórnarsinna og sýna þeim fram á það hversu gagnslaus þessi dúsa er. Ég ætla að freista þess að fá til liðs við þetta mál þá í hópi stjórnarliða sem voru því andsnúnir við 1. umr. Ég veit, herra forseti, að það er veik von að ég nái eyrum stjórnarliða. Ég tel þó að það væri tilraunarinnar virði. Það verður auðvitað tekið eftir því, af komandi kynslóðum, hverjir í þessum þingsal greiða því atkvæði að afhenda náttúruperlur þjóðarinnar allrar, miðhálendið, í hendur örfárra sveitarfélaga til ráðstöfunar.

[16:45]

Það sem breyst hefur, frá því að ég kom síðast í ræðustól, er hin sérkennilega afstaða stjórnarmeirihlutans. Þá er ég ekki síst að tala um umhvrh. sem leggur fram frv. í þinginu sem á að fela í sér málamiðlun milli stjórnarliða og hluta stjórnarandstöðunnar. Þegar það er hins vegar borið undir atkvæði hvort leyfa skuli umræðu þess, þá snýst görvallt stjórnarliðið, með umhvrh. í broddi fylkingar, á móti því að frv. verði tekið til umræðu. Það skyldi þó ekki vera, herra forseti, vegna þess að ráðherrarnir, umhvrh. sem væntanlega veit hvað felst í þessu máli og hugsanlega félmrh., vilji ekki láta þingið kryfja þetta mál til mergjar og fara ofan í það í nefnd, af ótta við að menn sjái hversu lítið er í þessu frv. og að það er einskis virði. Þeir hafa kannski óttast að þá mundi ekki verða meiri hluti fyrir framgangi frv. Ég óttast, herra forseti, að þannig liggi í þessu öllu saman.

Fyrst vilja þeir ná frv. í gegn, knýja fjölda stjórnarliða til fylgis við sig á fölskum forsendum. Þegar það er komið í gegn, þá ætla þeir síðar meir á hausti komanda að taka á frv. um skipulagsmál. Mér finnast slík vinnubrögð ekki til sæmdar fyrir þessa virðulegu samkomu, að ætlast til að þetta frv. verði samþykkt án þess að ljóst sé hvort og hvernig aðrir íbúar þessa lands, fulltrúar þeirra eða útivistarsamtök ýmis, geti haft áhrif á skipulagningu hálendisins.

Í þessum ræðustól fyrir nokkrum dögum beindi ég því til formanns umhvn., hv. 11. þm. Reykv. Ólafs Arnar Haraldssonar, að hann kallaði saman umhvn. til þess að menn þar áttuðu sig, a.m.k. í stórum dráttum, á innihaldi þessa frv. Ég hélt satt að það væri það minnsta sem hægt væri að bjóða þinginu að þó að frv. yrði ekki formlega tekið á dagskrá, þá mundi a.m.k. nást samkomulag um að umhvn. fjallaði eins ítarlega eins og hægt er um það sem þetta frv. felur í sér. Þeir þora því greinilega ekki heldur, herra forseti. Ég er alveg viss um að hæstv. forseti, sem nú er í forsetastól, væri einn þeirra sem skipta mundu um skoðun ef farið væri ofan í þetta skipulagsfrv. en því miður virðist ekki eiga að gera það, herra forseti.

Ég er svolítið hissa á hv. 11. þm. Reykv., Ólafi Erni Haraldssyni, sem svo ötullega hefur barist fyrir þessu máli og ekki látið plata sig til liðs við þetta mál á fölskum forsendum, að hann skuli ekki hafa haft frumkvæði að því að kalla saman umhvn. og fara yfir málið. Þar var ýmislegt óljóst og við umræðuna hefur komið fram að menn leggja misjafnan skilning í ýmis mikilvæg ákvæði þessa frv. (KPál: Ég mæli með því.) Ég heyri að hv. 10. þm. Reykn., Kristján Pálsson, sem situr í salnum og grípur fram í, mælir með því. Þá skora ég á hv. þm., herra forseti, hann er einn stjórnarliða í þessum sal fyrir utan forseta sem treystir sér til þess að sitja undir þessari umræðu, að beita sér fyrir því að umhvn. verði kölluð saman.

Síðan er það kafli út af fyrir sig, þau sinnaskipti sem orðið hafa á baráttuglöðum þingmönnum stjórnarliðanna, hvernig sumir þeirra hafa snúist frá því þeir stóðu við 1. umr. gegn þessum ákvæðum. Þar er hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson ekki í flokki sem betur fer en ég nefni t.d. hv. þm. Siv Friðleifsdóttur. Ég ætla að vitna í það sem hv. þm. sagði 11. desember 1997 í Morgunblaðinu. Hér stendur, með leyfi forseta:

,,Siv Friðleifsdóttir Framsóknarflokki um sveitarfélagafrumvarpið. Samþykkir ekki hugmyndafræðina. ,,Ég samþykki ekki hugmyndafræðina sem felst í sveitarfélagafrumvarpinu þar sem segir að framlengja eigi mörk sveitarfélaga inn til innsta punkts miðhálendisins.````

Hvað hefur breyst í því, herra forseti? Stöndum við ekki enn þá uppi með frv. sem án nokkurra breytinga framlengir mörk sveitarfélaga inn til innsta punkts miðhálendisins? Það hefur ekkert breyst í því. Samt er hv. þm. orðinn liðsmaður þessara ákvæða sem hún fyrir nokkrum mánuðum var algerlega andsnúin. Mér fannst hún standa sig vel. Mér fannst hún hafa rétt fyrir sér. Hún hafði rétt á því, þó hún væri í stjórnarliðinu, að berjast fyrir sannfæringu sinni í þessu máli. Í sömu grein segir jafnframt:

,,Siv segist telja rangt og óskynsamlegt að skipta miðhálendinu upp í 40 einingar á milli sveitarfélaganna.``

Í því hefur ekkert breyst, herra forseti. Það á áfram að skipta miðhálendinu upp í 40 einingar milli sveitarfélaga. Hvað hefur valdið þessum sinnaskiptum hjá hv. þm.?

Þetta viðtal við hana hefur verið nokkuð langt og í Morgunblaðinu kemur fram:

,,Aðspurð hvort hún hygðist greiða atkvæði gegn frumvarpinu svaraði Siv að frumvarpið ætti eftir að fara í gegnum nákvæma umfjöllun og skoðun í þingnefnd og fá þyrfti umsagnir ýmissa aðila um málið.``

Síðan er orðrétt haft eftir hv. þm.:

,,Ég vil horfa til framtíðar og þá finnst mér eðlilegt að miðhálendið sé eitt heilt og samfellt skipulags- og byggingarsvæði. Það hafa komið fram mörg sjónarmið í þessu máli en það er alrangt, sem sumir hafa viljað núa okkur um nasir, sem viljum ekki skipta þessu upp á milli sveitarfélaga, að við séum að vantreysta sveitarfélögunum. Svo er ekki, enda hef ég verið sveitarstjórnarmaður sjálf í sjö ár.``

Við tökum undir þetta með hv. þm. Þeir sem vilja ekki fara þá leið sem hér á að fara, vantreysta ekki sveitarfélögum þó þeir vilji hafa lýðræðislega skipan á þessu máli, þannig að fulltrúar, eigum við að segja úr öllum kjördæmum og öllum stærstu sveitarfélögunum hafi aðkomu að þessu máli.

Hv. þm. heldur áfram og segir:

,,Þó um væri að ræða mun færri sveitarfélög, til dæmis þrjú eða fimm, sem skiptu miðhálendinu á milli sín, þá fyndist mér jafnrangt að skipta því upp. Þarna er um að ræða eitt samfellt landslagssvæði, segir hún.``

Að því loknu segir:

,,Siv segir suma hafa gagnrýnt að í umræddum 40 sveitarfélögum byggju einungis 4% þjóðarinnar. Hún segir að auðvitað væri æskilegast að allur almenningur hefði svipað vægi varðandi skipulag miðhálendisins ...``

Þarna kemur það sem við berjumst fyrir eins og þingmaðurinn orðaði það í desember ,,að allur almenningur hefði svipað vægi varðandi skipulag miðhálendisins ...``

Svo ég vitni frekar í þetta viðtal þá segir hv. þm., með leyfi forseta:

,, ... en það væri ekki aðalatriðið um hversu stóran hlut þjóðarinnar væri að ræða heldur skipti meginmáli að rangt væri að skipta hálendinu upp með þessum hætti. Siv kveðst telja eðlilegt að skipulags- og byggingarmál hálendisins heyri undir einn aðila, t.d. umhverfismálaráðuneytið.``

Það hafa greinilega verið höfð mörg viðtöl við hv. þm. Það hefur þótt merkilegt að einhverjir þingmenn stjórnarliðanna sæju að það væru röng vinnubrögð sem meiri hlutinn ætlaði að viðhafa í þessu máli.

Hér ítarleg úttekt á þessu máli, í Morgunblaðinu laugardaginn 6. desember, þar sem vitnað er í hv. þm. Jón Kristjánsson og sagt:

,,Jón Kristjánsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði m.a. að umdeild ákvæði sveitarstjórnarfrumvarpsins fælu ekki í sér eins miklar breytingar og látið hefði verið í veðri vaka. ,,Með þeim er verið að eyða óvissu um mörk sveitarfélaga að jöklum, þar sem mannaferðir og mannvirkjagerð fara vaxandi.`` Sagði hann að sveitarfélögum væri að fullu treystandi fyrir stjórn hálendisins og varaði við þeirri ofurtrú sem menn hefðu á miðstýringu í þessum málum.

Siv Friðleifsdóttir þingmaður Framsfl. sagði það rétt hjá Jóni að það væri verið að eyða vafaatriðum í þessu máli en ekki á þann hátt sem æskilegt væri. Hún sagði það óeðlilegt að skipta miðhálendinu á milli 40 sveitarfélaga. Nær væri að fella skipulags- og byggingarmál á miðhálendinu undir eitt vald, því miðhálendið væri ein heild. ,,Varðandi þetta frv. í heild líst mér ágætlega á það en ég get ekki stutt hugmyndafræðina sem felst í 1. gr., þ.e. að það eigi að skipta öllu landinu alveg inn í innsta punkt á milli sveitarfélaga.````

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Hún sagðist vera sammála þeirri lausn sem sett var fram í frumvarpi sem Eiður Guðnason, fyrrverandi umhverfisráðherra, flutti á sínum tíma.``

Þá höfum við það. Stór hluti þingsins lagðist gegn því frv. og þess vegna höfum við kannski lent á þessari braut. Það var hin besta leið og mun ég koma að því síðar.

Ég furða mig mjög á þessu öllu. Ég hef alltaf litið á hv. þm. Siv Friðleifsdóttur sem mjög staðfastan þingmann sem stæði fast á sinni skoðun og hv. þm. mundi ekki láta blekkjast af því sem ekkert er í frv. umhvrh. og hún sæi gegnum það sem þar er boðað. Enn hefur hv. þm. tök og tækifæri til að breyta afstöðu sinni og mundu margir verða henni þakklátir ef hún gerði það. Frv. er enn til 2. umr. og örugglega langt í að það fari til 3. umr. þannig að hv. þm. hefur enn einhverja daga eða vikur til að breyta um skoðun.

Síðan er það yfirlýsing hæstv. forsrh. sem mig minnir að hafi verið í gefin í gær, herra forseti, sem ég varð forviða yfir. Hæstv. forsrh. gaf ekki mikla von um að fram næðist breyting á þessu frv. eða frestun. Þó er það mjög sanngjörn krafa. Ef ekki næst samkomulag um þetta mál í haust, t.d. í milliþinganefnd sem allir geta sætt sig við þannig að það sé bærileg sátt um þetta mál, þá hefur þingmeirihlutinn enn möguleika á að flytja málið inn í þingið í þeim búningi sem þeir ætla núna að láta afgreiða það. Hæstv. ráðherra sagði að öll mál yrðu afgreidd. Þar talaði maðurinn með valdið. Minni hlutinn átti ekkert að hafa um það að segja, hvað þá meiri hluti þjóðarinnar sem ég er sannfærð um að leggjast mundi gegn þessu máli í atkvæðagreiðslu. Það á ekki að hlusta á þjóðina þannig að innlegg hæstv. forsrh. í þessa umræðu í gær var ekki beint uppörvandi.

[17:00]

Síðan er það afstaða Alþb. sem hefur nokkuð breyst frá því að þetta mál var til 1. umr. og frá því kannski á fyrstu klukkutímunum. Þegar við ræddum það við 2. umr., ætlaði Alþb. að styðja málið ef samhliða fengist afgreitt frv. um breytingar á skipulags- og byggingarlögum sem það sætti sig við. Ég hef farið í gegnum það að það frv. fæst ekki einu sinni rætt og mér heyrist líka á hv. þm., a.m.k. sumum hjá Alþb. að þeir séu ekki heldur sáttir við innihaldið á því, þannig að frávísunartillaga er komin fram frá Alþb. sem hljóðar svo, herra forseti:

,,Þingflokkur Alþýðubandalagsins og óháðra harmar þá niðurstöðu meiri hluta Alþingis að neita að taka til umræðu frumvarp frá ríkisstjórninni sjálfri um breytingu á skipulags- og byggingarlögum þar sem reynt er að leita sátta í viðkvæmu deilumáli. Þar með er ljóst að ríkisstjórnin vill ekki ná neinni almennri sátt um skipulagsmál hálendisins. Jafnframt er ljóst að litlu breytir hvort frumvarp til sveitarstjórnarlaga nær fram að ganga á þessu vori eða bíður næsta vetrar. Með hliðsjón af þessu leggur þingflokkur Alþýðubandalagsins og óháðra til að Alþingi samþykki að frumvarpi ríkisstjórnarinnar til sveitarstjórnarlaga verði vísað frá og tekið fyrir næsta mál á dagskrá.``

Stuðningurinn við frv. hefur því heldur betur minnkað frá því að þetta mál var tekið út úr nefndinni með offorsi, vil ég segja, herra forseti, í andstöðu við a.m.k. einn þingmann í félmn. Það hefur heldur betur breyst. Ég er alveg sannfærð um ef hv. þm. Alþb. hefðu séð fram á hvað meiri hlutinn ætlaði sér í málinu áður en málið var afgreitt út, væri málið væntanlega enn inni í hv. félmn. En það er greinilega öllu tjaldað af ríkisstjórnarflokkunum og ráðherrunum til að ná málinu út jafnvel þó með blekkingum sé, herra forseti, eins og frv. hæstv. umhvrh. sem ég hlýt nú að fara að snúa mér að vegna þess, herra forseti, þótt það mál sé með réttu ekki á dagskrá þá er það svo nátengt því frv. sem við ræðum hér að það hlýtur að verða rætt úr þessum ræðustól.

Hæstv. ráðherra Páll Pétursson leyfði sér að segja að sá stóri hópur útivistar- og náttúrufræðifélaga sem hélt fund í gærkvöldi þar sem eru sérfræðingar á því sviði sem fjalla um miðhálendið með ýmsum hætti væri að gera úlfalda úr mýflugu. Hverjir voru það? Við skulum fara yfir það hverjir skrifa undir þessa áskorun. Það voru formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags, forseti Ferðafélags Íslands, formaður Íslenska alpaklúbbsins, formaður Útivistar, formaður Jöklarannsóknafélags Íslands, formaður Skotveiðifélags Íslands, Landssamband ísl. vélsleðamanna, formaður Ferðaklúbbsins 4x4 og formaður stangaveiðifélagsins Ármenn. Það er sagt að þessi stóri hópur, forustumenn þeirra sem komu með ályktun til Alþingis, séu að gera úlfalda úr mýflugu. Það er varla boðlegt, herra forseti, að hæstv. ráðherra láti svona frá sér fara.

Auðvitað hefði hæstv. ráðherra þegar hann fær svona ályktun að undangengnum mörgum öðrum átt að stoppa aðeins við og hugsa sitt mál áður en hann talar um að verið væri að gera úlfalda úr mýflugu. En þessi áskorun er dags. 4. maí til forsrh. Davíðs Oddssonar:

,,Við forsvarsmenn neðangreindra samtaka útivistar- og náttúrufræðifélaga förum þess á leit við þig, herra forsætisráðherra og ríkisstjórn þína, að frumvarp það sem nú liggur fyrir Alþingi um sveitarstjórnarmál verði ekki afgreitt sem lög frá þessu þingi.

Við teljum höfuðnauðsyn að ekki verði nú bundið með illafturkræfum hætti hvernig stjórnsýslu- og skipulagsmálum verður háttað á miðhálendi Íslands.

Meiri tíma þarf til opinnar umræðu um þessi mál þannig að þjóðin öll, eigandi hálendisins, fái að láta í ljós skoðun sína. Verði ofangreint frumvarp samþykkt næstu daga mun það kalla á endalausar deilur og óeiningu meðal þjóðarinnar.`` Ég ætla aðeins að stoppa við þetta, herra forseti. Þetta held ég að sé bara kjarnapunkturinn í því sem við erum að ræða að ákvæði í þessu frv. mun kalla á endalausar deilur og óeiningu meðal þjóðarinnar. Síðan heldur áfram: ,,Jafnframt væri þá búið að útiloka meiri hluta hennar frá því að hafa nokkur áhrif á nýtingu hálendisins og hætt er við að almannaréttur verði fyrir borð borinn.

Sem forsvarsmenn helstu útivistar- og náttúrufræðifélaga landsins og fulltrúar þúsunda Íslendinga teljum við skilning meiri hluta þjóðarinnar vera þann að miðhálendið sé ein heild, sem ekki beri að rjúfa, hvorki skipulags- né stjórnsýslulega.

Þögn þjóðarinnar um þessi mál allt þar til á síðustu vikum má ekki skilja á þann hátt að meiri hluti hennar sé fylgjandi þeirri skipan sem nú er gert ráð fyrir. Augljóst er á umræðum undanfarið að hvorki ráðamenn þjóðarinnar né almenningur hafa fyllilega gert sér grein fyrir þýðingu málsins.

Mikilvægt er að hlýtt verði á raddir hagsmunaaðila og helstu sérfræðinga sem virðast vera á einu máli um hvernig fara eigi með eina verðmætustu auðlind þessarar þjóðar.

Undirritaðir eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum til að vinna að farsælli lausn málsins.``

Svona lýkur ályktuninni sem skrifað er undir af níu formönnum útivistar- og náttúrufræðifélaga. Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst þetta hófleg og skynsamleg ályktun sem er ekki hægt að afgreiða þannig eins og hæstv. félmrh. gerir að verið sé að gera úlfalda úr mýflugu enda beina þeir ekki orðum sínum til hæstv. félmrh. eða þessu bréfi, heldur er það stílað til hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og ég hef ekki enn heyrt viðbrögð hans við þessari áskorun samtaka útivistar- og náttúrufræðifélaga. Ég bíð eftir því, herra forseti, að heyra hvort áskorunin hafi einhver áhrif á hæstv. forsrh. sem vissulega er sá maður í þjóðfélaginu sem getur haft þau áhrif sem þarf til þess að sanngjörn ósk nái fram að ganga um að fresta málinu til haustsins þannig að betri tími gefist til þess að vinna í málinu og ná um það breiðari sátt.

Af því að við erum að fjalla um samtök útivistar- og náttúrufræðifélaga vil ég líka vitna til þess sem hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson segir í DV þar sem hann er að lýsa því, herra forseti, að málamiðlunartillagan, þ.e. frv. sem var kynnt hér af hæstv. umhvrh., sé ekki nægjanleg. Í DV segir, með leyfi forseta:

,,Ólafur Örn Haraldsson, þingmaður Framsfl. í Reykjavík, segir málamiðlunartillögu sem lögð var fram á Alþingi í gær og ætlað er að draga úr því ofurvaldi sem 42 aðliggjandi hreppum á hálendi Íslands verður fengið um skipulag og nýtingu hálendisins í sveitarstjórnarfrv. Páls Péturssonar alls ekki fullnægjandi. Umræðum um hálendismálin var frestað í nótt en ætlunin er sú að afgreiða frv. fyrir þinglok en taka málamiðlunartillöguna upp í haust. Ólafur segir málamiðlunartillöguna alls ekki ásættanlega. Hún tryggir alls ekki þá hagsmuni sem ég tel að verði að taka tillit til þegar fjallað er um miðhálendið, þ.e. hagsmuni sveitarfélaga sem hvergi fá nærri skipulagi hálendisins að koma af því þau eiga ekki land að því.`` --- Og þá kemur það sem ég hefði viljað spyrja hv. þm. út í og ég spyr: Er hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson í þinghúsinu?

(Forseti (StB): Forseti getur upplýst að hv. þm. er í húsinu og hlýðir væntanlega á hv. þm. en forseti mun gera ráðstafanir til þess að kanna það.)

Ekki geri ég mér ljóst hvernig hæstv. forseti sér það úr sæti sínu að hv. þm. sé að hlýða á ræðu mína, en gott og vel. Ég verð að taka það trúanlegt. Ég ætla ekki að ónáða hv. þm. lengi og síst skyldi ég ónáða þann hv. þm. sem hefur skynsamlegustu skoðunina af stjórnarliðunum í þessu máli. Það væri nær að kalla til ýmsa aðra þingmenn sem hafa afar einkennilegar skoðanir í málinu og virða ekki viðlits skynsamlegar tillögur og ábendingar sem koma fram í málinu.

(Forseti (StB): Forseti vill óska eftir því að fá að vita hvort hv. þm. biður um að þingmaðurinn verði sóttur.)

Ef hv. þm. er í húsinu.

(Forseti (StB): Hv. þm. er í húsinu, það er staðfest og forseti hefur gert ráðstafanir til þess að hann gangi í salinn.)

Ég mun halda áfram ræðu minni og af því að ég er svona rétt að byrja ræðu mína þannig að ég mun þá bara tala við hann síðar undir mínu máli vegna þess að hann lætur væntanlega sjá sig fyrir kvöldið.

Þá ætla ég, herra forseti, að fara yfir það frv. sem menn hafa rætt nokkuð úr þessum ræðustól og fjallar um breytingu á skipulags- og byggingarlögum. Ég verð að segja það, herra forseti, að ég á mjög bágt með að trúa því ef einhver meining og vilji er á bak við það að fulltrúar annarra sveitarfélaga en sem liggja að miðhálendinu eigi að hafa þar áhrif. Ég á satt að segja mjög bágt með að skilja hvað stjórnarliðar sjá í þessu frv. sem geri það að verkum að þeir treysti sér til fylgis við það, þ.e. þeir stjórnarliðar sem leggja áherslu á það lýðræðislega fyrirkomulag að fleiri komi að skipulagningu á hálendinu en þau 40 sveitarfélög sem liggja að hálendinu vegna þess að greinargerðin talar sínu máli, herra forseti. Af því að hún er ekki mjög löng og mér finnst hún það merkileg ætla ég aðeins að fá að fara í gegnum hana og stoppa þá við þau atriði, herra forseti, sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á. Hef ég þá lesturinn, herra forseti:

,,Miklar umræður hafa orðið um skipulag miðhálendisins að undanförnu en sérstök nefnd, samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins, sem skipuð var samkvæmt lögum nr. 73/1993, um breyting á skipulagslögum, nr. 19/1964, er að fara yfir athugasemdir sem bárust við tillögur nefndarinnar og á að skila tillögum til Skipulagsstofnunar fyrir 1. des. nk.``

Þetta er nokkurt kjarnaatriði. Hún á að skila tillögum til Skipulagsstofnunar fyrir 1. des. nk. Skipulagsstofnun gerir síðan tillögu til umhvrh. um lokaafgreiðslu svæðisskipulagsins. Síðan er ljóst, herra forseti, að samvinnunefndin, sem margir leggja traust sitt á sem ætla að styðja þetta frv., á ekki að taka til starfa fyrr en um næstu áramót eða 1. jan. 1999. Ég hefði gjarnan viljað spyrja ýmsa stjórnarliða, sem styðja frv. á þeirri forsendu að þetta frv. verði að lögum um skipulagsmálin, hvort þeir óttist ekki neitt að samvinnunefndin um svæðisskipulag miðhálendisins, sem nú er að störfum, verði hreinlega búin að fá þetta skipulag staðfest áður en samvinnunefndin, sem allir leggja traust sitt á sem ætla á annað borð að styðja þetta, áður en hún tekur til starfa eða 1. jan. 1999.

[17:15]

Ég held að ég sé akkúrat, herra forseti, komin að punktinum: Af hverju ríkisstjórnin vill ekki fresta þessu frv.? Vegna þess að ríkisstjórnin vill að svigrúm verði til þess, ef hún svo kýs, ef umhvrh. svo kýs, að sú nefnd sem núna er að störfum, verði hreinlega búin að ganga frá skipulaginu og umhvrh. að staðfesta það fyrir næstu áramót þegar þessi samvinnunefnd á að taka til starfa. Ég held að málið sé ekkert flóknara en svo að þetta sé kjarni málsins. Enda hefur mér ekki fundist hæstv. umhvrh. neita því við þessa umræðu. --- Ég spyr, herra forseti: Er hæstv. umhvrh. í húsinu? Og bara mér til fróðleiks þá spyr ég líka um félmrh., hvort þessir ráðherrar sem bera ábyrgð á báðum þessum málum sitji ekki hér einu sinni við umræðuna.

(Forseti (GÁ): Forseti getur upplýst að hæstv. félmrh. er í húsinu en hæstv. umhvrh. er fjarstaddur.)

Herra forseti. Er það tilhlýðilegt þegar við erum að afgreiða svona stórt mál þó að sveitarstjórnarlögin falli ekki undir umhvrh. eða ráðuneyti hans þá beinist stór partur af þessu máli og þeirri umræðu sem hér fer fram raunverulega að umhvrh.? Mér finnst það vanvirða við þingið að umhvrh. sé ekki viðstaddur þessa umræðu. --- Og gengur nú í salinn hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson. Það er nú dálítið sérkennilegt (ÓÖH: Var ekki kallað eftir mér?) að ráðherrarnir sjái enga ástæðu til að vera við umræðuna en hér er mættur Ólafur Örn Haraldsson, að vísu eftir mínu kalli. En, herra forseti, ég lét þess getið um leið og ég kallaði á hv. þm. að síst ætti náttúrlega að vera að ónáða þann sem væri einn helsti stuðningsmaður þessa máls. Það ætti nú fremur að reyna að kalla til hina, ef vera mætti að hægt væri að leiða þeim fyrir sjónir hvaða villur vegar þeir fara. (Gripið fram í.)

Við erum að tala um frv. til sveitarstjórnarlaga sem var lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997--1998, 288. mál, þskj. 359. Það eru ákvæði til bráðabirgða aðallega og 1. gr. frv., ásamt frv. sem lagt hefur verið fram til kynningar um breytingu á skipulags- og byggingarlögum.

En þá ætla ég að snúa mér að hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni af því að ég var að lesa hér upp það sem hann var að skýra í DV, af hverju hann gæti ekki sætt sig við þessa málamiðlunartillögu. Þar segir hv. þm. í lok viðtalsins:

,,Þá eiga t.d. sjónarmið ferðaþjónustu, útivistar og náttúruverndar engan tryggan aðgang að skipulagi hálendisins skv. frv., sem alls ekki er ásættanlegt, sagði Ólafur Örn Haraldsson í morgun.``

Ég vil spyrja hv. þm. af því að hann gerði sér nú lengi vonir um að þessi málamiðlunartillaga yrði þannig úr garði gerð að hann gæti sætt sig við hana og stutt stjórnarflokkana í þessu máli, að hv. þm. hefur lagt mikla áherslu á sjónarmið ferðaþjónustu, útivistar og náttúruverndar og þekkir vissulega þann fund og þá ályktun sem var samþykkt í gær: Kom á einhverju stigi málsins til tals og gerði hv. þm. kröfu til þess að í samvinnunefndinni ættu fulltrúar einhverra þessara samtaka aðkomu að málinu með einhverjum hætti, helst beinum eða þá óbeinum? Ég spyr af því að hv. þm., herra forseti, hefur lagt svo mikla áherslu á þennan þátt. Þess vegna spyr ég hvort á einhverjum stigum málsins hafi það komið til greina eða a.m.k. hvort ekki hafi verið lögð áhersla á það af hans hálfu.

Fleira ætla ég ekki að spyrja hv. þm. um og þakka honum fyrir að mæta í þingsalinn til að hlusta á það sem ég hef fram að færa.

Hæstv. forseti. Af því að hæstv. umhvrh., sem ég hefði gjarnan viljað tala við, er ekki hér í húsinu verð ég eiginlega að láta mér nægja hæstv. félmrh. og spyr því hvort hann mundi ekki vilja ganga hér í þingsal til að hlýða örstutt á mál mitt. Ég skal ekki tefja hann lengi ef hann er bundinn öðrum störfum þó ég hefði nú haldið að hans fyrsta og aðalverkefni ætti að vera að sitja undir þessari umræðu.

(Forseti (GÁ): Forseti hefur gert hæstv. félmrh. viðvart og hann mun koma innan stundar.)

Ég spyr hæstv. forseta: Get ég þá gert hlé á máli mínu og staðið hér í ræðustól þangað til hann kemur eða hvernig er það?

(Forseti (GÁ): Forseti ætlar að hv. þm. hafi nóg efni, hún verður þó að ráða því sjálf hvort hún bíður átekta.)

Já, það er vissulega rétt hjá hæstv. forseta að ég er með nægjanlegt efni til að ræða og get svo sem haldið áfram þó að hæstv. ráðherra sé ekki viðstaddur vegna þess að það breytir kannski ekki miklu. En maður reynir þó að gera tilraunir til að fá fram einhverja skynsemi í þetta mál sem hér er verið að ræða og þess vegna kallaði ég í hæstv. ráðherra. (Félmrh.: Hann fylgist mjög vel með.)

Ég sé að hæstv. ráðherra er genginn í salinn og upplýsir meira að segja að hann hafi fylgst vel með þeirri umræðu sem hér hefur farið fram og er það gott og blessað. (Gripið fram í.) Ég ætla þá vinda mér í það sem ég vildi ræða við hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðherra gerði ekki mikið úr ályktun --- sem hann hefur væntanlega fengið --- samtaka útivistar- og náttúrfræðifélaga sem héldu fund í gær. Mér finnst að hæstv. ráðherra skuldi þessum útivistar- og náttúruverndarsamtökum, níu talsins, sem héldu þennan fund og settu fram mjög hógværa og skynsamlega tillögu um frestun á þessu máli, skýringu. Skuldi þeim skýringu á því að gera svo lítið úr málflutningi þeirra og ályktun, að tala bara um að þeir séu að gera úlfalda úr mýflugu. Þetta eru allt sérfræðingar, hver á sínu sviði að því er varðar miðhálendið, og hæstv. ráðherra, herra forseti, getur einfaldlega ekki, finnst mér, boðið þessum fjölmennu samtökum upp á það án þess að skýra nánar hvað hæstv. ráðherra á við (Gripið fram í: Hvar er umhvrh.?) þegar ráðherrann segir að þeir séu bara að gera úlfalda úr mýflugu.

Það er spurt úr sal, herra forseti, hvar hæstv. umhvrh. sé, og ég vil þá láta þessa þingmenn sem spurðu, og voru ekki viðstaddir þegar ég var að spyrja hæstv. forseta um það, vita að ég tel alls óviðunandi að hæstv. umhvrh. sé ekki við þessa umræðu. Það er varla boðlegt þinginu, þannig að sú ósk hefur vissulega komið fram.

Ég vil þá, herra forseti, í fyrsta lagi spyrja hæstv. ráðherra hvort hann gefi þessum fjölmennu samtökum ekki skýringu á því hvað hann meini með því að þau séu að gera úlfalda úr mýflugu. Þessi samtök meina það sem þau eru að segja. Þetta er fólk sem hefur það að atvinnu að starfa mjög mikið að málum sem lúta að náttúru og náttúruvernd. Þetta er því fólki hjartans mál. Það skynjar að við erum að tala um mál sem skiptir komandi kynslóðir máli hvernig á er haldið. Þetta er fólk sem er að reyna að koma í veg fyrir að flausturslega verði haldið á þessu máli. Þetta er fólk sem er að reyna að hafa þau áhrif að fleiri fái að koma að þessu máli en örfá sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu. Og það er bara ekki hægt að afgreiða þessi samtök á þann veg að þau séu að gera úlfalda úr mýflugu, eins og hæstv. félmrh. segir. Ég óska því eftir því að þessari umræðu ljúki ekki fyrr en hæstv. ráðherra er búinn að skýra hvað hann meinar með þessu.

Vegna þess að ég get ekki beint orðum mínum til hæstv. umhvrh., hann kemur kannski síðar til þessarar umræðu, vil ég spyrja hæstv. félmrh. um skilning hans á því sem fram kemur í frv. um skipulagsmálin sem hæstv. ráðherra hefur væntanlega kynnt sér. Það kemur fram í greinargerð að nefndin, samvinnunefndin um svæðisskipulag miðhálendisins, sem er nú að störfum, á að ljúka störfum 1. des. nk. Hún á að skila tillögum sínum til Skipulagsstofnunar sem gerir síðan tillögur til umhvrh. um lokaafgreiðslu svæðisskipulagsins. Samvinnunefndin, sem svo er kölluð, sem skipa á samkvæmt þessu frv. um breytingu á skipulags- og byggingarlögum og verður væntanlega ekki skipuð fyrr en undir næstu áramót --- spurningin sem ég beini til hæstv. ráðherra snýst um það --- og við biðjum um skýr svör hér:

Er hætta á því að nefndin sem nú er að störfum, Skipulagsstofnun og umhvrh. verði búin að afgreiða málið, tillöguna, svæðisskipulagstillöguna og staðfesta hana áður en samvinnunefndin tekur til starfa um áramótin? Þetta finnst mér mjög mikilvægt að fá fram í þessari umræðu.

Síðan spyr ég um skilning ráðherrans á því sem fram kemur í 1. gr. frv., og það er eðlilegt að beina því til hans vegna þess að það hlýtur að hafa verið haft samráð við hann um þetta frv. Í 1. gr. frv. segir:

,,Umhverfisráðherra skipar samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins til fjögurra ára í senn að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Sveitarfélög, sem liggja að miðhálendinu, tilnefna samtals tólf fulltrúa, ...`` o.s.frv.

Hvað þýða þessi orð ,,sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu``? Þau eru nú fleiri en tólf. Eru þau ekki yfir 40? Er átt við héraðsnefndir eða hverjir eiga að skipa þessa tólf fulltrúa, hvaða sveitarfélög, hvernig á að skipa þá? Hefur það komið fram í umræðunni, herra forseti? Það hefur þá farið fram hjá mér ef það er. En sveitarstjórnarráðherrann hæstv. hlýtur að hafa eitthvað um þetta að segja, þannig að ég spyr hann um það. (Félmrh.: Búinn að tjá sig um málið.) Já, þá er ágætt að fá það fram sem ráðherrann getur svarað, jafnvel úr sæti sínu: Er verið að tala um sömu aðila og nú eiga sæti í þessari miðhálendisnefnd?

Herra forseti. Mér finnst hæstv. ráðherra ekkert of góður til að skýra það aftur ef það hefur farið fram hjá þeirri sem hér stendur. Það er a.m.k. mín skoðun þegar við erum að tala um svona stórt mál eins og hér um ræðir.

Ég var í miðju kafi að lesa greinargerðina með frv. og það er mín skoðun að það sé þess vegna sem liggi svo á að afgreiða þetta frv., að meiningin sé að staðfesta þessar tillögur áður en samvinnunefndin komi að þessu verki um næstu áramót.

Síðan kemur:

,,Samvinnunefndin er samkvæmt lögum nr. 73/1993 skipuð fulltrúum hlutaðeigandi héraðsnefnda, þ.e. þeirra sem eiga land að miðhálendinu, auk fulltrúa umhverfisráðherra. Önnur sveitarfélög, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Vestfjörðum, hafa því ekki komið að málinu með sama hætti og hefur það verið gagnrýnt þar sem um er að ræða svæði sem að stórum hluta er ekki í einstaklingseign og hljóti að skipta alla landsmenn máli. Því sé ekki sjálfgefið að þótt hlutaðeigandi sveitarfélög fari með stjórnsýslu sveitarfélaga inn til landsins eigi þau ein að ráða skipulagi.``

Það er alveg hárrétt sem hér stendur. En hvernig er nú farið í þetta mál? Það er farið í þetta með þeim hætti að tólf fulltrúar, þ.e. fulltrúar sveitarfélaga sem liggja að miðhálendinu, tólf af átján, eigi að koma frá sveitarfélögum sem liggja að miðhálendinu þar sem 4--6% þjóðarinnar býr. En 95% þjóðarinnar eiga að hafa fjóra fulltrúa. Þetta er nú allt lýðræðið. Og tveir fulltrúar, þar af tveir fulltrúar úr Reykjavík, sem Samband ísl. sveitarfélaga tilnefnir, og einn af Reykjanesi og einn af Vestfjörðum.

[17:30]

Það er furðulegt að meiri hluti þingsins ætli að sætta sig við þá lendingu sem hér er boðin í þessu máli.

Það hefur þá kannski farið fram hjá mér, herra forseti, en mér fannst nú einhvern tíma í þessum umræðum að hæstv. ráðherra teldi að gera þyrfti breytingar á skipulags- og byggingarlögum og ég spyr: Hefur því verið lýst hér úr ræðustól hvernig þær breytingar eiga að vera? (Félmrh.: Já.) Því hefur verið lýst úr ræðustól. Ekki hefur það breytt afstöðu hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar til þessa máls að því er ég best veit. Ég á þannig frekar von á því, herra forseti, að þær breytingar sem hæstv. ráðherra hefur boðað í þessu máli hafi verið fremur lítilvægar.

Í greinargerð með frumvarpi til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum segir, með leyfi forseta:

,,Til þess að mæta framangreindum viðhorfum hefur verið ákveðið að áfram starfi sérstök samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins og að í henni verði fulltrúar tilnefndir af sveitarfélögum sem liggja að miðhálendinu, fjórir fulltrúar tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, þar af tveir með búsetu í Reykjavík, einn á Reykjanesi og einn á Vestfjörðum, auk fulltrúa félagsmálaráðherra og eins sem umhverfisráðherra skipar án tilnefningar og skal vera formaður. Er þessi leið valin þar sem skipulagsmál eru lögum samkvæmt verkefni sveitarfélaganna.

Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins skal miðhálendið svæðisskipulagt sem ein heild. Samvinnunefndin skal fjalla um þetta svæðisskipulag og gefa Skipulagsstofnun umsögn um tillögu að aðalskipulagi sveitarfélaga á svæðinu og breytingar á þeim.``

Neðar í greinargerðinni segir:

,,Nefndinni er ekki ætlað að taka þá vinnu til endurskoðunar sem þegar hefur verið unnin, aðeins gefa umsögn um hana.``

Hér er því, herra forseti, alveg ljóst hvað er á ferðinni. Þessir fjórir fulltrúar af átján, sem eiga að vera í þessari samvinnunefnd, eiga ekki að hafa ákvörðunarrétt í málinu. Þeir hafa óljósan samráðsrétt, herra forseti, og jafnvel eftir að búið er að ganga frá svæðisskipulagstillögunum. Upp á það er 95% þjóðarinnar boðið, að hafa óljósan samráðsrétt eftir að búið er að ganga frá svæðisskipulaginu. Einhverja umsögn, og hvað þýðir umsögn? (KPál: Því gæti ég trúað.) Einhverja umsögn. Hvað þýðir umsögn? (KPál: Þetta er alvarlegt.) Hvað þýðir umsögn? Þarf nokkuð að taka tillit til þeirra? Umsagnir eru oft þannig að ekki er hlustað á þær.

Náttúrlega má búast við, jafnvel þótt þessir fjórir aðilar hefðu ákvörðunarrétt, að í nefndinni sem nú á að festa í sessi muni sitja þeir tólf aðilar sem setið hafa í gömlu miðhálendisnefndinni. Hvernig fer svo ef það á að greiða atkvæði um það? (KPál: Ég segi það nú. Þetta getur verið afleitt.) Stendur hv. þm. Reykn. yfirleitt nákvæmlega á sama? Reyknesingar eiga að fá einn fulltrúa. Hvað er þetta fjölmennt kjördæmi? Einn fulltrúa er þeim boðið upp á, ekki til ákvörðunar, heldur til óljóss samráðs eða umsagnar í þessu máli.

Mér heyrist það af frammíköllum hv. þm. að hann hafi engar áhyggjur af því þó að hér sé einungis um einhvern óljósan samráðsrétt að ræða. Ef kemur til atkvæðagreiðslu í þessari átján manna nefnd, þá hafa þessir tólf fulltrúar sveitarfélaganna sem liggja að miðhálendinu allt ákvörðunarvald og geta borið aðra ofurliði í atkvæðagreiðslum. (Gripið fram í: Já já.) Ég hygg að það komi ekki einu sinni til atkvæðagreiðslu vegna þess að það á bara að leita samráðs við þá. (Gripið fram í: Þetta yrði vönduð umsögn.) Já, þeir geta sent inn umsögn. (Gripið fram í: Þetta getur verið vönduð umsögn.)

Maður er alveg hvumsa yfir því að maður skuli búa hér í lýðræðisþjóðfélagi og þegar fjallað er um stórt mál eins og miðhálendið, hvernig það verði skipulagt til framtíðar og komandi kynslóðir eigi að taka við þessu máli, þá eigi 95% þjóðarinnar ekki að hafa neitt um það að segja. (Gripið fram í: 95%? 96.)

(Forseti (GÁ): Forseti biður þingmenn að vera hljóða í sal og hlýða á ræðumann.)

Ég heyri það, herra forseti, að einn af þingmönnum Reykn. tekur með mikilli léttúð á þessu máli. Ég tel að hér sé grafalvarlegt mál á ferðinni, og hv. þm. Kristján Pálsson hafi bara ekki leyfi til þess að tala eins og hann gerir. (Gripið fram í: Hún er á móti Reyknesingum, það er greinilegt.) (Forseti hringir.)

Ég hefði haldið að hv. þm. ætti nú a.m.k. að hluta til að vera hér til að gæta þess að hlutur Reyknesinga verði ekki fyrir borð borinn við skipulagningu miðhálendisins. En hann gantast bara með þetta, herra forseti. Málið er ekki stærra en svo í hans augum þó að þjóðin öll sé að vakna upp við það hve stórt mál þetta er. Það á að keyra málið í gegn með offorsi þó fyrir liggi hógværar beiðnir frá minni hlutanum, frá útivistarsamtökum og ferðafélögum, um að málinu verði frestað. Það er ekki farið fram á að fresta því fram yfir aldamót heldur um örfáa mánuði. Hvað gerist á þessum mánuðum? Ég fæ engan botn í það, herra forseti.

Ég held að ég víki næst að ýmsum þeim sem lagt hafa skynsamlega til þessara mála. Enn eru að berast athugasemdir og munu halda áfram allt til þess að þetta mál verður til lykta leitt, hvort sem það verður einhvern tíma í sumar eða í haust.

Mér þykir tilhlýðilegt, herra forseti, og mér er nákvæmlega sama þó hér í ræðustólnum hafi áður verið lesin grein sem birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 24. janúar 1998 eftir Ingva Þorsteinsson náttúrufræðing og formann samtakanna Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs, og Ólaf Arnalds sem er náttúrufræðingur og vinnur að rannsóknum á jarðvegsrofi og ástandi lands. Mér þykir þetta það mikilvæg grein og það stórt innlegg í þetta mál, sem hér á að fara að keyra í gegnum þingið, að ég vil fá að lesa hana, herra forseti.

Þegar komandi kynslóðir og fræðimenn fara að skoða hvernig þessi ósköp gátu gerst og kynna sér þetta mál, þá er rétt að halda öllu hér til haga í þessu máli, m.a mikilvægu innleggi Ingva Þorsteinssonar náttúrfræðings og Ólafs Arnalds náttúrufræðings varðandi beitarfriðun miðhálendis Íslands til 2015, sem ekkert hefur verið hlustað á. Þetta er stórmál. (Gripið fram í: Það er bara ekki hlustað á neinn.) Nei, það er ekki hlustað á neinn. Þeir segja að Ísland sé í dag stærsta eyðimerkursvæði Evrópu. Ég vil fá að lesa þessa grein, herra forseti.

,,Því er beint til samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendis Íslands að hún stuðli að algerri beitarfriðun hálendisins til loka skipulagstímans og jafnframt er skorað á bændur að gefa miðhálendinu frið fyrir beit í hálfan annan áratug eftir 1.100 ára óslitna beitarnotkun. Tímabær ákvörðun.

Á undanförnum árum hefur verið unnið að svæðisskipulagi miðhálendis Íslands. Það er full ástæða til að fagna þeirri ákvörðun að skipuleggja landnotkun á miðhálendinu sem spannar yfir nær helming af flatarmáli landsins alls. Hálendið er viðkvæmasti hluti Íslands, og þess vegna hefur aldalöng notkun skilað því í verra ástandi gróðurfarslega en öðrum svæðum landsins, þar sem á annað borð eru skilyrði fyrir gróður.

Náttúrufari miðhálendisins hefur verið raskað á ýmsan hátt, auk beitaráhrifa, og margháttaðar landnotkunarhugmyndir, t.d. um virkjanir og aukna ferðamennsku, munu enn auka álagið á viðkvæma náttúru þess. Vaxandi vitund um gildi náttúru hálendisins hefur aftur á móti leitt til þess að íbúar landsins krefjast þess að ekki sé rasað um ráð fram. Nú skal hagur þjóðarinnar, þegar til lengri tíma er litið, hafður að leiðarljósi við hvers konar nýtingu landsins, í stað skammtímasjónarmiða. Við skipulag landnýtingar verði litið til verndargildis frá mörgum hliðum, svo sem ósnortins víðernis o.s.frv.

Þessi viðhorf er ekki unnt að samræma nema með því að skipuleggja landnotkun. Ákvörðunin um skipulagningu miðhálendisins var því ekki eingöngu metnaðarfull, heldur einnig löngu orðin tímabær.

Skipulagstillögurnar og viðbrögð við þeim.

Tillögur um svæðisskipulag miðhálendis Íslands voru birtar í maí 1997, og leikur ekki vafi á því að þær eiga eftir að skila árangri því að þar eru margar góðar hugmyndir. Skipulagstillögurnar eru grundvöllur umræðu, gagnrýni og frekari hugmynda um nýtingu hálendisins, eins og glögglega hefur komið í ljós nú þegar.

Umræða um tillögurnar manna á milli og í fjölmiðlum hefur verið mikil og fjörug ­-- og oft óvægin. Fjöldi skriflegra athugasemda mun hafa borist um þær til samvinnunefndarinnar um skipulag miðhálendisins.

Umræða í fjölmiðlum hefur snúist um flesta þætti tillagnanna og fræðilegan grundvöll þeirra, en það er umhugsunarvert að nánast enginn hefur minnst á þann þátt skipulagsvinnunnar sem fjallar um gróðurvernd og beit búfjár á miðhálendinu. Beitin er þó landnotkun sem hefur haft gífurleg áhrif á gróðurfar miðhálendisins og landsins alls í aldanna rás. Gróður- og jarðvegseyðing er skilgreind sem ,,stærsta umhverfisvandamál þjóðarinnar``, enda hefur hún valdið meiri röskun á náttúrufari landsins, bæði á hálendi og láglendi, en nokkuð annað.

Gróðurkortagerð og aðrar rannsóknir Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, sem unnið var að á miðhálendinu á árunum 1960­-1985, veittu ítarlega vitneskju um gróðurfar þess, vistfræðileg skilyrði, framleiðslugetu og ástand gróðurs. Niðurstöður af rannsóknum á jarðvegsrofi, sem unnar voru á vegum sömu stofnunar og af Landgræðslu ríkisins voru birtar snemma árs 1997. Þær staðfestu svo að ekki var um villst, hve slæmt ástand jarðvegs á miðhálendinu er og hve gífurleg gróður- og jarðvegseyðing þar hefur átt sér stað.

Í stuttu máli hafa þessar rannsóknir leitt í ljós að stærsti hluti miðhálendisins, sem áður var að miklu leyti gróinn, er gróðurlausar eða gróðurlitlar auðnir. Mikill hluti þess lands sem nú er gróið einkennist af rýrum og viðkvæmum mosagróðri. Á svæðum, þar sem enn er þykkur jarðvegur, er mjög víða mikil og hröð gróður- og jarðvegseyðing.

Á hluta miðhálendisins, fyrst og fremst þar sem er mikið votlendi, svo sem á Arnarvatnsheiði, Tvídægru, afréttum Vestur-Húnavatnssýslu, í Þjórsárverum og á Fljótsdalsheiði, er gróður í sæmilegu ástandi, og þar er ekki mikil jarðvegseyðing. Þessi svæði eru hins vegar tiltölulega lítill hluti alls miðhálendisins, og gróðurfar þeirra, nema blautustu flóa, ber einnig merki aldalangrar beitar.

Það eru fyrst og fremst auðnir miðhálendisins sem valda því að í dag er Íslandi lýst sem stærsta eyðimerkursvæði Evrópu.``

Hvorki meira né minna, herra forseti.

Hvað hefur nú verið hugað að þessum beitarmálun og friðun, beitarfriðun miðhálendisins í þessum tillögum? Náttúrufræðingarnir tveir halda áfram og segja:

,,Samkvæmt framangreindum niðurstöðum kortlagningar á rofi telst langstærsti hluti miðhálendisins ekki hæfur til beitar. Á grundvelli rofkortanna unnu Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landgræðslan yfirlitskort með ráðleggingum um nauðsynlegar takmarkanir á beit á miðhálendinu byggðar á ástandi jarðvegsins. Á þessu korti, sem birt er í greinargerð að skipulagstillögunum, kemur fram að nauðsynlegar séu ,,miklar takmarkanir`` á beit vegna auðna og/eða mikils rofs á stærstum hluta miðhálendisins.

Skilaboð þessa korts og annarra gagna eru ótvíræð, en í tillögunum um svæðisskipulag miðhálendisins er nánast ekkert tillit tekið til þeirra. Þar er aðeins gert ráð fyrir beitarfriðun þriggja svæða: Þórsmerkur og Emstra, sem þegar eru friðuð fyrir beit (Almenningum er sleppt), og auðnanna norðan Vatnajökuls, allt norður undir byggð í Skútustaðahreppi, en nú þegar liggur fyrir samkomulag um friðun þess svæðis.

[17:45]

Í skipulagstillögunum eru beitarmál á miðhálendinu fram til ársins 2015 að öðru leyti afgreidd með þeim hætti sem eftirfarandi tilvitnanir úr greinargerðinni bera vott um: ,,Á viðkvæmum svæðum miðhálendisins er stefnt að því að taka upp beitarstjórn og/eða friðun í samræmi við landgæði`` ,,umræða meðal bænda víða í landinu bendir til þess að á næstu árum verði frekari breytingar varðandi beitarnot á afréttum``, og ,,beitarfriðun víðáttumikilla svæða er í undirbúningi á nokkrum afmörkuðum svæðum á miðhálendinu``.``

Það er nú allt og sumt, herra forseti. Og síðan segir, herra forseti:

,,Þetta er vægast sagt veik afstaða til svo mikilvægs máls. Reynslan af beitarmálum hér á landi hefur ævinlega verið sú að hafi þau verið ,,afgreidd`` með þessum hætti hefur ekkert gerst.

Það er algerlega óviðunandi að skilja við beitarmál miðhálendisins til ársins 2015 með þessum hætti.``

Í lokin segja þeir:

,,Á undanförnum tveimur áratugum eða svo hefur sauðfé í landinu fækkað um helming og beitarálag minnkað að sama skapi. Þar sem fækkunin hefur verið mest gætir þegar ótrúlega mikilla framfara í gróðurfari og ástandi landsins, einkum á láglendi þar sem ástandið var ekki orðið of slæmt. Við hin erfiðu gróðurskilyrði á miðhálendinu, þar sem ástand gróðurs og jarðvegs er jafnslæmt og hér hefur verið lýst, dugar hins vegar ekkert annað en alger friðun fyrir beit til þess að stöðva eyðinguna og auka gróður að nýju.``

Því er hér lýst, herra forseti, að það dugi ekkert annað en algjör friðun fyrir beit til þess að stöðva eyðingu og auka gróður að nýju. Maður sér varla, af því sem fyrir liggur í þessi efni, að fara eigi að þessum tillögum. Maður sér ekki, herra forseti, að það eigi að fara að þessum tillögum. Eins er vert að íhuga það sem fram kemur í Morgunblaðinu sunnudaginn 25. jan. og haft er eftir Trausta Valssyni skipulagsfræðingi, en þar segir um beitarmál, og ég vitna orðrétt til þess:

,,Hann segir að verndunarleiðin, en þó ekki hvað varðar beit, hafi orðið ofan á, enda hafi nefndin aðallega verið skipuð einum hagsmunaaðila, þ.e. bændum. ,,Eins og alltaf notar sá sem ræður skipulaginu það til að styrkja eigin hagsmuni. Bændur vilja ekki heldur að ferðaþjónustan þróist á vegum ferðaskrifstofa uppi á hálendinu heldur að menn þurfi að sækja nauðþurftir til byggða.````

Maður veltir fyrir sér skýringunni sem Trausti Valsson setur fram varðandi beitarmál. Þessu hafa mjög margir áhyggjur af og kom fram á þessum fundi í gær, að menn hafa áhyggjur af því hvernig farið verður að beitarfriðun miðhálendisins. Þessir sérfræðingar --- og ég hygg að þetta séu þeir sérfræðingar sem kannski gerst þekkja til ---- segja að það dugi ekkert annað en algjör friðun fyrir beit til þess að stöðva eyðinguna og auka gróður að nýju. Við hljótum að meta miðhálendið og landið okkar það mikils að gerðar verði nauðsynlegar ráðstafanir, eins og hér er lagt til, varðandi beitarfriðun á hálendinu þannig að einhvern tíma komumst við af kortinu sem stærsta eyðimerkursvæði Evrópu.

Í grein þeirra Ingva Þorsteinssonar og Ólafs Arnalds segir síðan:

,,Víðast á láglendi er nægur beitargróður fyrir það sauðfé sem nú er í landinu, og nú er því lag til að hlífa miðhálendinu fyrir beit. Þeir tímar munu eflaust koma að fé fjölgi á ný og að þörf verði fyrir beitargróður hálendisins. Þá er nauðsynlegt að ástand þess verði komið í margfalt betra horf en nú er.``

Þetta er auðvitað mjög skynsamlegt, herra forseti, að standa að málum eins og þessir náttúrufræðingar leggja til.

,,Við beinum því þeirri tillögu til samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendis Íslands að hún stuðli að algerri beitarfriðun hálendisins til loka skipulagstímans, eða til ársins 2015. Jafnframt skorum við á þá bændur og þau sveitarfélög sem hlut eiga að máli að sýna þann stórhug að styðja þá tillögu að gefa miðhálendinu hvíld fyrir beit í hálfan annan áratug, eftir nær 1100 ára óslitna beitarnotkun.`` --- Hér er beðið um örfá ár, eftir nær 1100 ára óslitna beitarnotkun, herra forseti. Og áfram er haldið: ,,Þá fær gróðurinn langþráðan frið til að breiðast út að nýju, og tóm gefst til nauðsynlegra landgræðsluaðgerða. Að þessum tíma loknum yrði ástand landsins endurmetið og nýjar ákvarðanir teknar í samræmi við niðurstöðurnar.

Með samstöðu, og að frumkvæði þeirra sem sjávarútveg stunda, tókst að stöðva hrun fiskstofnanna við landið með hóflegri nýtingarstefnu, sem jafnvel felur í sér tímabundna lokun fiskimiða.`` --- Þeir líkja þessu saman, þegar Íslendingar brugðust við stöðvun á hruni fiskstofnanna, herra forseti, og segja, með leyfi forseta: ,,Með sama hætti ættu bændur og allir aðrir sem hlut eiga að máli að taka höndum saman um hliðstæða stefnu í nýtingu gróðurs á miðhálendinu. Það yrði eitt stærsta skref sem tekið hefur verið til stöðvunar jarðvegseyðingar, og til endurheimtar gróðurs og landgæða á Íslandi. Það framtak yrði lengi í minnum haft.``

Þannig lýkur þessari merku grein, herra forseti, sem ég taldi mjög brýnt að ræða hér og vekja athygli á. Ég vona að margir hafi lesið þessa grein í Morgunblaðinu laugardaginn 24. jan þó að viðbrögðin hafi kannski ekki komið fram. Hér eru orð í tíma töluð varðandi beitarfriðun á miðhálendinu.

Við höfum aðeins verið að skoða þetta sérstaka mál, sem ég hef hér nefnt, þegar við vorum í allshn. að ræða frv. um þjóðlendurnar og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Við erum með eina tillögu sem lýtur að beitarmálum en þar leggjum við til breytingu á þjóðlendufrv. sem orðast svo:

,,Þeir sem nýtt hafa land innan þjóðlendna sem afrétt fyrir búfénað eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja skulu sækja um leyfi til umhverfisráðherra fyrir áframhaldandi nýtingu. Áður en leyfið er útgefið skal fara fram mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar nýtingar.``

Herra forseti. Sú grein sem ég var að vitna í um eyðimörkina og miðhálendið var tekin upp í Reykjavíkurbréfi þar sem tekið var undir það að bregðast þyrfti við þessu vegna þess að hér væri verið að tala um ,,umhverfisslys, ekki vegna stóriðju eða kjarnorkuvers, heldur ágangs``. Í Reykjavíkurbréfinu segja þeir: ,,Í kringum rússnesku nikkelverksmiðjurnar á Kólaskaga er umhverfið orðið svo eitrað að ekki sést stingandi strá. Hér á landi eru ástæðurnar ekki eitur, en útkoman hefur verið sú sama. Það er hins vegar reginmunur á að því leyti að auðveldara er að græða upp land, sem er örfoka eftir ágang, en líflaust eftir mengun sem hverfur jafnvel ekki fyrr en eftir áratugi.``

Og síðan segja þeir:

,,Það er ef til vill til marks um það hvað gróður er viðkvæmur hér á landi að í frostleysinu, sem verið hefur í vetur, er verið að vara við því að láta hross ganga of nærri landinu. Ólafur R. Dýrmundsson, ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands, sagði í samtali við Morgunblaðið 31. janúar að allt of mörg hross væru í landinu: ,,Þau fóru í fyrsta skipti í sögunni yfir 80 þúsund og það hefur komið fram í könnunum Landgræðslu ríkisins að það er of mikill ágangur.`` Hérna er ekki verið að tala um beit á viðkvæmu hálendi, heldur undirlendinu.``

Herra forseti. Eins og komið hefur fram í máli mínu og annarra hér í dag og undanfarna daga er að mörgu að huga þegar við ákvörðum stjórnsýsluna á hálendinu og hvernig fara skuli með landnýtingu. Margir hafa orðið til þess að gera býsna margar og alvarlegar athugasemdir við þær tillögur sem fyrir liggja.

Ég sé líka ástæðu til þess að vitna til prófessors í umhverfisrétti við Háskóla Íslands, Gunnars G. Schrams, sem hefur haft mikið að segja um málið sem við fjöllum um hér í dag, og er ástæða til að gefa orðum hans gaum, herra forseti. Lagaprófessorinn Gunnar G. Schram segir, með leyfi forseta:

,,Gunnar G. Schram lagaprófessor sagði í gær að sú yfirlýsing Davíðs Oddssonar forsætisráðherra á Alþingi þá um daginn að frumvarp um þjóðlendur, sem lagt var fram á síðasta þingi, yrði lagt fram óbreytt á þessu þingi væri mikilvæg vegna þess að það leiddi til þess að strika yrði út bráðabirgðaákvæði frumvarps til sveitarstjórnarlaga þess efnis að staðarmörk sveitarfélaga, sem liggja að miðhálendi Íslands verði framlengd inn til landsins og sama eigi við um staðarmörk sveitarfélaga á jöklum.``

Herra forseti. Það er ljóst að lagaprófessornum hefur ekki orðið að ósk sinni vegna þess að við vitum að bráðabirgðaákvæðið hefur ekki verið strikað út heldur lítillega verið breytt, sem litlu máli skiptir. Gunnar G. Schram lagaprófessor heldur áfram og ræðir einnig um þetta mál 28. jan. 1998. Hann segir:

,,Hálendið á að vera sameign þjóðarinnar. Þar sem réttarstaða hálendisins er nú orðin að deilumáli með þjóðinni telur Gunnar G. Scram æskilegt að setja skýrari ákvæði í þjóðlendufrumvarpið. Innan fárra vikna mun Alþingi setja lög um það hver verður framtíðarskipan stjórnsýslu á miðhálendi Íslands. Hér er um miklu stærra mál að ræða en margir hafa í fljótu bragði gert sér ljóst. Miðhálendið tekur yfir 40% landsins. Þar er að finna jökla, fjöll og firnindi sem geyma margar mestu náttúruperlur landsins --- svæði sem gera Ísland einstakt land í veröldinni bæði í okkar augum og þeirra sem landið sækja heim.

Í dag er málum svo háttað að mikill hluti miðhálendisins er einskis manns land, ef svo má að orði kveða. Hvorki ríkið, sveitarfélög né einstaklingar fara þar með eignarrétt eða stjórnsýsluvald. Það hefur verið staðfest í fleiri en einum hæstaréttardómi þar sem deilt hefur verið um þessi víðlendu landsvæði.

Það er því deginum ljósara að tímabært er að löggjafinn ákvarði hver skuli fara með eignarréttinn á miðhálendinu ...``

Og síðan er haldið áfram í þessari grein:

,,Nú hefur brugðið svo við að í frumvarpi til nýrra sveitarstjórnarlaga, lagt fram af félagsmálaráðherra, hefur allt í einu verið bætt við ákvæði til bráðabirgða sem færa á 4--5% þjóðarinnar fullt óskorað stjórnsýsluvald yfir hálendissvæðunum --- 40% alls Íslands! Slík fyrirætlan er með öllu óásættanleg. Í henni felst að um 95% landsmanna eru útilokuð frá því að hafa nokkur áhrif á það hvernig háttað verður nýtingu og verndun hálendissvæðanna, en í þeim hópi eru einmitt íbúar þéttbýlissvæðanna sem mest nota þetta land í dag til útivistar og náttúruskoðunar.

Í bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlagafrumvarpsins segir svo um þetta atriði:

,,Gengið skal út frá að staðarmörk sveitarfélaga, sem liggja að miðhálendi Íslands, verði framlengd inn til landsins. Sama gildir um staðarmörk sveitarfélaga á jöklum.``

Í grein hér í blaðinu fyrir skömmu hélt einn formælandi þess ákvæðis því fram að sveitarfélögin færu í dag með stjórnsýslu á afréttum samkvæmt gildandi lögum og því væri með frumvarpinu aðeins verið að leggja um 10% hálendisins undir þau en ekki 40%. Þetta er rangt. Í réttinum til að nýta afréttir felst enginn stjórnsýsluréttur, heldur er hann eingöngu takmarkaður við upprekstrar- og beitarrétt. Bændur mundu auðvitað halda þeim rétti. Fráleitt er hins vegar það, sem er kjarni tilvitnaðra ummæla, að afhenda um 40 hreppum, þar sem um 16.000 manns búa, óskoruð og full yfirráð yfir hálendinu sem þeir fara ekki með í dag. Það er óréttlæti sem aðrir íbúar landsins munu ekki sætta sig við og raunar furða að gerð sé tilraun til slíkra landvinninga í þágu svo fámenns hóps.

Þá er það líka út í hött sem segir í sömu grein að 12. grein skipulags- og byggingarlaga tryggi hagsmuni þeirra sem á þéttbýlissvæðum, m.a. sunnan og vestan lands, búa.`` --- Herra forseti. Þetta er nokkuð athyglisvert vegna þess að ýmsir hafa haldið því fram hér í umræðunni að 12. gr. skipulaganna mundi duga, en hér segir lagaprófessorinn í umhverfisrétti við Háskóla Íslands að þessi grein dugi hvergi. Hann heldur áfram og segir:

[18:00]

,,Þar segir einungis að umhverfisráðherra geti ákveðið að skipa sérstaka nefnd til að gera tillögu að svæðisskipulagi þar sem stefnumörkun í landnotkun varðar verulega hagsmuni þeirra sem búa utan viðkomandi svæðis. Augljóst er að slík nefndarskipan tryggir á engan hátt jafnan rétt allra landsmanna til miðhálendisins, en um það snýst málið.``

Hann leggur hér fram tillögu um að stjórnsýsluforræðið fari til forsrn. Því hefur nú kannski ekki verið ýkja mikið hreyft en ég hygg að sú tillaga sé allrar athygli verð. Hann færir eftirfarandi rök fyrir henni, með leyfi forseta:

,,Þar sem réttarstaða hálendisins er nú orðin að deilumáli með þjóðinni væri æskilegt að setja skýrari ákvæði í þjóðlendufrumvarpið í samræmi við ummælin í greinargerð þess að hálendissvæðin séu sameiginleg auðlind þjóðarinnar. Þar þyrfti að bæta við ákvæði um að öll þau hálendissvæði sem í dag liggja utan staðarmarka sveitarfélaga, eða um 40% landsins, skuli falla undir stjórnsýsluforræði forsætisráðuneytisins. Er það rökrétt og eðlileg tilhögun þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að allt þetta svæði verði eign hins íslenska ríkis frá og með lögfestingu þess.

Slíkt ákvæði mundi tryggja sameiginlegt forræði þjóðarinnar allrar á hálendissvæðunum og útiloka að fáeinir hreppar færu þar með allt skipulagsvald, byggingarmál og umhverfisvernd sem ella yrði niðurstaðan.``

Þarna er hreyft ákveðinni hugmynd sem ekki hefur verið rædd mikið. Ég hygg, herra forseti, miðað við það hve lítið er hlustað á minni hlutann innan þings og þann breiða hóp úti í þjóðfélaginu sem vill frestun á þessu máli, að það þýði e.t.v. ekki mikið að reyna að hreyfa slíkum tillögum þó að þær séu athyglisverðar.

Herra forseti. Eins og ég gat um í ræðu minni fyrr í dag þá hafa ýmis náttúruverndarsamtök og útivistarsamtök mótmælt og beðið um frestun á þessu máli. Meðal annars hefur aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Íslands ályktað um þetta mál. Sá fundur var haldinn 29. apríl og hann varar eindregið við skammsýni og flausturslegri meðferð Alþingis á málefnum miðhálendisins. Þetta er gegnumgangandi í öllum þeim ályktunum og mótmælum sem koma gegn þessu. Fólk skilur ekki af hverju ekki er hægt að fresta svona stórmáli um örfáa mánuði. Það er nú ekki verið að biðja um meira. Mér finnst þeir sem mótmæla þessu nota réttu orðin þegar talað er um flausturslega meðferð Alþingis á málefnum miðhálendisins.

Svona mál eiga auðvitað að vera til umræðu í þinginu, ekki bara á einu þingi heldur fleiri þingum. (Gripið fram í.) Já, allt kjörtímabilið. Stjórnarskrármál eins og þjóðaratkvæðagreiðsla og fleiri mál sem við höfum reynt að mæla fyrir eru látin liggja þing eftir þing af því að það eru stór mál. Málið sem við ræðum hér er auðvitað ekkert minna. Það er hárrétt þegar talað er um flaustursleg vinnubrögð og óskiljanleg, herra forseti, af því að hér er aðeins beðið um frest í nokkra mánuði til að reyna að ná sátt í málinu.

Þegar stór mál eru rædd í þinginu hafa menn alltaf talað fyrir því að afar mikilvægt væri að reyna að ná sátt um svona mál, sátt meðal þingmanna og þjóðarinnar um stærri mál á þinginu sem þó hafa oft verið smærri en þetta, þ.e. hvernig við ætlum að skipuleggja og hagnýta miðhálendið eða eins og sagt er hér, dýrmætustu náttúrugersemi þjóðarinnar.

Frumvörpin þrjú, sveitarstjórnarfrumvarpið, þjóðlendufrumvarpið og frumvarp um eignarhald og nýtingu auðlinda í jörðu munu hafa víðtækari áhrif á aðgengi og afnot almennings að miðhálendinu en áður hefur þekkst. Við eigum eftir að ræða hér tvö frumvörp, ekki síst frv. um eignarhald og nýtingu auðlinda í jörðu. Þar erum við að ræða um enn eina eignatilfærsluna undir stjórn þessara helmingaskiptaflokka, Framsfl. og Sjálfstfl. Það er alltaf verið að færa meiri og meiri fjármuni frá fjöldanum til fárra, alltaf verið að verja sérhagsmuni á kostnað almannahagsmuna. Það eru ær og kýr þessara ríkisstjórnarflokka. Við höfum nefnt mörg dæmi um það. Það er líka það sem er að gerast í þessu miðhálendismáli.

Í ályktun Náttúruverndarsamtaka Íslands segir:

,,Náttúruverndarsamtök Íslands skora á Alþingi að fresta afgreiðslu þessara frumvarpa og gefa þjóðinni tóm til að kynna sér þau betur.``

Mér finnst þetta hógvært, herra forseti, af því að engin rök hafa verið færð fyrir því að svona mikið liggi á.

,,Náttúruverndarsamtök Íslands árétta þá stefnu samtakanna að gera miðhálendi Íslands allt að einum þjóðgarði og að það verði ein skipulagsheild sem lúti einni stjórn, kjörinni af Alþingi, sveitarfélögunum og hagsmunasamtökum almennings.``

Þarna erum við að tala um samtök sem aðallega vinna að verndun náttúrunnar og búa yfir geysilegri þekkingu sem við eigum auðvitað að nýta okkur. Við eigum að hlusta á þær hugmyndir og vinnubrögð sem slík samtök leggja til í þessu máli.

Meðan ég var að hlaupa í ræðustólinn fékk ég í tölvu minni ákall --- ég held að það sé hægt að orða það svo --- frá öðrum sem hugsa um íslenska náttúru. Hérna er ákall, eins og ég vil kalla það, frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Akureyrarsetri. Þetta var ég nú að fá í hendurnar. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ég vil vara við skammsýni og flausturslegri meðferð Alþingis á málefnum miðhálendisins. Fyrir mér er þetta ein dýrmætasta náttúrugersemi þjóðarinnar. Þessi þrjú frumvörp sem liggja fyrir til afgreiðslu nú í vor, sveitarstjórnarfrumvarpið, þjóðlendufrumvarpið og frumvarp um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu munu að mínu mati hafa víðtækari áhrif á aðgengi og afnot almennings af miðhálendinu en áður hefur þekkst. Því skora ég á þig, ágæti þingmaður, að stuðla að því að fresta afgreiðslu þessara frumvarpa og að gefa þjóðinni tóm til að kynna sér þau betur. Kynning hefur verið af skornum skammti á þessum mikilvægu málefnum og ekki er stætt á því að þið þingmenn afgreiðið það í einum grænum.

Jafnframt vil ég leggja það til að gera miðhálendi Íslands allt að einum þjóðgarði og að það verði ein skipulagsheild sem lúti einni stjórn, kjörinni af Alþingi, sveitarfélögum og hagsmunasamtökum almennings.``

Ég vona að sú sem undir þetta ritar, Hulda Steingrímsdóttir líffræðingur, hafi sent þetta til stjórnarliðanna líka, t.d. hv. þm. Kristjáns Pálssonar sem ég virði fyrir það að sitja undir þessari umræðu einn af fáum. Það gæfi honum eitthvað til umhugsunar í þessu máli. Hvað sem hv. þm., herra forseti, Kristjáni Pálssyni finnst, þá finnst mér að þessar ályktanir sem streyma til okkar þessa daga séu þess virði að þeim sé gefinn meiri gaumur en stjórnarliðar greinilega ætla þeim ef marka má viðbrögð þeirra.

Einn er sá maður sem þekkir mjög til þeirra mála sem við fjöllum hér um. Það er Páll Sigurðsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Hann hefur ritað nokkuð um eignar- og umráðarétt yfir hálendinu. Hann hefur ritað um það sem snýr að þjóðlendufrv. sem hann er mjög jákvæður gagnvart. Ég ætla ekki að tefja tíma þingsins með að fara að lesa þá grein yfir. (Gripið fram í: Veitir nokkuð af því?) Eftir að Páll Sigurðsson er búinn að segja sitt álit á þjóðlendufrv. sem hann er almennt ánægður með þá fer hann auðvitað yfir það sem hann hefur áhyggjur af, eins og stór hluti þjóðarinnar. Mér finnst þetta eiga erindi í umræðuna, enda ekki ýkja langt, herra forseti. Ég ætla því fá að lesa þetta. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Tvö atriði í þjóðlendufrumvarpinu eru einkum umdeilanleg: Annars vegar það ákvæði, sem veitir heimild til gjaldtöku vegna afnota af landi, og hins vegar fyrirhuguð hlutdeild sveitarfélaga í stjórnsýslu óbyggðanna. Að margra mati er engan veginn heppilegt að almannaeign, þ.e. viðurkenndar þjóðlendur --- sameign allra Íslendinga --- verði að hluta til ... undir forræði sveitarfélaga, sem geti jafnvel krafist gjalds fyrir nýtingu þeirra í almannaþágu.``

Þetta er það, herra forseti, sem margir hafa áhyggjur af, þ.e. að það séu aðallega þau sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu sem skipuleggja það hvernig öll þjóðin eigi að hagnýta sér miðhálendið og krefjist síðan gjalds fyrir nýtingu þess í almannaþágu.

,,Er æskilegt að þessum atriðum`` --- segir Páll Sigurðsson --- ,,verði breytt í heppilegra horf við meðferð frumvarpsins á Alþingi.

Nú liggur jafnframt fyrir þinginu frumvarp til nýrra sveitarstjórnarlaga, sem hefur m.a. að geyma mjög umdeilt ákvæði, þar sem kveðið er á um að þeim hlutum landsins, þar með töldum jöklum, sem ekki hefur þegar verið skipað innan staðarmarka sveitarfélaga, skuli nú skipað innan hlutaðeigandi sveitarfélaga eftir nánar tilteknum reglum og viðmiðunum. Með öðrum orðum: Hálendi Íslands, með jöklum, söndum og hraunum, skal nú öllu skipt kirfilega í eins konar ,,tertusneiðar``,`` --- Herra forseti. Mörgum verður tíðrætt um tertusneiðar og ræmur, líka prófessorum við háskólann --- ,,fjölmargar og sumar æði þunnar (oft þannig að þær dragast saman eftir því sem innar dregur og enda í einum punkti).`` --- Það er nú gæfulegt, herra forseti, hvernig skipuleggja á hálendið. --- ,,Munu þær gjarna teygjast inn að miðju landsins og mætast þar á ólíklegustu stöðum, t.d. uppi á hájöklum eða á sandauðnum, allt eftir hugdettum þeirra kerfismanna, sem ákvarða skulu landamerkin.`` --- Þetta erum við að bjóða þjóðinni upp á, herra forseti, að skipuleggja hálendið með þessum hætti og að stjórnsýslan á því verði sú sem hér er lýst. --- ,,Nái þessi tillaga fram að ganga er líklegra en ekki að hún muni leiða til ófriðar og ófarnaðar.``

Herra forseti. Það er athyglisvert hvað margir sem þekkja vel til grípa til þessara orða, að skipulagið sem fyrirhugað er og hagnýtingin, muni leiða til mikils ófriðar. Margir nota þetta orð, herra forseti. Það muni sem sagt enginn friður verða um skipulagningu hálendisins. Við erum að biðja um nokkra mánuði til þess að hægt sé að ná sátt um þessa hluti þannig að við þurfum ekki að búa við það hér á komandi árum og áratugum að eilífur ófriður verði um miðhálendið.

Og síðan segir Páll, með leyfi forseta:

[18:15]

,,Mun heppilegra er, að þjóðlendurnar --- sameign allra landsmanna --- sem munu væntanlega ná yfir meginhluta hálendisins, verði til frambúðar undir samræmdri stjórn og í umsjá ríkisstjórnvalda. Má þá engu að síður búa svo um hnúta, að fulltrúar tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga eigi, ásamt öðrum, sæti í ráðgefandi stjórnarnefnd, er fjalli um hálendismálin, þannig að tryggt sé að hagsmunir sveitarfélaga verði ekki fyrir borð bornir.

Kröfur sveitarfélaga þeirra, sem liggja að hálendinu, til almennra stjórnsýsluforráða yfir óbyggðunum, þ.e. yfir þeim ræmum og skikum, sem einstökum sveitarfélögum yrði úthlutað samkvæmt fyrrnefndu ,,tertusneiðafrumvarpi``, eru byggðar á misskilningi forráðamanna þeirra. Að því marki sem kröfur þessar kynnu að verða réttlættar á annað borð hlytu þær að grundvallast á eftirfarandi atriðum:

1. Eignarrétti yfir hálendissvæðunum,

2. nálægð óbyggðasvæðanna við hlutaðeigandi mannabyggðir og

3. langvarandi nýtingu umræddra landsvæða.

Oftast yrði örðugt að sýna fram á að þessar röksemdir geti átt við um þessar óbyggðalendur. Eignarrétti þessara sveitarfélaga eða einstaklinga, sem þar eru búsettir, er vafalaust sjaldnast fyrir að fara, svo sem sýnt var fram á í fyrri grein minni. Mörg svæðin liggja bersýnilega afar langt frá allri byggð og vandfundin eru skynsamleg rök fyrir því að einhæf notkun óbyggðarlands til sauðfjárbeitar (þótt lengi hafi staðið) geti með nokkru móti réttlætt kröfu um stjórnsýsluyfirráð í þeim skilningi, sem hér um ræðir, auk þess sem fjölmörg óbyggðasvæðin, svo sem sanda, hraun og jökla, hafa sveitarfélög vitaskuld aldrei nýtt til eins né neins. Stjórnsýsla yfir hálendinu, sem fullnægja skal nútímalegum kröfum, verður að sjálfsögðu að byggjast á mikilli yfirsýn og víðtækri gæslu almannahagsmuna, sem sveitarfélögunum, mörgum fámennum og lítils megandi, yrði ofraun að rísa undir.``

Þetta er mjög athyglisvert sem prófessorinn segir vegna þess að hæstv. ráðherra hefur iðulega haldið því fram að stjórnsýsluréttur sveitarfélaga næði til landsins nema jöklanna. En prófessorinn segir hér:

,,Mörg svæðin liggja bersýnilega afar langt frá allri byggð og vandfundin eru skynsamleg rök fyrir því að einhæf notkun óbyggðarlands til sauðfjárbeitar (þótt lengi hafi staðið) geti með nokkru móti réttlætt kröfu um stjórnsýsluyfirráð í þeim skilningi, sem hér um ræðir, auk þess`` --- og það er einmitt athyglisvert --- ,,sem fjölmörg óbyggðasvæðin, svo sem sanda, hraun og jökla, hafa sveitarfélög vitaskuld aldrei nýtt til eins né neins.``

Það er auðvitað staðreynd málsins. (Gripið fram í: Nú vill svo vel til að hæstv. umhvrh. er kominn í hús.) Já, ég þakka ábendinguna frá hv. þm., herra forseti. Það er mjög lofsvert af hæstv. ráðherra umhverfismála að hann ætlar að heiðra okkur með nærveru sinni. En vitaskuld, herra forseti, er ekki við mig að sakast þó það geti komið niður á lengd ræðu minnar vegna þess að ég þarf auðvitað að fara yfir nokkra þætti sem ég var búin að fara hér yfir áður sem snúa beinlínis að umhvrh. og þykir mér það miður að þurfa að endurtaka part af ræðu minni en kemst þó ekki hjá því með tilliti til þess að hæstv. umhvrh. er nú fyrst að mæta í þinghúsið.

Engu að síður ætla ég að ljúka þessari ágætu yfirferð hjá prófessornum í lögfræði við Háskóla Íslands en hann segir síðan, herra forseti:

,,Fámennið leiðir m.a. til hættu á hagsmunaárekstrum og vanhæfi, sem torveldar alla raunhæfa stjórnun. Sérstaklega á þetta við um skipulags- og byggingamál hálendisins, þar sem skipuleggjendurnir verða að vera hátt hafnir yfir hrepparíg og úrelt og gamaldags viðhorf til stjórnsýslumarka.

Aukin friðun hálendisins er mjög aðkallandi og verður að ætla að mikill meiri hluti þjóðarinnar hljóti nú að gera þær kröfur til ráðamanna, að þeir móti og beri fram skýrari stefnumið um verndunaraðgerðir en verið hefur og að þeim verði síðan fylgt fram af festu.``

Herra forseti. Hér er kallað eftir verndunaraðgerðum og minni ég þá á þá ágætu grein sem ég vitnaði til fyrr í máli mínu eftir Ingva Þorsteinsson um það sem hann kallar Beitarfriðun á hálendinu fram til ársins 2015. Hér er raunverulega verið að kalla eftir því að mótuð verði og borin fram skýrari stefnumið um verndunaraðgerðir en verið hefur og að þeim verði fylgt fram af festu. Fyrir því höfum við enga tryggingu, herra forseti, ef það á að halda á málum með þeim hætti sem stjórnarliðar ætla að gera og keyra í gegn með góðu eða illu í gegnum þingið, m.a. með stuðningi hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar sem nú gengur í salinn.

Prófessorinn heldur áfram og segir:

,,Hugmyndir um einn þjóðgarð með ríkri friðun, sem nái yfir allt hálendið eða mestan hluta þess, eru því miður vart raunhæfar m.a. sökum þess að vissum hlutum hálendisins hefur nú þegar verið spillt í þeim mæli að svo víðáttumikill þjóðgarður gæti ekki náð alþjóðlegri viðurkenningu. Á alþjóðavettvangi eru gerðar mjög strangar kröfur til ,,hreinleika`` þess lands --- ósnortinna víðerna --- sem staðið geti undir þjóðgarðsnafni. Heppilegra er því að miða við afmarkaðri og minni svæði undir þá þjóðgarða, sem að sjálfsögðu verður að stofna á hálendinu innan tíðar, og jafnframt að ákvarða annars konar friðlönd á afmörkuðum svæðum utan þjóðgarðanna, þar sem ríki mismunandi stig friðunar. Er almannaforsjá yfir hálendinu --- þessari ríkulegu auðlind --- tvímælalaust nauðsynleg forsenda samræmdra verndunaraðgerða, er að gagni koma, sem og nýtingar, sem miðist við þjóðarheill.``

Eins og heyra má, herra forseti, af lestri mínum upp úr ágætri grein Páls Sigurðssonar átti hún virkilega erindi inn í þessa umræðu. Ég vænti þess að þetta hafi náð eyrum a.m.k. einhverra hv. þm.

Herra forseti. Ég sé að hæstv. umhvrh. gengur í salinn og hefði ég gjarnan viljað að hann hefði komið fyrr undir máli mínu, eins og ég sagði áðan, af því ég vil síður vera að tefja tíma þingsins, þá hefði ég viljað að hann hefði komið hér fyrr þannig að ég þyrfti ekki að endurtaka mál mitt sem ég verð þó að gera að nokkru leyti. Ég vænti þess að ég þurfi ekki þó, herra forseti, að lesa upp þær ályktanir sem ég hef farið í gegnum frá ýmsum náttúruverndarsamtökum, ég er ekki að tala um frá fundinum í gær heldur frá náttúruverndarsamtökum og ferðasamtökum sem hafa komið áður og verð þá að treysta á það og vona að hæstv. umhvrh. hafi kynnt sér þær.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort að hann hafi sömu skoðun á þeirri ályktun sem fram kom frá forsvarsmönnum samtaka útivistar- og náttúrufræðifélaga sem héldu mjög fjölmennan fund á Hótel Sögu í gær og félagar í þessum útivistar- og náttúrufræðifélögum skipta þúsundum. Hér er um að ræða níu útivistar- og náttúrufræðifélög sem láta sig málefni miðhálendisins miklu skipta. Þarna er um að ræða fólk sem þekkir gjörla til og ég tel að okkur beri skylda til þess að hlýða á það sem þessir aðilar hafa þarna fram að færa.

Ég hef ekki heyrt viðbrögð hæstv. umhvrh. við ályktun þessara samtaka en ekki stóð á viðbrögðum hæstv. félmrh. Hann var fljótur að afgreiða þessi níu samtök og gerði það bara létt. Hann þurfti lítið að liggja yfir því hvort ætti að hlusta á þennan að fjölmenna hóp sem lætur sig þessi mál mikið varða. Hæstv. félmrh. sagði að þessi samtök væru að gera úlfalda úr mýflugu.

Nú vil ég spyrja hæstv. umhvrh. að því hvort að hann ætli að skauta eins létt yfir álit þessara útivistar- og ferðasamtaka og taka undir með hæstv. félmrh. Páli Péturssyni um það hvort að þessi samtök séu að gera úlfalda úr mýflugu.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Getur hann lýst því úr ræðustól, þannig að fullnægjandi sé, hvernig þessi samtök, fleiri samtök --- ég er nú kannski að spyrja um þessi --- geti haft eðlileg áhrif á það hvernig við nýtum hálendið? Mér sýnist að frv. sem hæstv. ráðherra neitar að mæla fyrir, sem hann flytur hér inn í þingið sjálfur, þó að stjórnarandstaðan hafi lagt honum lið í því að fá það hér á dagskrá, tryggi engan veginn að þeir sem að þessu máli eigi að koma geri það eðlilega. (Gripið fram í.) Nei, herra forseti, við umhvrh. erum ekki sammála um þessa hluti og hæstv. ráðherra er kannski að fara að ýja að því sem hæstv. forsrh. sagði að það eigi að keyra málið í gegn með góðu eða illu. Stjórnarflokkarnir hafi meiri hlutann og geti þess vegna keyrt málið í gegn með góðu eða illu.

Ég spyr hæstv. umhvrh. að því hvort Framsfl. hafi boðað það fyrir síðustu kosningar að hann ætlaði að færa miðhálendið eða gera þannig úr garði hagnýtingu og notkun á miðhálendinu að það væru fyrst og fremst og aðallega þau sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu sem mundu ráða skipulagningu hálendisins. Þetta er auðvitað stórmál sem skiptir stóru máli í framtíðinni fyrir komandi kynslóðir.

Ég man ekki eftir að Framsfl. hafi boðað að það ætti að færa miðhálendið til ráðstöfunar og ákvörðunar hvernig skipulagt sé til örfárra sveitarfélaga sem liggja að því. Við höfum farið yfir það í dag, þegar hæstv. ráðherra var ekki við þessa umræðu að við mörg hver viljum fá meiri hlutann til þess að fallast á það ákall sem er úti í þjóðfélaginu að fresta þessu máli um nokkra mánuði. Við erum sannfærð um að ef þetta mál færi nú í þjóðaratkvæðagreiðslu mundi því verða hafnað. Mikill meiri hluti þjóðarinnar mundi hafna því fyrirkomulagi sem stjórnarliðar ætla að hafa að því er varðar skipulagningu á miðhálendinu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að einu í viðbót, herra forseti: Hverju breytir það fyrir framgang málsins að ákvæði til bráðabirgða og 1. gr. frv. yrði frestað fram á haust en að sátt næðist að öðru leyti milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að afgreiða önnur ákvæði í frv. félmrh.? Getur hæstv. umhvrh. upplýst mig um það? Ég spyr um það, herra forseti, og vænti þess að fá svar hjá hæstv. umhvrh. Hverju breytir það? Er ekki meira virði að fresta málinu til haustsins og nýta sumarið til þess að ná breiðari sátt um málið?

Getur hæstv. ráðherra fært fram einhver skynsamleg rök fyrir því af hverju liggi svona á að ná fram þessum tveimur ákvæðum, jafnvel þó ég sé ekki sátt við þau? Ef hann getur fært fram einhver rök fyrir því að það sé brýnt að samþykkja þessi tvö ákvæði og þau geti ekki beðið fram á haust þá bið ég hæstv. umhvrh., herra forseti, að færa þau fram hér í þessum ræðustól. Það er mjög brýnt, ekki bara fyrir okkur í minni hlutanum, hæstv. umhvrh. er örugglega alveg sama um það heldur að þau fjölmennu samtök úti í þjóðfélaginu fái a.m.k. einhver rök fyrir því af hverju ekki má fresta þessum ákvæðum til haustsins.

Ég minni hæstv. ráðherra á að samvinnunefndin, sem á að friða einhverja stjórnarliða, á ekki að taka til starfa fyrr en um áramótin, 1. jan. 1999. Af hverju liggur þá svona ósköp mikið á?

[18:30]

Ég spyr ráðherrann hvort hann geti fallist á það sem ég taldi fyrr í dag vera hugsanlega skýringu á því að svo mikið lægi á, þ.e. svo að miðhálendisnefndin gæti lokið sínum störfum og hefði svigrúm fram undir næstu áramót til að ljúka verki sínu. Það yrði afgreitt til skipulagsins og síðan til umhvrh. sem mundi ganga frá svæðisskipulagi miðhálendisins áður en samvinnunefndin kæmi að verkinu 1. jan. 1998.

Ég held, herra forseti, ef ráðherrann hefur hlustað á mál mitt, að það mundi róa marga ef ráðherrann lýsti því yfir að skýringin væri ekki sú og hann mundi aldrei undirrita svæðisskipulag á miðhálendinu fyrr en samvinnunefndin, sem taka á til starfa um næstu áramót nái frv. fram að ganga, hefði haft eðlilega aðkomu að málinu. (Gripið fram í: Það róar engan. Ég er búinn að segja það tvisvar sinnum í ræðustól.)

Herra forseti. Út af fyrir sig er gott ef það liggur alveg skýrt og klárt fyrir að hæstv. umhvrh. ætli ekki að undirrita svæðisskipulag á miðhálendinu á þessu ári. Hann mun gefa samvinnunefndinni sem tekur til starfa, ef frv. ráðherrans nær fram að ganga, tækifæri til að koma að málinu. En þá spyr ég ráðherrann að því vegna þess að það er mikilvægt að fá það fram: Er aðkoma samvinnunefndarinnar raunverulega --- er það fastsett og óumbreytanlegt af hálfu ráðherrans --- sú að hún sé aðeins umsagnaraðili? Einhver samráðsaðili? Er það ákveðið og ekki hægt að breyta því sem þar stendur? Í frv. stendur:

,,Nefndinni er ekki ætlað að taka þá vinnu til endurskoðunar sem þegar hefur verið unnin, aðeins gefa umsögn um hana.``

Segjum svo að þeir fjórir nýju aðilar sem koma að þessu máli frá Reykjavík, Reykjanesi og Vestfjörðum, séu óánægðir með þær tillögur sem fyrir liggja og gefi umsögn um að þessu þurfi að breyta verulega og endurskoða skipulagið í veigamiklum dráttum. Hvað þýðir þetta þá? Hafa þeir aðeins umsagnar- eða samráðsrétt? Þýðir það að málið verði þá tekið upp? Er það raunverulega til nokkurs þegar vægi samvinnunefndarinnar eða fulltrúa samvinnunefndarinnar er hugsanlega slíkt að tólf fulltrúar sveitarfélaga sem liggja að miðhálendinu af átján eru í nefndinni, jafnvel sömu fulltrúar og hafa afgreitt tillögur á þessu ári? Er þá nokkur von til þess að þessir tveir frá Reykjavík, eini frá Reykjanesi og sá eini frá Vestfjörðum geti haft nokkuð um það að segja hvernig skipulaginu verði háttað? Er bara ekki hægt að hunsa afstöðu þeirra í málinu? Mér finnst frv. benda til þess.

Nú liggur þetta klárt og kvitt fyrir, að svæðisskipulagið verður ekki staðfest en þá bið ég hæstv. ráðherra að gera okkur betri grein fyrir því hvernig aðkoma þessara fjögurra fulltrúa verði að þessu máli. Er það aðeins samráðsréttur, enginn ákvörðunarréttur? Og jafnvel þó það væri ákvörðunarréttur, herra forseti, er þá ekki mjög líklegt að þessir tólf fulltrúar gætu borið þessa fjóra ofurliði? Kemur ekki til greina af hálfu umhvrh. að breyta samsetningu nefndarinnar þannig að hún endurspegli frekar hlut þeirra 95% þjóðarinnar sem litla eða enga aðkomu hafa að málinu?

Þetta vildi ég nú sagt hafa, herra forseti, við hæstv. umhvrh., þó að ég geri mér ekki miklar vonir um að það hafi mikið að segja, nema eitthvað nýtt komi frá hæstv. ráðherra í þessu máli.

Í fyrri ræðu minni í síðustu viku fór ég einmitt mjög ítarlega yfir --- og skal ekki gera aftur, herra forseti, --- þær fjölmörgu athugasemdir sem finna má á um 600 blaðsíðum, athugasemdir við tillögur miðhálendisnefndarinnar. Þar var ekki af smáu að taka, herra forseti. Athugasemdirnar voru bæði út frá sjónarmiðum þeirra sem huga að hagnýtingu á miðhálendinu og þeirra sem er annt um verndarþáttinn. Þar kom bersýnilega fram að menn telja að það skorti á það jafnvægi sem þarf milli verndar og hagnýtingar á miðhálendinu.

Ég held að við munum á næstu dögum heyra miklu meira frá umhverfis- og ferðasamtökum en við höfum kannski gert, a.m.k. meðan mál þetta var til 1. umr. Það er greinilega að breytast núna. Eftir að brtt. kom fram, kom fram hjá framkvæmdastjóra Ferðafélagsins í Morgunblaðinu 30. apríl, að hann væri ósáttur við frv., með leyfi forseta:

,,Framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands telur frumvarp umhverfisráðherra um breytingu á skipulags- og byggingarlögum ekki ganga nógu langt og því muni sveitarfélögin sem land eiga að hálendinu enn ráða því. ,,Ítök þeirra eru mun meiri en ítök þéttbýlisbúa geta nokkurn tímann orðið,`` sagði Kristján M. Baldursson, framkvæmdastjóri Ferðafélagsins.

,,Þessi sveitarfélög eru í miklum meiri hluta þó að þéttbýlisbúar fái tvo fulltrúa af 18,`` sagði Kristján enn fremur og telur hann að ekki hafi með því tekist að draga úr áhrifum sveitarfélaganna og því sé málið í slæmri stöðu enn þá. ,,Hálendið ætti að vera eitt stjórnsýslu- og skipulagssvæði, það er álit okkar og annarra útivistarsamtaka sem hafa lýst áliti sínu. Það verður að tryggja bæði rétt þeirra sem hafa aðstöðu og atvinnustarfsemi á hálendinu og útivistarfólks.``

Kristján sagði skynsamlegast í stöðunni að fresta afgreiðslu frumvarps til sveitarstjórnarlaga og geyma þá umræðu til hausts ásamt frumvarpi umhverfisráðherra. Hann kvað líklegt að Ferðafélagið og önnur svipuð samtök mundu gefa sameiginlegt álit á stöðu málanna.``

Í þessari sömu frétt í Morgunblaðinu er enn vitnað í hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson, þingmann Framsfl., sem fylgt hefur sannfæringu sinni frá upphafi og væntanlega til loka þessa máls. Hann segir og þá er hann að tala um málamiðlunartillögu hæstv. umhvrh.:

,,Í fyrsta lagi er ekki gætt jafnvægis eða jafnræðis milli fulltrúa í samvinnunefndinni um skipulag hálendisins. Gert er ráð fyrir 12 fulltrúum sveitarfélaga með land að hálendinu en mun færri frá öðrum,`` sagði Ólafur Örn Haraldsson, þingmaður Framsóknarflokksins, aðspurður hvað hann sæi helst að frumvarpi umhverfisráðherra um breytingu á skipulags- og byggingarlögum sem hann kynnti þingmönnum á þriðjudag.

,,Í öðru lagi eru þessir 12 fulltrúar aðeins frá sveitarfélögum sem hafa land að hálendinu en ekki héraðsnefndum eins og áður var. Þetta þýðir að sveitarfélög sem eiga afrétti á hálendinu eiga ekki lengur aðild að skipulagi miðhálendisins eins og verið hefur þegar allir í viðkomandi héruðum eiga aðild. Með frumvarpinu er þetta aðeins bundið sveitarfélögunum sem lönd eiga að hálendinu.````

Auðvitað er það svo, herra forseti, að þunginn og mótmælin gegn þeim vinnubrögðum sem ríkisstjórnarflokkarnir ætla að viðhafa í þessu máli vex. Auðvitað er það eðlilegt þegar litið er til þess hvernig stjórnarflokkarnir ætla að keyra þetta mál í gegnum þingið.

Mér hefur orðið tíðrætt um náttúruverndarsamtök og ferðasamtök sem hafa látið hátt í sér heyra síðustu dagana en það eru fleiri sem láta til sín heyra og kveða upp úr um að mikil vinna sé óunnin og þetta mál sé þannig vaxið að það sé ekki tilbúið til afgreiðslu Alþingis. Því til stuðnings vitna ég í orkumálastjóra, Þorkel Helgason, en hann segir nú nýverið í DV, miðvikudaginn 22. apríl, þar sem hann talar um skipulagsmál á hálendinu:

,,Mikil rannsóknarvinna er eftir á hálendinu og undarlegir hagsmunaárekstrar geta orðið verði 40 litlum sveitarhreppum falin stjórn skipulagsmála á hálendinu,`` segir Þorkell Helgason orkumálastjóri.

Hann er þó ekki meðal þeirra 90 þekktu Íslendinga sem skrifa undir áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar um að frumvörp um skipulagsmál og stjórnsýslu á hálendinu verði ekki afgreidd á þessu þingi svo að meiri tími gefist til þess að ræða þau. Í þeim hópi eru meðal annars tveir umhverfisráðherrar og margir ferðamálafrömuðir.

,,Við hjá Orkustofnun höfum látið þá skoðun í ljós að hæpið væri að skipta stjórnsýslu hálendisins upp á þá vegu sem nú er gert ráð fyrir. Við leyfum okkur að benda á vandamálin sem slíkri skipan kynnu að fylgja. Þar má nefna að það er erfitt að taka heildstætt á skipulagsmálum og það kynnu að koma upp undarlegir hagsmunaárekstrar, til dæmis hvað varðar byggingu virkjana. Með þessari skipan mála er sérstaða hálendisins í skipulagsmálum úr sögunni, það hverfur til einstakra sveitarfélaga``.

Þorkell tekur dæmi af því að virkjanir gætu lent innan fleiri en eins sveitarfélags. Í slíkum tilvikum mundu sveitarfélög ýmist fá til sín stöðvarbyggingar sem væru greiddur væri fasteignaskattur af, eða fá til sín stíflur og háspennulínur með tilheyrandi umhverfisröskun og kostnaði. Af slíkum mannvirkjum fá sveitarfélögin engar tekjur og það má ímynda sér að þarna verði hagsmunaárekstrar.``

Herra forseti. Aftur og aftur eru gægjast í gegnum þessar umsagnir spár manna, friðsemdarmanna eins og t.d. orkumálastjóra, um að eintómur ófriður verði í kringum þessar tillögur og þá leið sem ríkisstjórnin vill fara. Ég hygg að það sé rétt að hér sé verið að hasla völl fyrir mikinn ófrið í kringum þetta mál.

Í sömu frétt segir síðan:

,,Þorkell segir þekkingu skorta til að unnt sé nú að fullskipuleggja hálendið.

,,Ríkisstjórnin hefur markað stefnu um að yfirfara skuli alla virkjunarkosti með umhverfissjónarmið í huga. Þessi vinna er ekki farin af stað en hún er ein af forsendum þess að unnt sé að taka ákvarðanir um framtíðarnot og þá um leið framtíðarskipulag miðhálendisins. Erfitt er nú að segja hvað þetta er mikil vinna, en t.d. Norðmenn hafa eytt hundruðum ársverka í slíkan undirbúning. Við höfum lagt til að staðfestingu á skipulagi miðhálendisins verði frestað meðan þessi vinna fer fram. M.a. er ekki tímabært að afhenda stjórnsýslu og skipulagsmál fámennum hreppum landsins.``

Hér vildi ég að einnig kæmu inn sjónarmið þeirra sem hugsa um nýtingu og atvinnuuppbyggingu þannig að við séum ekki bara að tala um þá sem fylla hóp útivistarmanna eða ferðafólks.

[18:45]

Sá maður sem mjög hefur látið til sín taka í þessu máli og skrifað mjög margar greinar og komið á fundi bæði allshn. og félmn., bæði varðandi þjóðlendufrv. og sveitarstjórnarfrv., er Trausti Valsson skipulagsfræðingur. Hann skrifar greina í sunnudagsblað Morgunblaðsins fyrir tveimur dögum sem hann kallar ,,Ákall``. Ég held að þessi grein sýni að margir ætla sér að reyna allt til síðustu stundar að hafa áhrif á það að ríkisstjórnin komi til móts við þessi réttmætu sjónarmið sem hafa verið borin þarna fram af fjölda manns innan þings og utan. Skipulagsfræðingurinn Trausti Valsson segir svo, með leyfi forseta:

,,Miðhálendið. Ákall. Síðastliðinn þriðjudag kom frumvarp ríkisstjórnarinnar til sveitarstjórnarlaga til annarrar umræðu á Alþingi.``

Herra forseti. Það er mjög athyglisvert að þeir sem fylgjast mjög grannt með því sem er að gerast í þessu máli innan þings sem eru menn sem hafa mikla þekkingu á þessu máli, hafa látið til sín taka og heyra, bæði þegar frv. var lagt fram til 1. umr. eins og það var í þeim búningi, og eins með þeim brtt. sem orðið hafa og með því frv. sem hefur verið lagt fram til kynningar af hæstv. umhvrh. Það er alveg ljóst að þær brtt., boðað frv. umhvrh. í haust, virðast litlu breyta um afstöðu manna til þeirra leiða sem ríkisstjórnin ætlar að knýja í gegn. En Trausti Valsson segir svo, með leyfi forseta:

,,Í umræðunni í þinginu hafa gerst stórtíðindi. Alþýðuflokkurinn snerist skörulega til varnar fyrir því sjónarmiði að allir landsmenn ættu að hafa álíka rétt til ákvarðanatöku um framtíð miðhálendisins. Nokkru eftir að umræðan var hafin lagði umhverfisráðherra fram frumvarp til breytinga á skipulagslögum þar sem lagt er til að miðhálendið verði eitt skipulagssvæði en þó aðeins á svæðisskipulagsstigi. Frumvarp ráðherrans gengur út frá því líkt og frumvarp félagsmálaráðherra að miðhálendinu sé skipt upp á milli hinna 42 sveitarfélaga sem liggja að hálendinu og þar sem búa um 5% þjóðarinnar. Þessi sveitarfélög skuli hafa 12 fulltrúa í skipulagsnefnd svæðisins en afgangur landsmanna, um 95% þjóðarinnar, 4 fulltrúa. Þetta hleypti illu blóði í marga þingmenn og hófust nú umræður þar sem berlega kom í ljós að margir höfðu ekki áttað sig á hversu mikið stórmál tillaga félagsmálaráðherra um uppskiptingu á miðhálendinu milli aðliggjandi sveitahreppa er. Í gildandi sveitarstjórnarlögum segir í 1. gr. að byggðin skiptist í sveitarfélög. Í nýja frumvarpinu er búið að bæta um betur því þar er þetta nú orðað þannig að landið skiptist í sveitarfélög. Þetta virðist sakleysislegt, en felur í sér ef samþykkt verður að öllu miðhálendinu, þar með talið jöklum, verði skipt upp milli aðliggjandi sveitarfélaga. Félagsmálaráðherra bendir gjarnan á 3. mgr. 3. gr. núgildandi sveitarstjórnarlaga, þar sem segir að afréttir tilheyri sveitarfélögum. Augljóst er, vegna þess að afréttir tilheyra oft mörgum sveitarfélögum að þetta ákvæði er viðbragð við þeirri þörf að nauðsynlegu eftirliti sé komið á á þessum afréttarsvæðum, en þýðir ekki að afréttarlandið ætti að bætast við eitt af þeim sveitarfélögum sem eiga hlut í viðkomandi afrétti. Fyrsta greinin í núgildandi lögum sýnir meginskilning laganna að það er aðeins byggðin sem skiptist í sveitarfélög.

Nú liggur einnig fyrir þinginu frumvarp um þjóðlendur sem segir að land, þar sem ekki verði sannaður einkaeignarréttur á, verði sameign þjóðarinnar sem þýðir að nær allt miðhálendið verður þjóðareign. Í ljósi þess að allir þingflokkarnir hafa lýst stuðningi við það frumvarp kemur það mjög spánskt fyrir sjónir að þessari þjóðareign eigi stjórnsýslulega að skipta upp á milli hreppa sem liggja að miðhálendinu, með öllum þeim réttindum til skipulags (annars en í svæðisskipulagi) sem er t.d. byggingarréttur, reglugerðarvald, lögregluvald og allar tekjur af t.d. orkumannvirkjum á miðhálendinu. Spyrja má hvort hér sé ekki komin hliðstæða við eign þjóðarinnar á sjávarauðlindinni en í lögum segir að hún sé sameign þjóðarinnar en síðan ákveði löggjafinn að aðeins lítill hluti þjóðarinnar fái hana til yfirráða sem nánast jafngildir eignarhaldi. Það sama er nú að gerast á Alþingi er varðar þjóðareignina miðhálendið, kannski strax með samþykkt sveitarstjórnarlaganna eftir helgina.``

Herra forseti. Þetta er ekki fyrsti málsmetandi maðurinn sem tjáir sig um miðhálendið og hvernig á að fara með það og sem líkir því við sameign þjóðarinnar að því er varðar auðlindir í hafinu. Þessu er oft og iðulega líkt saman, hvernig farið hefur verið með sameign þjóðarinnar, auðlindina í hafinu og hvaða eignatilfærsla hefur orðið til fárra enda þótt það standi í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða að nytjastofnanar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Trausti Valsson skipulagsfræðingur spyr líka um það: Getur verið að það hafi þá enga raunverulega merkingu sem stendur í þjóðlendufrv. forsrh. í 2. gr.:

,,Íslenska ríkið er eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti.``

Jafnvel þó að þetta sé kirfilega neglt niður í lögum, annars vegar um þjóðlendur og hins vegar um stjórn fiskveiða, að auðlindir í hafinu og á miðhálendinu sé eign þjóðarinnar, fer þá í ókominni framtíð eins um miðhálendið í svipuðum skilningi og gerst hefur varðandi auðlindina í hafinu? Verða þessi náttúruauðæfi, þessi náttúruperla, raunverulega eign örfárra aðila sem sjá um skipulagningu á þessu, hvernig þessu verður háttað og selji öðrum aðgang inn á þetta svæði?

Fjölmargar greinar hafa verið skrifaðar um þetta mál og ég er aðeins búin að fara yfir brot af þeim þar sem þessu er líkt saman. Ég hef spurt mig, herra forseti, hvort að það sé tilviljun þegar þetta á sér stað, annars vegar varðandi auðlindina 1984, og hins vegar núna varðandi miðhálendið, að þessir helmingaskiptaflokkar, Sjálfstfl. og Framsfl. séu þá í stjórn. Er það tilviljun, herra forseti? Maður veltir því a.m.k. fyrir sér hvort að svo sé. Þarna er þetta greinilega borið saman af skipulagsfræðingnum Trausta Valssyni sem segir í lok greinarinnar:

,,Það sama er nú að gerast á Alþingi er varðar þjóðareignina miðhálendið, kannski strax með samþykkt sveitarstjórnarlaganna eftir helgina. Hér er um eitt af stóru málunum í íslenskri sögu að ræða, í raun Landnámabók, seinna bindi. Í ljósi þeirrar hörðu umræðu sem komin er upp í þjóðfélaginu verður því ekki trúað, að þetta frumvarp verði þvingað fram strax eftir helgina. Hér er augljóslega um það stórt mál að ræða að þjóðin á kröfu til þess að umræða um það verði opnuð meðal þjóðarinnar allrar og staðfestingu sveitarstjórnarfrumvarpsins þar með frestað til haustsins.``

Hógværari getur nú krafan ekki verið, herra forseti, sem er hér á ferðinni frá Trausta Valssyni og kemur fyrir aftur og aftur og er gegnumgangandi í þessum umsögnum. Beðið er um aðeins nokkurra mánaða frestun á því að gengið verði frá þessum málum. Það hefur verið kallað eftir því við hæstv. umhrh., ég hef gert það, að hann færi rök fyrir því hvers vegna ekki er hægt að fresta þessu máli til haustsins.

Ég hef farið yfir ýmis álit, umsagnir og greinar ýmissa þeirra sem vel þekkja til í þessum málum sem hér er um vélað og fjallað. Reyndar er það svo að það eru örfáar greinar eftir sem ég hefði gjarnan viljað, herra forseti, fá að grípa til. Nefni ég þar t.d. grein eftir fulltrúa í Ferðamálaráði Íslands, Þórhall Jósepsson, sem ég las með nokkurri athygli hvernig tæki á þessu máli. Mér sýnist að hann taki svipað á málum og þeir aðilar sem fjalla um ferðaþjónustuna og útivistina. Þar kemur fram:

,,Ferðamálaráð telur að tillaga að skipulagi miðhálendis Íslands sem kynnt hefur verið í greinargerðinni ,,Miðhálendi --­ Ísland. Svæðisskipulag 2015`` taki ekki tillit til stefnumótunar í ferðamálum`` --- þetta kemur iðulega fram, herra forseti --- ,,sem unnið hefur verið að og ólokið er. Því leggur ráðið þunga áherslu á að afgreiðslu tillögunnar verði frestað uns hægt er að taka á málinu með tilliti til hagsmuna ferðaþjónustunnar.``

Það er mjög mikilvægt að horft sé til ferðaþjónustunnar í þessu sambandi. Ég hygg að ef verið er að tala um einhvern hefðarrétt að þá séu ekki síst ferðamannasamtökin og ferðaþjónustan sem hafa nýtt sé miðhálendið til útivistar og þekki það vel og sé sanngjarnt og eðlilegt að það sé skoðað að taka tillit til hagsmuna ferðaþjónustunnar, eins og Þórhallur Jósepsson, fulltrúi í Ferðamálaráði Íslands, fer fram á.

Út af fyrir sig hefði verið fróðlegt, herra forseti, þar sem þetta kemur aftur og aftur fram varðandi Ferðamálaráð og ferðamálahópa að hæstv. samgrh. hefði eitthvað tjáð sig í þessari umræðu. Ég veit ekki til þess að hann hafi gert það. En það kemur fram aftur og aftur að ekkert tillit hafi verið tekið til ferðamálayfirvalda og ferðamálaráða. Hæstv. samgrh. ber ábyrgð á þeim málaflokki og spurning er hvort hann láti sér það á sama standa að ekki sé tekið tillit til sjónarmiða þeirra sem skipuleggja ferðamálin hér á landi í skipulagningu á hálendinu.

Þetta sem ég var að lesa, herra forseti, er fyrri hluti ályktunar sem samþykkt var samhljóða á fundi í Ferðamálaráði 15. sept. sl.:

,,Fréttir herma að nú hafi frestur til að koma athugasemdum á framfæri verið lengdur um tvo mánuði.`` --- Þetta var í októbermánuði.

Ég sé ekki, herra forseti, að þó að frv. hafi tekið þessum breytingum að það hafi nokkuð komið frá Ferðamálaráði sem breyti fyrri afstöðu þeirra til þessa máls.

Síðan gera þeir athugasemdir og benda á skipan nefndar og segja:

,,Athyglisverðast við þá nefnd er samsetning hennar en samkvæmt henni er ætlunin að þau sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu skipti því á milli sín með framlengingu stjórnsýslumarka sinna inn að miðju. Þessi mörk eru ekki til í dag og þarf því að ákveða þau með lögum ef tillagan á að verða framkvæmd. Þá verður miðhálendinu skipt í 40--50 skipulagssvæði.`` --- Sumir kalla þetta tertusneiðar, herra forseti.

,,Enginn fulltrúi er í nefndinni frá öðrum byggðum, þar á meðal höfuðborgarsvæðinu og Vestfjörðum. 96% þjóðarinnar eiga ekki, samkvæmt nefndarskipaninni og samkvæmt tillögum nefndarinnar, annan rétt en þann að koma á framfæri athugasemdum við auglýstar tillögur og eiga ekki að koma að ákvörðunum um nýtingu miðhálendisins í framtíðinni.``

Herra forseti. Mér sýnist að þrátt fyrir þá samvinnunefnd sem boðuð er á hausti komanda fái fulltrúar á suðvesturhorninu litla aðra aðkomu að því sem hér er verið að lýsa, þ.e. að koma á framfæri athugasemdum við tillögur sem liggja fyrir eins og þeir geta raunverulega í dag varðandi svæðisskipulagstillöguna sem hefur legið frammi.

Síðan segir:

,,Heita má, að algjörlega skorti á, að leitað hafi verið til ferðaþjónustunnar við gerð skipulagstillögunnar og verulega er ábótavant vinnubrögðum við það litla sem var, t.d. notaðar gamlar upplýsingar þegar nýjar voru fyrirliggjandi. Ekki hafa komið fram upplýsingar um nafngreinda aðila innan ferðaþjónustu, sem leitað hafi verið til um samráð eða samvinnu af einhverju tagi á meðan tillagan var í mótun.

Við blasir, að mikil óánægja verður innan ferðaþjónustunnar með skipulag miðhálendisins fái tillagan gildi og augljóst að miklir hagsmunaárekstrar og átök í framhaldi af þeim verða. Skýrt dæmi um þetta hefur þegar komið fram þar sem eru áform um uppbyggingu á Hveravöllum. Það er aðeins forsmekkur þess sem koma skal.``

[19:00]

Herra forseti. Aftur förum við inn í það sem mér verður tíðrætt um, þ.e. ófriðinn sem menn sjá fyrir sér að muni skapast hér í framtíðinni ef við förum þá leið sem ríkisstjórnin vill. Ég vek athygli á því að aftur og aftur skýtur þetta upp kollinum þannig að því sé greinilega haldið til haga í þessari umræðu að ekki hafi skort á að stjórnarflokkarnir hafi verið aðvaraðir, að þeir hafi ekki verið aðvaraðir um það í hvað stefndi ef tillögur þeirra næðu fram að ganga. Ég held að það verði að liggja skýrt fyrir þannig að það komi engum á óvart þegar ófriðurinn mikli skellur á sem boðaður er hér í hverri umsögninni á fætur annarri, í hverri greininni á fætur annarri, í hverri ályktuninni á fætur annarri. En allt láta stjórnarliðar þetta sem vind um eyru þjóta. Þeir eru eins og Palli litli í bókinni Palli var einn í heiminum. Hét hún það ekki? Þeir þurfa ekki að hugsa um neinn sem í kringum þá er, engar álytkanir og ekki neitt. Ekki er litið til neinna sjónarmiða eða skynsamlegra ábendinga sem fram hafa komið í hverri ályktuninni á fætur annarri og hverri greininni á fætur annarri.

Herra forseti. Mér fannst leiðari DV, 30. apríl, mjög athyglisverður. Hann var skrifaður af Jónasi Kristjánssyni sem kallar hann: ,,Hrepparenningar``. Það er nú bara alveg ágætisnafn á þetta. Sumir kalla þetta kökusneiðar. Hrepparenningar eru nafn sem mér finnst mjög gott og gilt að því er varðar þá leið sem hér á að fara. Þar er umhvrh. aðeins sendur tónninn og alveg með réttu vegna þess að þetta frv. hans er kallað ,,skyndifrumvarp``. (Umhvrh.: Ég er nú ekki óvanur því að fá sendingar úr þeirri átt.) Ekki óvanur því að fá sendingar úr þeirri átt. Ef það væri nú bara úr þessari átt, frá ritstjóra DV, Jónasi Kristjánssyni, þá væri þetta nú kannski í lagi. (Umhvrh.: Ég sagði bara að ég hefði reynsluna af því.) En þegar hæstv. umhvrh. fær alvarlegar athugasemdir frá ýmsum stofnunum sem m.a. heyra undir hann sjálfan og hann ætlar ekki að hlusta á þær, lætur þær sem vind um eyru þjóta, það finnst mér öllu alvarlegra. En hitt er annað mál að ég fer ekkert ofan af því að þessi leiðari Jónasar Kristjánssonar um hrepparenningana finnst mér mjög athyglisverður.

Hann segir að umhvrh. hafi fengið snert af góðvild og lagt fram skyndifrv. um að þéttbýlið og Vestfirðir fái einn sjötugasta hluta af áhrifarétti dreifbýlisins á skipulag hálendisins. Er þetta ekki sannleikurinn, herra forseti? Er þetta nú ekki bara sannleikurinn?

,,Áður hafði verið gert ráð fyrir að dreifbýlið eitt réði öllu um þetta skipulag. Samkvæmt áður fram komnu frumvarpi félmrh. til sveitarstjórnarlaga á öll stjórnsýsla og skipulag hálendisins að vera í höndum 40 aðliggjandi sveitarfélaga sem hvert um sig á að stjórna einum hrepparenningi án tillits til landfræðilegra aðstæðna.``

Ég sé að hæstv. umhvrh. kannast við þennan leiðara. (Umhvrh.: Nei, ég var nú ekki búinn að lesa hann. En það er ágætt að heyra þetta.) Já. Ef hæstv. ráðherra hefur ekki haft tíma til þess að þá held ég að það sé mikið gagn í því, herra forseti, að hæstv. umhvrh. hlustaði á þennan leiðara. Þar segir enn fremur:

,,Samkvæmt nýju viðbótarfrv. umhvrh. má fjalla um skipulag hálendisins í nefnd þar sem sveitarfélögin 40 með 4% landsmanna hafa 12 fulltrúa, en hin sveitarfélögin með samtals 96% landsmanna hafa fjóra fulltrúa. Misvægi réttindanna er sjötugfalt.

Þessar ruður á borði umhvrh. duga ekki til að bæta fyrir skelfilegt frumvarp félmrh. sem því miður verður samþykkt á Alþingi innan skamms.`` --- Ekki veit ég hvaðan ritstjórinn hefur það vegna þess að ég tel að það sé svolítið í það að við samþykkjum þetta frv. og er enn að vona að ríkisstjórnin verði við ósk fjölmargra utan þings um að fresta þessu máli til haustsins. --- ,,Málið er í heild sinni enn sem fyrr ein mesta atlagan að almannarétti frá upphafi Íslandsbyggðar.`` --- Þar höfum við það, herra forseti. Ein mesta atlaga að almannarétti frá upphafi Íslandsbyggðar. Og þetta á bara að keyra í gegnum þingið, herra forseti, þó að heitar óskir séu úti í þjóðfélaginu um að því verði frestað. Síðan er haldið áfram:

,,Ekki er hægt að sætta sig við að fulltrúar 96% landsmanna hafi aðeins einn sjötugasta af umsagnaráhrifum á skipulag hálendisins og engan aðgang að stjórnsýslu þess. Skipulag og stjórnsýsla hálendisins á skilyrðislaust að vera í höndum fulltrúa landsmanna allra. Svo virðist þó sem þingmenn þéttbýlisins og Vestfjarða ætli flestir að sætta sig við að sparkað sé í mikinn meiri hluta þjóðarinnar á þennan hátt enda er raunar löng reynsla fyrir því að þingmenn þéttbýlisins eru ófærir um að gæta hagsmuna þess þegar á reynir.

Engin frambærileg rök hafa komið fram gegn kröfunni um að landsmenn standi allir jafnt að skipulagi og stjórnsýslu hálendisins. Engin frambærileg rök eru fyrir því að hálendinu sé skipt niður í 40 hrepparenninga þar sem sérhagsmunir ráða á hverjum stað. Þar að auki stingur frumvarpið í stúf við þjóðlendufrv. forsrh. sem gerir ráð fyrir að ríkið kasti eign sinni á allt það hálendi sem aðrir geta ekki sannað að þeir eigi. Með því frv. verður ríkið landeigandi að mestum hluta hálendisins.

Þjóðin öll hefur hagsmuna að gæta á hálendinu. Þar eru flestir virkjanakostir sem mestu máli skipta, bæði vatnsafl og jarðhiti. Orkuverin munu hvert fyrir sig þurfa að sæta fjárkúgun nokkurra hreppa svo sem við þekkjum frá Blönduvirkjun í nágrenni Höllustaða. Þjóðin hefur öll beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta af ferðamennsku á hálendinu og marvíslegra óbeinna hagsmuna af lífsgæðum sem tengjast hálendinu þótt þau verði ekki metin til fjár. Þess vegna á öll þjóðin að hafa sama áhrifarétt á hálendinu.``

Það er auðvitað kjarni málsins, miðpunktur þess sem við höfum verið að ræða, að þjóðin öll á að hafa sama áhrifarétt á hálendinu.

,,Þjóðlendufrv. tekur skynsamlega á skipan margvíslegra hagsmuna á hálendinu, annars vegar ýmissa mannvirkja á borð við orkuver og vegi og hins vegar hagsmuna náttúruverndar og umhverfismála. Það byggist á rannsóknum og sátt milli sjónarmiða.``

Sátt milli sjónarmiða. Um það erum við einmitt að reyna að fá menn til þess að hugsa, þ.e. hvort ekki sé nú skynsamlegt að hafa sátt milli sjónarmiða í þessu máli. Síðan segir:

,,Félmrh. kastaði hins vegar sínu frv. eins og olíu á eld umræðunnar um réttarstöðu fólks eftir búsetu og á eld umræðunnar um mannvirki og umhverfi á hálendinu. Um það er enginn friður úti í þjóðfélaginu þótt þingmenn flestir lúti flokksaga.``

Það er svolítill kjarnapunktur í því að enginn friður sé úti í þjóðfélaginu um þau mál sem við hér ræðum þó að þingmenn stjórnarliðsins lúti flokksaga. Þannig er málið vaxið. Það er mjög erfitt fyrir löggjafarsamkunduna að afgreiða svona stórt mál undir þeim kringumstæðum að ófriður sé um málið úti í þjóðfélaginu en þingmenn stjórnarliðsins lúti flokksaga. En þannig virðist þetta mál vera vaxið.

Síðan lýkur hann leiðaranum með því að segja: ,,Þótt Alþingi vilji hrepparenninga hafa í umræðu fólks úti í þjóðfélaginu orðið ofan á þau sjónarmið að ekki skuli búa til slíka renninga á hálendinu.``

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, að ef á þetta yrði látið reyna í þjóðaratkvæðagreiðslu þá yrðu þau sjónarmið sem við í minni hlutanum tölum fyrir alveg örugglega ofan á en ekki þau sjónarmið sem hinn svokallaði meiri hluti fylgir innan þings.

Ég minni enn og aftur á að hv. þm. Pétur Blöndal, sem hlýðir enn á þessa umræðu, sagði --- og ég skal viðurkenna að nokkuð er til í því --- að meiri hlutinn nær sínu fram áður en yfir lýkur. En ég vil biðja hv. þm. að íhuga það hvort hann hafi boðað kjósendum, þegar hann gekk fram í síðustu kosningum og boðaði fagnaðarerindi sjálfstæðismanna, þessi ósköp sem hér eru að dynja yfir varðandi miðhálendið. (PHB: Þetta eru engin ósköp.) Herra forseti. Ég ætla nú ekki að spjalla við hv. þm. hér, ég úr ræðustól og hann úr sínu sæti. En ég vil segja, herra forseti, að ef hv. þm. Pétur Blöndal telur að við séum að fjalla um eitthvert smámál þá veit ég ekki hvar þingmaðurinn hefur verið. A.m.k. vil ég þá fullyrða að hann hafi ekki kynnt sér málið ítarlega eða gögn þau og ýmsar umsagnir sem liggja fyrir um það eða sjónarmið aðila sem ég hef verið að rifja upp sem mikla þekkingu hafa á þessu máli. Vil ég síst vera að væna þennan hv. þm. um að lesa ekki þau mál sem hann fjallar um af því að yfirleitt tel ég að þessi þingmaður sé allsæmilega lesinn í þeim málum sem um er fjallað. En a.m.k. horfir hann á þetta mál út frá allt öðrum sjónarhóli en sú sem hér stendur, út frá allt öðrum sjónarhóli en stór hluti umhverfissamtaka, útivistar- og ferðasamtaka, út frá allt öðrum sjónarhóli, svo ég nefni það nú, en ýmsir þeir sem bera hag atvinnuveganna fyrir brjósti og telja að í tillögum nefndarinnar sé allt of lítils jafnvægis gætt milli nýtingar- og verndarsjónarmiða. Hv. þm. horfir á þetta út frá allt öðrum sjónarhóli en þessir aðilar. Ég er ekkert að biðja, herra forseti, hv. þm. Pétur Blöndal að horfa á þetta frá sama sjónarhóli og ég. Vel getur verið að hann sjái þetta með öðrum gleraugum og telji að þetta sé jákvætt. En ég er bara ekki ein um þessa skoðun. Ég held að hv. þm. Pétur Blöndal sé í minni hluta, kannski ekki innan þingsins, en ef hann stillir sér út fyrir veggi þessa virðulega húss þá held ég að hann sé þar í miklum minni hluta. Eins og hv. þm. Pétur Blöndal lítur á málið og út frá þeim sjónarhóli sem hann sér það, er hann í minni hluta.

Mér finnst að hv. þm. Pétur Blöndal þurfi að spyrja sig þeirrar samviskuspurningar hvort hann telji að hann hafi umboð frá sínum kjósendum til að fara þá ógæfusömu leið, held ég, fyrir íslensku þjóðina sem hér er verið að fara. Hann á auðvitað að fara eftir sinni samvisku. Ég þekki alveg það ákvæði í stjórnarskránni. En ég efa að hann hafi umboð frá sínum kjósendum. Ef hann hefði spurt um það fyrir kosningar hvað fólki fyndist í þessu máli þá efast ég um að hann hafi það, herra forseti, og tel að það eigi eftir að koma í ljós fyrr eða síðar.

Einn finnst mér tala af mikilli skynsemi í þessu máli hér innan þings, það gera nú ýmsir og ætla ég ekkert að fara að nafngreina þá alla, en tek þó einn sérstaklega út úr vegna þess að hann tilheyrir hópi stjórnarliðanna. Mér finnst hann vera einn af þeim fáu sem tala af skynsemi um þetta mál og vilji hlusta með opnum huga á þá sem eru að biðja meiri hlutann um frestun á þessu máli. Þetta er hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson sem ég hlustaði mjög grannt á í ræðustól. Ég held að það hafi verið fyrir helgi eftir að frv. umhvrh. lá hér frammi til kynningar. (Gripið fram í.) Hann hefur haft margt mjög skynsamlegt til málanna að leggja og er það miður að hv. þingmenn Sjálfstfl. hafi ekki hlustað á hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson. En það er út af fyrir sig ekkert skrýtið, herra forseti, vegna þess að það er svo í þessu stjórnarsamstarfi að Framsfl. er yfirleitt beygður undir stefnu íhaldsins í mörgum stórum málaflokkum. Út af fyrir sig þarf því ekki að koma á óvart þó að hv. þingmenn Sjálfstfl. telji sig ekki þurfa að hlusta á skynsemisrödd hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar úr þessum ræðustóli. (Gripið fram í: En röddin sem nú hljómar?) Hún talar líka af mikilli skynsemi. Ég held að ég hafi í stórum hluta minnar ræðu endurómað ýmislegt sem aðrir hafa líka að segja um þetta mál, ekki bara sjónarmið mitt sem hér stend, heldur sjónarmið stórra samtaka sem ég hef margsinnis farið yfir aftur og aftur. Ég er því líka að lýsa sjónarmiðum þeirra enda tel að þau eigi heima í þessari umræðu.

[19:15]

Herra forseti. Mér er tíðrætt um Ólaf Örn Haraldsson og þó ég hafi ekki oft verið sömu skoðunar og hann á þessu kjörtímabili, þá er ég það í þessu tilviki og finnst að hann tali út frá sjónarhóli þess sem hefur þekkingu á náttúru landsins og miðhálendinu. Hann skrifar grein 22. apríl, sem mér finnst mjög athyglisverð, herra forseti, og varpar að ýmsu leyti nýju ljósi á þessi mál. Ég vil fá að vitna í hana, með leyfi forseta. Þar segir hv. þm., með leyfi forseta:

,,Augljóst er að sum svæði hálendisins þarf að skipuleggja mun nákvæmar en önnur, segir Ólafur Örn Haraldsson, vegna náttúrufars og nýtingar.

Miðhálendi Íslands og jafnvel fleiri óbyggðasvæði eiga að vera ein skipulagsheild og lúta stjórn sem fulltrúar allra landsmanna geta haft áhrif á. Með þessu er reynt að skapa sátt og samræmi á miðhálendi Íslands en þar hafa þegar orðið og eiga eftir að verða enn meiri breytingar vegna gjörbreyttra búskaparhátta, nýtingar auðlinda, aukinnar útivistar, ferðamennsku og ferðaþjónustu. Afar mikilvægt er að slík sátt takist en þá verður að virða bæði hagsmuni og sjónarmið þeirra sem nýtt hafa miðhálendið og eiga land að því og jafnframt rétt og hagsmuni annarra, þar á meðal nýrra og fjölmennra hópa þéttbýlisfólks sem nú sækir stöðugt meira inn á hálendið.

Með öðrum orðum þarf að ná sátt milli þeirra sjónarmiða sem uppi eru í þessu máli.``

Síðan segir:

,,Við Íslendingar eigum miðhálendið allir saman og eigum þar jafnan rétt. Raunar er miðhálendið einskis manns land og segja má að landnámi Íslands ljúki með því að ríkið kastar eign sinni á svokallaðar þjóðlendur. Því miður er það ekki vandræðalaust að láta forræði landsins í hendur ríkisins en það er vandfundinn annar aðili betri og forræðislaust getur landið ekki verið lengur.

Margir ávinningar eru í því að halda miðhálendinu sem sérstöku stjórnsýslusvæði og sveitarfélögin nái ekki þar inn. Þá er margvísleg samræming auðveldari og síður hætta á að sveitarfélög beiti valdi sínu gegn einstökum aðilum eða hópum sem eiga ekki síður en aðrir rétt á aðstöðu og aðgangi að hálendinu. Slík tilvik hafa spillt miklu. Landeigendur og sveitarfélög hafa í einstaka tilvikum þrengt að ferðaþjónustu og útvistarfólki, stundum með því að gjörnýta lagarétt sitt og stundum með hreinni lögleysu sem síðan hefur verið hnekkt í Hæstarétti. Þessi bitra reynsla hefur skapað mikla tortryggni. En yfirleitt hafa þessi samskipti gengið vel og farsællega og við slíkar aðstæður eru heimamenn bestu gæsluaðilar landsins. Þeir þurfa að taka þátt í því að almannaréttur og aðgangur allra landsmanna að hálendinu sé sem allra víðtækastur meðan náttúru er ekki spillt.

Á það þarf að líta að mörg erfið framkvæmdaatriði koma til sögunnar ef miðhálendið ætti að vera sérstakt svæði utan sveitarfélaga. Þá væri með vissum hætti raskað því grundvallarkerfi sem við búum við, þ.e. því að stjórnsýslustigin eru tvö, í fyrsta lagi ríkisvald og hins vegar sveitarstjórnarvald. Einnig má benda á þann vanda sem illleysanlegur er þ.e. hvar draga eigi mörkin milli núverandi sveitarfélaga og hins nýja sveitarfélags. Hætt er við að þar yrðu langvarandi deilur og vandræði sem tefðu fyrir framgangi góðra mála á miðhálendinu.`` --- Fleiri vandkvæði mætti nefna.

Enn og aftur, svo því sé haldið til haga, er talað um ófrið og langvarandi deilur. Þannig er þetta aftur og aftur, herra forseti. Við eigum að taka mark á þessu. Við eigum að taka mark á þessu, gera þessa tilraun, sem margir kalla eftir, að setjast niður og reyna að ná sátt um málið í sumar.

Síðan segir:

,,Með því að sveitarfélögin ná inn til miðju landsins fá þau ekki eignarrétt en þau fá réttinn til að skipuleggja landið. Skipulagsrétturinn er hins vegar mjög sterkur og getur sá sem hann hefur í raun stýrt allri landnotkun og skipulagt starfsemi og mannvirki út af svæðinu eins og dæmin sanna.``

Er þetta ekki allnokkuð? ,,Sérhagsmunir á kostnað almannahagsmuna.`` Ég sé, herra forseti, að hv. þm. Pétur Blöndal nikkar hér. Það er einmitt það sem hann stendur fyrir. Sérhagsmuni á kostnað almannahagsmuna. Hann er auðvitað alsæll með þetta. Ég get ekkert sagt við því, herra forseti, þó að þessi hv. ágæti þm. hafi sín sjónarmið, enda er hann í allt öðrum flokki en ég.

Og áfram held ég í sömu grein:

,,Skipulagsrétturinn er hins vegar mjög sterkur og getur sá sem hann hefur í raun stýrt allri landnotkun og skipulagt starfsemi og mannvirki út af svæðinu eins og dæmin sanna. Draga þarf úr þessu valdi og gefa fulltrúum allra landsmanna aðild að skipulagi miðhálendisins en ekki eingöngu þeim sem land eiga að miðhálendinu.

Sú leið sem er vænlegust til að sætta þessi sjónarmið er að sveitarfélögin nái inn til miðju landsins en umdeildasta svið stjórnsýslunnar þ.e. skipulagsmálin séu tekin til sameiginlegrar meðferðar, sérstakrar nefndar og að henni eigi aðild fulltrúar allra landsmanna. Slík nefnd þarf að tryggja öruggan aðgang allra landsmanna, eðlilegan nýtingarrétt, náttúruvernd, virða beitar- og nýtingarrétt fornan, stýra framsækinni en um leið hófsamri stefnu í nýtingu fallvatnanna og háhitasvæðanna.``

Um skipulagsnefnd miðhálendisins segir:

,,Nauðsynlegt er að fulltrúar af öllu landinu vinni að skipulagi hálendisins. Einfaldast er að gera það með því að landshlutasamtökin átta eigi fulltrúa í skipulagsnefndinni. Í nefndina þurfa einnig að koma fulltrúi skipaður af félagsmálaráðuneyti og fulltrúi skipaður af Sambandi ísl. sveitarfélaga. Að sjálfsögðu væri mjög æskilegt að ýmsir hópar s.s. bændur, útivistarhópar, ferðaþjónusta og fleiri ættu fulltrúa í nefndinni. Alla vega þarf að tryggja þeim öruggan umsagnar- og áhrifarétt á skipulagið. Með því að landshlutasamtökin átta koma til leiks er tryggt að Reykjavík, Reykjanes, Vestfirðir, Snæfellsnes og fleiri séu þátttakendur í skipulagsvinnunni en ekki látnir sitja utan garðs eins og var í nefndinni, svokallaðri hálendisnefnd, þótt hún hafi unnið mjög gott starf.``

Þetta er það sem hv. þm. Reykv. kallar eftir.

(Forseti (GÁS): Forseti biður hv. þm. afsökunar. Hann ráðgerir að gera matarhlé klukkan hálfátta og vill því spyrja hv. þm. hvort stefni í ræðulok eða hvort hv. þm. geri þá ráð fyrir að gera hlé á ræðu sinni.)

Það stefnir alls ekki í ræðulok vegna þess að ég á eftir að fara sérstaklega yfir tvær til þrjár greinar frv. Ég hef heldur ekki lokið máli mínu að því er varðar þennan þátt málsins þannig að ég á eftir góðan tíma, ég þori ekki að segja hvort það er einn tími eða tveir.

(Forseti (GÁS): Hv. þm. hefði þá í huga að gera hlé á ræðu sinni þegar hentaði vel, kaflaskipta vegna.)

Ja, ég get gert það núna ef hæstv. forseti vill.

(Forseti (GÁS): Það hentar ágætlega.)