Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 06. maí 1998, kl. 12:19:49 (6247)

1998-05-06 12:19:49# 122. lþ. 119.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 122. lþ.

[12:19]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. hefur borið fram fyrir mig nokkrar spurningar. Ég veit ekki hvort mér tekst að svara þeim öllum í stuttu andsvari en sumu af því sem spurt er um hér og nú hef ég svarað áður í umræðunni þannig að kannski má leita svara við því í þingtíðindum þó að síðar verði gert.

Vegna spurningarinnar sem hv. þm. ítrekaði í lokin um hvernig ætti að draga línu milli afrétta og heimalanda, þá vitnaði ég til þess í svari við spurningu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að við vinnum nú í svæðisskipulagsnefndinni samkvæmt lagafyrirmælum frá 1993 þar sem nákvæmlega sömu fyrirmæli eru gefin um það hvernig þessi lína skuli dregin. Um það hefur náðst sátt. Um það hefur náðst samkomulag. Mín hugmynd er því sú að það sé hin sama lína eða gert eins og þar er gert og það er þá en endurtekið svar við hliðstæðri spurningu.

Hv. þm. spurði hvernig ég teldi, ef frv. sem ég hef lagt fram hefði orðið að lögum nú, að það hefði getað farið saman að tvær nefndir væru að vinna að sama málinu. Það er alls ekki gert ráð fyrir því í frv. sem ég hef lagt fram. Gert er ráð fyrir því að sú nefnd sem nú starfar ljúki sinni vinnu 1. desember á þessu ári. En hin nýja nefnd ætti ekki að taka til starfa fyrr en um áramót þannig að ekki á að geta orðið skörun í því efni.

Ég er sammála þeim hugleiðingum sem komu fram hjá hv. þm. um vægi einstaklinga í nefndinni. Þetta er umfjöllunarnefnd. Þetta er nefnd sem á að reyna að ná niðurstöðu og komast að sameiginlegum niðurstöðum til þess að hafa áhrif og setja fram álit. Vonandi tekst það. Hann spurði líka hvort það hefði átt að kjósa nefndina af Alþingi. Ég tel að við eigum að fylgja í þessari tillögu þeim línum sem lagðar voru 1993 þannig að það er óbreytt.

Fleiri spurningar komu fram, hæstv. forseti, sem ég reyni þá kannski að koma að í síðara andsvari.