Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 14:14:56 (6274)

1998-05-07 14:14:56# 122. lþ. 120.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[14:14]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hefur talað í rúmlega fimm og hálfan tíma, gott ef hún er ekki kominn í sex tíma. Ég efast um að nokkur Íslendingur hafi fylgt þessari ræðu allan tímann með fullri athygli. Ég held að það sé alveg útilokað og menn eru farnir að gantast úti í bæ með tímalengd ræðna þingmanna.

Í hádegisverðarhléinu var rætt um það niðri við borðið hjá hv. þm. hvort hv. þm. sem er kona ætti nú ekki að slá met karlanna í tímalengd ræðna. Þetta er alveg með ólíkindum. Eins og það sé eitthvert markmið í sjálfu sér að halda langar ræður.

Ég verð að segja það, herra forseti, að eftir að hafa hlýtt á ræðu hv. þm., með hléum og með mismunandi góðri athygli, þá var ýmislegt sem ég gat tekið undir með henni en ég er ekki enn þá með það á hreinu, ég missti af þeim þræðinum, hvort hv. þm. er á móti frv. eða ekki. Ég heyrði reyndar í andsvari áðan að hún vilji, að mér skilst, fresta málinu.

Þegar menn koma með svona mikið af gögnum, svona mikið af upplýsingum, þá drukkna aðalatriðin í smáatriðum. Menn sjá ekki lengur skóginn fyrir laufblöðunum eða einstökum trjám. Það er mjög mikilvægt að menn haldi málinu þannig fram. Ég vildi mjög gjarnan að hv. þm. segði mér það í næsta andsvari hvað hún heldur yfirleitt um þetta frv. og hvort hún vilji fresta því eða hver sé yfirleitt skoðun hennar í stuttu máli.