Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 17:39:41 (6281)

1998-05-07 17:39:41# 122. lþ. 120.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[17:39]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hrella forseta með því að hér standi til margra klukkutíma ræða. Það er ekki ætlun mín, herra forseti, enda er ég yfirleitt stuttorð í ræðustól. (Gripið fram í: Þetta er viðamikið mál.) En að sjálfsögðu er þetta viðamikið mál og ég mun taka mér þann tíma sem þarf til að gera því skil.

Herra forseti. Í upphafi máls míns vil ég gera grein fyrir því að í meðferð málsins á Alþingi hef ég aðallega komið að því í gegnum veru mína í hv. allshn. sem fékk tiltekna þætti þessa frv. til umsagnar vegna tengsla þess við þjóðlendufrv. Ég sit ekki í hv. félmn. og því mun ég aðallega fjalla um þær greinar sem reyndar eru þær sem mest eru umdeildar. Ég mun þó lítillega koma inn á aðrar efnisgreinar sveitarstjórnarlagafrv. sem vissulega þyrftu að fá hér góða umfjöllun.

Herra forseti. Ég setti mig á mælendaskrá fyrir nokkrum dögum vegna þess að mér fannst mjög mikilvægt að rödd okkar kvennalistakvenna kæmi skýrt í ljós, en hún gerir það ekki á fyrirliggjandi nefndarálitum þar sem við eigum ekki aðild að félmn. Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir hefur svo sannarlega gert þessu máli góð skil í sínum ræðum. En a.m.k. önnur af hennar ræðum var flutt að nóttu til og er ekki enn þá fyrirliggjandi á netinu þannig að ég mun á eftir endurtaka einn þátt úr hennar ræðu.

Hv. allshn. var beðin um að fjalla um þetta mál. Þá kom í ljós að allshn. klofnaði í áliti sínu og minni hlutinn skilaði áliti til félmn. Vanalega eru álit annarra nefnda birt með áliti meiri hlutans, áliti meiri hluta félmn. í þessu tilviki, en svo var ekki að þessu sinni þar sem sveitarstjórnarlagafrv. var tekið út úr nefndinni í ágreiningi áður en umsögn allshn. barst. Þetta sýnir vinnubrögðin á hinu háa Alþingi þessa dagana.

Ég ætla að leyfa mér að lesa álit minni hlutans, en að því standa hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og sú sem hér stendur. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Minni hluti allshn. leggst gegn ákvæði 1. gr. og ákvæði til bráðabirgða og leggur til að ákvæði til bráðabirgða verði fellt brott og 1. gr. verði breytt.``

Þetta er síðan lagt til af minni hluta félmn., hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur sem á sæti í félmn.

,,Minni hlutinn telur það óeðlilegt og varasamt að nokkrar sveitarstjórnir fái stjórnsýsluvald og þar með talið vald til ákvarðana um landnýtingu og skipulagsvald á hálendinu, sem er um 40% af öllu Íslandi.

Skýrt þarf að kveða á um að hálendið og allt landsvæði utan eignarlanda sé sameign íslensku þjóðarinnar og að hálendið verði ein skipulags- og stjórnsýsluheild, en ofangreind ákvæði í frv. til sveitarstjórnarlaga gengur þvert á þau markmið. Þannig er stjórnsýslunni skipt á milli þeirra sveitarfélaga sem liggja að hálendinu. Hætta er á því að hagsmunir einstakra sveitarfélaga ráði of mikið ferðinni í stjórnsýslunni á hálendinu fremur en þjóðarheildarinnar.

Grundvallaratriði er að hálendið verði með lögum lýst sem sameign þjóðarinnar. Með sama hætti er einnig eðlilegt að stjórnsýslan á hálendinu verði í höndum ríkisvaldsins en ekki örfárra sveitarfélaga sem liggja að hálendinu, því skipulag hálendisins skiptir alla íbúa landsins máli, en ekki bara þá sem búa í nálægð við það.

[17:45]

Síðan segir: ,,Ljóst er einnig að verði þessi ákvæði í frv. félmrh. að lögum, þá getur umhvrh. staðfest þær tillögur að svæðisskipulagi miðhálendisins sem nú liggja fyrir. Þær tillögur hafa verið harðlega gagnrýndar af fjölda aðila og mjög alvarlegar athugasemdir við þær gerðar.`` Síðan er farið út í samantektina og nokkrar athugasemdir sem ég mun gera nánar grein fyrir á eftir í máli mínu. Að lokum segir í þessu áliti:

,,Verði þessar tillögur staðfestar með lagastoð í 1. gr. frv. og ákvæði til bráðabirgða í frv. félmrh. væri í reynd tekin úr höndum þingsins, stefnumótun í stórum málaflokkum, sem ákvarðanir um landnýtingu á miðhálendinu ættu að byggja á. Minni hlutinn varar því alvarlega við samþykki ofangreindra ákvæða og telur það vera stórslys verði þau samþykkt.``

Virðulegi forseti. Hér kemur afstaða mín til þessa frv. fram, þ.e. til 1. gr. og ákvæðis til bráðabirgða. En hér er reyndar undir stór lagabálkur eða frumvarpsbálkur um sveitarstjórnarlög sem á að leysa af hólmi 12 ára gömul lög frá árinu 1986. Fyrir utan þessar umdeildu greinar verð ég að segja að mér finnst ekki mjög margt nýtt og óvænt vera í þessu frv. Fyrst og fremst virðist verið að staðfesta það sem orðið er og ekki er einu sinni haggað við lágmarksfjölda í sveitarfélögum, þ.e. fjöldanum 50 þótt ljóst megi vera að svo smá sveitarfélög eigi æ erfiðara með að ráða við stórverkefni eins og rekstur grunnskólans svo nokkuð sé nefnt.

Ég vil fagna því að samkvæmt frv. eru rýmkuð ákvæði varðandi möguleika sveitarfélaga til að hafa áhrif á nafngiftir sveitarfélags og hvaða nöfn geta verið í boði, sbr. 4. gr. frv., og vonandi verður það til þess að við sjáum mörg falleg nöfn á sveitarfélögum í framtíðinni.

Þá tek ég eftir því að 99. gr. núgildandi sveitarstjórnarlaga er felld brott, nefnilega að sveitarfélögum geti í einhverjum tilvikum verið skylt að hafa með sér samvinnu. Þetta ákvæði er nú fellt brott enda vitum við að það er mjög umdeilt hvort skylda eigi sveitarfélög til að sameinast eða ekki. Ég nefni þetta atriði sérstaklega vegna þess að hæstv. félmrh. notaði þetta ákvæði sem samlíkingu við það mál sem hér var til umræðu fyrr í vetur, nefnilega fræðslu um jafnréttismál fyrir æðstu ráðamenn sem hæstv. félmrh. telur af hinu góða en samt eigi ekki að gera það að skyldu að æðstu ráðamenn sæki slíka fræðslu. Að hans mati er jafnréttisfræðsla fyrir ráðamenn og samvinna sveitarfélaga æskileg en ekki það mikilvæg að skylda eigi þessa fræðslu eða þessa samvinnu, eða þá hann trúir því ekki að sú aðferð beri árangur.

Önnur leið og sú sem hér er farin er að hafa verkefni sveitarfélaganna þannig að samvinna verði nauðsynleg og vonandi verður það einnig þannig með fræðslu um jafnréttismál fyrir æðstu ráðamenn að vegna þess hve jafnréttismálin verði miðlæg í framtíðinni verði nauðsynlegt fyrir ráðuneyti og ríkisstofnanir að yfirmenn átti sig á því að fræðsla um þau er nauðsynleg til árangurs í starfi.

En meginbreyting þessa frv. og sú sem umdeildust er kemur fram eins og ég sagði áður í 1. gr. frv. og í ákvæðum til bráðabirgða sem ég hef rætt töluvert í allshn. í tengslum við frv. um þjóðlendur, nefnilega að nú er lagt til eins og margoft hefur komið fram í umræðunni að landið skiptist í sveitarfélög en ekki eingöngu byggðin og afréttir. Þetta er mjög stórt mál og sem betur fer virðist allt þjóðfélagið vera að taka við sér. Það er sem sagt lagt til að um 5% landsmanna ráði yfir hálendinu, jöklunum, óbyggðunum en 95% þjóðarinnar séu áhrifalaus þar um. Reyndar er lögð til pínulítil bragarbót eins og ég kem að á eftir en samkvæmt frv. á að skipta hálendinu upp í svokallaðar ræmur sem nefnt hefur verið sem lúta eiga stjórnsýslu mismunandi sveitarfélaga og skipulagi, a.m.k. hvað varðar aðalskipulag. Vissulega er ætlunin að hafa samræmt svæðisskipulag, eins og ég sagði áðan, samanber fyrirliggjandi tillögur og frv. umdeilda um breytingu á skipulagslögum sem fékkst ekki rætt á dögunum og kemur því ekki til umræðu á þessu vori. Út af þessari umdeildu grein margklofnaði hv. félmn. þótt allir nema einn nefnarmanna hafi reyndar skrifað upp á álit meiri hlutans, þar af voru fjórir með fyrirvara um að miðhálendið verði skipulagt sem ein heild. Málamiðlunartillagan virtist róa hv. stjórnarþingmenn Siv Friðleifsdóttur og Pétur H. Blöndal en ljóst er að hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir og Ögmundur Jónasson gerðu ráð fyrir að samhliða frv. yrðu gerðar breytingar á skipulagslögum sem nú er útséð um að verði gerðar.

Efnislega tryggir sú tillaga sem fyrir liggur, um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, --- ég sé að hæstv. umhvrh. gekk í salinn og er vonandi að hlýða á mál mitt --- ekki að miðhálendið verði skipulagt sem ein heild þar sem aðalskipulag þarf að samþykkja innan hvers sveitarfélags. Í raun hefur þessi nýja samstarfsnefnd, sem á að koma á fót, eingöngu umsagnarrétt yfir þeim tillögum sem nú liggja fyrir sem hafa verið samdar án aðkomu fulltrúa frá meiri hluta landsmanna eða fulltrúa af höfuðborgarsvæðinu svo og frá Vestfjörðum. Sú tillaga gerir heldur ekki ráð fyrir að hálendið sé ein stjórnsýsluleg heild sem ég tel mjög mikilvægt, þótt vissulega geti stjórn hálendisins, ef henni yrði komið á, framselt einhver stjórnsýsluverkefni til tiltekinna sveitarfélaga en ég mun koma nánar að því á eftir. Ég tel að með hugmynd okkar kvennalistakvenna og jafnaðarmanna um að gera miðhálendið að stjórnsýslulegri heild sé á engan hátt verið að vanmeta þátt sveitarfélaga í stjórnsýslunni. Vissulega er mjög líklegt að þeim yrðu fengir ákveðnir hlutar stjórnsýslunnar svo sem lögreglueftirlit eða heilbrigðiseftirlit.

Eins og þegar hefur komið fram í ræðu hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur erum við kvennalistakonur þeirrar skoðunar að miðhálendið eigi að vera bæði skipulagsleg og stjórnsýsluleg heild sem lýtur sérstakri stjórn. Við getum því tekið undir flest það sem kemur fram í nál. minni hluta félmn., hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, sem rétt í þessu var að ganga í salinn.

Við kvennalistakonur lítum á víðerni Íslands sem mjög dýrmæta auðlind í sameign þjóðarinnar, samanber þjóðlendufrv. sem kemst væntanlega á dagskrá næstu daga, og því sé eðlilegt að þessi víðerni séu undir einni stjórn með þátttöku fulltrúa allra landsmanna en þó kannski einkum og sér í lagi að þessu svæði verði stjórnað af víðsýni og fagmennsku en ekki verði hagsmunatogstreita sem einkenni þær ákvarðanir sem þar verði teknar.

Ég vil í þessu sambandi nefna fjölmennan fund sem hefur komið til tals í umræðunni, sem haldinn var 4. maí sl., en þar voru fjölmenn frjáls félagasamtök að verki og fundinum eru einmitt gerð mjög góð skil í Morgunblaðinu í dag. Ég ætla því að spara forseta þann lestur og að gera ítarlega grein fyrir þeim sjónarmiðum sem þar komu fram en í yfirlýsingunnu eru ítrekaðar áhyggjur af því að ef þetta frv. fari í gegn sé verið að mismuna þegnunum með því að eingöngu sumir, þ.e. þeir sem búa í nærliggjandi sveitarfélögum, komi að stjórnsýslu svæðisins og skipulagi. Það eru mjög athyglisverð sjónarmið sem komu þarna fram og ég vil nefna að þarna standa að formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags, forseti Ferðafélags Íslands, formaður Íslenska alpaklúbbsins, formaður Útivistar, formaður Jöklarannsóknafélags Íslands, formaður Skotveiðifélags Íslands, Landssamband íslenskra vélsleðamanna, formaður Ferðaklúbbsins 4x4 og stangaveiðifélagsins Ármanna.

Fundurinn sýnir mjög vel að fólki er alls ekki sama um hvað hér er að eiga sér stað og sama sýna hin fjölmörgu skeyti og símtöl sem við þingmenn höfum fengið undanfarna daga vegna málsins. Mér finnst mjög athyglisvert, herra forseti, að bera andstöðuna úti í þjóðfélaginu í málinu saman við andstöðuna í svokölluðu gagnagrunnsmáli. Með mjög stuttu millibili hafa verið umdeild mál í þinginu. Hið fyrra fékk þann farsæla endi í bili að vera frestað til haustsins og það er svo sannarlega von mín að það verði einnig nú. Sameiginlegt með þessum viðbrögðum er að þarna eru mjög sterkar tilfinningar. Við fáum skeyti frá bláókunnugu fólki sem lýsir reynslu sinni og lætur í ljós bænir um að frv. verði frestað.

[18:00]

Í öðru lagi er ljóst að fyrir utan þennan stóra fund sem ég nefndi hér áðan eru andmælendur þessa frv. fyrst og fremst einstaklingar sem finna hjá sér hvöt til að mótmæla. Oft eru það sérfræðingar á sviði náttúruverndarmála. Þarna er nákvæmlega sami óttinn í þjóðfélaginu og vegna gagnagrunnsins sem líka kom mjög nálægt fólki tilfinningalega. Ég held því að sömu rökin eigi við í þessu máli og hinu fyrra, að allt að því nauðsynlegt sé að fresta málinu þótt ekki væri nema til þess að kynna það betur þannig að fólk sé alveg visst um hvað er verið að gera. Ljóst er að stundum byggjast viðbrögðin á vanþekkingu en margir eru mjög vel upplýstir og lýsa samt miklum áhyggjum.

Herra forseti. Fólk áttar sig á því að hér eru gífurlegir hagsmunir í húfi. Ég vil fyrst og fremst leggja áherslu á hin ósnortnu víðerni og þá stórkostlegu auðlind sem verður æ mikilvægari, samanber mjög góðan pistil frá Illuga Jökulssyni sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir fór yfir í ræðu sinni eina nóttina. Ég mun koma nánar að honum á eftir í ræðu minni. Fyrir utan þessi verðmæti er ljóst að þegar kemur til virkjana, framkvæmda í ferðaþjónustu og aðgengi að viðkvæmum svæðum, þá eru einnig mjög miklir hagsmunir í húfi. Að mínu mati er því mjög ólýðræðislegt að fulltrúar um 5% þjóðarinnar geti ráðið yfir þessum auðæfum. Öll þjóðin þarf að koma þar að en þó einkum og sér í lagi fagmenn og þeir sem hafa heildarhagsmuni í bráð og lengd í huga.

Við höfum þegar afhent fiskimiðin til nokkurra einstaklinga þótt vonandi sé það aðeins til skamms tíma, fram að næstu kosningum eða svo, því vonandi tekst okkur að breyta lögum um stjórn fiskveiða. Þegar það var gert árið 1983, að færa kvótann á hendur örfárra manna, var það gert án þess að þingheimur hafi í raun áttað sig almennilega á því hvað var að gerast. Sú lagabreyting sem þá átti sér stað fólst í opinni heimild ráðherra til að prófa kvótasetningu á ákveðnum tegundum í takmarkaðan tíma.

Hið sama virðist hafa átt sér stað árið 1972 þegar afréttirnir komust undir stjórn sveitarfélaga, eins og skýrt kom fram í ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Þá var mjög lítil umræða um málið. Þetta var á seinustu dögum þingsins og málið var keyrt í gegn með miklum hraða. Mjög lítil umræða var um að afréttir færu undir sveitarfélögin. Ljóst er að sú ákvörðun var fyrst og fremst tekin þá vegna þess að virkjanir voru í augsýn og þá þótti rétt að vissir hagsmunaaðilar sætu að kjötkötlunum. Mér finnst því mikilvægt og nauðsynlegt að þjóðin og þingheimur átti sig á því hvað nú er að gerast.

Í umræðunni í hv. allshn. kom til umræðu mikil ráðstefna þar sem farið var í gegnum breytingar á stjórnsýslumörkum hálendisins. Ég ætla að segja nokkur orð um það. Ég styðst hér við plagg sem Tryggvi Gunnarsson hrl. lagði fyrir á þessari ráðstefnu. Í fyrsta lagi segir að meginreglan sé að staðarmörk sveitarfélaga fylgi ytri mörkum fasteigna sem tilheyra sveitarfélaginu.

Í öðru lagi segir að í sveitarstjórnarlögum frá 1905 og 1927, 1. gr., segi að sýslur í landinu skuli vera sömu og nú eru, sömuleiðis sýslnamörk. Sama gilti um hreppa í hverri sýslu og hreppamörk.

Árið 1961, skv. lögum nr. 58, 1. og 2. gr., skiptist landið í sveitarfélög sem ráða sjálf málefnum sínum undir yfirstjórn ríkisstjórnarinnar. Með sveitarfélögum er í lögum þessum átt við hreppa og kaupstaði. Staðarmörk sveitarfélaga skulu vera hin sömu og nú eru en ráðuneytið getur breytt þeim skv. sérstökum heimildum í lögum einkum vegna sameiningar sveitarfélaga.

Þá koma lögin sem ég nefndi áðan, nr. 52/1972, um breytingu á lögunum frá 1961. Þar segir í 3. mgr. 2. gr.:

,,Afréttarsvæði sem ekki hefur þegar verið skipað innan staðarmarka né sveitarfélags skal teljast til þess sveitarfélags sem þar á eignar- og afnotarétt. Ef fleiri en eitt sveitarfélag eiga aðild að slíku landi og ekki er samkomulag um hverju þeirra það skuli tilheyra sker félmrn. úr.``

Síðan koma sveitarstjórnarlögin 1986, núgildandi lög, en þar segir í 1. gr.:

,,Byggðin í landinu skiptist í staðbundin sveitarfélög sem stýra sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð.``

Í 3. gr. þeirra laga segir:

,,Sveitarfélag hefur ákveðin staðarmörk. Óheimilt er að breyta þeim nema með lögum.

Þó getur ráðuneytið breytt mörkum sveitarfélaga í sambandi við sameiningu þeirra eða til staðfestingar á samkomulagi milli sveitarstjórna.

Nú eiga íbúar tiltekins sveitarfélags upprekstrarrétt í afrétt sem ekki hefur verið skipað innan staðarmarka neins sveitarfélags og skal hann þá teljast til þess sveitarfélags. Ef íbúar fleiri en eins sveitarfélags eiga upprekstrarrétt í afréttinn og ekki næst samkomulag um til hvers þeirra hann skuli teljast sker ráðuneytið úr.``

Ég ætla ekki að fara í fleiri ákvæði um þetta en þarna er einnig rætt um fjallskil og fleira sem snertir kannski þjóðlendufrv. Einnig er svo bent á ákvæði til bráðabirgða í frv. til sveitarstjórnarlaganna. Þetta er mjög mikilvægt vegna þess að í þessari umræðu hefur því verið haldið fram að einungis sé verið að bæta við jöklunum en það er meira en það. Það er verið að færa stjórnsýsluréttinn mjög ákveðið yfir á afréttarsvæðin.

Sú tillaga að svæðisskipulagi miðhálendisins sem nú liggur fyrir hefur hlotið mjög harða gagnrýni. Hún var samin af formönnum héraðsnefnda aðliggjandi sveitarfélaga. Í allshn. var, vegna skörunar þessa frv. við þjóðlendufrv., dreift útdrætti úr umsögnum eða athugasemdum vegna þessarar svæðisskipulagstillögu. Ég er hér með útdrátt úr þessum athugasemdum sem eru mjög alvarlegar og ég vil ítreka það. Athugasemdirnar við svæðisskipulagstillöguna eru mjög alvarlegar og vonandi mun hún að einhverju leyti taka mið af þessari gagnrýni. Þessi tillaga fær lagagrundvöll ef þetta frv. verður samþykkt. Það sem vekur athygli mína þegar farið er yfir athugasemdirnar, ég gæti svo sem lesið þær allar upp en ætla að láta mér nægja að stikla á þeim allra stærstu, er að þær eru gerðar af aðilum úr öllum geirum. Þær berast frá ferðamálafrömuðum, náttúruverndarsinnum og virkjunaraðilum. Það er almennt kvartað undan því að grundvallarforsendur vanti til að ganga út frá. þar vil ég kannski fyrst og fremst nefna orð Stefáns Thors, skipulagsstjóra, sem hann lét falla á ráðstefnu um skipulag miðhálendisins þann 20. sept. sl. Þar segir hann m.a. þegar þessi tillaga var til umræðu:

,,Auðvitað má segja svo að áður en ráðist var í gerð svæðisskipulags fyrir miðhálendið hefði átt að gera fimm ára áætlun um víðtækar rannsóknir á svæðinu. Að þeim loknum hefði ríkisstjórnin átt að marka stefnu í landnotkun og landnýtingu hinna ýmsu málaflokka. Þegar sú stefna hefði legið fyrir hefði þurft að gera landsskipulag sem næði til landsins alls, þar sem mörkuð hefði verið stefna og teknar bindandi ákvarðanir í veigamiklum atriðum. Að því loknu hefði þurft að taka ákvarðanir um stjórnsýslulega skiptingu alls landsins og í kjölfar þess að setja lög um eignarhald á afréttum og almenningum. Að þessu loknu hefði ríkisstjórnin getað skipað nefnd að fengnum tilnefningum frá forsrn., iðnrn., samgrn. og Sambandi íslenskra sveitarfélaga til að gera tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins``.

Mér virðist sem að þarna hafi forsendurnar skort. Það vantar forsendur. Að hverju viljum við stefna með þetta hálendi? Hvað ætlum við að virkja mikið? Hvað ætlum við að vernda stór svæði? Hvernig á skipulag á ferðaþjónustu að vera? Samtímis er unnið að mikilvægri stefnumörkun, t.d. í ferðaþjónustu og allar þær forsendur eru sniðgengnar í þessu skipulagi. Mér virðist því sem skipulagstillagan sé fyrst og fremst unnin þannig að verið sé að sætta sjónarmið héraðsnefndarmanna. Þar virðist fyrst og fremst gengið út frá: Hvaða skika fæ ég og hvaða skika færð þú? Það geta ekki talist nægilega fagleg vinnubrögð.

Mér virðist því sem hv. þm. Ögmundur Jónasson og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir telji sig hafa verið blekkt með þeirri breytingu á skipulagslögum sem hér hefur verið dreift í þinginu. Ljóst er að þau verða ekki afgreidd samhliða þessu frv. Hugsanlega meta fleiri alþýðubandalagsmenn stöðuna svipað, þó ljóst sé að þeirra meginkrafa í framhaldinu er sú að vísa frv. frá. Undir hana get ég tekið.

Vonandi verða fleiri stjórnarþm. en oddviti þeirra í umhvn., hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, til að hlusta á þessi rök og verða samferða okkur sem erum á móti því að skipta öllu landinu upp í sveitarfélög, þar með töldum jöklum, söndum, hraunum og öðrum víðernum.

[18:15]

Ég vil nefna nokkrar athugasemdir. Hér er t.d. athyglisverð athugasemd frá Ingva Þorsteinssyni um beitarnýtingu hálendisins. Mér finnst hún mjög athyglisverð vegna þess að þar kristallast að einhverju leyti hinir mismunandi hagsmunir bænda og þeirra sem nýta afréttina til beitar og hins vegar sjónarmið gróðurverndar. Ég vil minna á að ekki er langt síðan hér var mikil ráðstefna eða umræða um það að á hálendinu væri að myndast mjög stór uppblásin svæði eða eyðimörk og að eitthvað verði gera til að bæta það. Ég vitna í athugasemd Ingva Þorsteinssonar um svæðisskipulagið. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Við skipulagsgerð eins og hér er um að ræða hlýtur að vera grundvallaratriði að leitað sé allra gagna sem máli skipta um náttúrufar landsins og að trúverðugleiki þeirra gagna og þar með notagildi sé síðan metið. Hafi þetta verið gert hvað varðar gróðurfar hálendisins er niðurstaðan vægast sagt furðuleg. Þær ,,tillögur`` sem gerðar eru um beitarnýtingu hálendisins taka ekki tillit til þeirrar þekkingar sem fyrir hendi er um ástand gróðurs og jarðvegs á hálendinu. Þeirrar þekkingar var m.a. aflað með gróðurkortum RALA og með rofkortum RALA og Landgræðslu ríkisins.``

Í þessum athugasemdum koma mjög margar beiðnir um frestun og segir félmrn. sjálft m.a. --- ég vitna enn í athugasemdir við svæðisskipulagið og þetta er frá félmrn., með leyfi forseta:

,,Ráðuneytið telur ekki ástæðu til að gera efnislegar athugasemdir við skipulagstillöguna. Hins vegar vill ráðuneytið að skýrt komi fram að enn er óútkljáð með hvaða hætti skipað verður stjórnsýslumálefnum á miðhálendi Íslands. Frumvarp félagsmálaráðherra sem lagt var fram á vorþingi náði ekki fram að ganga, en á haustdögum verður á ný lagt fram frumvarp sama efnis.``

Það er sem sagt frv. sem við erum að ræða um núna.

Í umsögn frá Rarik segir, með leyfi forseta:

,,Nú er svo komið að sú lagaheimild sem samvinnunefndin byggði störf sín á er fallin niður við það að búið er að samþykkja ný skipulags- og byggingarlög. Í nýju lögunum er ekkert fjallað um störf þessarar nefndar eða skipulag miðhálendisins. Í upphaflega frumvarpinu var ákvæði um það en það var fellt út í meðförum þingsins. Því verður ekki betur séð en að störf nefndarinnar nú eigi sér enga stoð í lögum ...``

Því legg ég áherslu á að svæðisskipulagið sem hér hefur verið til umræðu og margir telja eitt lítið spor í rétta átt, er mjög umdeilt og hefur ekki lagastoð nema þetta frv. fari í gegn því það er byggt á því að sveitarfélögin fái stjórnsýsluvald og að hluta til skipulagsvald á þessum svæðum.

En hvernig viljum við kvennalistakonur haga málum á hálendinu? Eins og ég hef sagt áður leggjum við megináherslu á að miðhálendið sé ein heild, bæði skipulagslega og stjórnsýslulega þó vissulega komi til greina að framselja eitthvert stjórnsýsluvald til sveitarfélaga, t.d. varðandi löggæslu eða heilbrigðiseftirlit.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur lagt fram brtt. við frv. til sveitarstjórnarlaga á þskj. 1276 þar sem lagt er til að miðhálendi Íslands verði sjálfstæð stjórnsýslueining sem lýtur sérstakri stjórn. Hún leggur til að forsrh. skipi níu manna stjórn miðhálendis til fjögurra ára að fengnum tilnefningum. Umhverfis-, iðnaðar-, samgöngu- og félagsmálaráðherra tilnefna einn fulltrúa hver og Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir fjóra fulltrúa. Forsætisráðherra skipar einn fulltrúa og er hann jafnframt formaður stjórnarinnar.

Ég get vel tekið undir að það sé umdeilanlegt hvernig stjórn af þessu tagi sé skipuð. Það er ákveðin hætta á að í stjórn af því tagi sem hér er lögð til komi upp togstreita á milli t.d. virkjunarsjónarmiða, ferðaþjónustusjónarmiða eða umhverfissjónarmiða. Ég tel sjálf langmikilvægast að umhverfissjónarmiðin ráði þarna ríkjum og að fagleg yfirsýn og langtímaforsendur ráði nýtingu þessa svæðis.

Í þeim ábendingum sem við þingmenn höfum fengið undanfarna daga hafa komið tillögur um að Alþingi og sveitarfélögin skipi þarna fulltrúa ásamt hagsmunasamtökum almennings. Það er svo sannarlega vandasamt að finna nákvæmlega réttu lausnina. En meginatriðið er að mínu mati að sem best takist að samhæfa vernd þessara stórkostlegu víðerna, uppbyggingu á uppblásnum svæðum og skynsamlega nýtingu með tilliti til ferðaþjónustu, virkjana og landnýtingar. Spurningin er hvers konar stjórn er líklegust til að tryggja að þessi sjónarmið verði í jafnvægi og að náttúran fái ávallt að njóta vafans.

En svo ég fari aðeins út í aðra sálma þá velti ég því einnig fyrir mér hvort æskilegt væri að koma þarna á sérstakri kvennastjórn --- og þá heyri ég hlátur í einhverju horni. Ég nefndi áðan afstöðu Páls Péturssonar til jafnréttisfræðslu og afstöðu hans til samvinnu sveitarfélaganna og þá má velta því fyrir sér hvort þarna sé ekki fyrirtakstækifæri til að koma á svæði sem yrði alfarið undir stjórn kvenna, svæði þar sem áherslan á sjálfbæra þróun yrði ráðandi. Þetta væri ákjósanlegt tækifæri að mínu mati til að gera miðhálendið að sérstöku stjórnsýslusvæði og láta það undir stjórn kvenna, því við höfum ekki mikla reynslu af því hér á landi, og við höfum ekki efni á að misnota þetta tækifæri eins og við misnotuðum það þegar myndaður var nýr banki á dögunum og engir kvenbankastjórar voru ráðnir.

Konur hafa nú margar hverjar menntað sig á sviði skipulagsfræða, náttúruvísinda, í landbúnaði og í verkfræði og ég er sannfærð um að ef þær legðust á eitt gæti komið út mjög góð reynsla og þekking, samanber reynslu kvenna af jöklaferðum og óbyggðaferðum yfirleitt.

Í þessu sambandi, herra forseti, dettur mér í hug þekkt saga eftir Gilman sem fyrst birtist árið 1915 og heitir ,,Herland.`` Síðar kom þessi merkilega saga, sem fyrst var framhaldssaga, út sem heildstæð skáldsaga. Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að segja örstutt frá þessari sögu eftir Gilman, ,,Herland``. Sagan segir frá þjóð sem býr afskekkt og allir karlmenn, bæði fullorðnir sem börn, farast á óútskýrðan hátt. Það er ekki alveg ljóst hvort stríð eða náttúruhamfarir voru þar að verki. En eftir stendur samfélag þar sem eingöngu eru konur. Þetta samfélag stóð frammi fyrir því að til þess að geta lifað af yrðu konur að ganga til allra starfa og því þurfti að endurskipuleggja allt út frá því. Sagan segir frá því hvernig menntakerfi þessar konur komu á og hvers konar atvinnulífi þær komu á. Og það er mjög athyglisvert að útgangspunktur númer eitt var sjálfbær þróun, þ.e. að nýta landið í sátt þannig að komandi kynslóðir gætu nýtt það áfram, þótt vissulega hafi þetta hugtak, sjálfbær þróun, ekki verið til árið 1915.

Lögð var áhersla á að allir lifðu í sátt og samlyndi og sérstaklega að sátt væri milli mannsins og umhverfisins. Í þessu samfélagi urðu konur sérfræðingar á öllum sviðum og þeim tókst meira að segja hið ótrúlega, enda er þetta skáldsaga, að einrækta börn. Börn héldu því áfram að fæðast í þessu samfélagi, reyndar bara stúlkubörn. Maður getur rétt velt því fyrir sér hvort það var ekki virðingarverð staða að verða móðir í þessu samfélagi eða ala upp börnin því þetta var auðvitað mikilvægasta iðjan sem til var, sú virtasta í þjóðfélaginu og best launaða.

En það er ekki punkturinn heldur sá að sagan segir frá þremur karlmönnum sem eru á ferðalagi og koma til þessa lands. Þeir koma með sínar hugmyndir um konur og þeirra hlutverk, þ.e. að þeirra hlutverk sé að þjóna karlmönnum til borðs og sængur. En smám saman átta þeir sig á því að þarna eru annars konar konur sem kunna til allra verka, eru allsráðandi og láta ekki bjóða sér neitt múður.

Einn þeirra verður vís að kynferðislegu ofbeldi og er þá gerður brottrækur úr samfélaginu þegar í stað, öðrum tekst vel upp í einkasamskiptum sínum með því að gangast inn á þær reglur og þau lögmál sem giltu en sá þriðji fluttist burtu með sinni heittelskuðu.

[18:30]

Það sem skiptir máli, herra forseti, í þessu sambandi er það hve hissa þeir voru á því hvað landið var allt blómlegt og hvað allir lifðu í mikilli sátt við umhverfið og náttúruna. Ef karlarnir ætluðu að ofbjóða umhverfinu með einhverjum hætti var það stöðvað.

Kannski er einmitt tækifæri nú til að stofna sérstakt svæði á miðhálendinu með sjálfstæða stjórnsýslu og skipulag þar sem konur ráða ríkjum og að sjálfsögðu geri ég ráð fyrir að þær gengju út frá forsendum sjálfbærrar þróunar sem yrði þar efst á blaði, svo og faglegum vinnubrögðum í stað hagsmunapots einstakra sveitarfélaga eða atvinnugreina. Slík stjórn yrði farsæl en að sjálfsögðu geta karlar einnig stjórnað og virt sjálfbæra þróun.

Þegar hagsmunir komast til tals segir sig sjálft að tekjur verða af ferðaþjónustu á þessum svæðum, tekjur af orkuframkvæmdum og tekjur verða þegar afréttarlandi verður sökkt ef virkjað verður eins og núverandi áætlanir gera ráð fyrir. Þá væri auðvitað upplagt að nota þessar tekjur til að jafna eignastöðu karla og kvenna og hjálpa atvinnurekendum við að útrýma launamun kynjanna. Konur urðu út undan þegar fiskveiðikvótanum var skipt og það var mjög óréttlátt en mætti auðvitað breyta t.d. með því fyrirkomulagi að senda öllum landsmönnum ávísun upp á sinn hluta af kvótanum eða með því að gera konum kleift að eignast kvóta eins og mér skilst að hafi verið gert markvisst í Noregi eftir mótmæli kvenna þar í landi um að vera sniðgengnar kvótaúthlutun. Ég vil í þessu sambandi benda á þann 10% kvóta sem nú á að vera opinn fyrir alla varðandi úthlutun á síld, þ.e. að hafa ekki alltaf veiðireynslu sem grunn því þar standa konur einfaldlega verr að vígi vegna hefðbundinnar hlutverkaskiptingar kynjanna.

Svo ég haldi aðeins áfram með þessa hugsun, herra forseti, þá væri þarna líka kærkomið tækifæri til að breyta nöfnum kvenstjórnenda á þessu svæði þannig að yfirmenn þar þyrftu ekki að kalla sig herra, sem er auðvitað þvílík niðurlæging við konur. Í því sambandi vil ég nota tækifærið og minna á tillögu sem nú liggur fyrir þinginu um nýtt starfsheiti fyrir ráðherra sem bæði kynin geti borið. Ráðherraembætti eiga ekki að vera eyrnamerkt körlum því þau eru formlega opin fyrir konur. Þessi tillaga hefur því miður ekki komist á dagskrá, enda seint fram borin en í greinargerðinni er bent á að erlendis eru mun kynhlutlausari orð notuð yfir þessi starfsheiti, þ.e. starfsheiti ráðherra og þar er átt við orðin minister og secretary. Í athyglisverðri grein um þessa tillögu í Morgunblaðinu 1. maí bendir Ásgeir Sverrisson á að uppruninn á erlendu og íslensku orðunum sé mjög mismunandi og endurspegli líklega mismunandi hugsun ráðamanna hér og annars staðar. Ásgeir Sverrisson dregur fram þá athyglisverðu staðreynd í þessari grein í Morgunblaðinu 1. maí að erlendu orðin endurspegli ákveðna hófsemi og auðmýkt gagnvart almannavaldinu en hér er það ráð og herra, þ.e. hinn drottnandi aðili sem ræður. Ég velti því fyrir mér hvort þetta endurspegli ekki einmitt afstöðuna nú, bæði til meðferðarinnar í þinginu sem ég mun koma nánar að á eftir en ekki síður til þessa máls þar sem ekki virðist eiga að hlusta á þann mikla fjölda Íslendinga sem ber ugg í brjósti vegna þessa frv.

Ég hafði hugsað mér, herra forseti, að fara nákvæmar út í grein Ásgeirs Sverrissonar en tímans vegna mun ég ekki gera það.

Herra forseti. Þau viðhorf sem endurspeglast í orðinu ráðherra endurspeglast svo sannarlega í pólitískri umræðu um störf þingsins þessa dagana. Orð hæstv. forsrh. í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi sýndu svo sannarlega að þar talaði maðurinn með valdið. Maðurinn sem lítur á sig sem drottnandi herra sem getur ráðið því hve lengi Alþingi starfar á þessu vori.

Vissulega hefur hæstv. forsrh. vald til að slíta þinginu en þingið þiggur vald sitt frá þjóðinni, situr í skjóli þjóðarinnar og forseti þingsins á að sjálfsögðu að ákveða starfstímabil þingsins en ekki forsrh. Hæstv. forsrh. sýndi forsn. þingsins lítilsvirðingu með ummælum sínum að mínu mati, enda virðist ljóst af þingstörfunum nú að sá faglegi blær sem smám saman hefur verið að færast yfir þingið er horfinn. Stjórnarflokkarnir tala um málþóf en stjórnarandstaðan bendir á þingsköpin og þann rétt þingmanna að hafa ótakmarkaðan ræðutíma við 2. umr. máls. Ég vil gera sömu kröfu til okkar þingmanna og til annarra stofnana, hvort sem þær heita bankar eða aðrar ríkisstofnanir, og gerðar eru til þingmanna í flestum þjóðþingum nágrannalandanna. Ég legg því til að síðasti mögulegur þingfrestunardagur verði lögfestur þannig að stjórn og stjórnarandstaða verði að semja þegar sá dagur nálgast. Hinn valkosturinn er að hafa þing allt árið.

Pólitískt séð væri skynsamlegast að fresta þessu máli svo og frv. um eignarhald á auðlindum í jörðu, a.m.k. 1. gr. þess og bráðabirgðaákvæðinu. Það er líklega tálvon vegna pólitískrar hagsmunagæslu stjórnmálaflokkanna fyrir hönd sveitarfélaganna úti á landi jafnvel þó að æ fleiri Íslendingar telji það mikið óréttlæti að fá miðhálendið alfarið í hendur aðliggjandi sveitarfélaga.

Hér er um mjög stórt mál að ræða eins og ég hef komið að í ræðu minni. Það verður að skoða betur, af meiri yfirvegun. Ég vil aðeins, herra forseti, koma að tveimur bréfum sem okkur þingmönnum hafa borist undanfarna daga. Hér er eitt slíkt frá Sveini Helga Sverrissyni, en hann segir svo, með leyfi forseta:

,,Sveitarfélögin sem liggja að hálendinu hafa flestöll hug á að ná sér í sneið af þeim gróða sem þeim sýnist ferðaþjónustan vera að raka inn með markaðssetningu á hálendisferðum. Það að koma sér upp svonefndum hálendismiðstöðvum og gera það á sinn hátt sýnist vera góður kostur. En hvað hangir fleira á spýtunni? Hver á að borga nauðsynlegar breytingar og aðstöðu sem krafa er orðin uppi um að sé til staðar? Sú aðstaða er að minnstum hluta til þannig að hægt sé að innheimta gjöld fyrir notkun. Sem dæmi má nefna gönguleiðir, hreinlætisaðstaða, merkingar, þjónusta, öryggisbúnaður og skolp/sorphirða. Kvaðirnar eru í raun gífurlegar. Til viðbótar við áður upptalda þætti má nefna það sem tengist opinberum aðilum eins og ákvæði um framvindu skipulagsmála, umhverfismat og fleira. Það væri alveg óvitlaust að láta taka saman allar þessar kröfur, einnig þær sem eftir á að þýða úr skjölum frá Brussel áður en lengra er haldið. Ég bendi hér með á skýrslu vinnuhóps samgrn. um umbætur á ferðamannastöðum frá árinu 1995. Fjárln. Alþingis kom einnig að því máli. Þar komu upp ýmsar tölur varðandi þann lágmarkskostnað sem út þarf að leggja svo viðunandi sé. Eitthvað eins og 60 millj. bara til að halda í horfinu á Landmannalaugasvæðinu.`` --- 60 millj. bara til að halda í horfinu á Landmannalaugasvæðinu. Síðan spyr Sveinn Helgi Sverrisson:

,,Eru sveitarfélögin, sameinuð eður ei, í stakk búin til að takast á við svona verkefni í viðbót við rekstur grunnskólanna? Er fyrirhuguð lagasetning dulbúinn bjarnargreiði, baggi á reksturinn? Ég sé fyrir mér að þetta mundi leiða til enn fleiri hálfkaraðra og hálfuppgerðra ferðaþjónustustaða þar sem ekki er tekið tillit til þarfa notenda hálendisins, hvað þá að einhver heildarstefna sé ráðandi varðandi staðsetningar slíkra hluta. Framtíðarsýn er það sem þarf, ekki að sætta sig við óbreytt ástand.``

Þá vil ég ítreka orð Steinunnar Sigurðardóttur rithöfundar sem fram komu í grein hennar þriðjudaginn 28. apríl í DV og hér hafa verið rakin en ég ætla aðeins að koma inn á lítinn þátt í þeirri grein. Greinin heitir ,,Þjóðhættulegt stjórnarfrumvarp`` og undirtitillinn er ,,Dreifbýlisatkvæðin dýrmætu``. Ég vitna beint í grein Steinunnar Sigurðardóttur, með leyfi forseta:

,,Enn einu sinni vaknar spurningin: Hvaða fólk er þetta á Alþingi? Hvað er það að hugsa? Er það svo rígbundið á flokksklafann að það þegir út yfir alla skynsemi og samvisku? Eru það dreifbýlisatkvæðin dýrmætu sem sitja föst í kokinu og varna máls? Það minnsta sem við kjósendur getum farið fram á er tími, tími til að ræða og taka þátt í að ákveða hvað verður um landið okkar, í bókstaflegri merkingu.

Ef frumvarpið um tertusneiðarnar fjörutíu verður samþykkt frá Alþingi mun vansi þeirra sem að því stóðu, þeirra sem samþykktu, þeirra sem stóðu aðgerðalausir hjá, verða ævarandi. Kjósendur um allt land eru nú óðum að vakna til vitundar um þetta óheillafrumvarp og þeir munu beita refsivendinum harkalega þegar þeir fá tækifæri til. --- En landinu mun blæða --- það verður ekki aftur tekið.``

Það er því von mín að málin leysist þannig að þessu máli verði frestað og að stjórn þingsins fari að taka ákvörðun um þingstörfin á þessu vori.

[18:45]

Ég tek það fram, herra forseti, að með afstöðu minni er ég ekki að lýsa vantrausti á þau sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu þó að ég geri mér grein fyrir eins og fram kom í áðurnefndri tilvitnun að verkefni þeirra verða mjög mikil. Ég geri ráð fyrir að þótt ein stjórn yrði á miðhálendinu væri hægt að framvísa ýmsum verkefnum til hennar, verkefnum sem hún réði vel við og verkefnum þar sem hagsmunir mismunandi sveitarfélaga eru ekki til staðar.

Ég sagði það áðan, hæstv. forseti, að það væri álitamál hverjir ættu að stjórna slíku svæði en ég legg megináherslu á að það verði verndarsjónarmiðin og skynsamleg nýting sem ráði þar ríkjum. Þess vegna vil ég leyfa mér að vitna í ágætan pistil eftir Illuga Jökulsson sem Kristín Halldórsdóttir vitnaði í eina nóttina í sinni ræðu en ég tel að þessi pistill endurspegli mjög vel þann ótta sem er úti í þjóðfélaginu vegna þessa frv. Í pistlinum segir Illugi Jökulsson m.a. þetta --- og ég ætla ekki að lesa allan pistilinn því að hann er nokkuð langur, með leyfi forseta::

,,Genin eru lífseig kvikindi og við erum enn nákvæmlega sama fólkið og byggði fyrstu borgina suður í Jeríkó fyrir átta þúsund árum eða hvenær sem það nú var. Í því felst m.a. að þótt við séum hópdýr sem kunnum best við okkur innan um okkar líka þá viljum við samt ekki vera of innilokuð. Maðurinn var á sínum tíma helst til varnarlítil bráð fyrir alls konar vígtennt villidýr og það eimir enn í genum okkar eftir af þörfinni fyrir undankomuleið, fyrir víðáttu; þrátt fyrir alla hjarðmennskuna sem býr í okkur þurfum við að geta séð í kringum okkur út fyrir hópinn.

Þessi eðlislæga þörf mannsins fyrir víðáttu hefur að verulegu leyti jafnframt hópsálarskapnum verið sniðgengin í tæknibyltingunni. Við höfum hrúgað okkur allt of mikið saman, byggt of háa veggi í kringum okkur. Við höfum talið að sífellt hærri og þykkari múrar séu betri vörn gegn villidýrum sem eru okkur ekki lengur nein ógn heldur en undankomuleið víðáttunnar og opinnar náttúru. Það má halda því fram og jafnvel leiða að því einhver rök að ýmis þau óskemmtilegri vandamál sem maðurinn á við að stríða í eigin sál þessi missiri veraldarsögunnar, lítt skiljanleg og þrálát vanlíðan þrátt fyrir æ auðveldari lifnaðarhætti, enn óskiljanlegri grimmd, ofsi og græðgi þrátt fyrir að í rauninni sé varla lengur um neinar frumþarfir að berjast nema í vanþróuðum löndum. Það má sem sagt halda því fram að misbrestirnir í sál mannsins stafi af togstreitu, nánast geðklofa, djúpt í eðli hans, milli hinna eðlislægu þarfa mannsins fyrir víðáttu annars vegar og hins vegar þeirrar tilhneigingar hans, sem orðið hefur ofan á í reynd, að hrúga sér saman á litlu svæði, umbylta og breyta umhverfinu eftir eigin duttlungum og reisa um sig múra svo að brátt er hvergi ósnortinn sjóndeildarhringur.

Og það sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Ef við hugsum fram í tímann, og þá meina ég ekki 10 ár, ekki 20 og ekki 50, heldur 200 ár, 300 ár, 1000 ár, þá verður ekki betur séð en maðurinn verði orðinn enn þá innilokaðri en nú er, fastur í sinni eigin tækni, búinn að umbylta öllu í kringum sig og breyta stærstum hluta heimsins í sína eigin mauraþúfu. Þá mun hver einstaklingur hafa harla fátt við að stríða í hversdagslegum vandamálum en gen hans verða söm við sig. Hann verður enn þá í eðli sínu varnarlitla veiðidýrið sem þarf sífellt að halda vöku sinni og sjá í kringum sig. Og þá, þá fyrst, munum við sjá hve dýrmæt verða ósnortin eða a.m.k. lítt snortin svæði eins og hálendi Íslands þar sem sjóndeildarhringurinn er ekki gerður af manna höndum.

Ef tekst að varðveita hálendi Íslands mun það verða okkar stærsta og mesta auðlind í framtíðinni og þá er ég sem sagt að tala um næstu þúsund ár og þegar ég segi auðlind á ég ekki við gróðalind. Ég á ekki við að við getum lifað eins og blómi í eggi hér niðri á láglendinu, á höfuðborgarsvæðinu, og grætt á tá og fingri á að selja einhverjum útlenskum bjánum að gang að óbrúuðum ám og hrikalegum fjöllum þótt nú þegar séu innibyrgðir Evrópubúar og Ameríkumenn og Japanar tilbúnir að borga stórfé fyrir að sleppa stundakorn úr stórborgum sínum og tilbúnu umhverfi. Nei, ég er ekki að tala um gróðann sem við getum haft af hálendinu heldur er ég hreint og beint að tala um okkur sjálf, um geðheilbrigði íslensku þjóðarinnar sem mun velta á því eftir þúsund ár að við getum komist út undir bert loft, sloppið undan múrum okkar sjálfra og eygt undankomuleið þótt við höfum svo sem ekkert að flýja.``

Áfram segir Illugi Jökulsson í pisli sínum:

,,En skipulagsþrá mannsins er líka sterk, sú hvöt að rotta sig saman og byggja eitthvað til að fela sig inni í, sú þrá sem varð til þess að hinir fyrstu múrar voru reistir í Jeríkó og hefur allar götur síðan togast á við þörfina fyrir víðáttuna. Nú hefur skipulagsþrá mannsins teygt sig inn á hálendi Íslands og þar er stórkostleg hætta á ferðum ef skipulagt verður um of, ef reistar verða virkjanir, vegir, hús og brýr, háspennulínur og hótel, sem sé einir múrarnir enn. Eftir þúsund ár verða ósnortin eða lítt snortin svæði ansi fá eftir í veröldinni, og núna stendur okkur til boða að varðveita eitt slíkt svæði sem getur ekki einungis orðið börnunum okkar tekjulind í ferðamennsku heldur getur líka og miklu frekar orðið barnabarnabarnabarnabarnabörnum okkar undankomuleið í ofskipulögðum heimi.``

Síðar segir Illugi: ,,Það gildir einu hversu snoturt er hjartalag þeirra hreppsnefndarmanna --- það kemur alltaf að því fyrr eða síðar að þeir sjá ekkert athugavert við að taka eins og einn hektara undir skipulagt svæði, svo kannski annan og enn einn, og eftir þessi þúsund ár verður sjóndeildarhringurinn á hálendinu orðinn jafnþrautskipulagður og allt annað umhverfi mannsins í heiminum. Þessa auðlind sem hálendið er, þessa undankomuleið fyrir sjálft geðheilbrigði okkar Íslendinga má aldrei og undir engum kringumstæðum setja undir vald manna sem geta freistast til að hafa af henni skammvinnan gróða.

Mikið væri nú gaman ef það kæmi í ljós að víðernið á Íslandi gerði mönnum kleift að hugsa stórt og langt fram í tímann, þúsund ár eða jafnvel tíu þúsund ár og að menn gætu þá hugsað hlýlega til allra Íslendinga sem sáu út fyrir múrana og áttuðu sig á þörf sálarinnar fyrir ósnortinn sjóndeildarhring og víðernið í sjálfu sér. En þá kemur Páll Pétursson í sjónvarpið og fussar og sveiar yfir áhyggjum manna sem telja hálendinu stafa hætta af því að vera sett undir hreppsnefndir sem munu, eins og ég sagði, fyrr eða síðar freistast til að krækja sér í smápening með lítils háttar mannvirkjum hér og þar, fussar og sveiar og ætlar að keyra frv. sitt í gegn hvað sem líður þeim sem vilja fara varlegar í sakirnar og reyna að mynda breiðari hóp sem gæti hugsanlega horft út fyrir hina þrengri hagsmuni hreppanna, fussar og sveiar því hann segir hafa verið lengi í pólitík og ætlaði svo greinilega að segja að hann hefði alltaf keyrt hitt og þetta í gegn hvað sem leið öllu muldri en dró aðeins í land áður en hann missti þetta alveg út úr sér, en með leyfi að segja, kemur það eðli mannsins ekki hætis hót við hvort Páll Pétursson hefur verið lengi í pólitík eða ekki og eðli mannsins krefst þess --- hvað sem líður skipulagsþörfinni --- að vita líka einhvers staðar af opinni og óskipulagðri undankomuleið.``

(Forseti (ÓE): Það gildir ákveðin regla um ávörp til hv. þingmanna og ráðherra.)

Herra forseti. Ég var núna að lesa upp ræðu annars manns og hugsaði mig um hvort ég ætti að bæta inn hæstv. ráðherra.

(Forseti (ÓE): Já. Forseti áttaði sig ekki á því, þetta var orðinn svo langur lestur.)

Ég vona að þetta bendi ekki til að forseti hafi ekki verið að fylgjast með ræðu minni en ég tel að ég hafi farið rétt með þingsköp.

(Forseti (ÓE): Forseti verður að viðurkenna að athyglin var kannski ekki alveg í lagi.)

Ég ætla ekki að hafa þessa tilvitnun í þennan pistil Illuga Jökulssonar lengri en hann sýnir að mínu mati mjög vel þær tilfinningar og þá framsýni sem ég vil gjarnan að fólk átti sig á og það er svo nauðsynlegt í þessu máli að við rjúkum ekki til, látum ekki stundarhagsmuni ráða og áttum okkur á að hér er mjög einstök auðlind og þar á ég fyrst og fremst við ósnortnu víðernin sem á vissulega að leyfa fólki að njóta en einnig við virkjanirnar og þá möguleika sem eru þarna til staðar að öllu leyti.

Ég las pistilinn til þess að leggja áherslu á þá frumþörf mannsins að eiga sér andrúm í víðernum hálendisins. Ég tel mun meiri líkur á því að þetta andrúm verði varðveitt ef miðhálendið verður sérstakt svæði með eigin stjórnsýslu og skipulag. Varðveisla ósnortinna víðerna og skynsamleg nýting þeirra er gífurleg auðlind og lykillinn að þeirri ímynd sem við viljum að landið hafi og lykillinn að vellíðan okkar og hagsæld í senn. Vonandi berum við gæfu til þess að haga málum þannig að sem allra flestir geti orðið sáttir og að hagsmunir barnabarnabarna okkar verði ekki síður hafðir í huga en hagsmunir okkar sem byggjum nú landið. Þar á ég ekki síst við hagsmuni þeirra sem næst búa sem virðist því miður vera meginhugsunin í þessu frv.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur bent á það að ofannefnd verðmæti verði best varðveitt með náttúruverndarlögum og skipulagslögum. Ég get að ýmsu leyti tekið undir það sjónarmið hans og vil í því sambandi benda á ágætar greinar um almannarétt og landnýtingu eftir Stefán Má Stefánsson og um útilífsrétt eftir Sigurð Líndal en báðir höfundarnir eru prófessorar í lagadeild við Háskóla Íslands og þó að þessar greinar séu orðnar um 20 ára gamlar standa þær enn fyrir sínu. Þá má og benda á ágæta grein Þorgeirs Örlygssonar prófessors um eignarhald á landi og náttúruauðlindum. Ég nefni þessar heimildir því að ég tel að það séu mjög margir uggandi um rétt sinn t.d. til að tína ber, til að tjalda á óbyggðum svæðum o.s.frv. og ég tel að þarna sé mjög skilmerkilega gerð grein fyrir þeim rétti þó að það sé auðvitað ljóst að það fer nokkuð eftir því hverju fram vindur með þau frumvörp sem núna eru til umræðu hvort réttarstaðan breytist. Hitt er jafnljóst þó að þessi lög, náttúruverndarlög og skipulagslög skipti máli að það skiptir miklu máli hvort stjórnsýslu og skipulagi hálendisins er skipt í ræmur, eins og hér er lagt til, eða hvort því er stjórnað sem einni heild.

[19:00]

Ég virði þau rök sem einnig hafa komið fram í umræðunni, að þeir sem búi næst viðkomandi svæðum hafi oft sterkari taugar til umhverfisins og megi því búast við að þeir fari betur með umhverfið en aðrir. Ég tel það þó ekki nægilega góð rök fyrir því að láta stjórnun þessara svæða í þeirra hendur því að oft geta skammtímahagsmunir ráðið t.d. fyrir beit eða fyrir gróða af ferðamönnum. Þá óttast ég samkeppni t.d. tveggja aðliggjandi sveitarfélaga sem leiði til þess sem kom fram áðan í einu bréfinu sem ég las, að það yrðu margir sem byrjuðu á ferðamiðstöðvum eða einhverjum mannvirkjum en hefðu í raun ekki nægilegt fjármagn til að ljúka þeim framkvæmdum. Við stæðum þá uppi með hálfkaraðar byggingar um allt hálendið. Þessum svæðum verður að stjórna sem einni heild. Að mínu mati er því mun minni hætta á að ráðist verði í of margar framkvæmdir af of litlum efnum sem standa svo ókláraðar í langan tíma. Það þarf að leggja fé í það sem verður gert og hafa alla umgerð til fyrirmyndar. Ég stórefast um að fjárhagslegt bolmagn sveitarfélaga sé yfir höfuð þannig að þau geti staðið að slíkum framkvæmdum þannig að til fyrirmyndar verði.

Þessi skipan og þessi umræða er ekki síst athyglisverð vegna þjóðlendufrv., herra forseti, en samkvæmt því mun mikið af þeim svæðum sem um ræðir verða eign ríkisins en eins og nú er háttað ríkir réttaróvissa. Það er ekki alveg ljóst hver á þessi svæði. Ætla má því að hugsunin sé sú að sveitarfélögin eigi að geta ráðið stjórnsýslu og skipulagi á þessum svæðum eða a.m.k. á svæðum viðkomandi sveitarfélaga og eigi væntanlega að fá fé til þess frá eigandanum eða ríkinu. Það skyldi þó ekki vera þannig sem á að tryggja framsóknarhagsmunina á kostnað almennings á þéttbýlissvæðum? Ég nota þá hugtakið framsóknarhagsmunir í yfirfærðri merkingu. Það er þetta sem ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. er að gera. Þetta sem héraðsnefndarformennirnir höfðu sem grunnforsendur þegar þeir sömdu fyrirliggjandi skipulagstillögu, eða hvað? Eða hvaða aðrar forsendur lágu til grundvallar?

Samkvæmt orðum skipulagsstjóra og fulltrúa frá ferðamálageiranum, orkugeiranum og náttúruverndarsamtökum skorti forsendur um nýtingu á öllum ofannefndum sviðum við vinnu svæðisnefndarinnar um gerð skipulags miðhálendistillögunnar sem nú liggur fyrir. Slíkar forsendur hafa líklega reynst óþarfar ef karpið gekk fyrst og fremst út á það hvað kæmi í hvers hlut.

Ég tel það lágmarkskröfu að miðhálendið sé ein skipulagsleg heild en get ekki séð að fyrirliggjandi tillaga um breytingar á skipulagslögum tryggi það þó svo eigi að vera. Ég er því ekkert hissa á að þessi málamiðlun hafi fallið í grýttan jarðveg hjá nokkrum þeim þingmönnum sem bundu vonir við hana þegar komið var í veg fyrir að hún yrði afgreidd með því að banna að hún yrði tekin hér til umræðu. Þess vegna er tillagan bæði efnislega gölluð að mínu mati og einnig er það galli fyrir þá sem töldu hana vera málamiðlun að hún er ekki afgreidd samhliða þessu frv.

Niðurstaða mín er því sú, herra forseti, að enginn annar skynsamlegur kostur sé í stöðunni en að fresta afgreiðslu málsins, a.m.k. 1. gr. og ákvæðinu til bráðabirgða, þó svo sveitarstjórnarfrv. sjálft geti farið í gegn að öðru leyti. En ég get þó ekki séð að það skipti meginmáli hvor kosturinn er valinn vegna þess að í raun er ekki um neinar stórkostlegar breytingar að ræða á sveitarstjórnarlögunum.

Að lokum vil ég ítreka það, herra forseti, og láta í ljós þá ósk mína að forsn. þingsins ... Herra forseti. Ég er að tala sérstaklega til forsetans nú svo að ég vil gjarnan fá athygli hans.

(Forseti (ÓE): Forseti hlustar.)

Ég vil að lokum láta í ljós þá ósk mína að forsn. þingsins taki stjórn þess í sínar hendur af festu og sýni að það er hún sem hefur húsbóndavaldið á Alþingi þó að ráðherrann sjálfur ráði yfir ríkisstjórn landsins. Við alþingismenn erum stöðugt minntir á það að við þiggjum vald okkar frá fólkinu og það var skelfilegt að heyra að hæstv. forsrh. virðist ekki átta sig á því. Vonandi er skýringin einfaldlega sú að hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, hefur ekki mikla þingreynslu, þ.e. hann hefur ekki mikla reynslu af því að vera óbreyttur þingmaður þar sem hann varð samtímis ráðherra og alþingismaður. Jafnvel þó að þetta sé skýringin þá er hún óviðunandi vegna þess að hann er kjörinn alþingismaður og þekkir mætavel stjórnskipan lýðveldisins.

Loðvík XIV. hefði ekki hikað við stjórnunarhætti af þessu tagi og hver minnist ekki þess hvað Jeltsín gerði í Rússlandi fyrir skemmstu. Kannski það sé næsta vers að þingið verði sent heim þó varla megi búast við því að ríkisstjórnin verði rekin því hvað verður þá um herrann sem ræður?

Virðulegi forseti. Þetta eru mjög stór orð en þau eru sögð að gefnu tilefni. Eins og ég sagði í umræðu um stjórn þingsins fyrr í dag þá ofbauð mér algerlega að heyra orð hæstv. forsrh. þar sem minn skilningur er sá að þau orð hafi fallið án ákvörðunar forsn. þingsins, þ.e. þetta hafi verið hugmyndir hæstv. forsrh. en ekki að þessi ákvörðun hafi verið tekin af forsn. þingsins og tilkynnt honum. Ég geri greinarmun á þessu tvennu. Ef það er réttur skilningur sem ég nefndi áðan að forseti þingsins hafi ekki tekið þessa ákvörðun, þá finnst mér þetta hafa verið niðurlægjandi fyrir hæstv. forseta og þarna hafi verið sýndir stjórnunarhættir sem bera ekki merki hógværðar og auðmýkt gagnvart almenningi sem ráðamenn velflestra lýðræðislanda vilja við hafa. Það er því ljóst, eins og segir í áðurnefndri grein Ásgeirs Sverrissonar í Morgunblaðinu 1. maí:

,,Á Íslandi ,,ráða`` þeir ,,herrar`` sem gegna embættum ,,ráðherra``, annars staðar er hugsunin sú að það fólk sem þessum störfum sinnir sé í þjónustu almennings. Embættisheitum má auðveldlega breyta en erfiðara getur reynst að kalla fram breytingar á þeirri hugsun sem að baki býr.``

Ég vil enda ræðu mína með þessum orðum, hæstv. forseti, að vonandi áttar þjóðin sig bráðlega á því að það er hægt að gera kröfur til bættrar stjórnunar, ekki bara í ríkisfyrirtækjum eins og bönkum heldur einnig til alþingismanna og ráðherra. Tímarnir eru að breytast og vonandi verður ein táknmynd þeirra breytinga sú að við skiptum út orðinu ráðherra fyrir annað sem í senn ber með sér hófsemi og virðingu fyrir almenningi og er ekki eyrnamerkt körlum. Hér ríkja stjórnarhættir fortíðar fremur en 21. aldarinnar og breytt vinnubrögð verða að koma til.

Herra forseti. Ég hef lokið ræðu minni.