Þjóðlendur

Laugardaginn 09. maí 1998, kl. 11:57:36 (6380)

1998-05-09 11:57:36# 122. lþ. 123.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 122. lþ.

[11:57]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ég hef gripið þessa spurningu rétt en ég held að þetta sé alveg skýrt. Það er eigendarétturinn sem við erum að fjalla um sem er í höndum forsrh. samkvæmt þessu frv. Hann fer með eigendaréttinn fyrir hönd þjóðarinnar, en það sem við höfum verið að deila um á síðustu dögum er það hver fari síðan með nýtingarréttinn á hálendinu, afnota- og nýtingarréttinn, og hvernig stjórnsýslunni á miðhálendinu sé háttað. Það höfum við verið að gagnrýna.

Þó að eigendarétturinn sé í höndum forsrh. eins og fram kemur í 2. gr. frv., þá er ekki þar með sagt að hann þurfi einn að hafa með höndum ákvörðun um gjaldtökuna, ákvörðun um hvernig henni sé ráðstafað o.s.frv. Það var það sem ég var að gagnrýna. Mér finnst óheppilegt að Alþingi hafi ekki eðlilega aðkomu að þeim málum, t.d. í gegnum fjárlög eða í gegnum fjárln. Það er skoðun mín á þessu máli, herra forseti.