Þjóðlendur

Laugardaginn 09. maí 1998, kl. 13:55:47 (6389)

1998-05-09 13:55:47# 122. lþ. 123.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 122. lþ.

[13:55]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þarf ekki og get ekki tímans vegna farið að endurtaka gagnrýni mína og ábendingar um frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum þar sem ég sagði að skipan nefndarinnar, jafnvægi og jafnræði innan hennar væri ábótavant og stórgallað. Auk þess er umboð nefndarinnar of veikt. Ég get ekki farið út í smáatriði hvað þetta varðar. Og að hugsa sér það, eins og ég benti á, að útiloka sveitarfélögin sem eru fjarri hálendinu jafnvel þó að þau eigi afrétt þar. Það kemur fram í þessu frv. Þau sveitarfélög áttu ekki að koma nálægt þessu heldur áttu þessi 42 sveitarfélög að velja sér 12 fulltrúa. Ég vissi ekki hvernig þau áttu að fara að því. Fulltrúar okkar hér á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi voru alls ekki kjörnir með þeim hætti sem ásættanlegt var.

Mig langar til þess að spyrja hv. þm. þó hann eigi e.t.v. ekki möguleika á að svara því nú, en hann getur gert það við annað tækifæri: Hverjir bera ábyrgð á því, hv. þm., að Reykjanesskaginn er eitt flakandi sár? (KPál: Hverjir bera ábyrgð á því?) Hverjir bera ábyrgð á því að Reykjanesskaginn er eitt flakandi sár? Hverjir bera ábyrgð á því að víða um land er ekki hægt að koma á beitarstjórn? Ég er ekki að tala um neitt vantraust á einn eða neinn. Ég er aðeins að benda á að fleiri þurfa að koma að þessu verki, fólk með önnur sjónarmið en þau sem fengið hafa að ráða hingað til. (Gripið fram í: En er þingmaðurinn sammála tertusneiðafrv.?)