Virðisaukaskattur af laxveiðileyfum

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 15:07:53 (6419)

1998-05-11 15:07:53# 122. lþ. 124.1 fundur 367#B virðisaukaskattur af laxveiðileyfum# (óundirbúin fsp.), RG
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[15:07]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Í fyrirspurnatíma nýverið lýsti hæstv. fjmrh. því yfir að undanþága frá virðisaukaskatti væri nær eingöngu bundin félagslegri þjónustu. Hann hafnaði því þá að virðisaukaskattur yrði felldur niður af handverksmunum úr íslensku efni sem er stórmál fyrir handverksfólk til sveita en margar bændakonur eru að vinna slíka muni.

Fjmrh. hefur líka hafnað því í fjölmiðlum að felldur yrði niður virðisaukaskattur af getnaðarvörnum þrátt fyrir áskorun yfirlæknis og prófessors á kvennadeild Landspítalans í kjölfar umræðu um fjölda fóstureyðinga.

Spurning mín til fjmrh. er því þessi: Ætlar hæstv. fjmrh. að fella brott undanþágu um laxveiðileyfi sem hafa ekki borið virðisaukaskatt hingað til?