Rafmagnseftirlitið

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 15:40:19 (6447)

1998-05-11 15:40:19# 122. lþ. 124.1 fundur 374#B rafmagnseftirlitið# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[15:40]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á sínum tíma fór fram mjög mikil umræða um sameiningu Löggildingarstofunnar og Rafmagnseftirlits ríkisins sem stóð kannski ekki eins lengi og umræðan um sveitarstjórnarlög en stóð í um það bil heilan sólarhring og menn skiptust á skoðunum í þeim efnum.

Af reynslunni af þessari sameiningu er ég sannfærður um að þar var stigið rétt skref. Rafmagnseftirlitið í landinu er í góðu lagi. Kostnaður hefur ekki aukist. Þjónusta við neytendur hefur aftur á móti aukist.

Löggildingarstofunni hafa verið fengin aukin verkefni eftir að breytingin átti sér stað, m.a. á sviði neytendaverndar og á mörgum fleiri sviðum. Ég tel því ekkert til fyrirstöðu og er tilbúinn að eiga gott samstarf um það við þingmenn að nú verði farið yfir þann starfstíma sem Löggildingarstofan hefur starfað og lagt mat á það hvernig til hefur tekist. Ég er óhræddur við að slíkt mat fari fram.

Ég held að niðurstaða þess verði sú, án þess að ég ætli að gefa mér neitt í þeim efnum, að verkefni sem hafa færst yfir á Löggildingarstofuna á sviði neytendaverndar og neytendaréttar hafi mjög aukist og fyrirtækið og stofnunin og stofan hafi skilað verki sínu vel. En ég er tilbúinn til þess í samvinnu við þingmenn að beita mér fyrir því að slíkt mat fari fram.