Ákvæði um hvíldartíma og fundur í félagsmálanefnd

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 10:37:32 (6472)

1998-05-12 10:37:32# 122. lþ. 125.92 fundur 376#B ákvæði um hvíldartíma og fundur í félagsmálanefnd# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[10:37]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég var hér í gærkvöldi og get staðfest algerlega lýsingu þeirra hv. þm. sem hér hafa talað. Forseti lýsti því yfir að hann mundi gangast fyrir því að fundinum í félmn. yrði frestað. Ef hv. þm. sem voru viðstaddir hefðu tekið mark á yfirlýsingu forseta þá hefði enginn fulltrúi verið frá Alþb. og þingflokki jafnaðarmanna á fundi félmn. í morgun. Þetta var aukafundur vegna þess að það liggur fyrir samkomulag um að taka málið inn milli 2. og 3. umr. Forseti sagði alveg sérstaklega, því hann var ekki mjög ánægður með þennan fund, að hann hefði verið tekinn án samráðs við sig og skiptir það í sjálfu sér engu máli hvort það sé gert eða ekki. Aðalmálið var að komið var fram yfir lögbundinn hvíldartíma og aðalmálið er að forseti sagðist ætla að fresta þessum fundi, en hann gerir ekkert í því. Það ríkir orðið, herra forseti, stjórnleysi í störfum þingsins. Það er hæstv. forsrh. sem kemur fram í fjölmiðlum og segir hvernig þingið eigi að starfa. Aðalforseti þingsins gefur yfirlýsingar sem ekkert er að marka og er ekki einu sinni tekið mark á. Enginn fundur hefur verið haldinn um langan tíma með formönnum þingflokka og ég hlýt að ítreka þær óskir sem hafa komið ítrekað fram að menn setjist nú niður, eigi fund og reyni aðeins að átta sig á því hvernig menn ætla að haga störfum þingsins. Það gengur ekki vegna virðingar Alþingis að forseti Alþingis hagi sér eins og gerðist hér í gærkvöldi. Við höfum hingað til tekið mark á yfirlýsingum forseta og við höfum fulla ástæðu og við höfum rétt til þess að það sé unnið þannig.