Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 18:52:16 (6517)

1998-05-12 18:52:16# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[18:52]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fór eins ég óttaðist að það kom ekki nein skýring fram í þessu andsvari.

Ég vil kannski reyna aðra leið, hæstv. forseti, og spyrja sem svo: Hvers vegna á að afhenda einstaklingi einhverja náttúruauðlind sem fyrirfinnst hugsanlega undir yfirborði fasteignar sem hann er skráður fyrir án þess að þessi viðkomandi einstaklingur hafi átt nokkurn þátt í að búa þessa auðlind til? Ég veit ekki hvort ég gæti orðað þetta miklu skýrar en hver eru rökin fyrir því að færa þá auðlind undir einkaeign? Af því að rökin koma ekki fram í athugasemdum með frv., það er alveg borin von að finna nokkrar vitrænar skýringar í þessu blessaða frv., hæstv. iðnrh., það er ekki nokkur glæta að finna nokkra skýringu þar. En ég vænti þess að hv. 10. þm. Reykn., sem hefur tekið að sér að útskýra hina ýmsu hluti á hinu háa Alþingi gæti hugsanlega útskýrt það (Forseti hringir.) af hverju það eigi að færa náttúruauðlindir, sem einkaaðili hefur ekki átt neinn þátt í að búa til, af hverju þarf að færa þær undir einkaeignarrétt. (Forseti hringir.) Hvernig má það vera að einstaklingar nýti þessar auðlindir betur en ríkið?