Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 19:23:52 (6528)

1998-05-12 19:23:52# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[19:23]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér er fyrirmunað að vera sammála eða ósammála hæstv. iðnrh. (Iðnrh.: Það er nú ágætt.) vegna þess að það koma ekki fram nein rök. Það eru engin rök fyrir þessu. Það eru engin rök fyrir því að fara þessa leið. Þess vegna er algerlega vonlaust að taka afstöðu til þess hvort maður er sammála eða ósammála þeim rökum, því þau eru ekki til. Hér er einvörðungu valið að fara þessa leið án þess að hún sé nokkuð rökstudd. Þau litlu rök sem komu fram í ræðu hans áðan voru annars vegar þau að ef einhver önnur leið yrði farin yrði hugsanlega að borga bætur og það var ekki hægt, þá yrði að afhenda þetta einhverjum örfáum. Hinn kosturinn var sá að ef einhver leið yrði farin gæti verið vafi og álitamál gætu komið upp og því yrði að fara þessa leið. Þetta eru engin rök. Ekki nokkur. Hér er einfaldlega verið að afhenda örfáum gríðarleg verðmæti. Þó er eitt, virðulegi forseti, handfast í þessu máli, að fyrir tveimur árum eða svo féll hæstaréttardómur um netlög, þ.e. skilgreiningin var sú að netlög væru um það (Forseti hringir.) bil 2,90 metrar á dýpt o.s.frv. Ég geri ráð fyrir að hæstv. iðnrh. þekki þennan dóm. En ég spyr: Af hverju eru netlögin stækkuð í þessu frv. (Forseti hringir.) sem hér liggur fyrir miðað við þann dóm sem féll fyrir tveimur árum, af því hæstv. iðnrh. vísar til réttarframkvæmdar og þetta sé í samræmi við hana?