Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 19:28:56 (6532)

1998-05-12 19:28:56# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[19:28]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. iðnrh. mæltist ágætlega áðan. Í sléttu og felldu máli fór hann yfir frv. og innihald þess. Hann sagði okkur að það væri pólitískur ágreiningur en ekki mikið meira en það. Að vísu sagði hann að hér væri verið að fjalla um grundvallarmál. En hér er verið að fjalla um grundvallarmál sem nánast hver einasti aðili sem kemur nálægt umhverfisvernd eða náttúruvernd á Íslandi hefur mótmælt og mjög harkalega og stjórnarandstaðan hefur verið einhuga í mótmælum gegn því að verið sé að færa einkaaðilum eignarhald yfir auðlindum þjóðarinnar. En ég kem upp, hæstv. forseti, til að spyrja hæstv. iðnrh. nánar út í þau ummæli sem hann viðhafði um að hér væri á ferðinni málamiðlun milli tveggja stjórnmálaflokka, Sjálfstfl. og Framsfl. Mér leikur forvitni á að vita í hverju sú málamiðlun fólst.