Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Miðvikudaginn 13. maí 1998, kl. 11:20:07 (6554)

1998-05-13 11:20:07# 122. lþ. 126.1 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, VS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 122. lþ.

[11:20]

Valgerður Sverrisdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með þeim hv. þm. sem hafa haft orð á því að það er óæskilegt að hæstv. iðnrh. er fjarstaddur en þeir þrír hv. þm., sem hafa gert hér athugasemdir, hafa allir gegnt embætti ráðherra og gera sér þá kannski grein fyrir því að ráðherrar þurfa stundum að skipuleggja tíma sinn þannig að þeir geta ekki alltaf verið viðstaddir hér á Alþingi enda vitum við að það er erfitt að skipuleggja tíma sinn eins og málum er háttað núna og reyndar átti þingi að vera lokið. Ég tek undir það að mér finnst það óæskilegt að ráðherra skuli ekki vera viðstaddur en ég held að ekkert sé við því að gera. Ég vissi það ekki sjálf fyrr en í morgun að málum var svo háttað að hann var búinn að skipuleggja að vera á fundi úti á landi í dag og þess vegna er hann ekki hér. Reyndar er það þannig með nokkuð marga fleiri hv. þm. að þeir eru ekki viðstaddir í atkvæðagreiðslunni. En ég óska eftir því að hún megi engu að síður fara fram.