Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Miðvikudaginn 13. maí 1998, kl. 11:26:25 (6558)

1998-05-13 11:26:25# 122. lþ. 126.1 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SvG (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 122. lþ.

[11:26]

Svavar Gestsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Forseti sagði áðan að okkur hefði mátt vera ljóst að hæstv. ráðherra væri fjarverandi af því að fjarvistir hefðu verið kynntar. Ég vil spyrja hæstv. forseta að því hvort það var gert með nýjum hætti í morgun vegna þess að venjan er núna sú á þessu þingi að sagt er: Fjarvistaskrá hefur legið frammi. Fjarvera einstakra þingmanna eða ráðherra er ekki tilkynnt. Það gæti verið að sú nýlunda, að tilkynna einstaklinga, hafi farið fram hjá mér af því ég kom seint hér til fundar, og ég vil spyrja hæstv. forseta að því í fyrsta lagi.

Í annan stað vil ég segja að enga nauðsyn ber til þess að ljúka atkvæðagreiðslunni núna, það er alveg augljóst mál. Það ber enga efnislega nauðsyn til þess. Að vísu stendur til að hv. iðnn. fái málið til meðferðar milli 2. og 3. umr. en það breytir engu hvort atkvæðagreiðsla fer fram núna, seinna í dag eða í fyrramálið til þess að tryggja að svo geti orðið.

Í þriðja lagi vil ég mótmæla hæstv. forseta vegna þess að ég tel að hann hafi stöðu til þess að fresta atkvæðagreiðslunni. Ekki vegna þess að hæstv. ráðherra er fjarverandi heldur vegna þess að tveir þingflokkar hafa óskað formlega eftir því að hlé verði gert á fundinum og atkvæðagreiðslunni verði frestað. Það eru þúsundir dæma fyrir að forsetar hafi orðið við slíkum óskum hvað svo sem forsetum hefur fundist um þær óskir út af fyrir sig.

Ég held þess vegna, herra forseti, að nauðsynlegt sé að ítreka það að ég fer fram á að fundinum verði frestað. Ég fer fram á að atkvæðagreiðslunni verði frestað og skora á hæstv. forseta að verða við þeim óskum. Auðvitað er það forsetinn sem ræður en óskir okkar eru þessar og það er slæmt ef forseti ætlar sé að neita okkur um þessar óskir.