Ummæli forsætisráðherra í fréttatíma sjónvarps

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 20:30:50 (6634)

1998-05-15 20:30:50# 122. lþ. 128.93 fundur 394#B ummæli forsætisráðherra í fréttatíma sjónvarps# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[20:30]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það urðu mikil tíðindi og ill í kvöldfréttum sjónvarpsins þar sem viðtal við hæstv. forsrh. Íslands. Þar lýsti hann því yfir að það þyrfti að breyta þingsköpunum. Það þyrfti að gera nú í vor eða eftir kosningar. Hann réðst að þinginu, hann réðst að stjórnarandstöðunni, hann talaði um að stjórnarandstaðan væri þinginu til skammar. Hann taldi að stjórnarandstaðan hagaði sér þannig að vinnubrögð hennar væru ekki nægilega þroskuð. Hann sagði að stjórnarandstaðan skaðaði orðstír Alþingis. Hann sagði að stjórnarandstaðan væri óskammfeilin og fyrir neðan allar hellur. Og sagði svo:

,,Þetta verður auðvitað ekki vandamál því á þessu verður tekið. Á þessu verður tekið hvort sem það er gert nú í vor eða eftir kosningar.``

Þessi valdhroki er auðvitað með þeim hætti að það er alveg óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. forseta Alþingis: Er hæstv. forsrh. í hótunum sínum gagnvart þingræðinu að tala fyrir hönd forseta Alþingis? Eru uppi áform um það af hálfu hæstv. forseta Alþingis að knýja fram breytingar á þingsköpum einhliða af hálfu meiri hlutans nú á næstunni? Eða er hér um að ræða almenna geðvonsku forsrh. sem birtist svo að segja á hverju vori eftir að hann tók við þessu embætti að þá birtast skapbrigði hans Alþingi með þessum hætti? Er með öðrum orðum um að ræða svo að segja klassíska geðvonsku hæstv. forsrh. eða er eitthvað annað á ferðinni? Eru stjórnarflokkarnir að boða að það standi til að knýja fram breytingu á þingsköpum á næstunni?

Ég tel að áður en lengra er haldið, herra forseti, og með hliðsjón af því að þingstörfin hafa verið hér í óefni sé nauðsynlegt að hæstv. forseti geri grein fyrir því hvort hann stendur að baki hótunum hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar.