Ummæli forsætisráðherra í fréttatíma sjónvarps

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 20:33:29 (6635)

1998-05-15 20:33:29# 122. lþ. 128.93 fundur 394#B ummæli forsætisráðherra í fréttatíma sjónvarps# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[20:33]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir spurningar hv. þm. Svavars Gestssonar. Það er mikilvægt fyrir okkur þingflokksformenn að vita hug forseta í þessu efni. Forsrh. sendir stjórnarandstöðunni tóninn aftur og aftur í fjölmiðlum og hann talar gjarnan um að vinnulag sé óviðunandi og það er vinnulag sem er óviðunandi af hálfu stjórnarandstöðunnar. Hann ber það gjarnan saman við önnur þing og ég fullyrði, herra forseti, að á öðrum þingum mundi það ekki gerast að forustumenn í þinginu hlusti á það æ ofan í æ að sjálfur forsrh. landsins mæli fyrir um það í fjölmiðlum hvernig skuli nú gera í þinginu og hvernig þinghaldið skuli verða, af því að hann hefur ákveðið að það verði svo og lætur okkur hlusta á slíkt í fjölmiðlum.

Herra forseti. Það var jákvætt að við áttum fund með forseta í kvöld. Það er annar fundurinn á tæpum tveimur vikum, hinn var í gær. Ég lít svo á að þetta boði áform forseta að eiga á ný samráð við þingflokksformenn og það er nauðsynlegt. Ég lít svo á að ef yfirlýsing forsrh. er ekki í samræmi við samtöl hans og forseta sé brýnna en nokkru sinni að stjórn þingsins, forsetar og þingflokksformenn, taki upp þar sem frá er horfið og reyni að koma þinghaldinu í sæmilegt lag. Þá er ég ekki að tala um vinnulag stjórnarandstöðu. Þá er ég að tala um vinnulag eins og það hefur blasað við af hálfu stjórnar þingsins.