Ummæli forsætisráðherra í fréttatíma sjónvarps

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 20:35:20 (6636)

1998-05-15 20:35:20# 122. lþ. 128.93 fundur 394#B ummæli forsætisráðherra í fréttatíma sjónvarps# (um fundarstjórn), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[20:35]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ef það er vilji meiri hluta þingsins að þingstörfum ljúki fljótlega og að mál gangi sæmilega fram verð ég að segja að þessi ummæli hæstv. forsrh. í kvöld eru ekki til þess fallin að greiða fyrir þingstörfum eða að leiða til þess að sátt náist um framvindu þingstarfa.

Það kann að vera að menn séu farnir að þreytast á þessu vori og mörgum finnist slæmt að komast ekki út í kosningabaráttuna til að styðja sitt fólk en það vill svo til að við erum að ræða mjög stór mál hvert á fætur öðru og það hefur komið greinilega fram í umræðunni að mörgum liggur mjög mikið á hjarta. Það hefur verið eitt af einkennum íslenska þingsins að ræðutími hefur ekki verið takmarkaður fyrr en fyrir örfáum árum að ákveðið var að takmarka umræðu við 1. umr. Ég held að menn eigi að hugsa sig ákaflega vel um áður en þeir fara að hugleiða frekari breytingar því að menn skiptast á og flokkar skiptast á um að vera í stjórn og stjórnarandstöðu. Það er einu sinni svo að það að tala og láta skoðun sína í ljós er sú lýðræðislega aðferð sem stjórnarandstaðan hefur til þess að koma skoðunum sínum á framfæri. Vænlegasta leiðin til þess að greiða hér fyrir þingstörfum er auðvitað að leita sátta og að fólk tali saman og sýni einhvern samningsvilja. Ég hef ekki orðið vör við það að innan dyra væri nokkur einasti vilji meiri hlutans til þess að semja um nokkurn skapaðan hlut. Ég hef ekki orðið vör við það að menn hafi sest yfir þetta. Við höfum bara fengið þau skilaboð að það eigi að að keyra í gegn þessi fjögur stórmál hvað sem tautar og raular. Það er í það minnsta lágmark, hæstv. forseti, að menn setjist yfir þessi mál og reyni að ræða hvort ekki er einhver flötur á því að ná samkomulagi um það hvernig þingstörfum skuli háttað á næstu dögum og hugsanlega vikum og sjá hvort við getum ekki komist að samkomulagi áður en menn fara að taka svona sterkt til orða og auðvitað fleygja fram hótunum því að þetta eru ekkert annað en hótanir í garð okkar.