Húsnæðismál

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 22:34:14 (6646)

1998-05-15 22:34:14# 122. lþ. 128.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[22:34]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við höfum nokkuð lengi rætt þetta frv. um húsnæðismál og segja má að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrv. félmrh., hafi farið mjög vel yfir málið allt, enda þekkir hún það best af þeim þingmönnum sem nú sitja á Alþingi. Það var mjög fróðlegt fyrir þá sem ekki þekkja þessi mál eins og vel og hún að fylgjast með hennar ítarlega málflutningi. Sérstaklega þótti mér athyglisvert þegar hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir rakti tilurð félagslega húsnæðiskerfisins og umræður um það frá árinu 1929. Þar kom fram hvað framsóknarmenn sem þá sátu á þingi voru hlynntir því að koma á þessu kerfi. Þess vegna er það átakanlegt að nú, árið 1998, skuli það vera framsóknarmenn sem ætla að rústa kerfinu eftir allan þann tíma sem það hefur verið láglaunafólki stoð og kjarabót.

Ég efast ekki um að það er Sjálfstfl. sem ræður þarna ferðinni. Eins og málum hefur verið háttað hjá þessari ríkisstjórn þá hefur Framsfl. látið Sjálfstfl. teyma sig út í ótrúlegustu hluti. Við þurfum ekki annað en að líta á heilbrigðiskerfið, hvernig þar hefur verið staðið að málum, tryggingakerfið, núna er það félagslega kerfið o.s.frv. Hægt væri að telja ýmislegt til sem Framsókn hefur látið íhaldið teyma sig út í á undanförnum þingum.

Það var mjög fróðlegt að fylgjast með sögu þess hvernig félagslega húsnæðiskerfið var sett á laggirnar 1929 og hvernig það hefur þróast, hvernig húsnæðismálin hafa verið meðal helstu baráttumála verkalýðshreyfingarinnar. Þegar maður hugsar um það þá er náttúrlega ömurlegt til þess að hugsa, herra forseti, að nú þegar á að fara að kollvarpa öllu þessi kerfi, þá sjái menn ekki sóma sinn í því að kalla til verkalýðshreyfinguna og fá hana til að koma að málinu.

Það kom vel fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hún fór yfir sögu félagslega húsnæðiskerfisins hversu mikill stuðningur þetta kerfi hefur verið lítilmagnanum. Þetta hefur verið stór hluti af velferðarkerfinu. (KÁ: Ekki síst konum.) Já, og ekki síst konum. Það er rétt hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur að þetta hefur verið einstaklega mikill stuðningur við konur, sem hafa verið margar hverjar láglaunakonur og hafa fengið ómetanlegan stuðning frá félagslega húsnæðiskerfinu.

Ég minni á það þegar byggðir voru verkamannabústaðirnir í Vesturbænum. Einnig má nefna árið 1965, þegar mörg hundruð íbúðir voru byggðar í Breiðholtinu. Það var gert til þess að útrýma heilsuspillandi húsnæði í höfuðborginni. Það má segja að félagslega húsnæðiskerfið hafi tekið breytingum með vaxandi þátttöku sveitarfélaganna. Nú eru félagslegar íbúðir 10.600 og þessar íbúðir hafa auðvitað tryggt fjölda fjölskyldna bæði öryggi og stórbætt kjör.

Það er því átakanlegt, herra forseti, að núna skuli ríkisstjórnin ákveða að rústa þessu kerfi með þeim rökum að kerfið sé komið í þrot. Ég verð að segja það ... (Gripið fram í: Það er alveg rétt.) Það er ekki rétt, hv. þm. Á borðinu mínu er ég með fylgiskjöl með nál. minni hluta félmn. sem eru umsagnirnar um þetta frv. Ég get ekki séð það á þeim umsögnum að þetta kerfi sé komið í þrot. Það er reyndar rétt að Byggingarsjóður verkamanna hefur verið í vanda. Það er auðvitað vegna þess að framlög til hans hafa verið skorin niður og hann hefur þurft að taka lán á mun hærri vöxtum en hann lánar á. Það er auðvitað skiljanlegt að sjóðir sem standa í því lendi í fjárhagslegum vanda.

Mér finnst ótrúlegt að sá hæstv. ráðherra sem er í forsvari fyrir þetta mál skuli beita sér fyrir þessum breytingum, sem lagðar eru til í frv. Sú var tíðin að sá hv. þm., sem nú er hæstv. félmrh., var einn helsti félagshyggjumaðurinn í Framsfl. Helsti baráttumaður félagshyggjunnar í Framsfl. var þá hv. þm. Páll Pétursson. Það er því ótrúlegt að menn skuli geta látið teyma sig út í annað eins og þessar breytingar.

Rökin eru þau að kerfið sé komið í þrot. Það er alls ekki rétt. Það er reyndar svo að dæmi eru til þess að sveitarfélög standi uppi með félagslegt húsnæði sem ekki er þörf fyrir. Ein ástæða þess er að búferlaflutningar eru miklir utan af landi og hingað á þéttbýlissvæðið í kringum höfuðborgina, til höfuðborgarinnar. Það mega ekki vera rök og réttlætir alls ekki að kerfinu sé umbylt.

Í þeim fskj. sem koma hér frá hv. félmn. hefur komið fram að það séu aðeins um 1% þeirra félagslegu íbúða, sem standa auðar. Það dugir auðvitað ekki til til þess að gjörbreyta því kerfi sem við búum hér við og tekið hefur fjölda ára að byggja upp.

Það er full ástæða til þess að spyrja: Hverju er hér verið að breyta? Hverju er hér verið að breyta, hv. þm. Magnús Stefánsson? Það er verið að leggja niður Húsnæðisstofnun ríkisins og í staðinn á að setja á laggirnar nýja opinbera stofnun, Íbúðalánasjóð. Það á sameina byggingarsjóðina, Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna. En hvað með starfsfólk Húsnæðisstofnunar ríkisins? Hvað verður um það starfsfólk þegar stofnunin verður lögð niður? Menn hafa ekki tryggt að það fái störf hjá hinni nýju stofnun.

Það var nú nokkuð annað þegar var verið að breyta bönkunum í hlutafélag. Þá var tryggt að starfsmenn Landsbanka og Búnaðarbanka skyldu eiga rétt á sambærilegum störfum hjá hlutafélagabönkunum, bæði Búnaðarbankanum hf. og Landsbankanum hf. Sama er um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Þegar sú lagabreyting var gerð hér í þinginu var tryggt að starfsmenn þeirra sjóða sem urðu hluti af þeim banka gengju fyrir þegar ráðið yrði í störf hjá þeim banka.

Ég spyr: Hvers vegna var ekki tekið á þessu máli? Hvers vegna var ekki tryggt að starfsmenn Húsnæðisstofnunar ríkisins gengju fyrir um störf, hjá hinni nýju stofnun sem tekur við af Húsnæðisstofnuninni?

Ég er ekkert frá því að þurft hafi að stokka ýmislegt upp hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég tel að það hafi verið löngu tímabært. Ég er þó ekki viss um að það hefði þurft að leggja hana alveg niður. En úr því að það varð niðurstaðan hjá hæstv. ríkisstjórn þá hefði það verið lágmark að tryggja starfsmönnum stofnunarinnar starf hjá þeirri stofnun sem við tekur.

[22:45]

Vissulega hefur starfsfólk Húsnæðisstofnunar ríkisins áhyggjur af þessu og hefur sent áskorun til félmrh. vegna þess að ekki er tekið á því hver framtíð þeirra verður þegar Húsnæðisstofnun verður lögð niður. Í áskorun til félmrh. segir, með leyfi forseta:

,,Félag starfsmanna Húsnæðisstofnunar ríkisins skorar hér með á hæstv. félmrh. að hann beiti sér fyrir því að við frv. til laga um stofnun Íbúðalánasjóðs verði bætt ákvæði sem tryggi núverandi starfsmönnum Húsnæðisstofnunar sambærileg störf hjá hinum nýja sjóði.

Í lagasetningu um breytingar á starfsemi opinberra stofnana að undanförnu hefur verið að finna ákvæði er tryggja atvinnuöryggi starfsmanna viðkomandi stofnana. Nægir hér að nefna 8. gr. laga nr. 103/1996, um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar, 8. gr. laga nr. 50/1997, um stofnun hlutfélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, 10. gr. laga nr. 60/1997, um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, og loks 13. gr. laga nr. 68/1997, um Lánasjóð landbúnaðarins.

Í öllum þessum lögum er kveðið á um að allir starfsmenn þeirra sjóða og stofnana sem verið er að breyta eða leggja niður skuli fá sambærileg störf hjá nýjum félögum, stofnunum eða sjóðum sem taka við starfsemi þeirra.

Félag starfsmanna Húsnæðisstofnunar ríkisins telur að sömu rök hljóti að liggja til þess að tryggja starfsöryggi og nýta starfsreynslu þeirra 49 starfsmanna sem nú starfa hjá Húsnæðisstofnun ríkisins í þágu hins nýja Íbúðalánasjóðs.``

Þetta er áskorun, herra forseti, til félmrh. frá starfsfólki Húsnæðisstofnunar ríkisins. Það er ekki óeðlilegt að þeir komi með slíka áskorun eins og staðið er að þeirra málum og vegna þess hve ótrygg þeirra framtíð er miðað við þetta frv. sem hér er til umræðu. Þar er ekkert tekið á framtíð þessa fólks.

Ég get líka tekið undir fjöldann allan af þeim umsögnum sem hér liggja fyrir frá fjölmörgum félagasamtökum, stéttarfélögum og öðrum sem fengu heimild til að vera með umsagnir um þetta mál, að ekkert knýr á um það að þetta húsnæðisfrv. fari í gegnum þingið á þessu vori. Það er greinilegt að fjölda atriða þarf að skoða. Þetta er mál sem snertir hagsmuni þúsunda fjölskyldna og mál sem greinilega þarf nánari athugunar við.

Það er líka áhyggjuefni að lítið er vitað um hvaða áhrif þær boðuðu breytingar sem frv. felur í sér munu hafa á húsnæðismarkaðinn og einnig hvaða áhrif þær munu hafa á verðbréfamarkaðinn því að breytingar eins og þessar geta haft bæði mikil og snögg áhrif á þennan markað. Það liggur heldur ekkert raunverulegt mat fyrir um það hvaða kostnað þetta frv. hefur í för með sér fyrir sveitarfélögin ef þau bregðast nú við þeirri vaxandi þörf íbúa fyrir leiguhúsnæði sem mun verða þegar þetta frv. verður að lögum.

Það er alveg ljóst að ef frv. nær fram að ganga þá mun það kalla á bæði byggingu og kaup á leiguhúsnæði vegna þess hóps sem ekki mun ráða við þau kjör sem boðið verður upp á í nýju kerfi. Menn þekkja hvernig ástandið er. Stöðugir búferlaflutningar eru utan af landi til höfuðborgarsvæðisins. Einnig vil ég nefna þörf frekara leiguhúsnæðis fyrir námsmenn og hafa námsmenn sent hingað umsagnir þar sem þeir lýsa yfir áhyggjum af því hvernig fara muni fyrir þeim fjölda námsmanna sem er á biðlistum eftir leiguhúsnæði. Í umsögn frá Félagsstofnun stúdenta segir t.d. að eftir úthlutun íbúða til stúdenta á árinu 1997 reyndust um 230 námsmenn vera á biðlista og er Félagsstofnun stúdenta fjarri því að uppfylla þá eftirspurn sem er eftir leiguhúsnæði frá stúdentum.

Öðruvísi mér áður brá, verð ég nú að segja, því að ég man þá tíð þegar Framsfl. biðlaði til námsmanna öllum stundum, lofaði út og suður bæði hvað varðar námslánin og einnig húsnæðismálin. Og ég minnist þess þegar hv. þáv. þm., núv. hæstv. viðsk.- og iðnrh., Finnur Ingólfsson, fór margar ferðirnar til að bjóða námsmönnum gull og græna skóga.

Hverjar voru efndirnar? Á nú að fara að leika sama leikinn? Ég veit ekki hvort mönnum er það í fersku minni hvernig framsóknarmenn komu fram við stúdenta og hv. þáv. þm. og núv. hæstv. ráðherra, Finnur Ingólfsson. Það er nú frægt í sögunni hvernig hann kom fram við stúdenta í eina tíð.

Nú á sem sagt að fara að veitast að stúdentum eina ferðina enn og þeir segja í umsögn, með leyfi forseta:

,,Í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið er einungis gert ráð fyrir veitingu 50 lána á þessu tveggja ára tímabili, þ.e. 25 íbúðir á ári. Á árunum 1994--1996 voru umsóknir eftir leiguíbúðum á bilinu 269 til 293 á ári og er því einungis verið að veita lán til tæplega 10% af þeim fjölda. Félagsstofnun stúdenta hefur á undanförnum 7 árum fengið úthlutað á bilinu 20 til 40 íbúðum á ári og er enn full þörf á slíkum fjölda árlega. Ljóst er því að umræddur fjöldi úthlutana gengur mjög skammt til að fjölga leiguíbúðum sem rætt er um sem eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins.``

Herra forseti. Þetta segir í umsögn frá Félagsstofnun stúdenta. Þar segir einnig, með leyfi forseta:

,,Að óbreyttu frumvarpi má gera ráð fyrir að uppbygging námsmannaíbúða dragist stórlega saman á næstu árum. Niðurfelling 3,5% framlags sveitarfélaga, álag stimpilgjalda og dýrari framkvæmdalán hafa áhrif til hækkunar byggingarkostnaðar og þar af leiðandi til hækkunar leiguverðs til stúdenta. Vaxtakjör er sú breyta sem mestu máli skiptir og óvissa um þau gerir alla áætlanagerð erfiða en eins og komið hefur fram hefur hækkun vaxta úr 1% í 5% áhrif á hækkun leigu sem nemur tæplega 30%. Óvissa um lánafyrirgreiðslu er að sama skapi allri langtímaáætlanagerð og stefnumótun fjötur um fót.``

Þetta segir í umsögn frá Félagsstofnun stúdenta. Hvaða áhrif mun þetta hafa á framfærslu stúdenta? Ekki hefur hæstv. menntmrh. komið inn í þessa umræðu til að svara ýmsum spurningum sem vakna við það hvaða áhrif þetta hefur á námsmennina og aukinn framfærslukostnað þeirra. Stendur til að hækka námslánin sem þessu nemur? Ekki hafa fengist nein svör við því. Þessar breytingar á húsnæðiskerfinu sem eru á döfinni hjá hæstv. ríkisstjórn. hafa nefnilega áhrif mjög víða.

Félagsstofnun stúdenta bendir einnig á að hún hafi litið á uppbyggingu stúdentagarða og rekstur þeirra sem hluta af lausn þess húsnæðisvanda sem almennt steðjar að. Þeir benda einnig á að húsnæðisvandi stúdenta sé enn fyrir hendi og að það þurfi að leysa hann á annan hátt ef Félagsstofnun stúdenta verður ekki gert kleift að sinna því hlutverki.

Eftirspurn eftir heppilegu húsnæði fyrir stúdenta er langt umfram framboð og hafa á undanförnum árum ríkt erfiðleikar á leigumarkaðnum seinni part sumars og á haustin. Tekjulitlir stúdentar, flestir utan af landi, njóta leiguhúsnæðis hjá Félagsstofnun stúdenta í 1--6 ár á meðan á námi stendur.

Þetta er fyrirkomulag sem stúdentar og stjórnvöld hafa ítrekað lýst yfir ánægju sinni með. Og það er sérkennilegt að ráðherra af landsbyggðinni, sem kjörinn er af landsbyggðinni, skuli beita sér fyrir þessu, að vega svona á þennan hátt að húsnæðismálum stúdenta, stúdenta utan af landi sem þurfa að koma hingað til að sækja nám.

Já, herra forseti, það er ótrúlegt og ég hefði seint trúað því að ég ætti eftir að sjá slíkt sem þetta frá hæstv. ráðherra, Páli Péturssyni, landsbyggðarmanninum sjálfum.

Fleiri gagnrýna þetta frv. harðlega og þar ber að nefna verkalýðshreyfinguna. BSRB og ASÍ eru með sameiginlegt álit og það kemur í ljós þegar umsögn þeirra er lesin að það greinir þó nokkuð á hvað varðar útreikninga ASÍ og BSRB um þá greiðslubyrði sem þetta mun hafa í för með sér og það stangast nokkuð á við þá útreikninga sem liggja frammi frá félmrn.

Búseti hefur líka með langri umsögn gagnrýnt frv. harðlega og þar kemur fram að lagaleg staða og réttur félaga eins og Búseta sé mjög óljós í frv. Bent hefur verið á að frv. sé atlaga að kjörum láglaunafólks og það muni fyrst og fremst bitna á tekjulitlu fólki, einstæðum mæðrum, barnmörgum fjölskyldum, námsmönnum og fötluðum. Það var þá fólkið sem á að bera byrðarnar í þessu samfélagi í góðærinu. Það eru námsmenn, barnmargar fjölskyldur, fatlaðir og einstæðar mæður ásamt tekjulitlu fólki.

Ég bendi á og vil leggja áherslu á umsögn Þroskahjálpar sem hefur verulegar áhyggjur af þessu frv. og telur að það muni ekki ná þeim tilgangi sem því er ætlað, þ.e. að landmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum.

[23:00]

Ég velti því fyrir mér hvernig eigi að koma til móts við þau auknu útgjöld sem fatlaðir og lífeyrisþegar munu standa frammi fyrir þegar leiga hækkar á þeim íbúðum sem þeim eru ætlaðar samkvæmt félagslega kerfinu. Stendur til að hækka lífeyrisgreiðslurnar? Fróðlegt væri að fá einhver svör við því. Stendur það til? Eru það lífeyrisþegarnir og fatlaðir sem eru sérstaklega aflögufærir í aukinni og hækkaðri húsaleigu? Fólk sem er undir lágmarkslaunum í tekjum? Þeim sem eru í sambúð er ætlað að lifa á 43 þús. kr. á mánuði. Telja ríkisstjórnarþingmennirnir að þetta fólk sé aflögufært í hærri húsaleigu? Þessir þingmenn vita greinilega ekki á hverju þessu fólki er ætlað að framfleyta sér. Hæstu greiðslur sem lífeyrisþegi getur fengið, hæstu tekjur sem hann getur fengið ef hann býr einn eru 63 þús. kr. Telja menn að þetta fólk sé aflögufært til þess að greiða hærri húsaleigu í kjölfar þessa frv.? Ég segi nei. Ég segi nei, herra forseti, þetta fólk er ekki aflögufært.

Þroskahjálp segir í umsögn sinni að samtökin hafi haft það sem markmið að vinna að nýjungum í húsnæðismálum fatlaðra, bæði hvað varðar gerð húsnæðis og staðsetningu. Þannig hafi samtökin að leiðarljósi að fötluðum skuli tryggð búseta í heimabyggð sinni í húsnæði sem er sambærilegt að gerð og gæðum og í öðrum sveitarfélögum. Þess vegna leggur Þroskahjálp til að frv. verði ekki að lögum í vor heldur verði sumarið notað til þess að sníða af því augljósa vankanta og það verði síðan tekið fyrir á þinginu aftur í haust. Það er alveg ljóst af þeim umsögnum sem liggja fyrir að það margir og miklir vankantar og agnúar eru á frv. að full ástæða er til þess að menn leggist yfir það í sumar og vinni betur vinnuna sína þannig að það séu ekki þeir sem verst eru settir í samfélaginu sem þurfi að fá auknar byrðar vegna þessa frv.

Þroskahjálp gerir athugasemdir við ýmsar greinar frv. sem ég ætla kannski ekki að fara að lesa hverja og einastu því það hafa sjálfsagt einhverjir á undan mér nefnt þessi atriði. Það má líka nefna Öryrkjabandalagið sem eru hagsmunasamtök sama hóps sem ég hef verið að gera að umtalsefni sem hefur verulegar áhyggjur af þessu máli og Öryrkjabandalagið telur réttast að frv. verði ekki afgreitt fyrr en á næsta þingi þannig að allir sem hagsmuna eigi að gæta komi eðlilega að málsmeðferðinni. Í umsögn Öryrkjabandalags Íslands segir, með leyfi forseta:

,,Húsnæðisfrumvarp þetta sýnist ekki koma til móts við þetta fólk ...`` --- þ.e. tekjulægsta fólkið í landinu en Öryrkjabandalagið bendir á það að skjólstæðingar þess eru upp til hópa láglaunafólk allt yfir í tekjulægsta fólkið í landinu og segir að húsnæðisfrv. sýnist ekki koma til móts við þetta fólk þar sem er ekki unnt að sjá annað en að enn fleirum sé vísað á leigumarkað. --- ,,Ekki er séð að með frumvarpinu sé þessum auknu þörfum fyrir leiguhúsnæði mætt þar sem ekki er gert ráð fyrir nema 50 lánum til leiguíbúða á næstu tveimur árum. Á móti munu menn segja að viðbótarlán hins nýja kerfis komi í stað félagslegra íbúðalána í dag. Þá ber þess að geta að enn strangari tekjuskilyrði eru fyrir húsbréfalánunum en lánum úr félagslega kerfinu. Það þýðir að fleiri eru útilokaðir frá eignaríbúðakerfinu sem eðlilega bitnar harðar á þeim tekjulægstu svo sem öryrkjum.``

Öryrkjabandalagið bendir einnig á það í umsögn sinni að leggja verði ,,höfuðáherslu á að gætt sé í hvívetna hagsmuna hinna tekjulægstu í húsnæðiskerfinu``. Það kemur einnig fram í þessari umsögn frá Öryrkjabandalagi Íslands að: ,,Hússjóður Öryrkjabandalagsins hefur á undanförnum árum fengið lán í félagslega íbúðakerfinu sem hefur auðveldað kaup á fleiri leiguíbúðum fyrir öryrkja. Þrátt fyrir það að hússjóðurinn eigi á sjötta hundrað íbúða þá er biðlisti öryrkja eftir húsnæði hjá sjóðnum á þriðja hundrað manns.`` Það er á þriðja hundrað manns sem bíður eftir íbúðum hjá Öryrkjabandalaginu. Menn ætla að lána til 50 íbúða á næstu tveimur árum. Ég get ekki hugsað mér að horfa fram á hvernig biðlistarnir verða að ári, hvað þá eftir tvö ár.

Öryrkjabandalagið hefur einnig sent inn viðbótarathugasemd þar sem þeir bera hag þeirra fyrir brjósti sem þurfa sérstök lán vegna þess að þeir eru með sérþarfir. Stór hópur innan Öryrkjabandalagsins þarf viðbótarlán til þess að laga íbúðir sínar að sérþörfum, það er náttúrlega stór hópur fatlaðra og þeir hafa verulegar áhyggjur af þessum hópi. Ég get því ekki séð annað eftir að hafa lesið athugasemdirnar frá Öryrkjabandalaginu og Þroskahjálp að vissulega sé ástæða til þess að þetta mál fari aftur til félmn. og þetta verði skoðað betur því að þarna er stór hópur þeirra sem minnst mega sín, þeir verst settu í samfélaginu sem verða úti í kuldanum og í góðærinu hjá ríkisstjórninni. Það eru fatlaðir, lífeyrisþegar, námsmenn og tekjulitlir einstaklingar, einstæðar mæður, barnmargar fjölskyldur o.s.frv. Þetta eru þeir sem eru aflögufærir hjá ríkisstjórninni.

Það mátti svo sem búast við því hjá íhaldinu. Svo hlustar maður á fagurgalann hjá sveitarstjórnarfólkinu í fjölmiðlum þessa dagana eins og í Reykjavík. Það er eins og þeir viti ekki einu sinni af því hvað ríkisstjórnin undir forustu Sjálfstfl. er að gera á þinginu á sama tíma og sjálfstæðismennirnir eru með fögur orð og fagurgala, lofa öllu fögru í allar áttir í sveitarstjórnunum. Á sama tíma eru þeir að skera niður í velferðarkerfinu, félagslega húsnæðiskerfið. Hvers konar tvískinnungsháttur er þetta eiginlega, herra forseti? Það þyrfti einhver að koma þessum skilaboðum til sveitarstjórnarmanna Sjálfstfl. þannig að þeir viti hvað menn eru að gera hér. Svo hægri höndin viti hvað sú vinstri er að gera. (Gripið fram í: Það er verið að styrkja stöðu þessa fólks.) Styrkja stöðu hverra? Styrkja stöðu fatlaðra? (KPál: Þeirra sem minna mega sín.) Hv. þm. Kristján Pálsson, er verið að styrkja stöðu þeirra sem minnst mega sín? Það er greinilegt að hv. þm. veður í villu og svíma um þessi mál og ætti að kynna sér þetta betur. Ef þekking annarra þingmanna Sjálfstfl. er álíka og þekking hv. þm. á þessum málum þá held ég að menn verði nú aldeilis að hysja upp um sig og fara að kynna sér málin. (KPál: Ég er í félmn.) Ég veit ekki hvað hv. þm. hefur verið að gera í vetur í félmn. ef hann veit ekki betur en það sem kemur fram hjá honum í frammíkalli, herra forseti. (KPál: Ég er búinn að vera í sveitarstjórn í 20 ár.) Hvað þá heldur, herra forseti, eftir að hv. þm. er búinn að vera í sveitarstjórn í 20 ár. Hann fer að verða eins og leigubílstjórinn í Spaugstofunni.

Það er ótrúlegt að menn skuli ekki gera sér grein fyrir hvað hér er á ferðinni. Hvernig verið er að veitast að lítilmagnanum í þessu máli, verið að breyta félagslega húsnæðiskerfinu þannig að verið er að vísa æ fleira fólki á leigumarkaðinn og auk þess er skortur á leiguhúsnæði í þéttbýlinu og hv. þm. ætti að þekkja hvernig ástandið er í hans eigin kjördæmi á leigumarkaðnum. Og þá eru menn að breyta lögunum eins og þeir eru að gera hér. Sjá menn ekki samhengið í hlutunum? Er furða að maður spyrji?

Þetta er enn ein atlaga ríkisstjórnarinnar að velferðarkerfinu. Maður er búinn að horfa á hvernig þeir hafa tekið á heilbrigðismálunum, hvernig skorið hefur verið niður í tryggingakerfinu og nú er það húsnæðiskerfið. Meðan verið er að ræða þetta og reyna að gera fólki og almenningi grein fyrir því hvað hér er á ferðinni eru ekki nema tveir, þrír stjórnarþingmenn sem láta svo lítið að sýna sig í þingsölum þegar þetta mál er til umræðu. Þeir ættu þó að geta komið skilaboðum til félaga sinna um það hvað er gagnrýnivert við þetta þingmál.

Ég vil benda á umsögn húsnæðisnefndar Kópavogs. Bent hefur verið á það að ef þetta frv. verður að lögum þá sé verið að vísa því fólki sem áður átti kost á 100% lánum út á leigumarkaðinn. Eins og ég nefndi er mikill skortur á leiguhúsnæði um land allt. (Gripið fram í: Hver er umsögn bæjarstjórnar Kópavogs?) Ég er að fjalla um umsögn húsnæðisnefndar, sem ætti nú að vera fullkunnugt um það hvernig húsnæðismálum er háttað í kjördæmi hv. þm. í Kópavogi. (Gripið fram í: Hvað segir bæjarstjórnin?) Húsnæðisnefndin í Kópavogi bendir á að þar hafi verið gerð könnun á greiðslumati 122 fjölskyldna sem hafa keypt íbúðir í félagslega kerfinu að undanförnu. Þessar fjölskyldur voru metnar miðað við 18% greiðslubyrði en það er sú viðmiðun sem stuðst er við í húsbréfakerfinu og þá kom í ljós að það voru aðeins 11 fjölskyldur af 122 eða 9% sem hafa staðist greiðslumat samkvæmt frv. Þessar tölur frá húsnæðisnefnd Kópavogs tala sínu máli.

Það er skylda sveitarfélaganna að aðstoða fólk í húsnæðismálum. Það er skylda þeirra samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Það á að tryggja framboð af leiguhúsnæði samkvæmt þeim lögum og maður veltir því fyrir sér hvernig þessum sveitarfélögum á að vera það kleift eftir þessa lagabreytingu.

Það verður að segja að núverandi kerfi hefur verið í ágætu formi en því miður hefur það ekki getað annað eftirspurn á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur líka verið bent á að félagslega kerfið hefur haldið niðri verði á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að það hafa verið byggðar hér ódýrari íbúðir en almennt gerist. En eftir að þessi breyting hefur verið gerð mun markaðsverðið ráða.

Auðvitað er líka gagnrýnivert í því sem snýr að frv. að ekkert samráð hefur verið haft við aðila vinnumarkaðarins. Þarna er verið að klippa endanlega á áratuga tengsl aðila vinnumarkaðarins við húsnæðismálin. Menn vita það að verkalýðsfélögin hafa haft mjög góða yfirsýn yfir þarfir félagsmanna sinna.

[23:15]

Það er ótrúlegt að hvorki verkalýðshreyfingin né þau félagasamtök sem hafa mestra hagsmuna að gæta skuli ekki hafa komið að samningu frv. enda hafa þau mótmælt frv. harðlega, félög eins og þau sem ég hef verið að benda á: Öryrkjabandalagið, Þroskahjálp, námsmenn og ýmis byggingarfélög, Búseti, Þak yfir höfuðið o.s.frv.

Annað er líka full ástæða til að gagnrýna og furða sig á og kemur glögglega fram í umsögn BSRB og ASÍ en það eru reglugerðarheimildirnar í frv. Það er ótrúlegt hvernig valdi er vísað til framkvæmdarvaldsins endalaust, það er verið að framselja vald til framkvæmdarvaldsins og það er fullkomlega óeðlilegt. Þessar reglugerðarheimildir segja ekkert um það hvernig þessum málum verður háttað þegar búið er að vísa endalaust til reglugerða. Það er sjálfsagt mál og ætti að vera krafa þegar lagasetning eins og þessi sem hér er á ferðinni kemur inn í þingið að það komi drög að þeim reglugerðum sem menn ætla að setja í kjölfarið ef setja þarf reglugerðir. Það hefur stundum verið þannig að með frv. hafa fylgt drög að þeim reglugerðum sem verið er að heimila í lagatextanum og það er til fyrirmyndar. Hvað vita menn um það hvað hér er á ferðinni þegar verið er að veita einar 28 reglugerðarheimildir í frv. fyrir utan allar aðrar heimildir ráðherra í gegnum lagatextann? Að fengnu samþykki félmrh., að fengnu samþykki ráðherra o.s.frv. í gegnum allan lagatextann. Það er gagnrýnivert, herra forseti. (Gripið fram í.) Já, já, hver ráðherra getur skipað stjórn sína, það er ráðherrann einn sem mun skipa stjórn sjóðsins sem síðan á að vera sjálfstæð stofnun. Auðvitað er ekki boðlegt að setja þetta mál upp eins og gert er hér.

Það er líka bent á það í nál. minni hlutans að það er ekkert í frv. sem tryggir að sveitarfélögin muni svara vaxandi þörf fyrir leiguhúsnæði. Í umsögn Kópavogsbæjar kemur fram þörf fyrir 75 nýjar leiguíbúðir á ári næstu fjögur árin. Þetta mun þýða aukinn kostnað fyrir sveitarfélagið. Sama saga er á Akureyri. Þar búast þeir við að 60 nýjar leiguíbúðir þurfi á ári miðað við þann hóp sem ekki mun standast greiðslumat og mun ekki eiga fyrir 10% útborgun. Ef við lítum á Reykjavík segir í minnihlutaálitinu að fyrir liggi 381 umsókn um húsnæði hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkur og forgangshópurinn eru 197. Samkvæmt nýjustu tölum bíða 422 eftir leiguíbúðum í Reykjavík og svo er aðeins gert ráð fyrir að lána til 50 íbúða miðað við þetta frv. og það á landinu öllu. (JóhS: Á tveimur árum.) Á tveimur árum, það er rétt hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Til 50 íbúða á tveimur árum, þ.e. 25 íbúða á ári á meðan á fimmta hundrað manns bíða í Reykjavík, á meðan 75 leiguíbúðir þarf að reisa í Kópavogi á ári, á meðan 60 nýjar leiguíbúðir þarf að reisa á Akureyri o.s.frv. Bara nokkur dæmi tekin hér. Hvernig er með námsmennina? Ég er búin að minnast á umsagnir frá Félagsstofnun stúdenta og sama er með umsagnir frá Stúdentaráði, og það kemur alltaf upp í huga minn þegar framsóknarmenn voru sífellt að reyna að ná hylli námsmanna og síðan þegar þeir eru komnir í stjórn er vegið að námsmönnum eins og gert er með þessu frv. og sem þeir telja hjá Stúdentaráði að sé ,,illa vegið að áætlunum um framtíðaruppbyggingu stúdentagarðanna`` með þessu frv. og að breytingarnar geti leitt til mikillar hækkunar á leigu og geri allar framtíðaráætlanir erfiðari. ,,Þetta leiðir til þess að uppbygging námsmannaíbúða kemur til með að dragast stórlega saman. Stúdentaráð lítur það mál alvarlegum augum þar sem augljóslega eru miklir hagsmunir í húfi.`` Svo segir í ályktun og athugasemdum frá stúdentaráði Háskóla Íslands, með leyfi forseta. Það má því segja að nánast hver einasta umsögn, bæði frá námsmönnum, stúdentaráði, félagasamtökum, fötluðum, Öryrkjabandalaginu sé svipuð. Það er sagt hér, með leyfi forseta, í umsögninni frá stúdentaráði: ,,Ítrekað er talað um það í frumvarpinu að uppbygging leigumarkaðarins sé eitt af meginmarkmiðunum. Það kemur því á óvart að eins illa sé vegið að uppbyggingu stúdentagarðanna og raun virðist bera vitni. Stúdentaráð beinir þeim eindregnu tilmælum til félagsmálanefndar Alþingis að tekið verði tillit til ofangreindra athugasemda og gerðar verði þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að tryggt verði að öflug uppbygging stúdentagarðanna verði möguleg í framtíðinni.`` Undir þetta skrifar Ásdís Magnúsdóttir, formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands. Afrit af þessari umsögn er sent bæði til félmrh. og menntmrh. Eins og ég hef áður nefnt hefur hæstv. menntmrh. ekki séð sóma sinn í að koma í ræðustól og svara þeim fyrirspurnum sem lagðar hafa verið fyrir hann í umræðum um þetta stóra mál sem varðar námsmenn svona miklu.

Það er alveg ljóst að verið er að vísa þarna byggingaraðilum út á almennan lánamarkað og ljóst er að það mun leiða af sér hærri leigu og námsmenn hafa takmarkaða möguleika til að greiða hærri leigu en þeir gera nú. Eins og ég hef bent á mun þetta örugglega hafa áhrif á þann kostnaðargrunn sem gengið er út frá hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og munu auðvitað koma kröfur um hærri námslán í kjölfarið. Því er mjög mikilvægt að hæstv. menntmrh. komi og svari fyrir það hvort það muni verða í kjölfarið hærri námslán til námsmanna. Auðvitað gildir það sama um íbúðir fatlaðra sem flestir búa við mjög kröpp kjör og mega alls ekki við hækkun leigu.

Það er ýmislegt sem full ástæða væri til að nefna frekar sem snýr að málinu. Hér hafa talað á undan mér aðrir þingmenn sem þekkja húsnæðiskerfið mun betur og hafa rakið galla þessa frv. Reyndar hafa komið nokkur atriði sem menn hafa talið vera til bóta en þau eru hverfandi miðað við öll þau atriði sem menn telja vera til skaða.

Breytingar verða á húsnæðisnefndum sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar fari út úr nefndunum og menn hafa áhyggjur af því að verkefni húsnæðisnefnda og félagsmálanefnda sveitarfélaganna muni skarast meira en verið hefur við þessa breytingu og þetta mun kalla á uppstokkun í starfi nefnda sveitarfélaganna. Ég er kannski ekki að halda því fram að það sé endilega af hinu slæma en það er eitthvað sem kemur í kjölfar lagasetningarinnar.

Það sem maður rekur sig á aftur og aftur í þeim umsögnum sem bárust vegna málsins eru þær 50 leiguíbúðir sem gert er ráð fyrir að byggðar verði eða lánað verði til á tveimur árum sem valda verulegum áhyggjum þeirra sem senda inn umsagnir og menn hafa bent á það hvað eftir annað að þörfin sé mun meiri en það.

En ég vil áður en ég lýk máli mínu ítreka þörfina fyrir að tryggja framtíð starfsmanna Húsnæðisstofnunar ríkisins og þeir fái sömu meðferð í lagasetningunni og aðrir starfsmenn ríkisstofnana sem hefur verið breytt, eins og bankanna, Pósts og síma, og fleiri stofnana sem ég hef nú þegar nefnt í máli mínu. Ég tel nauðsynlegt að málið fari aftur til félmn. áður en málið fer til 3. umr. og þar verði þessi mál skoðuð og tekið verði á þessu, gerðar verði breytingar á þessum lögum þannig að framtíð þessa fólks verði tryggð og gerðar verði breytingar þannig að þeir sem verst eru settir í samfélaginu, fatlaðir, öryrkjar, námsmenn og efnalítið fólk, einstæðar mæður og aðrir þeir sem hafa lítið milli handanna verði ekki svona illa settir eins og ljóst er að verður, verði frv. að lögum óbreytt. Það verður að endurskoða frv. og vinna það betur í sumar og það þarf að gera með þátttöku þeirra sem málið snertir, svo sem samtaka launafólks, fulltrúa frá sveitarfélögunum, frá námsmannasamtökunum, frá félögum eins og Búseta, frá félögum fatlaðra og hagsmunasamtökum þeirra, frá Öryrkjabandalaginu og svona gæti ég lengi talið. Fulltrúar þessara hópa verða að koma að vinnslu frv. áður en það fer í gegnum þingið. Ég held að fólk verði að gera sér grein fyrir því hvaða áhrif þetta mun hafa á þessa hópa.

[23:30]

Við í minni hlutanum, þ.e. fulltrúar okkar í félmn. hafa lagt til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar og það síðan unnið betur. Ég tek heils hugar undir það. Það er ekki þolandi og ekki hægt að líða að þetta mál fari í gegnum þingið með öllum þeim annmörkum sem ég hef þegar nefnt. Ég hef þó ekki komið að öllu því sem ástæða væri til að nefna.

Ég hef merkt hér við fjöldann allan af umsögnum sem full ástæða væri til að lesa upp, það á fullt erindi inn í þessa umfjöllun, fullt erindi í þingtíðindin svo menn geti lesið um það þegar Framsfl. og Sjálfstfl. lögðu hluta velferðarkerfisins í rúst með því að leggja niður þá aðstoð sem félagslega húsnæðiskerfið hefur verið þeim launalægstu. En þar sem langt er liðið á kvöld og farið að líða að miðnætti þá ætla ég, herra forseti, að láta máli mínu lokið að sinni en mun þá geta komið að því síðar.