Húsnæðismál

Laugardaginn 16. maí 1998, kl. 15:54:55 (6668)

1998-05-16 15:54:55# 122. lþ. 129.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, forsrh. (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 122. lþ.

[15:54]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég leiði hjá mér öll stóryrði hv. þm. í minn garð. Vek hins vegar athygli á því að í fyrstu starfsáætlun þingsins var við það miðað að þingið færi heim 8. maí. Ég beitti mér fyrir því að athugað yrði hvort ekki væri hægt að sjá til þess að þingið gæti farið heim 22. apríl, til þess sérstaklega að skapa sveitarfélögunum --- og því lýsti ég hér margoft yfir í ræðustól --- að skapa sveitarstjórnarmönnum, frambjóðendum, svigrúm til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Það er ekki við mig að sakast að það tókst ekki.

Það er ekki við mig að sakast að það tókst heldur ekki að halda sér við næsta áfanga, 8. maí. Það er við þá að sakast sem hafa hér haldið uppi málþófi og hafa komið í veg fyrir það að þingið, að þingviljinn, vilji meiri hluta þingsins, hornsteinn þingræðisins mætti ná fram að ganga. Það er nefnilega ekki við mig að sakast. Þess vegna er þetta bréf sem hv. þm. las alveg í rauninni fádæma ósvífið ... (ÖJ: En nú er forsrh. ...) fádæma ósvífið af hálfu þeirra aðila sem hafa komið í veg fyrir að þingið gæti klárað sín mál. Svo segja þessir sömu menn --- það er alveg hápunktur ósvífninnar, finnst mér --- þá koma þessir menn og skrifa bréf og segja: ,,Það eru hér einhverjir aðilar sem halda mönnum frá því að gefa sveitarfélögunum svigrúm.`` Þetta er fádæma ósvífni. Það sjá allir menn. (SvG: Sannleikanum verður ...) Já, það hef ég orðið var við. Menn eru mjög reiðir yfir þessum sannleika sem á borð hefur verið borinn og fundið að því að hann sé borinn á borð við fjölmiðla úti í bæ þannig að þjóðin fái að sjá hann, fái að fylgjast með. Menn eru sárreiðir þeim sannleika sem þannig var borinn á borð.

Eins og ég segi þá munu þingmenn stjórnarandstöðunnar hér á næstu vikum, næstu dögum, mánudag, þriðjudag og miðvikudag, (Gripið fram í: Viku.) sjá til þess að þessar skoðanir mínar sem ég hef lýst fyrir þjóðinni verða undirstrikaðar. Þessir þingmenn hv. munu með málþófi sínu undirstrika réttmæti orða minna sem ég við hafði í sjónvarpinu. (Gripið fram í: Viku.) Og jafnvel lengur.