Húsnæðismál

Laugardaginn 16. maí 1998, kl. 16:00:27 (6670)

1998-05-16 16:00:27# 122. lþ. 129.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, KH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 122. lþ.

[16:00]

Kristín Halldórsdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þingstörf hafa verið mjög sérstök á þessu vori. Ríkisstjórnin krefst afgreiðslu á óvenjulega mörgum stórpólitískum átakamálum svo sem stjórnsýslu á miðhálendinu, nýtingu auðlinda í jörðu og gjörbyltingu á húsnæðiskerfinu sem við viljum segja að sé afnám félagslega húsnæðiskerfisins. Þessi stórmál hafa að sjálfsögðu kallað á hörð viðbrögð stjórnarandstöðu og ekki bara stjórnarandstöðunnar heldur líka einstaklinga utan þings, félaga og félagasamtaka sem hafa hópum saman krafist þess, skorað á þingmenn að fresta afgreiðslu þessara mála svo þau geti fengið víðtæka umfjöllun í þjóðfélaginu. Það er ekkert að undra.

En meiri hluti Alþingis hafnar þessum kröfum. Það finnst mér vera atlaga að lýðræðinu, óeðlileg afskipti forsrh. af stjórn þinghaldsins. Yfirlýsingar hans í fjölmiðlum og hótanir í garð þingmanna greiða ekki fyrir lausn mála. Þau greiða ekki fyrir þingstörfum.

Þrátt fyrir þetta hefur stjórnarandstaðan reynt að leggja sitt af mörkum, reynt að koma á samtölum milli þingflokksformanna og stjórnar þingsins vegna þess að það eru fjölmörg önnur mál en hér hafa verið nefnd sem bíða afgreiðslu þingsins, ætlunin er að afgreiða fyrir þinglok, þó að þau hafi komið mörg hver mjög seint frá hæstv. ríkisstjórn. Þá er samt sem áður ætlast til þess að þau séu afgreidd fyrir þinglok. Við horfum nú fram á aðeins viku til sveitarstjórnarkosninga sem skipta vitanlega miklu máli. Það er álit stjórnarandstöðu að gera eigi hlé á þinghaldi síðustu viku fyrir sveitarstjórnarkosningarnar, það sé virðing við kosningabaráttuna sem fer fram í sveitarfélögum um allt land. (Gripið fram í: Af hverju ekki 8. maí?)

Það er vegna þessa, af tillitssemi við frambjóðendur til sveitarstjórnarkosninga sem við höfum sett fram þessa hugmynd. (Gripið fram í: Væri ekki meiri tillitssemi að ...?) Þess vegna rituðu formenn þingflokka stjórnarandstöðu það bréf sem var lesið upp úr ræðustóli áðan til forseta Alþingis og honum hefur verið afhent. Þetta er framlag stjórnarandstöðunnar til þess að leysa þann vanda sem þinghaldið er komið í. (Gripið fram í: Og núna viljið þið hætta.) Ég skora á hæstv. forseta að taka tillögu stjórnarandstöðunnar til meðferðar og ræða hana og að við reynum að komast að sómasamlegri niðurstöðu til þess að leysa vandann.