Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 11:27:56 (6700)

1998-05-18 11:27:56# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, SvG (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[11:27]

Svavar Gestsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil taka undir þessar óskir sem hér hafa komið fram og mælast til þess að gert verði hlé á fundinum meðan smalað er í stjórnarliðinu og kannað hvort þessi stóri meiri hluti er til eða a.m.k. einhver partur af honum. Því spyr ég: Er ekki skynsamlegt með hliðsjón af stöðu mála að gera hlé á fundinum í hálftíma eða svo þannig að hægt sé að gera út lið til að smala og tína saman stjórnarliðið?

Það er greinilegt að atkvæðagreiðslan var ótímabær. Það var ótímabært að ákveða þessa atkvæðagreiðslu. Stjórnarflokkarnir hafa ekki vald á sínum málum, halda það illa utan um sitt lið að það er greinilegt að ekki er hægt að halda áfram störfum þingsins. Það er nú búið að kvarta mikið um að ekki sé hægt að halda þeim áfram af því að stjórnarandstaðan tali. Það er greinilegt að aðalvandi þinghaldsins er sá að stjórnarliðar nenna ekki einu sinni að mæta í atkvæðagreiðslurnar. Ég held að það sé algert lágmark, herra forseti, að það verði knúið á um að stjórnarliðið sýni sig hér á staðnum.