Húsnæðismál

Þriðjudaginn 19. maí 1998, kl. 10:39:51 (6775)

1998-05-19 10:39:51# 122. lþ. 131.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, Frsm. meiri hluta MS
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur, 122. lþ.

[10:39]

Frsm. meiri hluta félmn. (Magnús Stefánsson):

Hæstv. forseti. Í ljósi þess að nú liggur fyrir samkomulag um framgang mála á Alþingi og fyrir liggur að frv. til laga um húsnæðismál verður ekki að lögum í þessari viku, þá leggur meiri hluti félmn. til að gerðar verði smávægilegar breytingar á tveimur greinum í frv.

Í fyrsta lagi er um að ræða 52. gr. þar sem fram kemur að ákvæði um skipan húsnæðisnefnda sveitarfélaga öðlist gildi þegar í stað og komi fyrst til framkvæmda eftir næstu sveitarstjórnarkosningar, þ.e. gert var ráð fyrir því að þetta kæmi til framkvæmda eftir sveitarstjórnarkosningarnar sem fram fara um næstu helgi. Meiri hlutinn leggur til að þetta verði fellt niður, þ.e. að gert verði ráð fyrir því að þessi ákvæði öðlist gildi þegar í stað, eða þegar þetta frv. verður gert að lögum eftir sveitarstjórnarkosningar.

Í öðru lagi, varðandi ákvæði VII til bráðabirgða, þá kemur fram í frv., eins og það liggur fyrir eftir 2. umr., að úthlutanir íbúða sem farið hafa fram og samningar sem hafa verið gerðir við einstaklinga um félagslegar eignaríbúðir, sem keyptar hafi verið eða eru á byggingarstigi fyrir 1. júní 1998, skuli halda gildi sínu. Hér er lögð til sú breyting að í stað orðanna ,,sem keyptar hafa verið eða eru á byggingarstigi fyrir 1. júní 1998``, komi: ,,sem keyptar hafa verið eða eru á byggingarstigi fyrir fyrir 15. júní 1998.``

Í öðru lagi, varðandi þetta bráðabirgðaákvæði, er á öðrum stað í 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins dagsetningin ,,1. júní 1998``. Þar leggur meiri hlutinn til breytingu sem miðar að því að þar komi fram dagsetningin ,,15. júní 1998``.

Herra forseti. Þetta eru brtt. sem meiri hluti félmn. leggur til við 3. umr. og snúa fyrst og fremst að dagsetningum þeim sem fram koma í frv.