Greinargerðir um málefni Landsbankans og Lindar hf.

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 11:06:34 (6881)

1998-05-26 11:06:34# 122. lþ. 133.93 fundur 410#B greinargerðir um málefni Landsbankans og Lindar hf.# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[11:06]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég tel að þeirri umræðu sem fór fram áðan hafi ekki lokið með fullnægjandi svörum við þeim spurningum sem ég bar fram. Ég tel að aðalatriði þessa máls núna snúist ekki um hversu hátt mikið Landsbankans var, hvort lögsækja eigi menn eða hver beri ábyrgðina á því. Það sem mér finnst að þingið þurfi að komast til botns í í þessari umræðu er: Hvernig stendur á misræminu milli svara hæstv. ráðherra 3. júní 1996 og þeirrar staðreyndar að hann hafði þá upplýsingar undir höndum sem hefðu getað veitt fullnægjandi svör við fyrirspurn hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur sama dag?

Í því svari sem hæstv. ráðherra veitir gefur hann klárlega til kynna í fyrsta lagi að þær upplýsingar sem hann hafi undir höndum hafi hann úr fjölmiðlum og í öðru lagi er ekki hægt að lesa annað út úr svarinu en að hann hafi engar aðrar upplýsingar undir höndum.

Nú liggur fyrir í svari hans sjálfs sem kom fram í gær að hann hafði greinargerð undir höndum, hafði fengið hana um það bil tveimur mánuðum fyrr. Ég tel að hæstv. ráðherra geti ekki lokið þessari umræðu öðruvísi en svara einhvern veginn og skýra hvernig á þessu misræmi standi. Annars hvílir áfram skuggi ótrúverðugleikans yfir hæstv. ráðherra og ég tel að hann eigi að nota þetta tækifæri til þess að svipta þeim skugga burt með því að skýra þetta í einföldu og skýru máli eins og ég veit að hann hlýtur að geta.