Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 15:26:25 (6935)

1998-05-26 15:26:25# 122. lþ. 133.4 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv. 69/1998, RA
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[15:26]

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau orð sem hér hafa fallið í umræðunni af hálfu talsmanna Alþb. að ég tel að rangt hafi verið af hálfu hv. landbn. að gera tillögu um það að breyta búvörusamningnum. Ég held að eðlilegra hefði verið að staðfesta hann eins og hann er og að það væri meiri virðing við þá málsaðila sem þarna eiga hlut að máli.

En það er önnur hlið á þessu máli sem ég vil rétt aðeins fá að vekja athygli á og það er tilhögun atkvæðagreiðslunnar sem fram fór um hinn nýja búvörusamning og samstarfssamninginn milli Bændasamtaka Íslands og Landssambands kúabænda. Ákveðið var þegar atkvæðagreiðsla þessi fór fram að einungis þeir sem hefðu greiðslumark skyldu hafa atkvæðisrétt. Þetta þótti ýmsum bændum sérkennilegt og vil ég leyfa mér að vitna til bréfs sem Þorsteinn H. Gunnarsson ritaði stjórn Bændasamtakanna hinn 30. janúar sl. þar sem hann sagði, með leyfi forseta:

,,Ég undirritaður, Þorsteinn H. Gunnarsson, Reykjum Blönduósi, félagsmaður í Bændasamtökum Íslands, kæri hér með þá tilhögun sem uppi er varðandi atkvæðagreiðslu um nýjan búvörusamning og samstarfssamning milli Bændasamtaka Íslands og Landssambands kúabænda.

Í 5. tölulið í II. kafla þessa samnings segir að hann skuli borinn undir atkvæði hjá greiðslumarkshöfum í mjólk í almennri atkvæðagreiðslu sem Landssamband kúabænda og Bændasamtök Íslands annist sameiginlega. Ég tel að þetta fyrirkomulag stangist alvarlega á við 7. gr. samþykktar Bændasamtaka Íslands þar sem kveðið er á um verkaskiptingu á milli hlutaðeigandi búgreinasamtaka og Bændasamtakanna. Í þeirri grein segir um framsal á forræði af þessu tagi að það skuli því aðeins taka gildi að það hafi hlotið samþykki 2/3 hluta bænda í búgreininni í allsherjaratkvæðagreiðslu.

Samkvæmt búvörulögum fara Bændasamtök Íslands með fyrirsvar framleiðenda búvara. Ég tel að þar sem Bændasamtök Íslands séu að framselja forræðið til Landssambands kúabænda sé það eðlileg málsmeðferð að félagsmenn Bændasamtaka Íslands greiði atkvæði um framsalið en ekki þeir sem við forræðinu eiga að taka. Þar að auki segir ekkert um það í samþykktum Bændasamtaka Íslands að það séu einungis greiðslumarkshafar sem hafi atkvæðisrétt, hvorki um samstarfssamninginn né um búvörusamninginn. Reyndar segir svo í 4. gr. samþykktar Bændasamtaka Íslands að innan aðildarsamtaka Bændasamtaka Íslands skuli allir bændur hafa sömu réttindi óháð formi á félagsaðild.

[15:30]

Undirritaður vill benda stjórninni á að ef Bændasamtök Íslands vilja varpa frá sér lögvörðum samningsrétti verði það að gerast með formlegum og skýrum hætti.

1. Annaðhvort í allsherjaratkvæðagreiðslu allra bænda sem eru félagar í Bændasamtökum Íslands líkt og tíðkast innan samtaka launafólks,

2. eða með skriflegu umboði jarðeigenda sem eiga bújarðir, lögbýli, til Bændasamtaka Íslands um afsal á nýtingarrétti jarðanna.

Annað samrýmist ekki lögum, venjum eða hefðum um góða félagsstarfsemi auk þess sem önnur málsmeðferð samrýmist ekki aldagömlum venjum og gildum um forræði á eignum og atvinnurétti.

Eins og áður segir leyfi ég mér að kæra þetta fyrirkomulag um atkvæðagreiðslu og óska þess að kæran verði tekin fyrir innan stjórnar Bændasamtaka Íslands.``

Þessu bréfi svöruðu síðan Bændasamtök Íslands með allítarlegu bréfi og þar var kærunni hafnað. Ætla ég ekki að lesa það bréf hér en í bréfinu vitna Bændasamtök Íslands fyrst og fremst til búvörulaganna þar sem Bændasamtökin fá fullt vald á því hvernig með skuli farið í slíkum tilvikum og má það vafalaust til sanns vegar færa að lögin eru á þann veg að þau fela stjórn Bændasamtakanna æðsta vald en engu að síður er þetta athyglisvert mál. Í kjölfar þessarar kæru sem Bændasamtökin höfnuðu sendi viðkomandi bóndi kæru til hæstv. landbrh. þar sem hann benti á að kæruefni sínu hefði verið hafnað en jafnframt hefðu Bændasamtökin tekið þá ákvörðun að útvíkka kjörskrána og hefði hún verið útvíkkuð þannig að nú megi þeir greiða atkvæði sem eru með kálfaeldi. Þetta sýnir að stjórn Bændasamtakanna virtist geta tekið ákvörðun um hvaða aðili það væri sem greiddi atkvæði um búvörusamninginn. Þar gátu fjöldamargir aðilar komið til greina, það var hugsanlegt að það væru allir þeir bændur sem eru í samtökunum, það gátu líka verið allir þeir bændur sem stunda með einhverjum hætti kúabúskap, það gátu verið allir þeir bændur sem selja mjólk og það gátu líka verið allir þeir bændur sem hafa greiðslumark. Þetta eru ekki alveg nákvæmlega sömu hóparnir í hverju tilviki fyrir sig, en þarna átti sem sagt stjórn Bændasamtakanna að taka ákvörðun um þetta upp á sitt eindæmi. Það er þetta sem menn hafa kannski gagnrýnt, að mönnum finnst að stjórn Bændasamtakanna sé falið ansi mikið vald með því að hún geti ákveðið án þess að þurfa að bera það undir einn eða neinn hvernig kjörskráin skuli útbúin.

Vegna þess að ég vil nú reyna að hraða þingstörfum sem mest, þá vil ég ekki fjölyrða um of um þetta mál en ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra hvort honum finnist ekki að þetta atvik á liðnum vetri bendi eindregið til þess að kveða þurfi skýrar á um atriði af þessu tagi. Núverandi stjórnarflokkar hafa nýlega haft frumkvæði að því að hér hefur verið samþykkt ný vinnulöggjöf. Þar eru ákaflega ströng fyrirmæli um það með hvaða hætti samningar skuli gerðir og ef atkvæðagreiðsla fer fram, með hvaða hætti hún skuli fara fram. Meira að segja eru þar tilgreind nákvæmlega hversu margir skuli hafa greitt atkvæði og tekið þátt í atkvæðagreiðslunni og hversu stór meiri hlutinn þurfi að vera og annað í þeim dúr. Það eru mjög smáatriðakennd fyrirmæli til hinna almennu stéttarfélaga um gerð kjarasamninga. Þegar svo aftur á móti kemur að bændum og samtökum þeirra virðist stjórn Bændasamtakanna geta haft þetta eins og henni sýnist án þess að þurfa að bera það undir bændur almennt hvaða línur skuli taka í þessum efnum og þá enn síður undir stjórnvöld, eða fara þar eftir einhverjum tilteknum lagaákvæðum.

Ég hef vakið máls á þessu vegna þess að tilefni gafst. Við erum að fjalla um þennan samning sem gerður var um mjólkurframleiðsluna. Ég spyr ráðherrann um það hvort honum finnist ekki að kveða þyrfti skýrar á í lögum og reglum um hvernig að þessu skuli staðið þannig að ekki komi upp óánægja, illindi eða deilur um það hvort rétt hafi verið að málum staðið.