Framleiðsla og sala á búvörum

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 15:57:01 (6940)

1998-05-26 15:57:01# 122. lþ. 133.4 fundur 559. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (mjólkurframleiðsla) frv. 69/1998, Frsm. meiri hluta GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[15:57]

Frsm. meiri hluta landbn. (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ber hlýjan hug til Kvennalistans og kvenna yfirleitt, enda fæddur af móður, á konu fyrir eiginkonu og þrjár dætur. Mér er því hlýtt til kvenna. Það sem ég átti við í mínum málflutningi var þessi undarlega hugsun að ekki mætti semja til langs tíma og þar með marka stefnu. Mér hefur oft fundist að Kvennalistinn, a.m.k. það sem ég hef hlustað á og fundist að þar væru skynsemisraddir gagnvart sveitunum, hafi talað í þá veru.

Ég finn hins vegar að hv. þm. telur að hér sé landbúnaður ekki rekinn eins og atvinnuvegur, sem er auðvitað alrangt. Landbúnaðurinn er rekinn sem drifmikill atvinnuvegur. Hann er að ná miklum árangri og stendur nágrönnum sínum í Evrópu ekkert að baki. Hann skaffar neytendum vörur þannig að hann tekur í hvívetna tillit til þeirra og samræmist þar með þeirri stefnu Kvennalistans sem hv. þm. hér las upp. Þetta eru mín viðhorf til þessara mála. Sá rómur sem mér hefur fundist ég heyra hjá Kvennalistanum fannst mér verða eins og holhljómur hjá hv. þm., sú skoðun sem hún setti fram og sú harða gagnrýni sem hv. þm. ein allra setur hér fram á að samningurinn standi til langs tíma.