Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 26. maí 1998, kl. 16:53:32 (6951)

1998-05-26 16:53:32# 122. lþ. 133.7 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur, 122. lþ.

[16:53]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg hárrétt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að það voru ekki mikil vísindi sem lágu að baki því þegar menn fundu út 100 metrana 1956. Ef ég man það rétt, af þeim gögnum sem ég hef lesið um sögu þessa máls, var ástæða þess að markið var sett við 100 metra sú að einungis tveir aðilar í landinu höfðu á því ári náð að nýta jarðhita niður á 100 metra dýpi. Menn töldu þess vegna eðlilegt að miða við þessi mörk.

Þetta hefur allt breyst í tímans rás. Þetta segir mér og fleirum að þær takmarkanir sem þarna er verið að setja séu ekki raunhæfar sem viðmiðun í þessu. Ég fagna því að með þessari tillögu sem hér er flutt þá horfa fulltrúar flokkanna, sem áður hafa verið að einskorða sig við miklu þrengri mörk í þessu, miklu víðar á málið. Ég er eftir sem áður tilbúinn til þess, þegar þessari umræðu lýkur og fer í atkvæðagreiðslu, að láta sérstaklega skoða það af hálfu lögfræðinga hvort það sé mat manna að þær takmarkanir sem þarna eru settar, eins og þessi brtt. gerir ráð fyrir, standist stjórnarskrána. Ég veit hins vegar að það er líka deilt um það milli lögmanna hvort hægt sé að takmarka þetta eins og brtt. gera ráð fyrir .