Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 10:59:22 (6971)

1998-05-27 10:59:22# 122. lþ. 134.1 fundur 544. mál: #A meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða# (heildarlög) frv. 55/1998, Frsm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[10:59]

Frsm. sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti sjútvn. í máli nr. 544 á þskj. 929, þ.e. frv. til laga um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.

Sjútvn. hefur fjallað um þetta mál og fengið á sinn fund, reyndar ítrekað, þá sem helst hafa með það unnið, þ.e. Halldór Pétur Þorsteinsson og Kristínu Haraldsdóttur frá sjútvrn. Umsagnir bárust frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Íslenskum sjávarafurðum hf. og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands.

Í þessu frv. er lagt til að sett verði ný heildarlöggjöf um þetta efni, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, sem leysi af hólmi eldri lög, nr. 93/1992, um sama efni. Með þessum breytingum er íslenskum stjórnvöldum einnig gert kleift að fullgilda fyrir sitt leyti tilskipanir Evrópubandalagsins nr. 91/493, 92/48 og 91/492 og fella það inn í íslenska löggjöf.

[11:00]

Vegna þeirra breytinga sem frv. felur í sér varðandi uppboðs- og heildsölumarkaði, að þeir þurfi ekki lengur starfsleyfi sem vinnslustöð heldur einungis venjulegt starfsleyfi aðila í sjávarútvegi vill sjútvn. taka það skýrt fram að ekki er ætlunin með þessu að slaka á kröfum um hreinlæti og meðferð sjávarafurða á þessum mörkuðum. Einnig er rétt að menn hafi í huga að ef eitthvað er verði gerðar strangari kröfur til uppboðs- og heildsölumarkaða en verið hafa þrátt fyrir það að þeir hafi hingað til þurft vinnsluleyfi til að rekja megi feril þess sjávarfangs sem þar er til sölu, þ.e. að þessar breytingar eiga alls ekki að fela í sér hvorki tilslökun á kröfum almennt né heldur að uppruni vörunnar verði ekki rekjanlegur eins og áður hefur verið.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:

Lagt er til að orðunum ,,til sölu`` verði bætt í 1. mgr. 7. gr. frv. Þetta felur í sér að taka það fram eða gera það skýrt að átt sé við íslenskar sjávarafurðir en ekki sé um að ræða að íslensk stjórnvöld geti ákveðið hvaða aukaefni verði notuð í sjávarvörum almennt á Evrópska efnahagssvæðinu. Að sjálfsögðu var ekki ætlunin að seilast svo langt til valda fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Hér er um það að ræða að tryggja að íslenskar sjávarafurðir uppfylli þessi skilyrði.

Í öðru lagi er lagt til, herra forseti, að felld verði út orðin ,,eftir því sem ráðherra ákveður með reglugerð`` í 8. gr. frv. og styttist þá greinin og verður eingöngu fyrri hluti málsl.:

,,Nota skal neysluvatn eða hreinan sjó til þvotta, þrifa, ísframleiðslu og við vinnslu sjávarafurða.``

Í þessu felst að sjálfsögðu ekki efnisbreyting. Þar sem einungis skal nota neysluvatn eða hreinan sjó er ekki þörf á neinum reglugerðarheimildum í því sambandi. Nefndin vill taka fram að rangt er farið með í athugasemdum sem fylgdu frumvarpinu en þær gáfu til kynna að heimilt væri í vissum tilvikum að nota annan vökva en neysluvatn eða hreinan sjó.

Í þriðja lagi er lagt til að orðið ,,búlkuð`` í 11. gr. falli brott en ákvæðinu er ætlað að taka til allrar vöru sem send er ópökkuð óháð því hvort hún er búlkuð eða ekki. Hér er átt við þau undanþáguákvæði sem síðari málsl. 11. gr. felur í sér, þ.e., með leyfi forseta, að:

,,Sé afurðin send ópökkuð,`` --- síðan stóð --- ,,búlkuð, skulu sömu upplýsingar koma fram í fylgiskjölum. Merkingar skulu að öðru leyti vera í samræmi við kröfur sem gerðar eru í viðkomandi markaðslandi.``

Þetta felur í sér heimild til þess að víkja frá almennu ákvæðunum um merkingar þegar vara er send ópökkuð. Til þess að taka af öll tvímæli leggur nefndin til að fella niður orðið ,,búlkuð`` þannig að ljóst sé að þetta taki til allrar vöru sem send er óháð því hvort hún sé búlkuð eða ekki.

Þá er lagt til að orðið ,,aðeins`` í 4. mgr. 26. gr. falli brott. Þessi grein fjallar um meðferð vöru í tollvörugeymslum og í frv. stendur, með leyfi forseta:

,,Í tollvörugeymslu skal aðeins fara fram athugun á skjölum og samanburður á þeim og sendingu.``

Þessu ákvæði er einungis ætlað að leggja ákveðnar skyldur á eftirlitsaðila en ekki að takmarka athugun og meðferð sjávarafurða í tollvörugeymslu. Um slíkt eiga að gilda almennar reglur, meðal annars ákvæði tollalaga og þær verklags- og vinnureglur sem gilda um meðferð vara í tollvörugeymslum almennt. Þess vegna er nauðsynlegt til að gera textann skýrari og taka af tvímæli í þessum efnum að fella þetta orð brott.

Þá er í fimmta lagi, herra forseti, lagt til að 4. mgr. 28. gr. laganna falli brott. Hér var á ferðinni heimildarákvæði til handa ráðherra um að hækka gjöld þau sem kveðið er á um í 28. gr. og standa eiga straum af kostnaði vegna landamæraeftirlits. Í fyrri málsgreinum eru hinar almennu reglur um gjöldin settar fram og upphæðir þeirra og það var niðurstaða sjútvn. að þegar reynsla væri komin á framkvæmd laganna og fyrir liggur hver kostnaður vegna landamæraeftirlitsins raunverulega er væri eðlilegra að taka gjaldtökuheimildir laganna til endurskoðunar en að afgreiða frv. með opinni heimild af því tagi sem 4. mgr. 28. gr. felur í sér. Þar var að vísu sá varnagli sleginn að gjaldið mætti aldrei verða hærra en sem næmi raunverulegum kostnaði við eftirlitið og því má segja að þessi heimild hafi náð máli eða staðist í þeim skilningi að hún er ekki ótakmörkuð. En það varð niðurstaða nefndarinnar eftir allmiklar umræður og skoðun á þessu atriði að ekki færi vel á því eftir sem áður að ganga þannig frá málinu. Eðlilegra væri að láta hinar almennu reglur um gjaldtöku gilda fyrst um sinn og endurskoða þá gjaldtökuheimildir laganna í heild sinni þegar nokkur reynsla væri komin á framkvæmd þeirra og þann kostnað sem af þessu hlýst, en ljóst er að það getur farið talsvert eftir framkvæmdinni og því hvernig til tekst hver hann verður.

Þá er í sjötta lagi lagt til að 1. mgr. 31. gr. verði gerð skýrari svo að ljóst megi vera að um þjónustugjöld sé að ræða. Þá er lagt til að 3. mgr. þeirrar greinar verði felld brott. Hún felur í sér eins og hún stendur í frv. að ráðherra hafði heimild til að hækka gjaldið. Þetta er gjald vegna viðurkenningar á skoðunarstofu sem á að vera 200 þús. kr. en ráðherra átti að hafa heimild til að hækka gjaldið sem næmi hlutfallslegri hækkun vísitölu byggingarkostnaðar, sbr. lög nr. 42/1987, um vísitölu byggingarkostnaðar, og átti þá grunntaxti gjaldsins að miðast við byggingarvísitölu í ágúst 1993, þ.e. 192,5 stig.

Það var eindregin afstaða sjútvn. að vísitölubinding af því tagi sem þarna kemur fram ætti ekki rétt á sér. Almennt hafa menn verið að hverfa frá vísitölubindingum af þessu tagi og það verkar hálfforneskjulegt að ætla að fara að binda upphæð gjalds af þessu tagi sem er vegna tiltekinnar þjónustu eða tiltekins kostnaðar við þjónustu hjá Fiskistofu við byggingarvísitölu og liggur ekki alveg í augum uppi að það sé þá heppilegasti mælikvarðinn á það hvernig þetta skuli breytast hvort sem er. Það sama á að sjálfsögðu við um þetta atriði eins og gjaldtökuákvæðin skv. 28. gr. að eftir því sem ástæða getur þótt til á komandi tímum má að sjálfsögðu endurskoða þessa upphæð. En það er ekki síst grundvallarafstaðan til þess hvað það varðar að menn vilja hverfa frá vísitölubindingu af þessu tagi sem hér ræður ferðinni.

Herra forseti. Það er síðan rétt að vekja athygli á því að á brtt. sem prentuð hefur verið upp á þskj. 1279 er nýr liður sem ekki kemur fram í nefndarálitinu eða ekki er fjallað um í nefndarálitinu og kom í ljós við frekari skoðun á málinu eftir að gengið hafði verið frá nefndarálitinu til prentunar að þarf að lagfæra. Það er 6. liður brtt. við 30. gr. Það eru einföld tilvísunaratriði, að í stað orðanna ,,þessari málsgrein`` í 2. mgr. 30. gr. komi: 1. mgr. 6. tölul. brtt. í nefndarálitinu á þá við 7. á breytingartillöguskjalinu o.s.frv.

Þá er lagt til í áttunda lagi sem þá verður, að í 32. gr. komi orðið ,,fangelsi`` í stað orðsins ,,varðhaldi``. Þetta mun vera í samræmi við lagahreinsun sem hefur farið fram á réttarfarssviðinu á undanförnum missirum að verið er að festa í sessi orðið ,,fangelsi`` í staðinn fyrir orðið ,,varðhald.``

Loks er það 9. tölul. brtt. sem fjallað er um í 8. tölul. í nefndarálitinu. Þar leggur sjútvn. til að bætt verði við lögin ákvæði til bráðabirgða. Bráðabirgðaákvæðið er efnislega samhljóða 2. mgr. 6. gr. laga nr. 93/1992. Gert er ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi og að um leið falli niður áðurnefnd lög nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra. Fjórða og fimmta kafla frumvarpsins er hins vegar ekki ætlað að öðlast gildi fyrr en 1. nóvember 1998 og því er nauðsynlegt að bæta bráðabirgðaákvæðinu við lögin.

Rétt er að vekja athygli á því að þessi dagsetning er enn óljós, þ.e. ekki er enn fullljóst hvort þessar breytingar taki þá endanlega gildi. Þeim hefur ítrekað verið frestað eins og kunnugt er. En ekki eru fyrir hendi eða voru ekki a.m.k. þegar sjútvn. lauk umfjöllun um þetta mál fyrir nokkrum vikum, í raun og veru upplýsingar um réttari dagsetningu en þessa þannig að sem stendur höfum við ekki betri tillögu að gera en þá að gildistaka IV. og V. kafla frv., sem eru ákvæðin sem tengjast viðkomandi atriðum í evrópsku tilskipununum, taki gildi 1. nóvember. Reynist enn verða um töf að ræða eða komi nýjar upplýsingar fram þá gefst Alþingi væntanlega tóm til að meta þá stöðu í ljósi þess sem fyrir liggur þegar þing hefur störf á næsta hausti nokkru áður en gildistakan er þá fyrirhuguð.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég hef gert grein fyrir umfjöllun sjútvn. um málið og þeim brtt. sem nefndin gerir og við leggjum til að þær verði samþykktar og frv. svo afgreitt.