Almannatryggingar

Miðvikudaginn 27. maí 1998, kl. 17:00:15 (7029)

1998-05-27 17:00:15# 122. lþ. 134.13 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv. 59/1998, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur, 122. lþ.

[17:00]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um frv. til laga sem varða verulegar réttarbætur fyrir fólk sem býr erlendis, Íslendinga sem búsettir eru erlendis og þurfa á læknisþjónustu að halda. Þeir hafa hingað til þurft að greiða fyrir hana. Við erum að afnema það með þessum lögum. Þetta eru réttarbætur fyrir nemendur sem eru í námi erlendis og þurfa að koma heim vegna veikinda eða vegna barnsfæðinga þannig að það er mjög mikilvægt að þetta frv. verði afgreitt á þessu þingi.

Hv. þm. er hér með viðamikla brtt. sem ég hef lagt til umfjöllunar í Tryggingastofnun og álitsgerðar. Ef þessi brtt. yrði samþykkt svona, án þess að fjármagn kæmi með og við ætluðum að nota sömu fjárupphæð og við notum í dag, þá væri þessi hópur að tapa 50--60 millj. kr. Fleiri einstaklingar fengju meira ef þetta kæmi svona óbreytt og ekkert fjármagn með. Til þess að reikna nákvæmlega út hvað við erum að tala um, þá þurfa að koma fram nákvæmari útlistanir og það er mjög mikilvægt að það verði gert. Mér finnst ekki skynsamlegt að þessum réttarbótamálum sem hér eru til umfjöllunar verði frestað eða að flýta máli sem greinilega er ekki fullbúið. Menn fara eftir lögum sem samþykkt voru á Alþingi 1993. (Forseti hringir.) Til þess að breyta þessu þarf lengri tíma og miklu betri athugun.