Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 10:35:07 (7071)

1998-05-28 10:35:07# 122. lþ. 135.4 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, HG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 122. lþ.

[10:35]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hér fer fram mjög söguleg atkvæðagreiðsla í stóru máli. Hér eru að verða ofan á við afgreiðslu málsins afar íhaldssöm sjónarmið, sjónarmið sem ekki hafa fengið brautargengi í ríkjum eins og Bandaríkjum Norður-Ameríku, Nýja-Sjálandi og fleiri slíkum ríkjum m.a. að því er varðar jarðhita. Hér er gengið gegn eðlilegri skynsemi varðandi eðli þeirra auðlinda sem við eigum bestar eins og jarðhitann og grunnvatn sem fylgja ekki mörkum eignarlanda. Hér er á ferðinni mjög afdrifarík og slæm lagasetning sem er enn þá afdrifaríkari eftir að við höfum innleitt réttarkerfi Evrópusambandsins og allir íbúar á hinu Evrópska efnahagssvæði geta boðið í landareignir á Íslandi. Þetta er í rauninni mjög hættulegt mál sem verið er að lögfesta og við hljótum að áskilja okkur rétt til þess að reyna að færa þessa löggjöf til baka og setja eðlileg lög um þetta við fyrsta tækifæri. Ég segi nei.