Vegáætlun 1998-2002

Fimmtudaginn 28. maí 1998, kl. 17:29:17 (7136)

1998-05-28 17:29:17# 122. lþ. 136.7 fundur 378. mál: #A vegáætlun 1998-2002# þál. 19/122, 379. mál: #A langtímaáætlun í vegagerð# þál. 20/122, HG
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 122. lþ.

[17:29]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hér eru komnar til síðari umr. till. til þál. um vegáætlun fyrir tímabilið 1998--2002, þ.e. hið almenna fjögurra ára áætlunartímabil að yfirstandandi ári meðtöldu, og síðan langtímaáætlun til tólf ára þar sem hin fyrri áætlun sem ég nefndi er fyrsta tímabilið af þremur sem um er fjallað.

[17:30]

Við fyrri umr. þessa máls ræddi ég um hinn almenna ramma sem ríkisstjórnarflokkarnir og hæstv. samgrh. leggja í sambandi við þetta mál og gagnrýndi margt sem varðar þessar áætlanir á heildina litið. Ég ætla ekki að endurtaka margt af því sem þar kom fram af minni hálfu og okkar alþýðubandalagsmanna en vil þó minna á það sem ég tel stóran ágalla á umfjöllun yfirvalda samgöngumála að því er snertir þann málaflokk almennt, að ekki er fjallað um hann í heildstæðu formi, þ.e. að á Alþingi skuli aldrei fara fram umræða á grundvelli samgönguáætlunar sem taki til allra þátta samgangna, vegagerðar og vegamála almennt, samgangna í lofti og samgangna á sjó.

Auðvitað má reyna að lesa saman þær áætlanir sem fyrir liggja hverju sinni, þar á meðal flugmálaáætlun sem verið hefur á dagskrá þessa fundar í dag, en það er hins vegar engan veginn fullnægjandi því að þessar áætlanir --- og þá á ég fyrst og fremst við vegáætlun og flugmálaáætlun eru undirbúnar af ólíkum stofnunum sem því miður hafa mjög takmarkað samráð og samband sín á milli og mér sýnist að ráðuneyti samgöngumála haldi engan veginn á þessum málum samtengjandi eins og vert væri því þaðan ætti auðvitað að koma heildarsamgönguáætlun sem varðar samgöngur innan lands hjá okkur og samgöngur út á við líka, við útlönd, þannig að menn skoði þessi mál í heildarsamhengi.

Á þetta hefur skort mjög lengi. Á þetta hefur oft verið minnt af okkur alþýðubandalagsmönnum, á þetta hefur verið minnt af einstökum þingmönnum eða þingmannahópum, ef ég man rétt liggur fyrir þinginu tillaga í þessa átt á yfirstandandi þingi sem mun hafa fengið afgreiðslu og er það út af fyrir sig vel en breytir hins vegar ekki þeirri stöðu sem við tölum út frá núna þegar verið er að leggja línur fyrir svo mikilvæg mál fyrir flugmálin og vegamálin í útlínum til allt að tólf ára.

Liður í slíkri heildarsamgönguáætlunargerð þarf að vera svar við spurningunni um hvernig eigi að tryggja sem bestar samgöngur í landinu í heild og til einstakra landshluta og byggðarlaga þar sem litið er á alla þætti og jafnhliða hvernig ná megi árangri í því stóra verkefni að auka eða bæta stöðu samgöngumálanna að því er varðar umhverfisþáttinn sem er í rauninni ekkert til umræðu í þessari áætlunargerð að því er séð verður. Það stóra mál að við erum að undirgangast skuldbindingar á alþjóðavettvangi um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þar sem samgöngurnar valda nálægt þriðjungi af þeirri losun sem um er að ræða hér innan lands eins og sakir standa og þar sem samgöngurnar verða auðvitað að koma inn í það mál, að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstunni og til framtíðar litið, er sáralítið aðhafst þótt einhver nefnd sé að störfum til að líta á þessi efni.

Það horfir náttúrlega almennt séð þannig, ef litið er á stefnu ríkisstjórnarinnar í heild, að hún virðist ekkert ætla að gera með alþjóðasamninga í þessum efnum og er þegar farin að kynna það, hvort sem á að taka það sem stefnu eða hótun í alþjóðlegu samhengi, að standa utan við þá bókun sem gerð var í Kyoto við loftslagssamninginn frá 1992 og er þar ekkert smámál á ferðinni. En svo virðist, virðulegur forseti, sem ríkisstjórnin leggi ekki mikið upp úr því máli þegar við erum í þeirri stöðu að vera eitt af þremur ríkjum heims sem hefur tekið á sig skilgreindar skuldbindingar í þessum efnum sem ekki hefur sett fangamark sitt undir bókunina í Kyoto þar sem Íslandi var þó úthlutað meira en nokkru öðru ríku landi, svokölluðum Annex B-ríkjum í sambandi við losunarmörk. Ég fæ ekki séð að það sé nein hugsun uppi í sambandi við þessa áætlun sem taki á þessum málum í beinu samhengi við það stóra verkefni að minnka hlut samgangnanna á heildina litið í losun því allir verða að leggjast á eitt til að ná árangri af Íslands hálfu í samhengi alþjóðlegra skuldbindinga þar sem við þurfum að sjálfsögðu að taka myndarlega á eins og önnur ríki sem eru að fást við þann vanda sem mest er nú ræddur á því sviði.

Ég ætla, virðulegur forseti, ekki að ræða það frekar en sé ástæðu til að draga þetta skýrt inn í umræðuna því þetta er stórmál og á því verður auðvitað ekki tekið nema mönnum auðnist að taka á samgöngumálunum heildstætt og reyna að ná þar árangri með því að tryggja í senn samgöngur með hagkvæmum hætti þar sem umhverfisþátturinn kemur einnig inn sem gildur liður í sambandi við meðferð mála.

Varðandi vegáætlunina sem við ræðum nú eins og hún liggur fyrir hefur þegar verið á það minnt af talsmanni Alþb., hv. þm. Ragnari Arnalds, hvernig stjórnarandstaðan hefur verið útilokuð frá öllum undirbúningi þessa máls og hvernig stjórnin hefur ein setið að því andstætt því sem reynt hefur verið á fyrri árum, þ.e. að laða menn saman, og er þar í rauninni verið að feta slóð sem fyrrverandi ríkisstjórn, að vísu með sama samgrh. innan borðs, hafði uppi í sambandi við einstakar vegaframkvæmdir, alveg sérstaklega ef gefa átti eitthvað í, þá var ekki einu sinni reynt að hafa samband við þingmannahópa viðkomandi kjördæma heldur voru þeir gróflega sniðgengnir.

Málum er nú komið þannig að einn af samgöngunefndarmönnum úr flokki sjálfs hæstv. samgrh. hefur slitið sig frá meiri hlutanum í þessu máli, hefur talað fyrr við umræðuna og hefur uppi gagnrýni á margan hátt hliðstæða því sem frá stjórnarandstöðunni hefur komið, sem hefur stutt tillögur þessa þingmanns, hv. þm. Egils Jónssonar í samgn. til að reyna að fá þar úrbætur á augljósum annmörkum þessarar áætlunar að því er snertir þann landshluta sem hv. þm. Egill Jónsson og sá sem hér talar horfa eðlilega til öðrum fremur. Stjórnarmeirihlutanum er sannarlega illa komið þegar ein harðasta gagnrýnin á þau verk sem fram eru borin og ganga senn til atkvæða í þinginu kemur frá talsmanni úr stjórnarliðinu sem telst til stuðningsliðs ríkisstjórnarinnar. Hvað þá um okkur í stjórnarandstöðu sem gagnrýnum þessi mál á heildina litið, út frá okkar forsendum þegar þannig er málum komið í stjórnarliðinu að algerlega er um að ræða skil milli eins fulltrúa Sjálfstfl. í hv. samgn. og meiri hlutans sem skilar hér áliti.

Varðandi fjögurra ára áætlunina blasir það við að á fyrsta skeiði áætlunarinnar, á þessu ári og hinu næsta, er þeirri skerðingu vegafjár haldið áfram sem uppi hefur verið með því að hirða stórar fúlgur af mörkuðum tekjustofnum Vegagerðarinnar í ríkissjóð. Þar hefur núv. hæstv. samgrh. verið stórtækari en nokkur áður. Þess eru dæmi að áður hafi verið tekið fé af mörkuðum tekjustofnum í ríkissjóð en þau eru fá og afmörkuð, en hér hefur í rauninni verið um stefnu að ræða sem hefur verið rekin árum saman að þessu leyti og sjaldan verið meira tekið til hendinni en í sambandi við vegáætlun fyrri hluta fjögurra ára áætlunarinnar. Mig minnir að brúttóupphæðin í skerðingu sé á tólfta hundrað millj. kr. svo það er ekkert smáræði sem þar er á ferðinni og munar um minna í samhengi samgöngumálanna þegar litið er á takmarkað ráðstöfunarfé.

Boðað er að þessum skerðingum verði hætt frá árinu 2000 að telja og ætli sé ekki rétt að segja það sem oft er mælt, að guð láti gott á vita. En hitt hlýtur mönnum jafnframt að vera ljóst að hættan er sú að hér verði um lítið annað að ræða en töluð orð á þessari stundu. Samþykktir sem hér eru gerðar verði teknar upp til endurskoðunar eins og hefur verið regla undanfarin ár í sambandi við vegaframkvæmdir, teknar upp til endurskoðunar a.m.k. á tveggja ára fresti sem er reyndar lögboðið og þá til að skera niður og auk þess höfum við búið við að þurfa að taka vegáætlunina upp frá ári til árs, einnig til niðurskurðar. Það er því ekkert undarlegt þótt á það sé bent og það rækilega að hér eru menn að vísa út í óvissuna hvað þetta snertir þótt hitt skuli ekki lastað að góður hugur sé í þessum efnum en menn hljóta öðru fremur að dæma af verkunum, dæma af þeim hætti sem uppi hefur verið á undanförnum mörgum árum og á þeim næstu árum sem eru þó bundin í sambandi við fjárlagagerðina og þar tala verkin. Hitt eru í besta falli góðar hugsanir og fyrirætlanir sem því miður er ástæða til að hafa uppi varnaðarorð hvað það snertir að efndirnar geti orðið með allt öðru móti.

Í sambandi við ramma þessarar áætlunar og markmiðin og leyfi ég mér þá að tala um þessar áætlanir í samhengi enda eru þær samtengdar, fjögurra ára áætlunin og sú sem á að taka til átta ára í viðbót, þá er það út af fyrir sig góð hugsun að reyna að ljúka því að koma bundnu slitlagi á hringveginn og reyna að tengja byggðarlög með 200 íbúa og fleiri með varanlegu slitlagi við vegakerfi landsins. Það er auðvitað markmið sem auðvelt er að taka undir, en hinu er ekki á lofti haldið að með því að bera þessi mál fram og standa að tillögugerð er ekki nema takmörkuð saga sögð. Takmörkuð mynd er dregin upp af vegamálunum í heild sinni og það eru margir þættir sem standa þarna alveg út af og ekki er gert ráð fyrir fjármagni til annarra atriða sem munu berja að dyrum fyrr en varir og gera það að sjálfsögðu. Þar á ég við viðhaldsframkvæmdir í vegakerfinu, framkvæmdir sem ekki lúta þessu markmiði um 200 íbúana og tengingu við þéttbýlisstaði og stórverkefni bíða í vegakerfinu sem eru að útrýma einbreiðum brúm og reisa þær brýr sem þarf að endurbyggja og þær eru margar. Þar er um stórverkefni að ræða sem engin skil eru gerð í raun hér þótt einstakar brýr séu teknar inn á framkvæmdaáætlun og fyrr mætti nú vera ef svo væri ekki.

Hér er um að ræða fjárfrekt verkefni, hér er um að ræða öryggismál, mjög stórt öryggismál þar sem eru brúarframkvæmdirnar og öryggismálin mega ekki gleymast, jafn gífurlegur tollur og er tekinn í mannslífum í samgöngukerfi okkar, ekki síst á vegunum, sem minna á sig allt of oft, nánast í viku hverri sem við færum þar fórnir vegna slysfara, dauðaslysa svo ekki sé nú talað um minni slys.

[17:45]

Einnig verður að nefna, virðulegur forseti, það verkefni að endurbyggja vegi þar sem komið hefur verið á bundnu slitlagi, vegi sem eru algerlega ófullnægjandi og koma ekki til með að standa undir umferð öllu lengur. Þar er um að ræða talsvert stóran hluta af þeim vegum sem þó hefur verið komið á bundnu slitlagi. Ég gæti farið yfir slíka kafla í Austurlandskjördæmi og þeir eru margir þar sem þannig háttar til og ekki sést votta fyrir að leggja eigi fram fjármagn til endurbygginga.

Hér er um að ræða oft á tíðum frumstæða, mjóa og hættulega vegi. Hægt er að vísa á hvern kaflann á fætur öðrum á Austurlandi, t.d. á leiðinni með fjörðum milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar, milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar. Í Hamarsfirði, svo dæmi sé tekið, er afar frumstæður og hættulegur vegur sem hefur verið klæddur bundnu slitlagi. Auðvitað þótti mönnum það góð úrbót til bráðabirgða en þessir vegir standast ekki kröfur nútímans, hvað þá með vaxandi umferðarþunga og auknum þungaflutningum á þjóðvegum landsins eftir því sem árin líða.

Sú mynd sem við blasir er því ekki raunsæ eins og hún er lögð fyrir með þessari vegáætlun, hvorki hinni skemmri né hinni lengri. Af því hljótum við að draga þá ályktun, virðulegur forseti, að ríkisstjórnin tekur ekki á þessum málum, hvorki heildstætt né á einstökum þáttum, svo sem vegagerðinni, á þann hátt sem óhjákvæmilegt verður að teljast, og það er ekki síst af ríkisstjórn sem hefur tekið upp og staðið fyrir þeirri stefnu í mjög auknum mæli, og núv. hæstv. samgrh. hefur innleitt þá stefnu, að leggja niður strandflutninga og færa þungflutninga í landinu af öllu afli má segja inn á þjóðvegakerfi landsins. Á síðasta kjörtímabili gerðist það að gert var út af við Skipaútgerð ríkisins og þungaflutningarnir hafa magnast með þeim hætti sem við þekkjum. Það er eins og enginn hafi fyrir því að reikna þetta dæmi fram í tímann hvað það þýðir í raun fyrir samgöngur okkar að ætla að innleiða hér Evrópustaðla í sambandi við möguleika til þungaflutninga á landi. Því það er í rauninni það sem menn hafa verið að undirgangast.

Ég held að menn standi í raun frammi fyrir slíkum verkefnum, ef fram er haldið þessari stefnu, að það fjármagn sem menn eru að gera ráð fyrir samkvæmt langtímaáætlun er ekki aðeins eitthvað dálítið of knappt. Það er ekki bara svo að það mundi duga að bæta þar við 50%. Það er afar langt frá því að ná utan um þá þörf sem við blasir að óbreyttri meginstefnu. Ég spái því, virðulegur forseti, að það verði þungt það dæmi sem menn og yfirvöld samgöngumála koma til með að standa frammi fyrir á Alþingi, að ætla að setja tölur á seinna tímabil langtímaáætlunar frá árinu 2002 að telja og fylla í raun út í áætlunina eins og aðstæðurnar verða þá. Þó eru menn að gera því skóna að eitthvað verði rýmra um vegna þess að þeir ætli ekki að innheimta eða taka markaða tekjustofna Vegagerðarinnar í ríkissjóð og munar ekki, þó að sú hugsun sé góðra gjalda verð, engin ósköp um það miðað við þá gífurlegu þörf sem þarna blasir við.

Virðulegur forseti. Litið til Austurlandskjördæmis þá hefur það auðvitað lengi blasað við að þar eru menn afar langt frá því að ná endum saman eða standast samanburð við flest önnur kjördæmi. Menn hafa þurft að líta til Vestfjarða til þess að sjá vegakerfi sem almennt séð er í síst betra horfi, síst skárra horfi, kannski lakara horfi á heildina litið en þó eru viðfangsefnin með vissum hætti ólík. Vestfirðingar hafa þó fengið þá úrlausn sem Austfirðingar hafa ekki fengið á undanförnum árum að þar hefur verið ráðist í verðmætar jarðgangaframkvæmdir sem hafa gjörbreytt aðstæðum milli tiltekinna byggðarlaga, stefna sem mörkuð var af Alþb. á sínum tíma eða undir forustu þess og framfylgt af ríkisstjórn sem Alþb. var þátttakandi í 1988--91 og átti þar ráðherra samgöngumála sem beitti sér alveg sérstaklega fyrir því.

Við hljótum að rifja það upp nú, virðulegur forseti, einnig sá sem hér stendur --- og hefur verið komið að því af öðrum ræðumönnum í umræðunni --- að Austfirðingar hafa verið hraklega sviknir í sambandi við jarðgangaframkvæmdir. Það er einmitt á þessum tíma, á árinu 1998, sem það blasir við skýrar og nöturlegar en nokkurn tíma áður þegar komið er að þeim tíma þar sem gert var ráð fyrir í langtímaáætlun sem fyrir lá 1991, að ráðist yrði í upphafsframkvæmdir við jarðgöng á Austurlandi.

Um þessi efni höfum við oft rætt, ég og hæstv. samgrh., sem hefur má segja komið kannski þokkalega hreint til dyranna að þessu leyti, því að áhugi hans á því að standa við gefnar yfirlýsingar varðandi jarðgöng á Austurlandi hefur aldrei verið til staðar. Áhuginn hefur enginn verið og öll viðleitnin beinst að því að ýta þeim loforðum til hliðar. Því miður hefur hæstv. samgrh. fengið liðsinni núverandi stjórnarflokka og meiri hluta á Alþingi við þær brigður sem hér eru uppi hafðar að því er varðar jarðgangaframkvæmir og framhald þeirra. Það sem við höfum hér fyrir framan okkur, þær áætlanir sem hér liggja fyrir, vegáætlun til tólf ára, fela það í sér að ekki er gert ráð fyrir neinum framkvæmdum við jarðgöng. 120 millj. kr. til rannsókna eiga að dreifast á þrjá landshluta. Engin sérstök mörkun er þar á eitthvað tiltekið og það á að treysta því, sem reynt hefur verið af núv. hæstv. samgrh., að nota hina gömlu aðferð, sem mig minnir að Rómverjar hafi verið þekktir fyrir eða hafi verið oft um þá sagt, aðferðina að deila og drottna, divide et impera, eins og við lærðum í skóla. Það er sú aðferð sem hæstv. samgrh. hefur haft uppi að því er varðar stjórnarliðið, sem er ábyrgt fyrir hæstv. ráðherra, og greinilega með góðum árangri út frá markmiðum ráðherrans hæstv.

Hér er ekki aðeins farið aftan að einum landshluta, sem er Austurland, heldur er jafnframt verið að framfylgja óskynsamlegri stefnu, að leggja af jarðgangagerð sem lið í samgönguframkvæmdum í landinu. Þar verða menn í raun að gera það upp við sig hvort þeir ætla að horfa til þess sem lausnar, svipað og gerist í löndum sem við berum okkur saman við, eða eru menn í rauninni að kistuleggja þessi áform?

Svarið sem við fáum í fyrirliggjandi áætlunum er kistulagning. Það er kistulagning, algjör.

Ég undrast það í rauninni að hæstv. samgrh. skuli hafa komist upp með þessi áform sín án meiri sýnilegs mótþróa í stuðningsliði hæstv. ríkisstjórnar á Alþingi. Ég undrast það, og að tekist hafi að lægja öldurnar í stuðningsliði stjórnarflokkanna, t.d. á Austurlandi að þessu leyti. Því að ég verð að segja það, virðulegur forseti, að mér finnst hæstv. ráðherra hafa komist óþarflega vel eða létt frá því máli að undirbúa þessa útför jarðgangaframkvæmda á Austurlandi.

Hér hefur margt verið sagt um samgöngumál á Austurlandi. Ég gæti auðvitað lengi rætt þau efni. Hv. þm. Egill Jónsson, sem er í stjórnarandstöðu að því er þennan málaflokk varðar --- og það býsna harðri, hefur dregið sitthvað fram sem við hljótum að taka undir í þessum efnum og spurningin er hver tekur undir með hverjum í því máli. En fyrir liggur þó að minni hluti í samgn. þingsins lagðist á sveif með hv. þm. til að reyna að fá úrbætur á einu atriði sem sker mjög í auga í sambandi við samgöngumál eystra en það er vegurinn milli Breiðdalsvíkur og Héraðs um Breiðdalsheiði, hringleiðin eins og hún hefur verið skilgreind þar sem ekki er um nema óverulegar framkvæmdir að ræða á þessu tímabili sem fram undan er og ekki gert ráð fyrir að ljúka þeirri framkvæmd sem hefur verið einn af meginvegum milli byggða á Austurlandi.

Það hefur verið hafður uppi í sambandi við þessa áætlunargerð alveg ótrúlegur skollaleikur því vart er hægt að kalla það öðru nafni, virðulegur forseti, þá tilfærslu í orðum í sambandi við hvað eigi að teljast hringvegurinn á Austurlandi, sem hefur verið beitt með þeim hætti að ekki verður betur séð en verið sé að hafa í raun verulegt fjármagn af Austfirðingum út á slíkt orðalag sem lá fyrir í upphaflegri vegáætlun frá hæstv. ráðherra og fengum við þingmenn kjördæmisins útreikninga á því sem þar gat munað og það voru allverulegar upphæðir, og munar auðvitað um flest í stöðu samgöngumálanna í okkar kjördæmi.

Virðulegur forseti. Það blasir við að eftir þetta langa tímabil með bjartsýnum hugmyndum miðað við reynslu undanfarinna ára er stórverkefnum ólokið á Austurlandi miðað við það markmið að ljúka uppbyggingu vega milli byggðarlaga og klæða vegina bundnu slitlagi. Norðausturland er í þeim hópi og miðast ekki bara við eitt kjördæmi heldur tengist það einnig Norðurlandskjördæmi eystra, sem er vegurinn á milli Bakkafjarðar og Þórshafnar eða milli Vopnafjarðar og Þórshafnar og lengra norður, og svo alveg sérstaklega tenging Vopnafjarðar við vegakerfi landsins. Í því efni var illu heilli innleidd sú stefna sem hæstv. samgrh. getur alveg eignað sér með stuðningi þeirra sem hann hafa stutt í þinginu, þ.e. að ráðast í uppbyggingu vegar um Fjöllin, skilja Vopnafjörð eftir til hliðar við meginsamgöngukerfi landsins, kasta frá því ráði sem lagt var fram í tillöguformi á Alþingi að leggja jarðgöng til Vopnafjarðar og taka Vopnafjörð inn í meginsamgönguleið milli landshluta. Þessi tillaga sem ég flutti ásamt hv. þm. Steingrími Sigfússyni oftar en einu sinni var rædd á Alþingi. Auðvitað er þetta forhlaupið mál, svo maður sletti, þ.e. að hin stefnan hefur verið knúin fram, uppbygging vegar yfir Fjöllin, en sú stefna leiðir það ekki til lykta að því er Vopnafjörð snertir á þessum tólf ára tímabili því ekki er séð fyrir tengingu Vopnafjarðar út frá þessum fjallavegi um Fjöllin á áætlunartímabilinu.

[18:00]

Það var full ástæða til að minna á það hér eins og hv. þm. Ragnar Arnalds gerði með því að vitna í nýlegar fréttir af ástandinu á vegum á Fjöllum og á leiðinni til Vopnafjarðar sem leiddi til öngþveitis í flutningi, sem er lífæð í sambandi við atvinnulífið á þessum stað eins og víðar í sjávarplássum. Og menn eiga eftir að heyra margar slíkar fréttir á komandi árum ef að líkum lætur.

Við erum því, virðulegur forseti, með áætlanir fyrir framan okkur sem engan veginn ganga upp. Svo einfalt er það. Það er undirstrikað af stjórnarandstöðunni og þeim nál. sem hér liggja fyrir og ég tek undir, þar sem kemur réttilega fram hversu miklu er ábótavant í þeim málum sem við ræðum hér. Ég get vísað á hvert verkefnið á fætur öðru sem ekki fær rúm í þessum áætlunum næsta áratuginn. Það eru m.a. brúarframkvæmdir á Austurlandi, stórbrýr sem þarfnast endurbyggingar, eins og brúin yfir Lagarfljót, en talið er að með mikilli vöktun og viðhaldi megi kannski takast næstu tíu árin eða svo að nota, að brúka þá brú yfir Lagarfljót sem nú er farin. En það er ekki gert ráð fyrir neinni endurbyggingu eða endurgerð á þeirri brú. Sama gildir um þær óskir sem fyrir liggja og hugmyndir um að brúa að nýju Hornafjarðarfljót og breyta vegstæði þar og færa það nær þéttbýlinu á Höfn, stórverkefni sannarlega.

Við erum með aðstæður á Breiðamerkursandi sem minna á sig, og sá sem hér talar hefur ekki alls fyrir löngu lagt tillögur þar að lútandi fyrir þingið, þar sem við getur blasað fyrr en nokkurn varir í raun stórfellt verkefni til að tryggja samgöngur milli landshluta, fyrir utan framkvæmdir á Skeiðarársandi sem þakkarvert er að þar hefur verið tekið til hendi á jákvæðan hátt í sambandi við ákveðnar framkvæmdir, en eftir standa auðvitað brýr sem ekki eru traustar miðað við þær hamfarir sem þar er að vænta og lengsta brú landsins yfir Skeiðará er auðvitað í þeim hópi.

Virðulegur forseti. Ég hef farið nokkuð vítt yfir sviðið í þessu innleggi við síðari umr. um vegáætlanirnar. Ég hef ekkert rætt það sem liggur utan við og stenst varla mál í krónum talið miðað við þá þörf sem uppi er en það eru tengivegirnir. Það er vegarlagning til sveita og við staði sem ekki falla undir markmið áætlunarinnar að öðru leyti, en þar er fjármagnið á Austurlandi minna en 50 millj. kr. samtals á ári til þeirra vega, ef ég man rétt úr viðræðum í þingmannahópi okkar Austfirðinga vegna þessarar áætlunar. Og þar er af mörgu að taka. En ég ætla ekki að fara út í það í einstökum atriðum enda væri það að æra óstöðugan, virðulegur forseti.

Ég vil hins vegar nefna hér einn þátt sem lítið fer fyrir í þessari umræðu og er verkefni sem brýn þörf er á að sinna en það eru vegir við hæfi um ferðamannaslóðir. Þó svo að það heiti sé að finna hér, þá er það eins og dropi í hafið miðað við mikla þörf sem þar liggur fyrir. Síðan eru það vegir sem þjóna annarri umferð en hefðbundinna ökutæja, þ.e. fyrir hjólandi umferð og fyrir ríðandi umferð. Þarna þarf að taka til hendi, þarna þarf að marka stefnu því að þar er um að ræða ferðamáta sem ég vona að eigi eftir að sækja á og það er alveg ótvíræð þörf á því að búa þar sæmilega í haginn fyrir fólk. Þeir sem kjósa aðra og kannski hollari ferðamáta litið til ýmissa þátta, einnig til umhverfisþáttanna, fá ekki mikið í sinn hlut í þeim áætlunum sem hér liggja fyrir. Og væri nú gott, virðulegur forseti, að sá ljóðelski samgrh. sem nú situr rifjaði upp kveðskap Steins Steinarrs um akvegina og reiðvegina. Ef til vill mætti það verða hæstv. ráðherra til leiðbeiningar að einhverju leyti og get ég út af fyrir sig látið það verða mín lokaorð að hæstv. samgrh. megi eitthvað læra í þessum efnum, þó lengi hafi hann setið og fengist við þessi mál með afar misjöfnum árangri. Ég væni hæstv. ráðherra út af fyrir sig ekki um að hafa ekki góðan vilja að sinna verkefnum og embætti sínu en einhvern veginn hefur þetta ekki tekist til með þeim hætti sem býður upp á háar einkunnir. Það er ekki hægt að segja það. Ætla ég þó hæstv. samgrh. ekki alla sök í þeim efnum því að auðvitað koma fleiri að því máli í ríkisstjórn þegar kemur til glímunnar um fjármagnið, en þar hefur hæstv. ráðherra ekki verið þungur á reipinu á undanförnum árum.