Svör viðskiptaráðherra um málefni Landsbankans og Lindar hf.

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 10:56:59 (7179)

1998-06-02 10:56:59# 122. lþ. 139.93 fundur 429#B svör viðskiptaráðherra um málefni Landsbankans og Lindar hf.# (um fundarstjórn), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[10:56]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að gera athugasemd við fundarstjórn forseta vegna þess að ég var búin að margbiðja um orðið undir fyrri dagskrárlið en fékk ekki. Ég ætla hins vegar ekki að gera athugasemd við úrskurð forseta varðandi það mál sem er til umræðu þó að ég verði að segja að ég hafði nákvæmlega sama skilning og hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir á því að ég taldi ráðherra fá þessar upplýsingar en ég geri ekki athugasemdir við þennan úrskurð því að ég vissi auðvitað ekki betur.

Aðalmálið er þó það, herra forseti, að hér hefur átt sér stað trúnaðarbrestur á milli hæstv. bankamálaráðherra og þingsins og úr þeim trúnaðarbresti verður að vinna. Þingið getur ekki látið sem ekkert hafi gerst. Þessi trúnaðarbrestur átti sér stað þann 3. júní 1996, eins og hér hefur margoft komið fram, og ég geri ráð fyrir því að þingið taki á þessu síðar í þessari viku og það er algerlega óviðkomandi því máli hvort hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir fór hugsanlega með rangt mál í útvarpinu í morgun. Ég heyrði ekki þennan útvarpsþátt en ég verð að segja að þá var það einnig minn skilningur sem þar kom fram. En þessu máli er ekki lokið og það er með ólíkindum að ætla sér að saka þingmenn um að fara með rangt mál þegar þessi trúnaðarbrestur er á milli hæstv. ráðherra og þingsins.

(Forseti (GÁ): Forseti vill taka fram að hann reynir að skrá þingmenn í réttri röð. Því miður hefur það farið fram hjá forseta og einnig starfsmanni ef svo hefur verið. Það var ekki ætlunin.)