Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 12:48:51 (7206)

1998-06-02 12:48:51# 122. lþ. 139.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál. 28/122, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[12:48]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé mjög þýðingarmikið sem lesa mátti út úr orðum formanns utanrmn. áðan, að menn ættu ekki að nota orðalag fyrri tíma eða kalda stríðsins. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Mér finnst að það sé þrátt fyrir allt það sem liggur allt of mikið að baki þeirri hugsun sem hér er verið að útfæra í reynd. Ég tel það hugsunarhátt frá þeim tíma. Menn hafi ekki megnað að rífa sig upp úr hjólförunum og huga að öryggismálum álfunnar út frá nýjum forsendum og leita annarra lausna en þeirra sem veruleg hætta er á að leiði til aukinnar spennu og marki skil á milli austurs og vesturs um Evrópu þvera. Hvar þau nákvæmlega liggi skal ég ekki fullyrða um en margt bendir til þess að vesturveldin treysti sér ekki til þess að bjóða þjóðum eins og Eystrasaltsríkjunum undir kjarnorkuregnhlífina og ætla ég ekki að eyða frekari orðum í það.

Um eðlismun Varsjárbandalagsins og Atlantshafsbandalagsins mætti margt segja. Ég vil benda á, virðulegur forseti, að hernaðarvél Atlantshafsbandalagsins gekk býsna langt í því að taka sér vald, að vísu með stuðningi mjög hliðhollra stjórnmálamanna. Ég læt nægja að vísa til þess sem gerðist hjá nágrönnum okkar á Grænlandi í kjarnorkumálum á sínum tíma. Hið alvarlega er auðvitað kjarnorkuvígbúnaðarkerfið sem er lykillinn að hernaðarstefnu Atlantshafsbandalagsins nú sem fyrr og ekkert dregið í land með réttinn til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði.