1998-06-02 14:23:34# 122. lþ. 139.5 fundur 621. mál: #A samningur um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum# þál. 17/122, Frsm. GMS
[prenta uppsett í dálka] 139. fundur, 122. lþ.

[14:23]

Frsm. utanrmn. (Gunnlaugur M. Sigmundsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um fullgildingu samnings um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum. Þáltill. hljóðar þannig:

,,Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum sem undirritaður var í París 17. desember 1997.``

Þetta mál hefur komið til umfjöllunar í utanrmn. Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fékk á sinn fund hæstv. utanrrh. og einnig ráðuneytisstjóra utanrrn., Helga Ágústsson, og Hjálmar Hannesson skrifstofustjóra og Benedikt Bogason, skrifstofustjóra í dómsmrn., ásamt Tómasi H. Heiðar, sem er starfsmaður utanrrn.

Í nefndarstarfinu kom fram að með fullgildingu þessa samnings skuldbindur Ísland sig til þess að setja í löggjöf sína ákvæði sem gera það refsivert að bjóða erlendum opinberum starfsmönnum mútur í þeim tilgangi að ná eða halda viðskiptum eða öðrum ótilhlýðilegum ávinningi í alþjóðaviðskiptum. Meðal annars þarf að útvíkka refsilögsögu ríkisins þannig að hún nái yfir þau brot sem samningurinn fjallar um því að skv. 2. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984, verða íslenskir ríkisborgarar ekki framseldir til annarra ríkja og breytir fullgilding þessa samnings, sem hér er verið að fjalla um og vísa til, að sjálfsögðu engu þar um.

Utanrmn. taldi mikilvægt að gera nauðsynlegar lagabreytingar í kjölfar þess að Ísland gerðist aðili að þessum samningi og væntir nefndin þess að þær lagabreytingar verði gerðar hið allra fyrsta.

Málið hefur verið rætt í utanrmn. og leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt.