Málefni LÍN

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 16:23:50 (7257)

1998-06-02 16:23:50# 122. lþ. 140.93 fundur 433#B málefni LÍN# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[16:23]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með síðasta hv. ræðumanni að nú hefur ríkt meiri sátt um Lánasjóð ísl. námsmanna en verið hafði um nokkurra ára skeið og er það vel. En nú koma mál lánasjóðsins enn til umræðu á hv. Alþingi og að þessu sinni er umræðan um framfærslugrunninn.

Það er skilningur minn og sá skilningur held ég að hafi verið nokkuð lengi við lýði að alltaf hafi verið rætt um það að námsfólk fylgdi öðrum hópum hvað varðar framfærsluna. Hafi orðið breyting þar á er auðvitað ástæða til þess að skoða það mál. Ég hygg að ekki hafi verið tekin um það ákvörðun hér á hv. Alþingi að breyta þeirri stefnu né innan hæstv. ríkisstjórnar í samstarfi tveggja stjórnarflokka.

Séu útreikningar námsmanna réttir og engin ástæða er til þess að draga þá í efa er auðvitað full ástæða til þess að setjast yfir málið aftur og leiðrétta með rökum. Treysti ég því að hæstv. menntmrh. muni hlusta á þau rök og þarf ekki að fara mörgum orðum um það hvert hlutverk lánasjóðsins er í fjárfestingu í menntun og framförum.

Ég vil, herra forseti, einnig nota þetta tækifæri og lýsa vonbrigðum mínum með örlög frv. sem hér var flutt á yfirstandandi þingi um styrktarsjóð námsmanna, sem að stóðu þingmenn úr öllum þingflokkum ef ég man rétt, þar sem verið var að gera tillögu um að feta nýjar leiðir með styrktarsjóði námsmanna til hliðar við lánasjóðinn, þ.e. að fá aukið fé til þess að styrkja efnilegt námsfólk með fjármunum frá hinu opinbera en ekki síst úr atvinnulífinu. Ég lýsi vonbrigðum mínum með örlög þess frv. sem ekki var afgreitt úr hv. menntmn. og lýsi því að það muni líta dagsins ljós á næsta þingi en ég ítreka afstöðu mína um það að ég tel eðlilegt að námsmenn fylgi öðrum hópum.