Heilbrigðismál

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 17:34:01 (7275)

1998-06-02 17:34:01# 122. lþ. 140.94 fundur 435#B heilbrigðismál# (umræður utan dagskrár), KF
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[17:34]

Katrín Fjeldsted:

Hæstv. forseti. Verkaskiptingin sem ég ræddi um fyrr á þessum fundi er mér mikið kappsmál og eins og ég sagði þá legg ég til við hæstv. ráðherra að sett verði nefnd í að skoða þetta mál í sumar og henni verði falið að skila af sér áður en þing hefst í haust þannig að sjá megi hvernig hægt sé að taka á þessum vanda sem ég held að skipti mjög miklu að gera.

Þó að ég hafi verið að tala um prósentur þær sem fara í heilsugæsluna, þá var ég ekki að gera lítið úr því. Það hefur aukist og ég sagði það. Ég er hins vegar með þessum orðum aðeins að vekja athygli á því að ég held að heilsugæslan geti sinnt miklu meiru, hún geti tekið að sér miklu fleiri verkefni ef hún er virkilega efld og ég tel eðlilegt að sú ákvörðun sé tekin að hún verði miklu veigameiri þáttur í fjárlögum ríkisins en núna er. Það er í rauninni það sem ég er að meina.

Ég veit að heilbrrh. skilur þetta og hefur áhuga á að vinna að því og hefur gert það. Hæstv. ráðherra hefur sýnt það með því hvernig tekið hefur verið á í stefnumörkun í heilsugæslunni, sem við heimilislæknar reyndar unnum í með ráðuneytinu, og hvernig farið hefur verið með fjármagn til uppbyggingar, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu sem er alveg í samræmi við þá stefnu sem þá var sett fram og gott betur. Ég gef mikið fyrir þennan vilja ráðherrans.

Ég held að vilji heilbrrn. skipti sköpum t.d. varðandi læknana sem eru í útlöndum, hafa lokið námi og hafa ekki séð sér fært að koma heim til Íslands. Nú er nefnilega komið að krossgötum og læknirinn sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi áðan og er forstöðulæknir sagði að kerfið mundi hægt og hljótt og þreytulega lognast út af og það væri stórt svart vandamál sem blasti við. Ég held nefnilega að við séum komin að krossgötum. Heilsugæslan og við erum loksins að koma úr þessari lægð, andlega séð og félagslega líka. Víðast hvar á landinu er í starfsfólkið að verða bjartsýnna. Það eru hins vegar nokkrir staðir á landinu --- þess vegna veit ég nákvæmlega hvaðan þessi læknir er, þar á meðal hans vinnustaður þar sem enn eru vandamál, en ég sé fram á að til betri tíðar horfi fyrir heilsugæsluna og ég trúi því að heilbrrh. muni halda áfram að vinna að því í góðu samstarfi við starfsfólk heilsugæslunnar.