Umræða um heilbrigðismál

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 17:47:11 (7278)

1998-06-02 17:47:11# 122. lþ. 140.96 fundur 437#B umræða um heilbrigðismál# (um fundarstjórn), LMR
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[17:47]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Það var þá kominn tími til að fjallið tæki jóðsótt og mús fæddist eða litlar 60 mýs. Alþingi Íslendinga ræðir í dag um heildarstefnu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum. Það er glæsilega veitt eða að verki staðið. Heilar 60 mínútur sem Alþingi ver í vetur til heildarumræðna í þessum mikla og viðkvæma málaflokki.

Ég hef í tvígang ef ekki í þrígang í vetur farið fram á að hér færi fram heildarumræða um heilbrigðismál, stefnu og framkvæmd. Ég tel það hins vegar afskaplega tilgangslítið að taka örstutta stund, eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði áðan, til að vaða út og suður um þennan viðkvæma og flókna málaflokk. Slík umræða getur ekki endurspeglað stefnu né stefnuleysi, framkvæmdir né framkvæmdaleysi með heildarmynd fyrir augum. Það er útilokað. Ég vil því skora á stjórn þingsins að sjá til þess að heilbrigðismál verði rædd markvisst og gefinn nauðsynlegur tími til þess og það strax í haustbyrjun.