Almannatryggingar

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 23:32:47 (7334)

1998-06-02 23:32:47# 122. lþ. 141.23 fundur 348. mál: #A almannatryggingar# (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.) frv. 59/1998, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur, 122. lþ.

[23:32]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er erfitt að reikna þetta út vegna þess að við höfum ekki tölur um á hversu mörgum er brotið. Það er fjöldi fólks sem býr hvort í sínu lagi vegna þess að þessi regla viðgengst, og getur ekki verið í sambúð, fjölskyldur eru tvístraðar. Þessi regla hefur varanleg áhrif á samskipti fólks í fjölskyldum. Það er ekki hægt að reikna það nákvæmlega út hvað það kostar að leiðrétta þetta, hvorki fyrir hæstv. ráðherra né mig, það er alveg ljóst. Það kostar að hafa mannréttindi í heiðri. Það kostar peninga, vissulega, en við eigum ekki að láta þetta viðgangast. Ég ítreka að það eru réttarbætur í frv. en það eru ekki síður réttarbætur í brtt. og það á ekkert síður að taka hana til afgreiðslu hér og vera ekki að tefja hana. Við eigum auðvitað að afgreiða allar þessar réttarbætur sem liggja á borðum okkar, ekkert síður brtt. en aðrar réttarbætur. Ég minnist þess þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir þessu frv. að þetta væru aðallega réttarbætur fyrir Íslendinga búsetta erlendis. Auðvitað þurfum við að auka réttarbæturnar fyrir þá og lögfesta þær, en ekkert síður fyrir Íslendinga sem búa hérlendis og búa við þessa skerðingarreglu. Við þurfum að breyta þeim lögum líka. Þetta eru allt réttarbætur sem þarf að leiðrétta og koma í lög, ekkert síður brtt. en þær breytingar sem eru í frv. hæstv. ráðherra.