Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 12:29:50 (7368)

1998-06-03 12:29:50# 122. lþ. 142.5 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv. 95/1998, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[12:29]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að leggja fyrir hv. þm. eina spurningu og hún er eiginlega íslenskulegs eðlis en ekki hagfræðilegs. Hvað felst í orðunum ,,eitt lægsta hlutfall af hagnaði``? Hér stendur í greinargerð hv. þm.:

,,Tekjuskattur fyrirtækja hefur á fáeinum undangengnum árum verið lækkaður verulega og er nú þegar eitt lægsta hlutfall af hagnaði sem þekkist innan OECD.``

Nú er það svo að 5 lönd af 29 eru með tekjuskattshlutfall 28% eða lægra og getur maður sagt að Ísland hafi þegar eitt lægsta hlutfall þar sem það er 33%? Svo eru fjögur lönd til viðbótar sem eru með 30--33% tekjuskatt, þ.e. það eru 9 lönd í OECD af 29, þ.e. þriðjungur, sem eru með lægri eða sama tekjuskatt á fyrirtæki og Ísland og þá er það íslenskuspurningin til hv. þm.: Er rétt að segja að Ísland hafi nú þegar eitt lægsta hlutfall af hagnaði sem þekkist innan OECD? Eða er það kannski misskilningur hjá mér að 28% séu lægri en 33%? Það er kannski misskilningur. Kannski eru 33% lægri en 28%.

Varðandi það að afla tekna til ríkissjóðs, til velferðarkerfisins, er það bjargföst skoðun mín að lækkun tekjuskatts á hagnað fyrirtækja muni gefa ríkissjóði meiri tekjur í krónum talið. Það muni gagnast velferðarkerfinu betur en sú háa prósenta sem er í gildi í dag og að er stefnt, 30%. Ég er að sjálfsögðu fylgjandi því að fyrirtæki og einstaklingar hafi meira um eigin peninga að segja en ríkissjóður. Þá tala ég af reynslu. Ég tel að einstaklingar og fyrirtæki fari miklu betur með peninga sína en við hv. þingmenn.