Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 12:39:52 (7373)

1998-06-03 12:39:52# 122. lþ. 142.5 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv. 95/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[12:39]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er engin deila um að það er mikilvægt að íslensk fyrirtæki gangi vel og íslenskt atvinnulíf gangi vel og sé sterkt. Deilan er ekki um það. Það er algerlega út í loftið að vera með röksemdafærslu á þeim nótum að um það sé einhver deila. Deilan snýst um það hins vegar hvort ekki sé eðlilegt og sanngjarnt að þegar atvinnulífið gengur vel og þau fyrirtæki sem hafa góðan hagnað og skila honum þrátt fyrir fjárfestingarafskriftir og annað leggi af mörkum í sameiginlega sjóði. Það sem hv. þm. eru að reyna að segja mönnum er að til viðbótar við allt sem gert hefur verið á undanförnum árum og komið hefur fram í umræðunni sé ástæða til að lækka sérstaklega tekjuskattsprósentu fyrirtækjanna. Þessu er ég ósammála.

Ég verð að segja eins og er að ég hef ekki verið í hópi skattheimtumanna, t.d. hef ég verið andstæðingur þess að fara að skattleggja íslenskan sjávarútveg sérstaklega umfram aðrar atvinnugreinar í landinu. En ég hef allan tímann sagt í þeirri umræðu að fyrirtækin eigi hins vegar að borga skatta sína. Þau eiga að sjálfsögðu að borga myndarlega í sameiginlega sjóði af hagnaði sínum og það á jafnt að eiga við sjávarútvegsfyrirtæki sem önnur fyrirtæki. Það er til þess sem ég er m.a. að vísa, herra forseti, og það er óumdeilt að farið var í aðgerðir til þess að gera starfskilyrði fyrirtækjanna hagstæðari á sama tíma og launamenn þurftu að herða sultarólina, á sama tíma og launamenn í landinu tóku á sig kjaraskerðingu og var alltaf sagt að þeim yrði bætt það þegar kostur yrði og þá væntanlega einnig með því að fyrirtækin legðu sitt af mörkum til að standa undir samneyslunni í landinu.