Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 19:03:04 (7505)

1998-06-04 19:03:04# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[19:03]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef eitt ráð mundi duga, þá væri það notað. Ég veit að hv. þm. veit það eins vel og ég að það er ekkert eitt ráð sem dugar, það eru mörg ráð. Allir þeir sem koma að uppeldi barna þurfa að koma að þessu borði. Það eru heimilin, það er skólinn, það er íþróttahreyfingin. Þá kem ég að því sem hv. þm. kom hér inn á í ræðu sinni áðan, að það vantaði fyrirmyndir.

Hv. þm. hefur ekki fylgst með samstarfi okkar við íþróttahreyfinguna. Þar höfum við unnið með svokallað landslið í vímuefnavörnum. Þar eru fyrirmyndirnar heilbrigt íþróttafólk sem ekki neytir áfengis eða annarra vímuefna. Við höfum meira að segja gengið svo langt að fegurðarsamkeppnirnar á Íslandi eru tóbakslausar. Við fylgjumst með flokkum íþróttamanna og veitum þeim viðurkenningar sem ekki neyta fíkniefna.

Ég verð að segja það að ef ég hef einhvern tíma heyrt málefnafátækt, þá var það hjá hv. formanni heilbr.- og trn. hér áðan. Því hann er á sama tíma að segja að það sé ekki rétt að samhæfa þessi störf sem svo nauðsynlegt er að samhæfa. Það er ekkert eitt ráð sem gildir. Ég held að hv. þm. hljóti að vera sammála mér um það.