Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 19:06:37 (7507)

1998-06-04 19:06:37# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[19:06]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hefði nú kannski verið eðlilegra að ég hefði komið í andsvar við talsmann meiri hluta nefndarinnar. Það er ekki sérstakur ágreiningur af minni hálfu við hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem flutti hér mikla ræðu áðan um þetta efni. Það er þó einn þáttur sem ég vildi orða við þingmanninn hv. og þingið, sem snertir málið og varðar tillögu sem liggur fyrir þinginu og er í allshn. um úttekt á áhrifum Schengen-aðildar Íslands á innflutning fíkniefna.

Ég held að það sé alveg rétt sem fram hefur komið í þessari umræðu, bæði frá hæstv. ráðherra og frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, að það þarf að leita allra ráða til þess að bægja þessum vágesti frá. Það er gífurlega stórt mál. Á sama tíma og þessi voði blasir við mönnum þá er ónógt fjármagn veitt til tollgæslunnar á Íslandi svo hægt sé að glíma við þetta. Menn ættu bara að tala við þá sem þar eru að störfum um það efni. Á sama tíma er verið að undirbúa, og væri komið á ef áætlanir stjórnvalda hefðu gengið eftir, að afnema vegabréfaeftirlit með öllu, gera það óheimilt gagnvart farþegum sem koma til Íslands frá allri Vestur-Evrópu, í krafti svonefndrar Schengen-aðildar.

Þetta veikir, þó að við höldum formlegum rétti til tollgæslu eftir sem áður, augljóslega möguleika íslenskrar tollgæslu til eftirlits á farangri farþega, handfarangri sem öðru. Þar með veikir þetta eftirlit með ólöglegum innflutningi fíkniefna. Þetta er alveg hörmulegt og mér þætti gott að heyra álit hv. þm. á því sem þarna er á ferðinni.