Áfengis- og vímuvarnaráð

Fimmtudaginn 04. júní 1998, kl. 21:22:00 (7516)

1998-06-04 21:22:00# 122. lþ. 145.20 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv. 76/1998, RG
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur, 122. lþ.

[21:22]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það hefur verið ákaflega athyglisvert að hlusta á þessa umræðu. Ég verð að segja að fulltrúar minni hlutans, eða stjórnarandstöðunnar í heilbr.- og trn., hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hafa bæði tvö fært fyrir því mjög sterk rök að þetta frv., sem er í eðli sínu afskaplega mikilvægt, sé of veikt, því sé ábótavant.

Herra forseti. Mér finnst það afskaplega dapurt að hlusta á að stjórnarmeirihlutinn í heilbr.- og trn. hafi ekki viljað þiggja samvinnu stjórnarandstöðu um betrumbætur á þessu frv. og að frv. af þessum toga skuli koma afgreitt úr heilbr.- og trn. þannig að minni hlutinn í nefndinni finni sig knúinn til að leggja það til að málinu sé vísað til ríkisstjórnarinnar.

Mér finnst að þetta hljóti að vera ráðherranum mikið umhugsunarefni. Ég efast ekkert um vilja ráðherrans til þess að láta gott af sér leiða í þessu máli og ég efast heldur ekki um góðan vilja ráðherrans til þess að beita sér í forvarnastarfi. En ef forvarnastarf á að bera árangur þá þarf það bæði að vera afskaplega markvisst og það þarf að setja talsvert mikið fjármagn í forvarnastarf. Það þarf ekki aðeins að setja fjármagn í forvarnastarf heldur þarf einnig að gera sér grein fyrir skiptingu þess.

Áður en ég kem að þessu máli sem slíku, herra forseti, þá langar mig að koma inn á umræðuna hér á Alþingi, um vímuefnavarnir og fíkniefnavandann. Það ætti að vera okkur öllum umhugsunarefni núna, þegar verið er að ræða þetta frv. til laga um Áfengis- og vímuvarnaráð, hve lítið við höfum rætt fíkniefnavandann á Alþingi, hversu sjaldan við höfum rætt um vímuefnavarnir eða fíkniefnavandann á síðustu missirum. Áður fyrr vorum við með margar tillögur um aðgerðir á hverjum einasta vetri um aðgerðir. Nú síðustu missirin hefur varla verið um þetta rætt.

Ég kann á því skýringu. Ég tel að hér á Alþingi sé búið að vana umræðuna um þetta mál. Það er búið að drepa hana niður, ekki af illum hug eða vondum vilja, aldeilis ekki, ég ætla engum það. Ríkisstjórnin hefur tekið svo stórt upp í sig. Hér var fluttur boðskapur ríkisstjórnar sem hafði fundið ljósið, boðaði vímuefnalaust Ísland árið 2002. Boðað var að ríkisstjórnin hefði gripið til aðgerða, væri búin að setja hinar ýmsu áætlanir af stað og málið væri leyst. Nóg væri að vinna að því eins og ríkisstjórnin hafði sett sér fram til 2002 og þar með væri vandinn leystur.

Ég tel að þetta sé hættuleg umræða og hafi verið slæmt fyrir þá vöku sem við alþingismenn eigum að hafa í þessu stóra máli. Ég held að þetta hafi verið slæmt fyrir okkar þátt í umræðu um vandann og aðkomu að lausn á honum. Þetta er m.a. ástæðan fyrir því að tiltölulega lítið hefur farið fyrir tillögum stjórnarandstöðunnar á þessum vetri. Það er eins og hennar sé ekki þörf og sé ekki ætlað að koma að þessu máli. Þegar það er nú ljóst að þrátt fyrir góðan vilja stjórnarandstöðu í heilbr.- og trn. þá var enginn áhugi á því af hálfu stjórnarmeirihlutans að hlusta á sjónarmið eða taka tillögur stjórnarandstöðu til umhugsunar eða skoða hvernig mætti nýta sér þekkingu þeirra sem um margra ára skeið hafa tekið þátt í þessari umræðu og flutt tillögur um lausnir.

Mér finnst, herra forseti, frekar slæmt að hafa misst heilbrrh. úr salnum. Hún hefur hér kallað eftir tillögum stjórnarandstöðu. Hún hefur gefið það til kynna í andsvörum sínum --- hún hefur ekki haldið ræðu sjálf hér um málið með ítarlegri umfjöllun um hvað hún telji að vinnist með lögfestingu þessa frv. --- en hún hefur orðað það svo að þeir sem hér hafa talað tæti niður frumvarpið hennar og komi ekki með tillögur. Hún spyr: Hverjar eru tillögur stjórnarandstöðu? Ég mundi gjarnan vilja koma að því og rifja það upp fyrir ráðherrann hverjar tillögur stjórnarandstöðunnar eru og hafa verið.

Það sem mér finnst mikilvægast í umræðunni um stjórn og stjórnarandstöðu er ósk þeirrar sem hér stendur um að stjórn og stjórnarandstaða sameinist í vinnu að þessu mikla og alvarlega fjölskylduböli sem fíkniefnavandinn er.

Af því að það hefur verið gefið til kynna að stjórnarandstaðan vilji bara tæta niður það sem stjórnarmeirihlutinn er að byggja upp þá vil ég minna á að í desember, fyrir einu og hálfu ári, höfðum við utandagskrárumræðu, langa utandagskrárumræðu um fíkniefnamál. Þar var hvatt til þess af hálfu okkar í stjórnarandstöðu að þessi mál yrðu rædd þannig að það yrði ekki á þann veg að stjórnarandstaðan væri að ráðast á stjórnarliðana.

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. heilbrrh. hefur gengið í salinn og tala til ráðherrans núna. Ég ætla að tala til hæstv. ráðherra vegna orða hennar um það að stjórnarandstaðan tæti niður frv. sem ráðherrann flytur en komi ekki með tillögur. Ég rifja það upp að í desember fyrir einu og hálfu þá stóð sú er hér stendur fyrir utandagskrárumræðu hér á Alþingi um fíkniefnamál. Þar hvatti ég til þess að þetta yrði ekki hefðbundin utandagskrárumræða, þar sem stjórnarandstaðan ræðst á stjórnameirihlutann, krefst svara um hvað eigi að gera, heldur mundum við haga okkur eins og hópur, vinna saman og leita saman leiða til að taka á miklum vanda. Ég tel að þetta mál, fíkniefnavandinn, sé of stórt til þess að við leyfum okkur að vinna að lausn þess í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Þessi utandagskrárumræða var á þann veg ólík annarri umræðu að í henni tóku þátt tveir eða jafnvel þrír ráðherrar. Við skiptum með okkur tímanum og ákváðum að ræða vandann eins og einn hópur, ekki eins og andstæðir hópar, heldur eins og einn hópur og kalla eftir samvinnu.

[21:30]

Hverjir voru það sem kölluðu eftir samvinnu? Ekki var stjórnarmeirihlutinn að kalla eftir samvinnu við stjórnarandstöðuna. Nei, það var stjórnarandstaðan sem kallaði eftir samvinnu við stjórnarmeirihlutann.

Þegar stjórnarmeirihlutinn vildi kynna tillögur sínar og áform um vímuefnavarnir reyndi ég þessa samvinnu aftur. Ég lagði það til að nefndir þingsins, félmn., heilbr.- og trn. og jafnvel allshn. mundu eiga saman stóran, opinn fund. Á þann fund mundu þeir aðilar mæta sem ríkisstjórnin var að kalla til verka um þær mundir, hvort heldur væri forustufólk sem átti að stýra vímuefnanefndinni stóru sem átti að skipuleggja framtíðina í þessum vímuefnavörnum eða deildarstjórar í mikilvægum ráðuneytum eða forustumenn og formenn stofnana eða formenn félaga úti í bæ. Nú skyldum við bara hittast á stórum, rúmum stað og þarna fengju nefndir þingsins tækifæri til að taka þátt í umfjöllun, spyrja hvernig ætti að fara í málin, bjóða fram hjálp sína og fara í þetta saman.

Þetta var borið upp í félmn., þetta var borið upp í heilbr.- og trn. Sú sem hér stendur ritaði til að mynda bréf til beggja nefndanna. Hverjir voru það sem sýndu þessu ekki áhuga? Ekki stjórnarandstaðan. Nei, herra forseti, það voru stjórnarliðar. Mér finnst frekar dapurt að ráðherra heilbrigðismála skuli ekki gefa orðum mínum gaum vegna þess að enn þá er möguleiki á því að taka upp slíka samvinnu. Ég veit ekki hvort ráðherrann tók eftir því en það var skrifað bréf til félmn. Það var skrifað bréf til heilbr.- og trn. Það var hvatt til þess að slíkur stór fundur yrði haldinn og formaður félmn. var búinn að setjast niður og skrifa langan lista yfir þá sem yrðu kallaðir til á slíkan samráðsfund þar sem stjórn og stjórnarandstaða mundu sýna að þau ætluðu að fylgjast með framvindu mála saman. Við í stjórnarandstöðu yrðum svo vel upplýst að við teldum að við þekktum jafn vel og stjórnarliðarnir áformin sem voru fyrirhuguð í að taka nú einu sinni vel á.

Herra forseti. Það var slegið á þessa útréttu hönd. Ekki af neinni hörku, bara í fullkomnu áhugaleysi. Vissulega væri enn þá möguleiki á því að þessar nefndir mundu sameinast um stóran fund og kalla til þennan hóp og byrja að fylgjast með núna. Þess vegna segi ég þetta, það er ekki hægt að koma hér og segja: Hvað eruð þið að tæta niður? Þið komið ekki með nokkrar tillögur og finnst ekkert nógu gott sem ég er að gera.

Það er nefnilega þannig að af hálfu stjórnarandstöðu hér á Alþingi hafa verið fluttar gífurlega margar og mikilvægar tillögur á liðnum árum þar til ríkisstjórnin fann hina einu sönnu lausn og tilkynnti þjóðinni að hér yrði fíkniefnalaust Ísland árið 2002. Nú þurfti bara enginn að koma frekar með tillögur.

Vissulega höfum við komið með fyrirspurnir og kallað eftir ýmsu síðan og notað tækifærið og rætt um fíkniefnamál oftar en einu sinni. En ég held því fram að með þessum vinnubrögðum hafi umræðan á Alþingi verið meira eða minna drepin niður og það er ekki gott.

Ég ætla líka að nefna það áður en ég kem að frv. og almennri umfjöllun um þetta mál að það er ein tillaga sem ég hef flutt mörgum sinnum á hv. Alþingi. Hún er um að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um ólögleg fíkniefni vegna þess að fullgilding þess samnings kallaði á miklar lagabreytingar á Íslandi. Þegar búið væri að gera þær lagabreytingar þá værum við komin með tæki í hendurnar í lögreglumálum, í tollamálum, í eftirlitsmálum og í sektarmálum, m.a. með lög þar sem var heimild til þess að dæma eða sekta út af ólöglegum ávinningi, ef það er hægt að nota þau orð sem hefur ekki verið til í lögum hér.

Í hvert einasta sinn var því svarað að það væri góður vilji, það væri verið að skoða þetta mál, það væri verið að skoða lögin í ráðuneytinu, það væri verið að undirbúa að hægt væri að fullgilda samninginn. Ég gæti sýnt heilan stafla bæði af tillögum, umræðum við ráðherrann, svörum við fyrirspurnum, alltaf jákvæð svör. En aldrei kom fullgildingin.

Hvenær kom svo loksins frv. hingað inn í þingið um að fullgilda samninginn? Það var þegar við ákváðum að gerast aðilar að Schengen. Af því að þá komu kröfur erlendis frá samkvæmt samningi sem við vorum að undirgangast sem sagði: Þá verðið þið að hafa fullgilt samninginn. Þá gekk það á örskotsstund. Ég held að það hafi verið um þetta leyti í fyrra sem við vorum að fullgilda þennan samning og ég er ... [Jarðskjálftakippur.] (Gripið fram í: Ekki getur þetta verið Suðurlandsskjálftinn?).

Herra forseti. Þó að ég tæki stórt upp í mig og væri jafnvel að tala um Schengen og alþjóðasamninga þá ætla ég nú ekki að fá húsið til að skjálfa og ég ætla heldur ekki að víkja úr ræðustóli að svo stöddu, þó að mér finnist að þetta hafi verið allharður kippur.

Herra forseti. Ég nefndi fullgildingu á samningi Sameinuðu þjóðanna og hvaða lagasetningu og breytingar á lögum hann kallaði á. Ég vil nota þetta tækifæri til að fagna því að samningurinn var fullgiltur hér þó að ég geti að sjálfsögðu ekki orða bundist með að mér finnist það harkalegt að það þurfi að vera þannig að það sé Schengen-samningur sem gerir það að lokum að verkum að við framkvæmum svo mikilvæga fíkniefnavörn og felst í fullgildingu samningsins. Reyndar höfum við kynnst því annars staðar frá líka að við þurfum hreinlega að fá tilskipanir Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn til þess að ýmislegt á velferðarsviði sé fest í lög hjá okkur. En það er önnur saga og önnur umræða.

Ég hef þegar nefnt það að við höfum flutt margar tillögur og ég hef líka nefnt að það væri mikil ástæða til og þá fyrst færu að verða góð vinnubrögð hér ef stjórnarandstaðan yrði dregin inn í aðgerðir og unnið væri saman að málum af hálfu stjórnar og stjórnarandstöðu og kallað eftir stuðningi við það að sest sé saman yfir það af hálfu viðkomandi nefnda þingsins og allra fulltrúanna sem ráðherrarnir hafa sett til starfa og eru núna að fást við fíkniefnavandann, vonandi með góðum árangri þó að við séum gagnrýnin á tækin sem ráðherrann ætlar m.a. að nota samkvæmt þessu frv.

Þá ætla ég, herra forseti, að víkja örstutt að frv. sem slíku. Ég mun ekki fara ítarlega í frv. vegna þess að talsmaður jafnaðarmanna, hv. 9. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, gerði það mjög vel fyrir kvöldverðarhlé. Hann fór mjög ítarlega í gegnum frv. Hins vegar verð ég að segja, herra forseti, að mér finnst afskaplega dapurt að það skuli vera niðurstaða stjórnarandstöðunnar í heilbr.- og trn. að vilja vísa frv. til ríkisstjórnarinnar af því að ekkert samráð náðist um úrbætur á því og af því að ég tel að lög um áfengis- og vímuvarnaráð eigi að vera svo beitt og gott tæki að þeir sem hér eru trúi því að það sé gott tæki í baráttunni. Þess vegna finnst mér afar dapurt hvað þetta frv. er máttlaust. Það breytir því hins vegar ekki að þó að frv. sé máttlaust, það er einar sex greinar, gæti það alveg virkað. Það er alveg hægt að bera þá von í brjósti að slíkt ráð verði svo öflugt að það framkvæmi í raun og veru langt umfram það sem hrakspár eru um og gæti þar af leiðandi náð árangri. Það er það sem ég ætla að vona að gerist.

Ég ætla þá að víkja aðeins að umfjöllun um frv. og á hverju er tekið í greinargerðinni með því. Og herra forseti, þó að það sé ekki þingskjal sem er beinlínis til umræðu hér þá hef ég líka lesið skýrslu dómsmrh. til Alþingis um aðgerðir á árinu 1997 og þar er stuttlega greint frá áformunum vegna 1998. En þegar ég les hvað búið er að gera frá árinu 1997 og þegar ég les hvað valið er að taka fyrir í greinargerð með þessu frv. finnst mér að við séum alltaf stödd á sama staðnum.

Upphaf greinargerðarinnar eru hinar ýmsu rannsóknir. Þegar ég lít til baka erum við búin að vera að taka utandagskrárumræður og hinar ýmsu umræður út af skýrslum um rannsóknir, skýrslum landlæknis, skoðanakönnun og rannsókna í grunnskólum, sem Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála hefur gert og þær rannsóknir sem vísað er til hér. Alltaf höfum við verið að taka ýmist utandagskrárumræðu eða umræðu um skýrslu til að tala um hvað niðurstöður þessara rannsókna og kannanirnar segja okkur skelfilega hluti. En það gengur alveg ótrúlega hægt að setja hlutina í þann gang að maður hafi á tilfinningunni að eitthvað fari að gerast. Það er það sem mér finnst of ríkjandi í þessu frv. og mér finnst sérstaklega greinargerðin draga upp þá sömu mynd.

Össur Skarphéðinsson, 9. þm. Reykv., talaði t.d. um eftirmeðferðina. Í hvert einasta skipti sem við höfum rætt fíkniefnamál og aðgerðir á Alþingi er alltaf staldrað við það: Við erum duglegust í eftirmeðferðinni. Þangað fara peningarnir og eftirmeðferðin kallar á gífurlegt fjármagn. Þess vegna styð ég þá hugsun heilbrrh. að setja peninga í forvarnir og ég tel að þau áform séu hárrétt. En mér fannst að heilbrrh. áttaði sig ekki nægilega vel á gagnrýninni sem er á frv., að frv. eins og það er og áfengisvarnaráðið verði ekki það tæki að öflugar forvarnir geti komið til.

Skýrslan frá 1997 er eiginlega öll --- og ég ætla að koma aðeins að því á eftir --- um inngang að aðgerðum, um inngang eða upphaf að aðgerðum. Mér finnst t.d. að það hefði átt að birta með þessu frv. framkvæmdaáætlunina sem áformuð er fyrir 1998 þó að ekki hafi verið nema kafli úr þessu þannig að fólk gæti reynt að gera sér grein fyrir því hvert eigi að beina kröftunum og fengi á tilfinninguna að þetta væru aðgerðir sem von væri til að bæru einhvern árangur. Ráðherrann sjálf gerði talsvert mál úr því að það væri nýtt að heilsugæslustöðvarnar kæmu að forvörnunum og sérstaklega kannski áherslu á forvörnum fyrir áhættuhópa, stendur á bls. 9 í frv., að það eigi að auka þátt heilsugæslu í forvörnum og meðferð með sérstakri áherslu á forvarnir áhættuhópa.

[21:45]

Jafnaðarmenn fluttu þá tillögu fyrir ári að sett væri sérstök fjárveiting til fíkniefnavarna og sú fjárveiting færi til heilsugæslustöðvanna af því að það sé mat allra þeirra sem hafi verið að reyna að fást við þessi mál á erlendum vettvangi að vænlegast sé að takast á við þessi mál heima í héraði, að ríkisvaldið eigi að vera mótandi en fjárveitingarnar ættu að fara á heimaslóð af því þar væri hægt að sinna verkefnunum. Þá erum við að tala um forvarnirnar. Auðvitað er það á vettvangi ríkisins þegar er komið að meðferð, sálfræðiþjónustu og öllum þeim úrræðum sem þarf að sýna skemmdum einstaklingum.

Sú tillaga var felld og þrátt fyrir að ég hafi verið að lesa í gegnum skýrslu dómsmrh. og ég hafi lesið í gegnum greinargerðina með þessu frv. get ég ekki beinlínis séð að það eigi að veita sérstaklega eyrnamerkt fjármagn á heilsugæslustöðvarnar í landinu til forvarna. Mér finnst að það sé of ódýrt í dag að segja að sveitarfélögin eða heilsugæslustöðvarnar eigi að gera þetta á sama tíma og við höfum verið bara tveimur, þremur dögum áður með utandagskrárumræðu um stöðuna í heilbrigðismálum og þar hafi komið fram að það er þungur fjárhagslegur róður hjá heilsugæslustöðvunum. Ég óska eftir því að heilbrrh. upplýsi hvernig hún veitir fjármagn út á heilsugæslustöðvarnar beinlínis eyrnamerkt í þessa fræðslu og forvarnir vegna þess að ég tel að það sé mjög mikilvægur þáttur.

Sagt er að það eigi að auka fræðslu og forvarnir í skólum og áherslu á forvarnir áhættuhópa og stuðning við tómstundastarf barna og ungmenna. Það er gott. Það hefur verið flutt stjórnarfrv. hér þar sem átti að lögfesta fræðslu um vímuefnavarnir í skólum. Það frv. náði til of margra ráðuneyta, það fékk ekki að fara í gegn þó að það væri stjórnarfrv. Ár eftir ár höfum við flutt fyrirspurnir um það hvort menntmrn. muni taka upp og lögbinda fræðslu um vímuefni í grunnskólum af því að það er fyrst og fremst Lions-hreyfingin sem á heiðurinn af því að það hafi farið fram fræðsla í skólum og vissulega hefur menntmrn. veitt einhverja fjárveitingu eða stuðning til þess að þetta verkefni væri tekið fyrir í yngstu bekkjum grunnskóla. Sum sveitarfélög hafa verið mjög öflug og sett fjárveitingu í slíkt.

Ég minnist þess þegar Hafnarfjörður gekk á undan með gott fordæmi og kostaði að einhverju leyti að verkefni Lions Quest væri kennt í yngstu bekkjum grunnskóla og einhver sveitarfélög tóku það upp. En það verður að segjast eins og er að þeir sem hefðu átt að hafa forgöngu um þetta, menntmrn. og ríkisvaldið, hristu verkefnið af sér. Því miður hefur það gjarnan verið þannig. Það hefur verið þannig varðandi vímuefnavarnirnar, það hefur verið þannig varðandi tillögu sem hefur verið samþykkt af Alþingi um kennslu í fjármálaumsýslu í skólum og að gera það að lögbundinni grein í grunnskólanum. Ríkisvaldið hefur því reynt að koma sér undan því að taka á sig of miklar skyldur. E.t.v. er það tilbúið til þess núna þegar grunnskólinn er kominn til sveitarfélaganna og nú er góður vilji til að gera grunnskólann eins vel úr garði og unnt er og þá er hægt að setja fram bæði stefnumörkun og skilaboð um hvað eigi að vera í grunnskólanum á kostnað sveitarfélaganna. Þetta er líka punktur númer tvö sem ég óska eftir að heilbrrh. svari af því að þetta er inni í frv. um áfengis- og vímuvarnaráð. Með hvaða hætti er búið að ganga frá því að fræðsla verði um þessi mál í skólunum? Ef þetta er eins og hingað til þá geri ég ekkert með það. Það verður að fara með einhverjum lögbundnum hætti inn í gegnum menntmrn., annars verður ekkert af þessu. Það er búið að gera þetta árum saman, í sumum skólum, í sumum bekkjum, að frumkvæði annarra en ríkisvaldsins, ráðherranna og menntmrn.

Mig langar líka að nefna sjötta liðinn í greinargerðinni, á bls. 6. Það eru sex liðir, framkvæmdaáætlun þar sem stefnan yrði útfærð og hvenær þær áttu að vera tilbúnar. Sjötti liðurinn er um forvarnastarf hjá lögreglu, að tryggja að löggæsla og tollgæsla hafi ávallt á að skipa þann mannafla og búnað sem gerir þessum aðilum kleift að stemma stigu við innflutningi, dreifingu, sölu, meðferð og neyslu áfengis og fíkniefna.

Þá ætla ég að nefna annað sem hefur líka komið mörgum sinnum fram í þessari umræðu og það er að fíkniefnalögreglan hefur aldrei verið sett ærlega í forgang innan lögreglunnar. Menn hafa ekki kunnað við eða haft nennu til að ákveða að t.d. yfirvinnutími eða eitthvað slíkt yrði að vera meiri hjá fíkniefnalögreglu en öðrum deildum. Þess vegna er alveg ljóst að oft þegar fíkniefnalögreglan hafði upplýsingar um að vímuefni væru á leið til landsins og höfðu jafnvel hugmyndir um eftir hvaða leiðum efnið væri að koma og hvar það mundi hugsanlega bera niður og voru búnir að vera á vaktinni jafnvel í viku til þess að reyna að grípa viðkomandi þegar hann væri kominn með efnið, þegar vikan var liðin, þá var kannski sagt: Ja, nú eru peningarnir búnir, nú er ekki hægt að vera meira á aukavöktum þennan mánuðinn og þið verðið að hætta þessari vakt. Stundum fóru menn út í það að vera á vaktinni í frítíma sínum af því þeir voru búnir að kosta svo miklu til en í önnur skipti var bara staldrað við og þetta eftirlit sem þarna var lagt niður. Daginn eftir var efnið komið á götuna. Þess vegna er afskaplega fallegt að segja að stemma eigi stigu við innflutningi, dreifingu, sölu, meðferð og neyslu. Það verður að vera þannig að hugur fylgi máli.

Þriðja spurning mín til ráðherrans er sú hvort búið sé að tryggja það gagnvart dómsmrh. að fíkniefnalögreglan hafi þann stuðning sem þarf til þess að ef hún er á vaktinni út af efni sem vísbendingar eru um að sé að koma til landsins og á markað að hægt sé að fylgja því eftir þar til efnið er afhent. Að það sé ekki þannig að daginn áður eða eftir einhverja daga sé sagt: Nú eruð þið búnir að vera á of mörgum vöktum að passa þetta.

Herra forseti. Ég mun stytta mál mitt því að það er búið að gera þessu máli mjög vel skil. Ein spurning til ráðherrans í viðbót:

Á bls. 7 í skýrslu dómsmrh. til Alþingis --- ég held að það sé fjórða spurning mín til ráðherrans --- verið er að gera grein fyrir þeim 35 millj. sem var fjárveiting til fíkniefnamála hjá lögreglunni, þ.e. aukin fjárveiting um 35 milljónir. Þar er sagt hvernig þetta skiptist og það er til tækjakaupa í þágu ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnar 10 milljónir og stöðugildi og starfsaðstaða, fíkniefnastofa o.fl. með afganginn.

Það eru þessar 10 milljónir. Það segir hér:

,,Lögreglustjóri lagði fram áætlun um tækjakaup snemma árs 1997. Í byrjun þessa árs óskaði dómsmálaráðuneytið upplýsinga um það hvernig fjármunum til tækjakaupa hefði verið varið. Samkvæmt upplýsingum lögreglustjóra hafði 5,7 millj. kr. verið varið til tækjakaupa, svo sem fjarskipta- og símtækja, myndavéla, segulbanda og sjónauka en stærsti liðurinn tengdist kaupum á tölvubúnaði og ljósritunarvélum.``

Því hefur verið fleygt, herra forseti, að þær 10 millj., sem áttu að vera til að efla aðstöðuna, hafi farið í hefðbundinn búnað við flutning lögreglunnar. Mjög gott væri ef heilbrrh. þekkir til þessara mála að hún gæti frætt okkur um hvort þessi tölvukaup og ljósritunarvélar hafi verið hefðbundinn skrifstofubúnaður sem hefði að sjálfsögðu átt að koma til Lögreglunnar í Reykjavík og vera liður í því sem þurfti að koma inn á skrifstofurnar þegar verið var að breyta kerfinu og samræma rannsóknarlögregluna Lögreglunni í Reykjavík, eða hvort þarna voru einhverjar sérstakar tölvur og einhver sérstök ljósritunarvél og eitthvað sem kallaði sérstaklega á að væri keypt af því að það átti að efla vímuvarnir. Þetta finnst mér mjög mikilvægt, herra forseti.

Að lokum þetta með toll- og löggæsluna. Það segir að starfshópur frá toll- og löggæslu eigi að hrinda aðgerðum í framkvæmd. Það væri dálítið gott að vita hvað hefur gerst í því vegna þess að toll- og löggæslan er lykilþátturinn í að afstýra í fyrsta skrefinu sem er efni inn í landið og efni á götuna. Þetta er fyrsta skrefið. Við höfum oft talið að við ættum meiri möguleika en aðrir að afstýra þessu og stemma stigu við því vegna þess að við erum eyland og eigum að geta fylgst mjög vel með svo fremi sem við kostum einhverjum fjármunum til og gerum kleift að þeir sem eiga að sinna þessum málum fái til þess bæði fjármuni, tæki og þess vegna hunda.

Herra forseti. Vissulega liggur mér mikið á hjarta varðandi fíkniefnamál og vímuefnavarnir en ég læt mér nægja að bera þessar spurningar fram til ráðherrans. Að lokum þetta: Það er alvarlegt þegar nefnd eins og heilbr.- og trn. klofnar um mál eins og þetta. Það er alvarlegt þegar stjórnarmeirihlutinn er svo sannfærður um að það sem hann vill gera einn og sér sé örugglega það eina rétta og ekki sé hlustandi á þau úrræði sem stjórnarandstaðan og minni hlutinn bendir á. Við erum vön þessu úr stóru málunum sem við höfum verið að takast á um að undanförnu og höfum kynnst miklum valdhroka í þeim efnum. En það kemur mér á óvart að slegið sé á samvinnuhönd í þessu máli af því að það ættum við að vera að leysa saman og ætti að vera komið langt út fyrir öll viðhorf stjórnar og stjórnarandstöðu þegar kemur að þessu máli.